Ófeigur Sigurðsson. Öræfi.

Mál og menning, 2014.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2015

ÖræfiSérhæfingin óendanlega er vangæf skepna og næsta viðsjárverð tilhneiging í allri þekkingarsköpun. Þegar hana skortir heyrast brigsl um ónákvæmni en gerist hún of ríkuleg má búast við að orðið „rörsýn“ beri á góma. Í samhengi skáldskapar má leggja þessa þversögn að jöfnu við togstreituna á milli þess að höfundur sé ýmist of lifaður eða of menntaður og að jafnvægið þar á milli sé vandfundið. Nákvæmlega þetta vandamál er til umræðu í Öræfum Ófeigs Sigurðssonar og kannski varpar það ljósi á verkið allt; þegar skáldsaga reiðir fram kenningar um fagurfræðilega analýsu er eðlilegt að hún sjálf fái að vera prófsteinninn. Það er ekki laust við að dýralæknirinn dr. Lassi liggi undir þeim grun að vera málpípa höfundarins sjálfs þegar hún segir: „… enginn í nútímanum á möguleika að verða fjölfræðingur, það eru liðnir tímar…“ [1] Öræfi er í vissum skilningi mótspyrna gegn þessu lögmáli því hún er skáldsaga, sýslulýsing, vandlætingarpistill, háðsádeila og sitthvað fleira. Í markaðsfræðilegum skilningi eru þær bækur vandfundnar núorðið sem hafa verr skilgreindan markhóp en þessi. Samt rokseldist hún þegar hún kom út fyrir jólin 2014.

Eins og títt er um góðar bækur er söguþráðurinn í Öræfum hálfgert aukaatriði. Og þó hverfist þessi þráður um kjarna sem er bæði sannsögulegur og glæpsamlegur, en hvort tveggja þykir prýði í hefðbundnari frásagnarbókmenntum. Miðdepill sögunnar er austurríski örnefnafræðingurinn Bernharður Fingurbjörg sem ferðast til Íslands til að „kanna veg móður sinnar“ (115) sem hafði verið þar á ferð tveimur áratugum fyrr ásamt systur sinni. Sagan um systurnar er sjáanlega byggð á þeim voveiflegu atburðum sem urðu á Skeiðarársandi sumarið 1982 þegar tvær franskar systur urðu fyrir árás manns sem myrti aðra þeirra og særði hina. [2] Ástríða Bernharðs fyrir íslenskri náttúru er tengd þessum atburði, móðir hans gefur honum áskrift að National Geographic „í sárabót fyrir það að hún var að fara í langt ferðalag með systur sinni“ (92) og við lestur þess tímarits kviknar áhugi Bernharðs á örnefnum og landkönnun. Sjálfur er Bernharður Fingurbjörg nefndur í höfuðið á líparítinnskoti í Vatnajökli og ferð hans inn í Öræfin er því öðrum þræði sjálfsleit. Það er vel við hæfi að örnefnafræði skuli vera svo veigamikill þáttur í þverfaglegu verki eins og þessu – eða ættum við kannski að snúa þessu við og segja að hinn útleitni stíll bókarinnar henti vel fyrir helsta viðfangsefni hennar, örnefnafræðina? Örnefnafræði er jú fjölfræði í eðli sínu, hún sameinar landafræði, málfræði, sögu og trúarbrögð. Bernharður orðar það sjálfur svo að örnefni séu „samtöl manna gegnum landið“ (104) sem er hreint ekki galin hugmynd.

Mikil rannsóknarvinna liggur að baki Öræfum og þótt hér séu hvorki neðanmálsgreinar né heimildaskrá er það bætt upp með skilyrðislausri innlifun inn í heimildirnar. Sumar senur bókarinnar eru lítið annað en performans í kringum þessar heimildir, sviðsetningar sem þættu lítils virði inni í skáldsögum sem ætluðust til þess að vera meðteknar sem trúverðug, rökrétt eða formfögur listaverk. Í einum kaflanum les persóna úr Árbók Ferðafélagsins frá 1979 í hljóðnema á skemmtistað (fjórar blaðsíður) og nokkru seinna gerist sama persóna leiðsögumaður í rútu þar sem hún romsar upp úr sér fróðleik úr hinum ýmsu fræðiritum (tólf blaðsíður). Útúrdúrarnir í Öræfum eru langir og flæðandi, allur sennileiki sögunnar gufar upp og rökleg framvinda leggst í dvala á meðan. Þetta má heita aðalsmerki bókarinnar, yfirþyrmandi einræður sem jaðra við maníu og hugmyndaríkur leikur að textum, bókum, nöfnum. Stundum virðist það skipta litlu máli hvort það er þessi persóna eða hin sem talar. Öræfi sver sig í ætt við ýmis önnur skáldverk sem byggja að verulegu leyti á úrvinnslu fræðiheimilda, bækur sem hefðu getað orðið fræðirit en urðu skáldsögur því hugarflugið er of taumlaust, stefnan of ómarkviss, hugtakanotkunin vísvitandi óljós – allt saman í jákvæðum skilningi. Annað dæmi um svona bók er Handbók um hugarfar kúa eftir Bergsvein Birgisson, verk sem blandar saman raunverulegum og upplognum fræðiritum og hefur undirtitilinn „skáldfræðisaga“. Ef einhverjir lesendur hafa orðið fyrir vonbrigðum með Öræfi er það kannski vegna þess að hún hefur engan slíkan undirtitil.

Öræfi er óður til samnefndrar sveitar og fólksins sem hana byggir í fortíð og nútíð. Á bændafundinum í upphafi bókar kemur í ljós að rólyndið er þessa fólks höfuðeinkenni: „Mönnum er heitt í hamsi, segir í skýrslunni, þeir eru í raun alveg snarvitlausir á öræfskan mælikvarða en ókunnugur aðkomumaður mundi halda að þetta væri jógatími“ (25). Þetta hæglæti endurspeglast meðal annars í því að í texta bókarinnar eru það sjaldnast Öræfingarnir sjálfir sem hafa orðið, þeir segja ekki nema lítið í einu, halda ekki innblásnar ræður eins og þær persónur sem ættaðar eru úr öðrum sveitum heldur sofna í miðri setningu og klára hana síðar um daginn ef því er að skipta. Ljóðrænan í Öræfasveit felst ekki í stundlegu yfirflæði tilfinninga líkt og hjá Wordsworth heldur viðvarandi og stöðugri návist og af því stafar jafnaðargeð heimamanna: „Maður verður svo syfjaður og þreyttur í höfðinu að vera sífellt uppnuminn af fegurðinni“ (250). Skýring af þessu tagi þætti vart boðleg í nútímalegum fræðiritum, hún ber keim af loftslagskenningunni sem setti svip sinn á mannfræði á sextándu öld, en í Öræfum er hún aðeins enn ein rúsínan út í deigið. [3] Hugmyndin liggur nærri skrifum Sigurðar Nordal frá 1927 um Öræfinga þar sem lögð er áhersla á mikilvægi hins upprunalega í mannlífinu: „Í þeirri fylkingu, sem leitað hefur út á endimörk hins byggilega heims, erum vér Íslendingar meðal framherjanna. Ef vér drægjum saman byggðina í landinu, afneituðum vér því lögmáli, sem hefur skapað þjóðina, og ekki verður numið úr gildi með neinni hagfræði.“ [4]

Þótt Öræfi kunni að orka á lesandann eins og tætingslegur hvirfilvindur af orðum er samfélagsádeila engu að síður einn sterkasti strengur bókarinnar. Náttúruvernd er þar í stóru hlutverki og þótt mannskilningur og samfélagshugmyndir Öræfa beri vott um íhaldssemi er bókin um leið ákaflega róttæk í skýlausri náttúruverndarkröfu sinni. Viðamikil umfjöllun um ræktun lands er til marks um það afstæði sem setur svip sinn á hugmyndaheim sögunnar. Skýr (en óhefðbundin) afstaða er tekin gegn manngerðri náttúru þar sem maðurinn reynir að þvinga undir sig náttúruna undir merkjum „ræktar“:

… þessir ferköntuðu skógar sanna það að tilgangur þeirra er að vinna gegn náttúrunni og sjálfum sér, skógrækt er gróðureyðing, og verst er að líkja eftir náttúrunni því það er ekki hægt, skógrækt er í raun ekkert annað en sjálfsafneitun og sjálfstortíming, eða stendur fólk í þeirri trú að það sé að endurheimta skóginn sem var hér við landnám, með öspum og sitkagreni og þar með að endurheimta sjálft sig? (317–318).

Örnefnafræðingurinn Bernharður Fingurbjörg sogast inn í öræfin og mestöll ævi hans er einn samfelldur undirbúningur fyrir förina þangað. Sóknin eftir hinu villta og upprunalega er óslökkvandi og gildir einu þótt landbúnaðarguðinn Freyr gangi inn í hlutverk varnaðarengilsins og elti hann hvert sem hann fer. Ádeila sögunnar felst líka í hugleiðingum um eðli ferðalaga í nútímanum, hún tengist hugsjóninni um hið óspillta og þar er Bernharður sjálfur í brennidepli. Honum er umhugað um að skilgreina sjálfan sig burt frá ímyndinni um hinn illa upplýsta túrista sem hrifsar hraðsoðna fróðleiksmola úr handbók eða snjallsíma jafnóðum og hann röltir um áfangastaði sína. Sjálfur ákveður hann að leggja ekki inn á Mávabyggðirnar fyrr en hann er búinn að lesa allar þær bækur sem hann finnur um svæðið; líkt og Don Kíkóti er hann handhafi gamalla hugsjóna í gjörbreyttum nútíma.

Auk Bernharðs stíga ýmsar litríkar persónur fram á sviðið í Öræfum, fólk sem á sviðið lengur eða skemur og fyrir vikið verður öll skipting í aðal- og aukapersónur býsna ómarkviss. Sagan hefst á löngum og upptendruðum pistli dýralæknisins dr. Lassa sem fær það hlutverk að hlúa að Bernharði þegar hann kemur niður af jöklinum. Auk þess að vera kynning á högum Bernharðs er þessi kafli lýsing á algjörum vatnaskilum í lífi dr. Lassa sjálfrar, eins konar hugljómun þar sem ferlar persónanna tveggja skerast. Persónulýsingarnar í Öræfum tvinnast gjarnan saman með hætti sem ekki er alltaf auðvelt að henda reiður á. Þetta er ítrekað í lok hvers kafla þar sem varpað er ljósi á hin mörgu frásagnarstig sögunnar. Líkt og Bernharður uppsker dr. Lassi mótlæti og háðsglósur fyrir framtíðaráform sín í bernsku. Munurinn á þeim er sá að dr. Lassi lætur bugast og velur hið örugga og hagnýta fram yfir drauma sína. Bernharður stendur hins vegar með draumum sínum þrátt fyrir efasemdir foreldranna. Örnefnafræðin á hug hans allan og hann mætir þeirri hugsun hvarvetna, „jafnvel sem lykt í andrúmsloftinu.“ [5] Það er ekki fyrr en eftir kynnin við Bernharð sem dr. Lassi ákveður að gera síðbúna uppreisn gegn foreldrum sínum og gerast rithöfundur. Sú uppreisn raungerist á síðum upphafskaflans og einkennist af hugarflugi þar sem frásögnin flögrar fram og til baka – og líkt og víðast hvar í bókinni er afskaplega langt á milli greinaskila.

Engin persóna hefur ríflegri nærveru en Fastagestur, sá eldheiti náttúruunnandi, heimsósómaskáld, uppreisnarseggur og fræðimaður sem stígur fram á sviðið skömmu fyrir miðja bókina. Honum er fátt mannlegt óviðkomandi og umvandanir hans í garð samtímans setja sterkan svip á textann allan. Fastagestur er svo yfirlýsingaglaður og retorískur að virkni hans í sögunni hefur í besta falli tilviljanakennd tengsl við framvinduna. Fyrir vikið liggur hann sterklega undir grun um að vera eins konar alter-egó höfundarins sjálfs og ef sú tilgáta á við rök að styðjast mætti túlka hina óvenjulegu nafngift í því ljósi – er höfundurinn ekki hinn óhjákvæmilegi fastagestur eigin verka? [6] Fastagestur á margt sameiginlegt með Bernharði og lífssýn þeirra er að ýmsu leyti sambærileg en þegar kemur að tengslum landslags og tungumáls greinir þá á um grundvallaratriði. Örnefni, helsta hugðarefni Bernharðs, eru til þess fallin að takmarka tilvist náttúrunnar að mati Fastagests, þau njörva merkingu hennar niður og eru rækilega tengd gróðahyggju. Þess vegna hafnar hann þeim skilyrðislaust: „Landslag yrði mikils virði ef það héti ekki neitt, þannig ætti það að vera, annars er það svo ógeðfellt að tala um virði landslags að það er aðeins á færi skálda og stjórnmálamanna …“ (177).

Vanþóknun Fastagests á nútímanum er tempruð með takmarkalausri aðdáun hans á Öræfingum sem á sér ýmsar birtingarmyndir. Sjálfur dvaldist hann í Öræfasveit á unglingsárum (209–222) en á sjálfur ekki ættir að rekja þangað, og þótt vegalengdin frá miðbæjarbarnum Sirkus og austur í Skaftafell sé margfalt lengri en leiðin frá Rauðsmýri til Sumarhúsa er ekkert vafasamt við þessa fjarlægu upphafningu sveitarinnar eins og hún birtist okkur í ræðum Fastagests, hvorki óeðlilegir hagsmunir né sjálfsblekking. Fastagestur álítur Kidda vin sinn lifandi fulltrúa hefðar sem teygir sig allt aftur til Eggerts Ólafssonar (212–214) og þessi fölskvalausa og einóða tignun upprunaleikans í huga Fastagests er einn sterkasti þátturinn í kómík sögunnar. Hinn ógnarlangi sjálfsmorða-annáll er sömuleiðis lagður honum í munn. Öll saga sveitarinnar er Fastagesti sem opin bók og raunar er það hann en ekki Bernharður sem er til frásagnar um voðaverkin á Skeiðarársandi (258–267). Þar með tekst honum að skrifa Bernharð inn í sögu sveitarinnar, tengja saman nútíð og fortíð.

Heimsslitakenndin sem blundar alls staðar undir í Öræfum gefur náttúrulýsingum sögunnar allsérstæðan blæ. Stóra goðsögnin að baki atburðarásinni er eldgosið 1362 sem eyddi byggðinni í Héraði og fletti örnefnunum af landinu. Hér má aftur vitna til orða Sigurðar Nordals frá 1927: „Það er ekki furða, þó að einhverjum yrði að spyrja: er nokkurt vit í að vera að byggja slíka sveit, þar sem yfirvofandi tortíming bætist ofan á sífelldar mannraunir, erfiðleika og einangrun?“ [7] Í Öræfum er þessi möguleiki leiddur út í síðasta kaflanum, hin sífelldlega yfirvofandi tortíming verður að veruleika, gamli heimurinn líður undir lok og nýr tekur við, landið skiptir um nafn og Öræfi verða aftur að Héraði. Við sögulok standa eftir ótal spurningar um samband mannlífs, landslags, byggðar og tungumáls. Öræfi Ófeigs Sigurðssonar er heillandi í öllum sínum þversagnakennda glundroða – saga um leit að hinu rökrétta í heimi þar sem ekkert er einfalt.

Hjalti Snær Ægisson

Tilvísanir

  1. Ófeigur Sigurðsson, Öræfi (Reykjavík: Mál og menning, 2014), 54. Hér eftir verður vísað til bókarinnar með blaðsíðutali innan sviga í meginmáli.
  2. Illugi Jökulsson, „Hryllingurinn á sandinum“, Ísland í aldanna rás 1976–2000 (Reykjavík: JPV útgáfa 2002), 108–111.
  3. Sú hugmynd að persónuleiki þjóða eða annarra hópa fólks markist af því ytra umhverfi sem það býr við kallast á ensku „objective fallacy“. Sjá Joep Leersen, National Thought in Europe (Amsterdam: Amsterdam University Press, 2006), 65.
  4. Sigurður Nordal, „Öræfi og Öræfingar“, Vaka 1927:3, 222.
  5. Thomas Mann, Tóníó Kröger, þýð. Gísli Ásmundsson (Reykjavík: Mál og menning, 1942), 45.
  6. Ófeigur Sigurðsson ræðir þessi tengsl í viðtali sem birtist skömmu eftir útkomu bókarinnar: „Ég viðurkenni fúslega að persónan Fastagestur er einhvers konar brengluð útgáfa af sjálfum mér.“ Magnús Guðmundsson, „Nándin er eldfim“, Fréttablaðið 10. janúar 2015.
  7. Sigurður Nordal, „Öræfi og Öræfingar“, Vaka 1927:3, 221.