Stefán Snævarr. Bók bókanna, bækur ljóðanna: Alljóðaverk.
[Reykjavík] 2013
Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2013
Stefán Snævarr hefur verið mjög virkur rithöfundur nær fjóra áratugi, ljóðskáld, heimspekingur og þjóðfélagsrýnir. Fyrsta bók hans var ljóðabókin Limbórokk 1975, og síðan birtust sex aðrar ljóðabækur á árunum fram til 1997, auk ljóða í tímaritum á þessum árum og síðar. Rómúlía hin eilífa birtist árið 2002 og geymir margs konar skáldskap, einkum í lausu máli en einnig ljóð. Stefán hefur líka birt fjölda bóka og greina um heimspeki, ekki síst fagurfræði, á íslensku, norsku og ensku, og árið 2011 kom út bókin Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Margir munu kannast við Stefán sem orðhvatan og margfróðan bloggara um þjóðfélagsmál. Þrátt fyrir þessi miklu afköst við ritstörf af ýmsu tagi hefur Stefán ekki fengið verulega athygli eða umfjöllun, líklega vegna þess að hann hefur lengst af síðan hann hóf háskólanám um tvítugt búið og starfað erlendis. Það er oft hlutskipti útlagans að lifa hálfgerðu skuggalífi í því samfélagi sem ól hann og er sífellt innan sjónmáls í verkum hans.
Á þessu ári sendi Stefán frá sér Bók bókanna, bækur ljóðanna. Alljóðaverk. Nafnið ber að skilja svo að þetta er bók sem geymir í sér aðrar bækur, en það er vitaskuld um leið gamansöm eða tvíræð skírskotun til Biblíunnar. Bókinni er líka ætlað að spanna öll svið ljóðsins og vera þannig bók ljóðanna og „alljóðaverk“, sbr. Gesamtkunstwerk Wagners, Allt þetta og fleira skýrir höfundur í stuttum formálsorðum. Hann vísar þar einnig á samhengi bókarinnar við fyrra verk: „Þessi bók er eins konar framhald af tilrauna-skáldsögu minni Rómúlíu hinni eilífu en í henni má finna sýnishorn af öllum bókmenntaformum sem til eru. Jafnframt myndar hún eina heild, einn helsti þráðurinn er saga bókmenntanna og þeirra eðli. Rauði þráðurinn í þessari bók er list listanna, ljóðlistin.“ Slíka yfirlýsingu verður að taka alvarlega, þótt hugsast geti að einhver írónía sé með í för. Fagurfræðingurinn fer ekki með fleipur um slíka hluti. Yfirlýsing um að spanna öll svið ljóðsins vekur líka spurningu um hve mörg þessi svið séu eiginlega, e.t.v. ekki svo mörg að ómögulegt sé að spanna þau í einni bók?
Þess má geta að frágangur bókarinnar er vandaður og kápan listræn, þótt einhverjum kunni að hrjósa hugur við grímunni sem blasir þar við lesandanum, myndverki Ólafs Þórðarsonar.
Í aðfaraorðum gerir skáldið sjálft grein fyrir byggingu og viðfangsefnum hinna einstöku bóka í bókinni, en þær eru þó sumar ívið flóknari að gerð en sú lýsing gefur til kynna. Fyrsta bók nefnist Uml um ljóð. Fyrri lausamálsbálkur. Henni er þannig lýst: „… inniheldur örgreinar og prósaljóð um ljóðsins aðskiljanlegu náttúrur, hún er eins konar mansöngur til ljóðsins …“ Þar er m.a. ljóð með nafninu Ars poetica, og glímir við spurningu sem eitt sinn var svarað kæruleysislega með orðunum „A poem should not mean but be“ (sjá grein Þorsteins Þorsteinssonar um efnið í TMM 2012:4). Stefán vill að ljóðið merki en umfram allt að það sé nýr leikur, og hann tjáir það með skemmtilegum orðaleik: Ljá verunni merkingu á nýjan leik, / vera leikurinn nýi, / leikurinn enn nýi. Hér sameinast fagurfræðingurinn og skáldið í leik. Annars eru í þessum bálki nokkur stutt prósaljóð eða örgreinar eins og skáldið kallar textana. Þeir koma úr dálítið óvæntum áttum að hlutverkum, gildi, verkum ljóðsins, benda á gildi ljóðlistarinnar og hvað vanræksla hennar kostar okkur. Þessi Uml-bók er innrömmuð af orðum sem höfð eru um ýmsar tegundir skáldskapar.
Önnur bók nefnist Skriftamóðir. Fyrri ljóðabók. Hún er lengst bókanna og þar eru eingöngu frumort ljóð. Nafnið bendir til að þar glími skáldið við sjálft sig, en annars búa upphafs- og lokaljóð til viðmælanda, skriftamóður, sem auðvitað er skemmtileg andstæða við skriftaföður, en gæti verið vísun í mikilvægan sannleik. E.t.v. skiptir þá máli að bókin er tileinkuð nýlátinni móður skáldsins? Flokkur kvæða sem nefnist Turnahrun hefst á ljóðinu Tvífaraturn. Það er vitaskuld vísun í þá frægu turna sem féllu 9. sept. forðum, en miklu fremur fjallað það um sára persónulega reynslu. Upphafið, Hrungjarn turn / í vorskógi, er mjög augljóst tilbrigði um þekkt ljóð og vekur spurningu um hvort sá eini sem eftir liggur í ljóði Stefáns sé „óskabarn ógæfunnar“. Í flokknum er áberandi tvífaraminni, skáldið hittir bróður eða tvífara, fyrra sjálf sem er glatað en býr þó hið innra. Hér er margt tvírætt og vísanir vafalaust fleiri en einstakur lesandi kemur auga á. Ljóðin eru alvöruþrungin og myndir áhrifamiklar, skilja eftir spurningar, eins og í kvæðinu Jarðýtir, sem endar svo: Hann ýtir mér / niður í jörðina / gengur á höndum mínum / gengur burt og hverfur / ég hverf. Hver er Jarðýtir? Þekkjum við hann kannski líka? Í næsta kvæðaflokki Anarrar bókar, Þrúgnasveig, er bersýnilega fjallað um glímu við vímuvaldinn Bakkus, en það er gert á hitmiðaðri hátt og í færri orðum en einatt heyrast frá þeim sem háð hafa þá glímu, og skýr er vitund um að glímurnar eru fleiri: veit að mín bíður / önnur elfur / öllu dekkri.
Í ljóðaflokknum Kuldi eldsins í höllu greifans er kölluð fram ein af fyrri „persónum“ eða grímum skáldsins, greifinn af Kaos. Þar er skemmtilega blandað saman vísunum í fornar goðsagnir og nýjar: Óðinn, vampírur, bangsímon. Stefán hefur alltaf verið handgenginn poppmenningunni og hún verið honum brunnur vísana sem kunna að höfða til annarra kynslóða en þeirra sem aldar eru upp á klassískri ljóðlist, sem þó er sannarlega einnig með í leik. Þessara poppvísana gætir þó raunar minna hér en víða í fyrri bókum hans. Þessi flokkur er kaldhæðnislegri og líkari hinum gamla Stefáni en turnahrunið, a.m.k. líkari greifanum af K, en ógnin sem alls staðar blasir við er raunveruleg og myndmálið áhrifaríkt, myndmál hins innri ótta. Flokkurinn Í skotgröf fjallar um ástina, oft forna glataða ást, en lokakvæðin eru torræðari og myrkari. Næstsíðasta kvæði bálksins, Glermúrinn minn, er magnað, fjallar kannski um konuna í karlinum, þá sem hann elskar. Síðasta kvæðið, Í skotgröf, er eins konar tengikvæði og vísar til þema næsta flokks og þess síðasta í Annarri bók, Fyrstu ljóðabók. Sá nefnist Glatkistulagning, og þar er viðfangsefnið glötun og dauði, stefnan til hans, návist hans í lífinu, sýnist mér. Í lokakvæðinu rís mælandinn upp, dustar af sér moldina og hugsar: Í þetta skipti / skal ég gera / allt rétt. Hver sem kominn er yfir fimmtugt kannast ekki við þá tilfinningu?
Þriðja bók er Sendiherra ljóðsins, ljóðaþýðingar á skáldum frá 19. og upphafi 20. aldar: Baudelaire, Rilke, Hofmannsthal o.fl. Öll eru skáldin fyrirrennarar módernisma og symbólisma eða þátttakendur í þessum stefnum. Þýðingarnar virðast mér vandaðar, og vitaskuld segir val kvæðanna sitthvað um þýðandann eins og venja er um slík verk. Hann sver sig í ætt módernismans í víðri merkingu hugtaksins.
Fjórða bók, Tímaheimar. Fyrri ljóðabálkur, er endurlit til fortíðar en í allt öðrum anda en það sem á undan er komið, tónninn er mjúkur og nostalgískur, og þó býr undir tilfinningin um hverfulleik, að hið liðna sé liðið, eins og skýrt er tjáð í síðasta kvæðinu, Líðan tímans.
Fimmta bók, Yrkisefnaheimur, er um leið Síðari ljóðabók og næstlengst bókanna. Eins og nafnið bendir til er hún úthverfari en Skriftamóðir, leitar út fyrir skáldið sjálft. Vísun í gamla Egil er í kvæðinu Yrkisefnaviður: Tálga sjálfið / hefli hjartað // Smíða úr þeim bát / sjóset hann nú. Hér eru fjölbreytilegar mannlífsmyndir, orðaleikir, og hnykkt er á mætti og mikilvægi ljóðlistarinnar, t.d. í Trébrúða. Í Yrkisefnaheimi er meiri samfélagsrýni en fyrr, deilt á ill öfl, en líka á okkur hversdagsfólkið með íróníu, eins og t.d. í kvæðunum Dómsdagur og Vagnar. Vikið er að heimi bókanna í bálkinum Úr Gutenbergsturni, og minnum úr bókmenntunum í Arfur og ógn, en þar eru einnig beinar vísanir í samtímann, ádeila: Flug Fáfnis. Bókinni lýkur með myrkum bálki, Goðljóð, og þó ekki að öllu leyti torræðum, því skírskotanir til samtímans eru skýrar.
Í Sjöttu bók, Goð, Sögur, er Síðari lausamálsbálkur og kallast því á við Fyrstu bók. Hann virðist byrja í nútímanum með sakleysislegri en tvíræðri fyrirsögn, Að gefa öndunum, en vísanir til fornra goðsagna eru líka áleitnar. Goðsagan til að binda enda á allar goðsögur fjallar um tilurð yrkisefnaheimsins, en einnig honum er ógnað eins og heimi goðanna í Völuspá.
Sjöunda bók, Risinn / Lambið er um leið „Síðari ljóðabálkur (bókarauki, sjónauki), sbr. Fjórðu bók. Þar kemur inn, nokkuð óvænt miðað við það sem á undan er komið, trúarleg, kristin skírskotun, jafnvel eins konar trúarjátning sem um minnir á Opinberunarbókina en er öllu fáorðari um leyndardómana:
Risinn reisir
mig viðRisinn sem er lambið.
Ég
risinn
á
ný.
Eftir þessa hraðferð gegnum bækurnar í Bók bókanna verður að geta þess að verkið hefst og endar á stökum ljóðum. Fyrsta ljóðið, Faðir kistulagður, er fallegt og einlægt með hnitmiðuðum og skýrum myndum. Hið síðasta, Sýnir og rúnir, er engu síður hnitmiðað og skáldlegt og fer vel að verkslokum. Raunar eru einnig gjarnan á bókamörkum nokkuð sjálfstæð kvæði sem marka skil og styrkja byggingu verksins.
Það er ekki auðvelt að fjalla um svo margbrotna bók í stuttu máli. Byggingin er úthugsuð og á sinn ríka hlut í heildarmerkingu verksins. Lesandinn kemst að því að nokkuð svo yfirlætislegar fullyrðingar sem felast í fyrirsögnum eru ekki orðin tóm. Alljóðaverkið Bók bókanna, bækur ljóðanna spannar í raun og veru harla vítt tilverusvið, það svið sem skáldskapurinn glímir við: glímu mannsins við sjálfan sig og samfélagið, ástina og dauðann, og skírskotanir til ævafornra og nýrra goðsagna gefa ljóðunum dýpt og vídd. Myndmál er hnitmiðað og áhrifaríkt.
Fyrri ljóðabækur Stefáns Snævars hafa einatt virkað nokkuð galgopalegar og torræðar, oft eins og ortar í hálfkæringi, þrátt fyrir óumdeilanlegt hugmyndaflug og víðfeðmar nútímalegar skírskotanir. Með þessari bók virðist mér að skáldinu hafi tekist að brjóta af sér einhvers konar klakabrynju, svo að engum ætti að vera vorkunn að skynja það heita hjarta sem slær í ljóðunum. Ekki leikur vafi á að lærdómur Stefáns, menntun hans, hefur lagt honum lið við að koma ljóðunum fyrir á áhrifaríkan hátt í þessari sérkennilegu byggingu, Bók bókanna, en lærdómurinn og sérstaða útlagaskáldsins myndar þó hvergi neina girðingu milli ljóðheimsins og þess lesanda sem leggur leið sína inn í þetta völundarhús bóka og ljóða.