Það fylgdi því ekta sælutilfinning – auk ávænings af dejavu – að príla upp á háloft í Batteríinu í gær til að fara á leiksýningu. Minnti á góða gamla daga í London á áttunda áratugnum þegar maður staulaðist upp og niður margan hænsnastigann í leit að sannri upplifun. Oftar en ekki fannst hún. Og í gærkvöldi var hana líka að finna, þarna í gamla kumbaldanum ofan í grófinni í miðbæ Reykjavíkur.

RándýrArtFart frumsýndi í gær leikritið Rándýr eftir Bretann Simon Bowen (það heitir Free á frummálinu) undir stjórn Heiðars Sumarliðasonar. Það fjallar um átta manneskjur, sjö ungar og eina gamla, og afstaðan til peninga og frama segir okkur undir eins að það sé samið á fyrstu árum nýrrar aldar. Það reynist líka vera u.þ.b. sjö ára gamalt. Við fyrstu sýn virðist tilviljanakennt samband vera milli persónanna en smám saman kemur í ljós að sumar þeirra þekkjast, hafa jafnvel þekkst mjög lengi. Þessi aðferð: að skoða samskipti fólks að utan í stað þess til dæmis að setjast inn í stofu og skoða samskipti fólks að innan, hefur rutt sér til rúms í leikhúsum og bíómyndum á undanförnum árum, og vel má vera að Simon Bowen hafi verið nokkuð frumlegur þarna 2002. Hvort sem það er rétt eða ekki þá fer hann prýðilega með efni sitt og fólk, leikritið er vandlega fléttað, vel skrifað og einstaklega lipurlega þýtt. Hreinlega eins og leikararnir hefðu búið til setningarnar sjálfir, svo eðlilega fóru þær í munni þeirra.

Fjórar ungu manneskjurnar eru í bisniss, aðrar eru fylgihnettir af ólíku tagi. Alex (Hannes Óli Ágústsson) er hausaveiðari hjá öflugu fyrirtæki en verður fyrir því á fylliríi að eigandi annars fyrirtækis, Nick (Magnús Guðmundsson), vill veiða hann til sín. Í þeim samræðum tala þeir um þriðja manninn, Benedikt (Hjörtur Jóhann Jónsson), sem Nick hefur rekið úr vinnu hjá sér vegna þess að hann var of næs; ekki nógu harður í viðskiptum. En hann veit ekki að Alex þolir ekki að hann tali illa um Benna af því þeir eru æskuvinir. Benna höfum við hitt áður þegar hann hætti við að fara enn eitt heimsferðalagið með Krissa (Bjarni Snæbjörnsson) af því hann heldur að honum gangi svo vel í vinnunni. Krissi situr þá óvænt uppi með aukaflugmiða og býður Sofffíu (Anna Svava Knútsdóttir) með sér í ferðalagið, stúlku sem hann hittir af tilviljun á flugstöðinni og þekkir ekki neitt! Soffía hefur þá verið önnum kafin við að brenna sínar brýr, farið í fússi úr vinnunni af því hún þoldi ekki forstjórann, Katrínu (Tinna Lind Gunanrsdóttir), sem sýnir henni yfirlæti. Soffía hefur líka sagt skilið við kærastann, Alex, af því hann vill frekar tala við Nick en hana. Hrokagikkurinn Katrín er þó fljót að missa kúlið þegar pabbi gamli hringir (Árni Pétur Guðjónsson), kominn í bæinn til að sættast við dótturina. Atvinnulausi leikarinn (Bjartur Guðmundsson) tengist svo feðginunum báðum sniðuglega áður en lýkur.

Allt verkið er knúið áfram af pirringi, sterkri innri spennu í persónunum, vansælu þeirra, reiði og taugaveiklaðri leit að fullnægju. Þessi spenna var nærri því áþreifanleg í gærkvöldi og gerði áhorfendur ansi miklu sælli en persónur verksins. Leikurinn var aðdáunarverður hjá öllum, þó langar mig að geta sérstaklega Önnu Svövu sem gerði Soffíu að lifandi persónu sem kom manni við allt frá fyrsta „sorrí“-inu! Þetta var andskoti skemmtilegt kvöld og ég segi bara það, að ef þetta unga fólk er það sem koma skal í íslensku leikhúsi þá er það vel á vegi statt.

Silja Aðalsteinsdóttir