Hildur Knútsdóttir. Myrkrið milli stjarnanna og Urðarhvarf.

JPV, 2021 og 2023. 191 og 90 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 4 hefti 2023.

 

Tvær bækur hafa komið út í beit eftir Hildi Knútsdóttur, báðar stuttar skáldsögur eða nóvellur, áþekk stemning á kápum beggja þó ólíkir kápuhönnuðir séu að verki og í báðum bókum gegna kettir mikilvægu hlutverki. Einnig kann að vera að sögurnar tengist með einhverju móti eins og nánar verður rakið hér á eftir og þá mætti velta vöngum yfir því hvort ef til vill séu fleiri samloðandi bækur væntanlegar á komandi árum.

Myrkrið milli stjarnanna

Myrkrið milli stjarnanna (2021)

Í forgrunni Myrkursins milli stjarnanna (hér eftir MMS) er aðalpersónan Iðunn. Í huga hennar fær lesandi að búa frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu og leiðist það ekki, í það minnsta ekki í mínu tilviki, þar sem sleggjudómar hennar, hugmyndir og allt það sem hún hugsar en segir ekki fær að flæða óheft í textanum – til að mynda það sem hún kallar „kúkaklósett“, sem er orð sem ég hafði aldrei áður heyrt en þykist samstundis vita hvað merkir, og sannfæring hennar (sem hún lætur flakka við bankastarfsmann) um að rafræn skilríki séu eitthvað samsæri frá Framsóknarflokknum.

Iðunn þjáist af ósýnilegum krankleika sem læknar vilja heita láta að sé ímyndunarveiki eða til kominn af öðrum kvenlegum orsökum, móðursýki, sem sópa megi undir teppi. Hún vaknar örþreytt á hverjum morgni, með sár um allan líkama líkt og hún hafi stundað erfiðisvinnu alla nóttina meðan hún svaf. Sumt af því sem fer í gegnum huga Iðunnar kann að vera afleiðing af síþreytunni eins og óþol hennar á samstarfskonu sinni Stínu og fleira fólki (flestir eru plebbar nema hún). Skemmtilegra er þó fyrir lesanda að leyfa Iðunni að teyma sig áfram og trúa á að frásögn hennar sé hárnákvæm, gegnum kostulegar hugleiðingar og samræður sem hún á í (til að mynda um sjálfsfróunarnámskeið, MMS 52). Samskipti hennar við foreldrana eru þó sennilega það fyndnasta í bókinni (MMS 34–36), en að því sögðu er bókin á heildina litið fremur myrk og Hildur skapar drungalega og spennandi stemningu.

Dálæti Iðunnar á köttum skipar veigamikinn sess í sögunni, þrátt fyrir ofnæmi hennar, og þekkir hún nálega hvern einasta kött í hverfinu sínu með nafni, en skyndilega fara þeir að forðast hana:

Á hverfissíðunni okkar á Facebook er fólk oft að setja inn mynd og eitthvað svona: „Þekkir einhver þennan ómerkta kött? Hann hefur verið að koma heim til okkar og“ blabla. Yfirleitt gæti ég kommentað og sagt: „Já já, þetta er hann Mávur, hann á heima í þarnæsta húsi“ eða „Þetta er hún Sushi, hún er bara eitthvað ósátt af því að eigendur hennar voru að fá sér hund, hún hlýtur nú að fara að venjast því.“

En ég geri það ekki. Því það er önnur kona í hverfisgrúppunni sem á sinn eigin örmerkjalesara (af hverju?) og ég vil ekki hafa af henni ánægjuna af því að þeysast á milli húsanna í hverfinu og lesa af flækingunum.

[…]

„Fyrir nokkrum dögum tók Brundur (já, hann heitir það í alvöru) stóran sveig þegar hann kom auga á mig og nú stendur Sólveig Hrund (já, hún heitir það í alvöru) bara og starir tortryggin á mig þegar ég kalla. Og þegar ég nálgast hana reisir hún kambana og hvæsir. (MMS 32–33)

Það hvílir sömuleiðis þungt á Iðunni að látin systir hennar, Ingunn, treður hana eins og mara. Þær eru mjög líkar sem veldur því að fyrrverandi kærasti Ingunnar, Már, fer að sækja í Iðunni, klofinn sem hann sýnilega er á sálinni. Nöfn þeirra eru auk þess nánast eins, og greinilegt að Iðunn hefur upplifað sig nauðuga til að fylgja þeirri braut í lífinu sem Ingunn vildi fylgja (sjá t.d. MMS 76). Hennar vilji er orðinn að aukaatriði og gefið í skyn að foreldrarnir séu haldnir sömu skynvillu gagnvart henni og Már er í upphafi.

Það er um þessa systur sem hryllingur sögunnar hverfist, þegar annars vegar kemur í ljós að Iðunn gengur í svefni sérhverja nótt og gerir guð má vita hvað úti á Granda, og hins vegar þegar hún tekur eigin svefngöngu upp og, eins og fleiri í bókinni, sér ekki sjálfa sig heldur systur sína: „Það versta við þetta augnaráð er að ég þekki það. Það er kannski langt síðan – en ég hef séð það áður.“ (61) Sambærilegur fundur við fortíðina á sér stað í Urðarhvarfi, sem nánar verður drepið á hér á eftir. Eitthvað óuppgert er á milli þeirra systra sem fær að lúra á milli línanna ósagt. Sjálfstæð tilvera Iðunnar virðist standa á brauðfótum þar sem systirin – að því er Iðunn sjálf telur – hefur tekið yfir ekki aðeins næturlífið heldur einnig þætti úr einkalífinu (Már getur t.d. ekki hætt að tala um hana), um leið og dagleg tilvist hennar er hreinasta áþján sakir hvíldarleysis. Það er eins og Iðunn verði andsetin á næturnar, en hvers vegna og í hvaða tilgangi?

„Í svona köldum sjó þá verður maður víst bara notalega þreyttur“ segir Már um sjálfsvíg systurinnar (MMS 130), á stefnumóti vel að merkja, og kallast dauði systurinnar þannig á við svefnleysi Iðunnar sem ætíð er örþreytt, og systirin birtist sjálf aðeins sem sofandi Iðunn. Brátt tekur Iðunn að gera greinarmun á sér og henni.

Myrkrið milli stjarnanna er þrungin táknrænu í allar áttir. Þannig er besti kattarvinur Iðunnar fressið Mávur en fyrrverandi kærasti Ingunnar systur hennar (sem Iðunn er nú farin að sofa hjá) er Már. Þegar Már gistir hjá Iðunni fer hún ekki á flakk um nóttina, líkt og álög hafi verið rofin – Már og Ingunn ef til vill á yfirnáttúrulegan hátt sameinuð á ný um stundarsakir. En þegar Iðunn gistir hjá honum þá vaknar hún í rúminu sínu og hefur greinilega gert einhvern óskunda á þeirri svefngöngu sinni, þar sem Már vill ekki hafa neitt af henni að segja í kjölfarið (MMS 134– 149). Atburðarásin vindur hratt upp á sig eftir þetta og á einum og sama staðnum tvinnast þræðirnir þar sem saman koma tveir menn: annar sem Iðunn ofsótti og hinn maður sem ofsótti Iðunni (MMS 184). Þar rennur upp fyrir lesanda að ef til vill sé hlutverk systurinnar Ingunnar í sögunni annað en í upphafi virtist vera og að endingu virðist systirin holdgerast og þær renna svo saman í eitt (MMS 186–191). Hvort sem sú atburðarás er lesin bókstaflega eða metafórískt er framvindan óhugnanleg og draumórum líkust og má þá aftur velta fyrir sér áreiðanleika Iðunnar sem sögumanns. Freistandi þykir mér þó að túlka söguna blátt áfram eins og hún er skrifuð.

Feminískur þráður gengur gegnum alla bókina og birtist til að mynda í lýsingum á kynbundnu ofbeldi og eitraðri vinnustaðamenningu. „Feðraveldið [talar] með rödd móður minnar“, segir Iðunn á einum stað (129) og þessi orð sátu í mér við lesturinn. Samskipti kynjanna eru fyrr í bókinni sett í veigamikið samhengi þegar Iðunn flakkar óvænt frá hugsun um óþægilegar þagnir til viðbragða við kynferðislegri áreitni:

Við [konur] erum aldar upp við þá vissu að það sé á okkar ábyrgð að skapa notalegt andrúmsloft og tryggja að enginn sé vandræðalegur yfir neinu. Þess vegna hlæjum við að bröndurum sem misbjóða okkur. Þess vegna brosum við til manna sem klappa okkur á rassinn. Þess vegna látum við eins og það sé bara alveg óvart ef yfirmaðurinn strýkst ítrekað utan í brjóstin á okkur í vinnunni. Því annað er bara svo vandræðalegt. Fyrir alla. (93)

Aðalpersóna Urðarhvarfs (hér eftir UH) er Eik, og ólíkt Iðunni er hún einmitt týpan sem gengur um með eigin örmerkjaskanna og lifir fyrir að bjarga köttum þó að hún, aftur ólíkt Iðunni, vilji ekki eiga kött sjálf. Hún getur ekki hugsað sér að neitt læðist um heimili hennar en það, kemur síðar í ljós, tengist áfalli úr æsku hennar. Móðir hennar er útigangskona og alkóhólisti sem hefur að því er virðist mátt þola ýmis ofbeldissambönd í lífi sínu og Eik hefur lokað á öll samskipti við hana.

Urðarhvarf

Urðarhvarf (2023)

Hér er áherslan töluvert meiri á kettina en í MMS og ef til vill segir staða þeirra í bókinni okkur eitthvað um það hvernig mannfólk kemur almennt fram við ekki aðeins dýr, heldur einnig annað mannfólk. Kettirnir eru hræddir, hungraðir og á flótta í þessari bók og spurning hvort þeim mætir gæska eða illska, en hvort tveggja munu þeir tortryggja enda illu vanir. Utan bókar hefur flóttamannastraumur heimsins vaxið, ekki síst í ljósi innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu, en þess utan hefur flóttafólk nú árum saman stofnað lífi sínu í hættu á leið sinni til meiri velsældar til þess eins að hafna í flóttamannabúðum á Grikklandi og víðar. Á sama tíma hefur neyð margra dýrategunda aldrei verið meiri en einmitt nú. Ég tel ekki óhugsandi að þetta hvíli að nokkru leyti á penna höfundar í þessu ritverki.

Það er þó innri harmur sögunnar sem vegur þyngst. Það sem drífur söguna áfram er sú sannfæring Eikar að engin nema hún geti bjargað fimm kettlingum úr grjóthleðslu í Urðarhvarfi, en það sem rekur hana áfram í björgunarstarfinu skýrist af hennar eigin barnæsku og því hvernig annað fólk greip inn í og bjargaði henni frá illum örlögum; hún sér sjálfa sig í þessum kettlingum. Athugull lesandi tekur þó eftir því að grábröndótti, stálpaði kettlingurinn Api sem Eik kemur til síns heima eftir að hafa verið týndur lengi (UH 36) hefur áður komið fyrir í Myrkrinu milli stjarnanna (MMS 150) og hlýtur þar nöturleg örlög. Þannig eru sögurnar hnýttar saman á smáatriði sem þó gæti haft áhrif á það hvernig hvor bók er lesin fyrir sig. Er hið yfirnáttúrulega ívaf beggja bóka eitthvað sem ber að skilja eins og það er prentað á síðuna? Ber okkur að lesa í skriftina milli línanna eða getum við gert hvort tveggja samtímis? Þetta finnst mér raunar betur heppnað í MMS en í UH og er rétt að skýra hvers vegna.

Atriðið í MMS þegar Iðunn sér systur sína framan í sér á myndbandi kallast á við atvik í UH þar sem Eik sér skugga með einkennilegu formi við grjóthleðsluna og verður viss um að hún viti hvað það hafi verið – sjálf fortíð hennar holdgerð, einhvers konar dularfull, illskeytt vera með skott. Veran í bókinni getur verið táknræn fyrir annað af tvennu. Áfengissjúk móðirin er túlkun sem kom strax upp í huga mér og stemmir það ágætlega við lýsingarnar á atferli verunnar heima við þegar Eik er lítil stúlka sem kann að endurtúlka í huga sér það sem fyrir augu ber. Það kemur þó ekki heim og saman við kvíða Eikar við kattaveiðarnar þar sem veran vomir yfir – ekki nema veran sé bókstafleg eining út af fyrir sig, óháð móðurinni sem er útigangskona á sögutíma verksins og Eik stafar engin ógn af lengur. Þó er Eik að reyna að bjarga veikburða kettlingi, ekki síst frá þessari veru, og koma aftur til móður sinnar á sama tíma og hún sjálf var svikin um móður. Þeir þræðir haldast í hendur. Önnur túlkun er að veran sé sjálfur kvíðinn og einsemdin sem Eik hefur ræktað innra með sér síðan hún var skilin eftir af móður sinni, í sjálfu sér móðurleysið, eða kannski mætti finna túlkunarleið sem inniheldur hvort tveggja:

„Hún lá í sófanum og horfði á mig. Hárlaus líkaminn var kolsvartur og gljáandi. Stælt skottið slóst til og frá. Það glitti í gular vígtennur í stórum skolti og augun sem störðu á mig voru svartari en svart.“ (UH 76)

Mér finnst freistandi að lesa veruna sem drukkna móður í þessu endurliti. Veran sefur á daginn en fer á stjá á næturnar (UH 80) rétt eins og kettirnir sem Eik vill bjarga. Vill hún í reynd bjarga móður sinni en finnst hún ekki geta það? Þetta skrímsli virðist hafa þann atbeina helstan að ráðast á börn/kettlinga, nokkurs konar andstæða heilbrigðrar æsku, svo ef til vill togast á innra með Eik löngunin til að hjálpa móður sinni jafnframt því að vernda kettlingana frá ófreskjunni. Veran sjálf minnir á kött. Hún setur upp kryppu eins og köttur (UH 81) og þá gerir Eik sig „eins litla og ég gat“ (UH 82) – alveg eins og einn kettlingur gerir andspænis verunni. Um veruna segir jafnframt, þegar barnung Eik hefur falið sig inni í skáp: „Hún sneri baki í mig. Skottið slóst í skáphurðina með þungum dynk, aftur og aftur og aftur.“ (UH 82) Veran hegðar sér þarna eins og læða að vernda kettling. Kettlingurinn fær síðan nafnið Vera og fær að búa hjá Eik, samtímis því að veran er samþykkt sem hluti af lífinu sem fylgist með þeim úti í myrkrinu, og nú sér Eik kostina við að veran sé hluti af tilveru þeirra. Um leið fær móðirin hlutdeild í lífi Eikar – hvort um sig táknar hitt, sýnist mér. Þetta minnir að nokkru á kvikmyndina The Babadook (2014) þar sem skrímslið er tákngervingur föðurins og söknuðarins eftir honum. Mér finnst þetta allt þó töluvert margræðara hjá Hildi og margar leiðir færar til túlkunar.

Ég held að hægt hefði verið að gefa þessari sögu betra andrými með því að vinna lengur og dýpra með ýmsa þætti hennar. Mér finnst Eik aldrei njóta sín sem persóna, hún lætur lítið yfir sér í bókinni þó að lesandi eigi að finna til samlíðunar með henni, viðfangsefnum hennar og erfiðri æsku. Þó er hún eina persónan sem við að nokkru marki fáum að kynnast, að undanskildum glefsum af móður hennar sem við túlkum aðeins í gegnum Eik sjálfa. Þeirra áfallasaga hefði getað undirbyggt alla þræðina betur. Svo kemur vinkona hennar, Birta, líka fyrir en hún gegnir ekki mjög djúpstæðu hlutverki í sögunni. Heldur ekki fósturforeldrar þeirra uppeldissystra, bjargvættir Eikar og Birtu. Gefið er í skyn að Eik sé skotin í öðrum kattafangara, Júlíu, og Júlía jafnvel á móti, en svo er ekkert meira gert með það. Eik streitist á móti félagsskap Júlíu og allt vekur þetta áhuga lesanda, en svo hverfur þessi þráður (UH 11–12, 14, 20–21). Ég velti fyrir mér hvers vegna sumir þræðir eru látnir standa svona út í loftið.

Þegar bækurnar eru bornar saman virðast persónur MMS lifa sjálfstæðu og trúverðugu lífi, en í UH er erfiðara að greina persónur að og hefði mátt vinna enn betur með efniviðinn. Að því sögðu er margt gott við Urðarhvarf, helsti löstur sem ég finn á henni er að hún hafi ekki breitt meira úr sér, á dýpt og lengd; ég er ekki viss um að 90 blaðsíður dugi fyrir svona sögu. Jafnframt vona ég að úr penna Hildar hrjóti þriðja bókin sem tengist hinu margslungna viðfangsefni þeirra tveggja sem hér er um fjallað.

Ef til vill er óvanalegt að fjalla um tvær skáldsögur svona samhliða en hér er það gert af gildri ástæðu. Myrkrið milli stjarnanna og Urðarhvarf eru bækur, sannarlega um margt ólíkar, sem tala saman, tengja saman þræði og vefa saman einhvern veruleika sem gaman væri að sjá meira af, þar sem sorgir og bitur reynsla holdgerast í hinu yfirnáttúrulega. Það hljómar kannski ekki eins og frumleg niðurstaða en Hildur Knútsdóttir kann vel að vinna með slíkan efnivið án þess að festast í klisjupolli og það má alltaf vonast eftir meiru. Hryllingur bókanna virkar jafnfætis á táknrænu plani – að yfirnáttúran sé ekki raunveruleg heldur sé hér við skynjun og áföll vitundarmiðju sagnanna að eiga, það er Eikar og Iðunnar – en ekki síður séu þær lesnar þannig að þær fjalli um veruleika þar sem yfirnáttúrulegir atburðir sannarlega geta gerst, þar sem meira má finna milli himins og jarðar en rökvísin ein kann að henda reiður á. Sé farið of gagngert í aðra hvora áttina fáum við allt aðra sögu, en í báðum bókum vegur Hildur fimlega salt á milli hins hversdagslega og hins dularfulla, svo lesandi situr eftir með ógrynni af vangaveltum að loknum lestri. Þannig á það líka að vera.

 

Arngrímur Vídalín