Borgarleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi á Litla sviðinu Kött á heitu blikkþaki eftir Tennessee Williams í mergjaðri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar. Hér er hvorki gripið til orðskrípa á borð við fokk eða sjitt heldur fær sá í neðra að heyra á sig kallað milliliðalaust. Og oft! Þorleifur Örn Arnarsson leikstýrir af næmi og nákvæmni. Naumhyggjulega leikmynd með einkar frumlegri ljósakrónu hannar Erna Mist. Hún sér líka um búninga og notaði þá vel til að ítreka ýmislegan mun á milli persóna, til dæmis ungu kvennanna tveggja. Lýsingu hannar Gunnar Hildimar Halldórsson en Þorbjörn Steingrímsson hljóðmyndina sem bæði er naumhyggjuleg og dularfull.

Leikverk beggja stóru leikhúsanna í höfuðborginni á jólum snúast að þessu sinni um börn – eða réttara sagt barnleysi. Í Yermu tekst kvenhetjunni ekki að verða ólétt hvernig sem hún reynir; í Kettinum fær Maggie (Ásthildur Úa Sigurðardóttir) ekki tækifæri til að láta á það reyna. Eiginmaðurinn Brick (Sigurður Ingvarsson), er niðurbrotinn maður og staðráðinn í að drekka sig í hel án þess að hafa barnað Maggie. Þau hjónin búa inni á foreldrum hans, landeigandanum Stóra pabba og konu hans Stóru mömmu (Hilmir Snær Guðnason, Katla Margrét Þorgeirsdóttir) en daginn sem leikritið gerist eru eldri sonurinn Cooper og Mae kona hans (Hákon Jóhannesson, Heiðdís C. Hlynsdóttir) komin á búgarðinn með börnin sín fimm (og eitt á leiðinni) til að fagna sextugsafmæli Stóra pabba. Þangað kemur líka séra Tooker (Halldór Gylfason), í orði kveðnu í sama tilgangi. En fljótlega kemur í ljós að fögnuðurinn á sér myrkari rætur. Stóri pabbi hefur verið veikur og nú er beðið niðurstöðu úr ítarlegum rannsóknum sem sumir vita þegar að er dauðadómur yfir Stóra pabba. Hann hefur ekki gert erfðaskrá og spurningin er hvernig hans gríðarlegu eigum verður skipt.

Hér er fjallað um erfðamál og peninga og þá sýnir manneskjan sjaldan á sér sínar bestu hliðar. Þar á ofan er þetta fólk hans Tennessees einstaklega ógeðugt, gráðugar, eigingjarnar, sjálfhverfar undirlægjur nema helst Brick sem þó er að leysast upp af sjálfshatri. Maggie er alin upp í fátækt og hún hefur engan áhuga á að hverfa þangað aftur. Hún vill að Brick nýti sér stöðu sína sem eftirlæti föður síns og hún er tilbúin til hvers sem er til að hjálpa honum við það. Cooper og Mae eru frá okkar sjónarhóli heiðarlegt og gott fólk sem ekkert gerir rangt – annað en að fara stjórnlaust í taugarnar á þeim sem öllu ræður, og við fáum aldrei tækifæri til að finna til samkenndar með þeim þótt við getum vissulega vorkennt þeim. Stóra mamma hefur þolað yfirgang manns síns í fjörutíu ár og veit sjálfsagt ekki lengur almennilega hver hún er innst inni, svo afskræmd er hún af kúgun.

Hér sjáum við feðraveldið í sinni tærustu mynd.

Leikritið er sérkennilega byggt upp með löngum eintölum þar sem klifað er á því sama meðan grafið er til botns í vandanum; á milli eru stutt samtöl. Þorleifur Örn velur að setja verkið upp á miðju gólfi Litla sviðsins og hafa áhorfendur allt í kringum það. Á sviðinu er eitt hjónarúm og ekki mikið rými til að hreyfa sig en allar lausnir á þeim vanda voru mjög hugkvæmar. Ég stilli mig um að lýsa þeim frekar: hér verður hver áhorfandi að fá að upplifa snilldina fyrir sig.

Leikurinn er líka snilldarlegur. Detti einhverjum í hug að Hilmir Snær sé of ungur (og fallegur) til að leika Stóra pabba þá er það óþarfi, hann gengur inn í hlutverkið eins og hann hafi aldrei leikið annað en hávaðasama frekjuhunda og gerir það fullkomlega að sínu. Hann er svo yfirgengilegur að það liggur við að maður finni til með honum þegar hann bognar um stund og reynir að ná sambandi við yngri son sinn, einu manneskjuna sem hann raunverulega elskar, í því skyni að skilja vanda hans og hjálpa honum á fætur aftur. Katla Margrét er sömuleiðis svo innlifuð í Stóru mömmu að maður fær sársaukasting. Hvers virði eru flott húsgögn og haugar af demöntum þegar talað er svona til manns? Hún hefur lifað fyrir og í gegnum fallega soninn, fótboltahetjuna Brick, en jafnvel ást hennar á honum er óheilbrigð. Hákon og Heiðdís fóru átakanlega vel með sín ömurlegu hlutverk og Halldór Gylfason sömuleiðis, öll sitja þau undir og þola svívirðingar Stóra pabba – í von um umbun síðar.

Sigurður Ingvarsson er glæsilegur ungur maður og stendur vel undir lofinu sem ausið er yfir persónu hans, en ég vorkenndi honum að þurfa að leika á brókinni alla þrjá klukkutímana – og fá jafnvel ekki alltaf að halda brókinni. En hann tók því af stillingu og opnaði smám saman glufu inn í sálartetrið, hrjáð af söknuði eftir vininum sem dó – manninum sem hann elskaði. Brick var í vanmætti sínum það tungl sem allar stjörnurnar snerust um og þá einkum kona hans sem ætlar ekki að gefast upp á honum. Hún trúir því að hún elski hann (eins og Stóra mamma Stóra pabba þrátt fyrir allt) en kannski er það endanlega landareignin og auðurinn sem hún elskar. Ásthildur var rosalega flott og bjó til sterka og afgerandi manneskju úr Maggie. Í lokin mátti vel sjá hvernig hún yrði með tímanum hliðstæða Stóra pabba í einu og öllu.

Þetta er ekki geðugt fólk en Tennessee Williams þekkti það greinilega út og inn og það varð sprelllifandi á Litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi!

Silja Aðalsteinsdóttir