Viðar Hreinsson. Jón lærði og náttúrur náttúrunnar.
Lesstofan, 2016. 760 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2017
Einu sinni þegar ég var ungur að árum rakst ég á galdraskræðu í fórum föður míns. Hún hafði verið handskrifuð og galdrastafirnir vendilega teiknaðir, sumar skýringarnar voru með rúnaletri, en síðan hafði ritið margfaldast fyrir einhvern fítonskraft. Fleiri skruddur af sama tagi leyndust því vafalaust hér og þar, og var þetta skuggaleg bók, þótt ekki vissi ég til að veraldleg eða geistleg yfirvöld létu hana til sín taka, þau virtust sofa á verðinum. En hvað um það, ég sökkti mér niður í forneskjuna, teiknaði upp þá characteres sem mér virtust vænlegastir og athugaði hvernig þeim ætti að beita; voru þetta ægishjálmar, Salómons innsigli og annað eiusdem farinae. Einn þeirra sýndist mér sérlega nytsamur, það var huliðshjálmur sem gerði menn ósýnilega, hann átti að rista á eik og bera í handarkrikanum. En ég fann hvergi neinn eikarbút né annað enn torfengnara sem til galdranna þurfti, af því tagi sem lesendur Íslandsklukkunnar kannast við og því mistókust tilraunir mínar til að verða ósýnilegur í það skipti. En ég gaf ekki upp alla von um að það myndi takast með tíð og tíma.
Frá þessu segi ég nú til að sýna að Jón lærði Guðmundsson hefur mér löngum þótt maður að mínu skapi, og því finnst mér mikið fagnaðarefni að nú skuli loks vera komin út ítarleg æfisaga hans, skrifuð af Viðari Hreinssyni, þar sem alls kyns heimildir eru notaðar og saman dregið allt sem um hann er hægt að vita. Það er allmikið, meira en maður gæti ætlað, þótt í því séu gloppur á köflum. En bókin er samt meira en bein æfisaga Jóns lærða, höfundur leitast einnig við að staðsetja hann í andlegri veröld síns tíma, og horfir þá vítt yfir, allt til Aristótelesar í fornöld, Eríugena við hirð Karlamagnúsar, Spinoza í suðri og Mikka refs í samtímanum, svo ekki sé minnst á stjörnuspá Vikunnar.
Þetta breiða sjónarhorn er nauðsynlegt. Jón lærði, sem samtímamaður kallaði „Pliníus Íslands“, var vissulega snillingur; á okkar tímum hefði hann sennilegast verið Nóbelsverðlaunahafi, þótt erfitt sé að segja hvort það hefði verið í eðlisfræði eða læknisfræði. Kannske hefði hann stuðlað að breytingum á grundvallarforsendum vísindanna, eins og vísindamenn 17. aldar. En þrátt fyrir það hefur hann löngum haft á sér illt orð í sögunni, hann er kenndur við hjátrú, kukl, trúgirni og alls kyns barnaskap. Menn benda á hann sem dæmi um menntunarleysi og fáfræði almennings og ýktan fulltrúa tímans áður en ljós vísindanna tók að skína. En út af fyrir sig er þessi orðstír merkilegra fyrirbæri en menn gera sér grein fyrir og eru á honum ýmsar hliðar.
Óréttlætið sem honum hefur yfirleitt verið sýnt stafar af verulegu leyti af því að hann var uppi á miklum umskiptatímum, menn dæma náttúrufræði hans, sem tilheyrir vissum tíma í menningarsögu Evrópu, út frá sjónarmiðum þess tíma sem síðan tók við, út frá sjónarmiðum sem voru í beinni andstöðu við, og í uppreisn gegn því sem hugsað var á öldunum áður; það var tíminn þegar farið var að nota nafn heimspekingsins Duns Scotus (á 13. öld) yfir heimskingja, „dunce“, og „Dunce’s cap“ var tyllt á höfuð tossa í skólum þeim til lítilsvirðingar. En þetta viðhorf er í grundvallaratriðum rangt, sagan verður að taka tillit til þeirra forsendna sem eru ríkjandi á tímum hvers manns um leið og hún fellir dóm yfir honum. Jón lærði var maður Endurreisnartímans, fróðleiksfús svo það tók yfir allan þjófabálk, einhvers konar safnspegill sem dró til sín þekkingu úr fornritum, alþýðuhefð, dulspekilærdóm úr ýmsum áttum og slengdi því öllu saman, en hugsaði minna um að sannprófa lærdóminn og koma skipan á hann. Þegar fjallað var um eitthvert náttúrufyrirbæri á þessum tímum var því ekki aðeins lýst – kannske nokkuð fræðilega en líka í bland við alls kyns þjóðtrú, og sagt frá notagildi þess, t.d. í lækningum – heldur var líka talið sjálfsagt að útlista hlutverk þess í goðafræðinni fornu. Túlkunin byggðist svo á táknfræðum sem komin voru úr fornri speki og guðfræðihefð miðalda. Dæmi sem stundum er tekið um fljótfærnislegar bollaleggingar sextándu aldar er sagan um barnið sem fæddist með gulltönn. Um leið og þau tíðindi bárust út tóku að birtast hálærðar ritgerðir víðsvegar um álfuna um það hvað þetta merkti, hvaða tíðindi það boðaði, hvers konar stóratburðir væru í vændum, og lærdómsmenn deildu fram og aftur – en svo kom í ljós að það hafði aldrei fæðst neitt barn með gulltönn. Í heimi þar sem trúin á galdra var enn rótgróin fannst mönnum það engan veginn ólíklegt, né brot á neinum náttúrulögmálum, að svo vel tennt barn sæi dagsins ljós. Í þeim heimi hefði Jón vafalaust sómt sér vel sem lærdómsmaður við háskóla, og á sinni eigin öld hefði hann enn getað fengið frama. Til marks um það eru viðtökurnar sem rit hans um Íslands aðskiljanlegu náttúrur fékk erlendis í þýðingum, svo og óumdeild afrek hans í vísindunum, svosem teikningar hans af hinum ýmsu tegundum hvala og lýsingar hans á þeim.
En tímarnir voru ört að breytast, Kóperníkus hafði þegar birt kenningu sína, Kepler, sem var samtímamaður Jóns, endurbætti hana með sínum lögmálum, og Galilei sem var eilítið eldri gerði sínar uppgötvanir snemma á 17. öld, þegar Jón var ungur. Harvey, sem einnig var samtímamaður Jóns, uppgötvaði hringrás blóðsins. Allt þetta var upphaf „vísindabyltingarinnar“ svokölluðu sem gerði fræðimennsku Jóns að talsverðu leyti úrelta, og á stundum hlálega. Er hún samt eins fáránleg og seinni alda menn vildu vera láta? Viðar Hreinsson gerir nú góða grein fyrir því að á tímamótum Endurreisnar og Barokks voru það ekki einstök atriði og viðhorf sem menn fóru nú að hafna, heldur var það ný heimsmynd sem tók við og leysti aðra af hólmi. Á Endurreisnartímanum álitu menn að allir þættir veraldar væru samtengdir, einn gæti haft áhrif á annan þótt órafjarlægð væri á milli, og jafnframt gætu þeir verið tákn hver um annan; þannig gætu stjörnurnar ráðið að verulegu leyti lífi einstaklinganna, listamenn hefðu t.d. gjarnan „satúrnískt eðli“, þeir væru „satúrnískar persónur“, undir áhrifum stjörnunnar. Rétt teiknaður galdrastafur, sem var látinn í vatn og svo mellifolium með í vatnið, hefði mátt til að koma upp um stuld. Barn með gulltönn hlyti að boða einhver meira eða minna váleg tíðindi, það var svo mikilvægt að lyfta hulunni af þeim, að það gleymdist í óðagotinu að athuga hvort það hefði í rauninni fæðst. Innan þessa ramma hugsunarinnar trúðu menn líka á mátt orðsins í allrahanda gjörningum. En heimsmynd Barokktímans var hins vegar vélræn, heimurinn var eins og einhvers konar sigurverk þar sem enginn hlutur gat haft nein áhrif nema með snertingu, líkt og tannhjól og reimar, það var ekki, og gat ekki verið, nein actio in distans (reyndar var kenning Newtons að vissu leyti brot gegn þessari meginreglu, en fyrir því lokuðu menn augunum vegna þess hve máttugt skýringartæki hún var). Innan þessa ramma trúðu menn líka á kraft orðsins, en nú í lýsingum á fyrirbærum. Enginn getur lengur fullyrt á okkar dögum að þessi vélræna heimsmynd sé endanleg og fullgild lýsing á alheiminum og muni ekki haggast, þvert á móti eru ýmsir brestir komnir í hana, henni hefur verið breytt á ýmsum sviðum og ekki eru öll kurl komin til grafar. Þess vegna eru ýmsir farnir að huga betur að fyrri heimsmyndum sem hafnað hefur verið, svo og heimsmyndum fjarlægra þjóða, tao og öðru. Kannske væri rétt í leiðinni að líta betur á fræði Jóns en menn hafa hingað til gert, a.m.k. sýna þeim þann sóma að gefa þau út í aðgengilegum útgáfum, helst með skýringum.
En mér finnst samt að þessi umskipti, hversu róttæk sem þau voru, nægi ekki til að útskýra það illa rykti sem Jón fékk bæði í samtímanum og eftirtímanum, né heldur þær ofsóknir sem hann varð fyrir. Þar kemur eitthvað annað til, og vildi ég í því samhengi nota orð sem nú þykir óviðurkvæmilegt og menn forðast að taka sér í munn, og það er orðið stéttabarátta. Um langt skeið hefur það haft þrönga merkingu, það er takmarkað við verklýðsbaráttu, verkföll og slíkt, og í þeim skilningi hefur því verið vísað á bug sem ónothæfu hugtaki og stundum reynt að gera það hlægilegt. En það liggur í hlutarins eðli að það hefur víðari merkingu og táknar ekki síst – og kannske fyrst og fremst – aldalanga baráttu yfirstéttar gegn lægri stéttum, kúgun hennar, gripdeildir og rán. Og það er slík stéttabarátta sem hefur lengst af mótað söguna. Um langt skeið lögðu menn ekki niður vinnu til þess að krefjast betri launa, verkföll voru ekki síst gerð til að mótmæla launalækkunum.
Hliðstæð dæmi um þetta má finna á Íslandi og Englandi á þessum sama tíma. Á Englandi stóð þá yfir sú þróun sem kennd hefur verið við „enclosures“, eða „girðingar“, og kallað hefur verið „stéttarán“ í stórum stíl, „class robbery“. Það fólst í því að landeigendur sem áttu stórar jarðir fóru að heimta að almenningi, sem allir bændur áttu í sameiningu, væri skipt milli bændanna og færi hlutur hvers og eins eftir stærð þeirrar jarðar sem hann átti. Undirrótin var sú að menn höfðu uppgötvað að ull var orðin svo verðmæt að það borgaði sig betur að breyta jörðunum í beitiland en nota þær fyrir kornrækt. Við þetta fengu smábændur, sem höfðu ekki síst treyst á afnotin af þessum almenningi til að geta komist af, svo lítið í sinn hlut að þeir gátu ekki lengur lifað á sínum búskap og flosnuðu því upp, oftast slyppir og snauðir, þeir urðu að láta stórbændunum jarðirnar eftir, venjulega fyrir lítið. Þannig jókst fátækt til muna í landinu, þessi þróun var þjóðfélagsböl sem yfirvöld reyndu í fyrstu umferð að berjast gegn, þótt stefnan yrði síðar önnur.
Á Íslandi var svo komið að fáeinar ættir réðu nánast öllu, og þótt ekki væri hægt að flagga neinni efnahagslegri réttlætingu fyrir því, reyndu þær að sölsa undir sig sem flestar jarðir, af hreinni og blygðunarlausri græðgi að því er virðist. Öll meðöl voru notuð, í erfðamálum gátu höfðingjar beitt dómstólum til að dæma sér í vil, stórhöfðingjar riðu um landið með sveinaflokka og kúguðu menn á alla lund, ekki síst til að láta af hendi jarðir, og þar sem konungsvaldið var fjarlægt, og reyndar háð þeim upplýsingum sem valdsmenn sjálfir miðluðu því, voru þeir færri sem gátu skakkað leikinn. Um framferði yfirstéttarinnar notaði Jón lærði ágætt orð, sem tími væri til kominn að vekja aftur upp, semsé „alfrí“; það táknar taumlaust og ábyrgðarlaust vald, nánast rétt til sjálftöku og sjálfdæmis í öllum málum.
Í þessu landi hörmunganna var Jón lærði eindreginn andófsmaður. Hann reis gegn stórhöfðingja þegar hann skrifaði bókina Spánverjavígin til að fletta ofan af stórglæpum, og var þá strax hundeltur svo að hann þurfti í ofboði að flýja sitt heimahérað. Í nokkur ár fékk hann að vera í friði í verbúðaþorpi á Snæfellsnesi, en vegna samtryggingar höfðingjanna, sem þjappaði þeim saman á hættustundu þótt þeir ættu annars í sífelldum illdeilum sín á milli um jarðir og fleira, var aftur hafist handa. Prestur einn, séra Guðmundur Einarsson, lagði á sig að semja ítarlegt rit gegn Jóni og ásakaði hann fyrir galdra með hinu heiftarlegasta orðbragði; að breyttu breytanda er það eins og nútímahagfræðingur úr meginstraumnum sé að skrifa gegn Thomasi Piketty. Nú voru ákærur fyrir galdra hagkvæmt ráð til að hnekkja á mönnum sem einhver taldi sig eiga sökótt við, þótt því bragði virðist ekki hafa verið beitt mikið á Íslandi (erlendis virðist það hafa verið algengara), en samt er eins og eitthvað vanti í myndina, þetta virtist ekki geta skýrt að fullu hvernig Jón var hrakinn til Austfjarða, út í Bjarnarey og til Kaupmannahafnar og enn neitað um réttlæti á Íslandi eftir heimkomuna, þangað til Brynjólfur biskup sagði stopp. Skal hann fyrir það lofsunginn æfinlega.
Kannske er það lykillinn að þessu öllu að yfirstéttin á Íslandi var dauðhrædd, hún var í sífelldum ótta um að eitthvað kynni að hefta yfirgang hennar, vald og auðsöfnun, semsé „alfrí“ höfðingjanna. Það var svo sem ekki nema eðlilegt að hún brygðist hart við skrifum eins og bók Jóns um Spánverjavígin, því þau hefðu getað valdið nokkru raski, en hræðslan var enn djúpstæðari, yfirstéttin virtist óttast lágstéttirnar í heild og vilja halda þeim í sífelldri hræðslu og undirgefni, og það kom fram í mannvonsku og yfirgengilegri íhaldssemi. Yfirstéttin barðist gegn öllum nýjungum, hún barðist gegn mótun fiskiþorpa við sjávarsíðuna, sem þó hefðu getað bætt efnahaginn til muna, hún vildi takmarka sem mest samskipti landsmanna við útlendinga, hún var á móti alþýðumenningu af hvaða tagi sem var, leikjum, víkivökum, sagnaskemmtun, kvæðamennsku annarri en sálmaskáldskap, og hún var á móti fræðum eins og rúnum. Í þessu hafði hún dyggilegan stuðning lútersku kirkjunnar. Yfirstéttin óttaðist að þetta gæti myndað þjóðfélagsafl sem hún ætti erfitt með að ráða við og gæti um síðir orðið henni skeinuhætt, – einkum sjávarþorpin og það sem þeim fylgdi.
Í þessu öllu var Jón lærði ágætur fulltrúi alls þess sem yfirstéttin hataði hjá lágstéttunum. Hann stundaði fræðistörf í fornum anda, skrifaði sögur, orti rímur og víkivaka, ásamt öðru. Þegar hann varð að flýja sveitina átti hann skjól á verbúðaþorpi, og stóð fyrir einhverju sem hatursmenn hans kölluðu „galdraskóla”, hvað sem það svo var. Kannske var Jón bara að miðla fiskimönnunum af þekkingu sinni, en út af fyrir sig var það hættulegt á tímum þegar búið var að hræða menn svo mikið að þeir þorðu ekki lengur að viðurkenna að þeir byggju yfir rúnakunnáttu. Til að kóróna allt gagnrýndi Jón yfirstéttina harðlega í kveðskap sínum, og það sem kannske var allra verst, hann sá fyrir sér að þessu ástandi myndi um síðir ljúka:
Hvað sér þú meira maður?
Mildari upp kemur öldin,
Langt er þó að líta þangað.
Ljótt er ei nærri flótta.
Og þegar þar að kemur er úti um yfirgang höfðingjanna:
alfríið dregur þá halann.
Hefur þessi forspá ræst? Það held ég varla. En þetta var allavega eins og að veifa rauðri dulu framan í tudda yfirstéttarinnar, og þess hefur Jón goldið allt til vorra daga. En við lestur þessarar merku æfisögu kemur í ljós að sú er bókin meiri sem glósa þarf en hin sem rituð er.