Guð leitar að SalómeJúlía Margrét Einarsdóttir. Guð leitar að Salóme.

Una útgáfuhús, 2021. 388 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2022.

 

Það er ekki hægt að komast í gegnum lífið án þess að upplifa einhvers konar áfall. En hvort sem um er að ræða missi, ofbeldi eða slys þá fer atburðarás lífsins óhjákvæmilega úr skorðum. Eftir skyndilega u-beygju í lífinu stendur sá sem fyrir áfallinu verður frammi fyrir ótal valkostum þegar kemur að því að takast á við atburðinn og eftirmála hans. Hvernig við bregðumst við óvæntum atvikum og hvernig við verjum okkur fyrir slíku getur haft áhrif sem bergmála út allt lífið. Það er þó ekki þar með sagt að áföllin ráði örlögum okkar.

Guð leitar að Salóme er önnur skáldsaga Júlíu Margrétar Einarsdóttur og eins og sú fyrri, Drottningin á Júpíter, fjallar hún um unga konu sem glímir við sálræna erfiðleika. Þetta er þroskasaga, eða öllu heldur saga af stöðnuðum þroska, vegna áfalla sem aðalpersónan lendir í á viðkvæmum augnablikum. Salóme er sögumaður bókarinnar sem skrifuð er í annarri persónu í sendibréfaformi. Salóme skrifar fyrrverandi ástkonu sinni, Helgu, röð bréfa í þeim tilgangi að útskýra fyrir henni hvað fór úrskeiðis í sambandi þeirra nokkrum árum áður. Guð leitar að Salóme er kannski einna helst saga um ást og samskipti við þá sem við elskum.

 

Af sjoppum og gosbrunninum í Kringlunni

Sagan gerist í raun á þremur mismunandi tímabilum. Salóme sest niður og skrifar bréfin í desember 2010 og kemur einu til skila á dag, hvern dag í desember. Bókin er uppbyggð eins og jóladagatal en í staðinn fyrir súkkulaðibita leynist leyndarmál í hverjum glugga. Í bréfunum segir Salóme Helgu frá því hvernig henni gengur að leita að kettinum sínum. Hún rifjar líka upp kynni þeirra sem áttu sér stað um aldamótin; hvernig þær kynntust í vinnunni á þriðju hæðinni í Kringlunni og hvernig samband þeirra þróaðist. Hún gerir þó meira en að rifja upp samband sitt við móttakanda bréfanna, heldur segir henni líka frá atburðum sem gerast enn fyrr, æsku sinni á 10. áratugnum og þungbærri reynslu sem hafði mikil áhrif á hana og getu hennar til að eiga í þroskuðu sambandi við annað fólk.

Aldamótakynslóðin (sem undirrituð tilheyrir) er í þeim sérstöku aðstæðum um þessar mundir að nú er í fyrsta sinn nógu langt liðið frá æsku hennar til að hægt sé að fara að líta í baksýnisspegilinn og gera upp tímabilið. Aldamótabörnin hrylltu sig þegar yngsta kynslóðin, sem gjarnan er flokkuð sem Z-kynslóðin hóf að sækja vísanir og tísku í þetta tímabil en það er fleira að koma aftur en bara þykkbotna skór og útvíðar gallabuxur. Nýlega hefur farið fram mikil samfélagsleg umræða um hvernig það var að alast upp á þessum tíma, sérstaklega með tilliti til umfjöllunar um og framsetningar kvenna í dægurmenningunni. Þetta má t.d. sjá í nýlegum heimildarmyndum um Britney Spears þar sem viðhorf og framkoma gagnvart henni og öðrum kvenkyns stjörnum þess tíma eru skoðaðar í nýju ljósi. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessari umræðu en einnig hefur átt sér stað mikið samtal um áföll og hvernig þau hafa áhrif út lífið. Heimsóknir í Kringluna, Nelly’s, sjoppur og Green Day eru uppspretta nostalgíu í frásögninni en einelti og fordómar gegn samkynhneigð gera gönguna niður minningatröðina síður heillandi.

Öllu óáþreifanlegra en sögusviðið í Kringlunni er nostalgían í frásagnarstíl bókarinnar. Á þeim tíma sem sagan gerist var ný útgáfa ástarsagna að ryðja sér til rúms eða öllu heldur ný gerð aðalpersónu í ástarsögum. Bækur og myndir á borð við High Fidelity, Garden State, (500) days of Summer og fleiri fjölluðu gjarnan um karlhetju sem var svolítið sér á parti en var þrátt fyrir allt í leit að ástinni. Þetta fólk var ekki reyna að komast í hnapphelduna sem fyrst eins og persónur hefðbundinna rómatískra gamanmynda heldur var eftirsóknarverðast að tengja við aðra manneskju út frá sameiginlegum áhuga á tónlist og menningu, eitthvað sem skildi þau að frá fjöldanum. Salóme og Helga fundu ástina við takta mexíkóskrar tónlistar og var þeirra Afródíta Chavela Vargas, hinsegin söngvari sem átti að hafa verið í sambandi við Fridu Kahlo.

Bókin er skrifuð innan ramma bréfaskáldsögunnar sem vekur enn upp hugrenningatengsl við menningu nýliðinna áratuga. Bréfaskáldsagan er vitaskuld mun eldra form en á árunum eftir aldamótin urðu textar með skýrt afmarkaðar formgerðir meira áberandi í umhverfi okkar, ekki síst textar á netinu. Buzzfeed var sett á laggirnar 2006 og á árunum sem fylgdu var allt internetið undirlagt af listum af ýmsum toga og þótti raunar mörgum nóg um. Hægt er að finna fjölda greina frá þessum tíma sem fordæma listagreinina svokölluðu (e. listicle) og gagnrýndu lesendur fyrir að láta blekkjast af enn einni fyrirsögninni um 10 barnaþætti frá 10. áratugnum sem þú varst búin/n að gleyma. Kannski voru það vinsældir High Fidelity sem hrundu æðinu af stað. En á einhverjum tímapunkti skömmu eftir aldamótin þótti það til marks um sjálfstæða hugsun og áhugaverða skapgerð að skrifa lista í tíma og ótíma. Kynslóðin sem var að alast upp á þessum tíma er með þeim fyrstu sem varði miklum tíma á internetinu og varð skiljanlega fyrir áhrifum af þessu listaæði. Á sinn hátt endurómar dagatalsuppsetning Guð leitar að Salóme af þessu, þar sem afmarkað frásagnarformið endurspeglar aldamótakynslóðina sem lærði að tjá sig á þennan hátt. Í stað þess að reyna að fela tæknina í skrifunum er uppbyggingin utanáliggjandi og lesandinn fær leiðarvísi um hvernig á að lesa efnið og hversu mikið hann á eftir af lesefninu. Það er ekki langt liðið frá þessum tíma og kannski ennþá hálfundarlegt að líta á árin eftir aldamótin sem sérstakt tímabil en Guð leitar að Salóme er jafnvel fyrsta tilraunin til að ná utan um og gera upp tímabilið í íslenskri skáldsögu.

 

Áfallasaga íslenskra kvenna

Guð leitar að Salóme er saga um áföll. Það fyrsta verður löngu áður en Salóme fæðist, þegar móðir hennar og tvíburasystir missa föður sinn. Þetta markar rof í líf systranna sem bergmálar endurtekið í lífi Salóme, áfallið erfist niður kynslóðirnar. En Salóme rifjar ekki bara upp listann af áföllum sem hent hafa hana og fjölskyldu hennar gegnum árin í bréfaskriftum sínum, heldur rekur hún líka hvaða áhrif áföllin höfðu á fólkið sem varð fyrir þeim. Viðbrögð tvíburasystranna við andláti föður síns eru gjörólík. Önnur leitar í frelsið og óhefðbundnar leiðir til að lífa lífinu meðan hin er áfram í bænum sem hún ólst upp í og leitar að hugsvölun í íhaldssömum trúarbrögðum. Í næstu kynslóð á eftir eru svo Salóme og bróðir hennar borin saman. Pétur er strákur og nær að lenda efst í goggunarröðinni milli systkinanna. Salóme elst upp við svipaðar aðstæður og bróðirinn en lendir á öðrum stað í lífinu af því hún er stelpa og hinsegin.

Skyndilegt fráfall afans er einungis hið fyrsta af því slæma sem markar sögu Salóme. Sem barn á hún erfitt uppdráttar og félagslega einangrunin hefur mikil áhrif á sjálfsmyndina. Þar að auki er ein af hennar fyrstu upplifunum af ást og kynlífi afar neikvæð. Í litlum bæ er ekki hægt að flýja frá vandamálum sínum, þau bergmála á hverju húshorni þegar allir á þínum aldri vita nákvæmlega í hvaða hólf þú hefur verið settur. Þar er engin leið til að hverfa í fjöldann og gleymast.

Bréf Salóme sýna fram á að ýmislegt sem hún varð fyrir hafi hamlað henni í sambandinu við Helgu og jafnvel gert það að verkum að hún einangraðist félagslega á fullorðinsárum. En það er svo enn eitt áfallið sem hristir hana upp úr doðanum og hvetur hana til að taka stjórn á eigin lífi. Kötturinn hennar, hún Lúpína, týnist og Salóme finnst hún enn og aftur vera að missa stjórnina. Eftir þetta skrifar hún niður sína eigin sögu á sínum forsendum í þeim tilgangi að ná aftur sambandi við æskuástina. Þó að eigin áföll séu þungamiðjan í frásögn Salóme verður ljóst að hún er alls ekki sú eina sem glímir við afleiðingar slíks. Flestir í hennar fjölskyldu hafa fundið leið til að lifa með þungbærum atburðum og jafnvel Helga sjálf hefur misst einhvern og þurft að takast á við sorgina.

 

Hinsegin ást

Einhver af áföllunum sem Salóme upplifir má rekja til þess að hún er hrifin af fleiri en einu kyni. Viðhorf til hinsegin fólks og ástarambanda þess hefur gjörbreyst síðan á árinu ’78, sem baráttusamtök hinsegin fólks kenna sig við. Samt vildi lengi loða við hinsegin sögurnar sem sagðar voru í bókum og bíómyndum að þær væru harmrænar. Það var lengi vel leitun að íslenskum skáldsögum af samkynja samböndum sem enduðu vel og í bandarískri umræðu um sjónvarp og kvikmyndir hefur verið kvartað undan því algenga mynstri að samkynhneigðar persónur fái ekki að lifa hamingjusamar til æviloka heldur láti gjarnan lífið (á ensku er í því samhengi talað um að grafa hinsegin fólkið, e. Bury your gays). Salóme á í samböndum við fólk af tveimur kynjum í sögunni. En stóra rómantíska þungamiðjan er sambandið við Helgu sem er því marki brennt að vera á milli tveggja ungra kvenna sem eru að fóta sig í sinni eigin kynvitund.

Það er fátt viðkvæmara en unglingar að uppgötva kynvitund sína í fyrsta sinn og prófa sig áfram með öðru fólki. Þegar slíkt endar í áfalli verður Salóme skiljanlega hvekkt. Svo upplifir hún líka einelti í heimabæ sínum og er utanveltu. Kynvitund og samkynja ástir Salóme eru því ekki hnökralausar upplifanir í sögunni, ekki frekar en kynferðislegar tilraunir gagnkynhneigðra á sama aldri, en það er skemmtilega ferskt að lesa bók þar sem samkynja ástarsamband kvenna er þungamiðja frásagnarinnar og vonarinnar í sögunni en ekki rótin að öllu sem illa fer. Salóme á líka í kynferðissambandi við karlmenn en það er sambandið við Helgu sem er aðalatriðið og skemmtilegt að lesa bók þar sem tvíkynhneigð er ekki vandamál sem þarf að leysa heldur hluti af karakter aðalsöguhetjunnar.

 

Við stjórnvölinn

Það er lokkandi tilhugsun að fá að skilgreina að fullu eigin persónuleika. Sérstaklega á það við um manneskju sem er í fyrsta sinn að horfast í augu við margt sem hefur hamlað henni á fullorðinsárum. Og það er mikil stjórn fólgin í því að það er hún sjálf sem heldur um pennann. Salóme hefur upplifað valdaleysi nánast alla sína ævi og lýsir því hvernig hún hefur frá unga aldri verið dauðhrædd við að taka afdrifaríkar ákvarðanir eða vekja á sér athygli. Það er með bréfunum til Helgu sem hún tekur loksins sjálf stjórnina yfir eigin lífi. Þar með tekur hún líka áhættuna sem fólgin er í því að gera eitthvað í staðinn fyrir að halda áfram að vera dofin og gera ekki neitt.

Í bréfaskáldsögu með aðeins einum bréfritara ber lesandi að hafa það í huga að útgáfa sögumanns af liðnum atburðum er ekki endilega sú rétta. Í Guð leitar að Salóme er það kjarninn í frásögninni. Söguhetjan segir gagngert sína hlið og túlkun á því sem gerðist í þeirri von að það breyti skilningi Helgu á atburðum fyrri ára. Slík áhersla á sögumanninn og frásögnina sjálfa er vandmeðfarin. En í þessu tilviki gengur það stórvel upp. Að fylgjast með Salóme skrifa sig í gegnum áfallasögu sína er það sem sagan gengur út á, ekki hvort hún finnur köttinn sinn eða jafnvel hvort hún eigi endurfundi við Helgu. Það skiptir jafnvel ekki öllu máli hvort atburðir gerðust nákvæmlega eins og hún segir frá því það sem er áhugavert er að sjá aðalpersónuna endurskapa sig og verða meðvitaða um að hún hefur stjórn á eigin lífi.

 

Leitar Salóme að guð?

Í sagnaheimi Guð leitar að Salóme er þilið milli okkar heims og þess næsta ansi þunnt. Draugar fortíðar birtast ekki bara í áhrifunum sem þeir hafa á þá sem eftir lifa heldur fylgja þeir bókstaflega söguhetjunum. Það sést best á tvíburasystrunum Stellu og Láru að innan heims skáldsögunnar er líklegra til ávinnings að opna hugann fyrir hjátrúnni og öllu því sem fylgir heldur en að loka á möguleikann á hið yfirskilvitlega.

Margar persónur í sögunni leita í yfirskilvitleg haldreipi til að bregðast við áföllunum, ekki síst Salóme sjálf. Skýrasta dæmið eru þó tvíburasysturnar Stella og Lára. sem treysta á hindurvitni og hjátrú eða leita í nýaldarspeki og skyggni eða hefðbundin trúarbrögð. Salóme fylgist með foreldrum sínum leita í skjól kristninnar og heldur sjálf í barnatrúna þó það sé meira töff að gagnrýna trúarbrögð. Hefðbundin trú veitir henni hugarró en það er með því að opna hugann fyrir hinu óútskýranlega sem hún finnur frelsið í nornabúð í Kringlunni. Það er endurtekið stef í bókinni að mesta hættan er ekki fólgin í því að taka af skarið og taka áhættuna á að fara ranga leið, heldur er hættulegra að forðast aðgerðir og fljóta þess í stað sofandi að feigðarósi.

 

Kynslóðabilið

Persónugalleríið er fjölbreytt og litskrúðugt en stundum vantar upp á að eldri kynslóðin verði meira en tvívíð. Unga fólkið í Guð leitar að Salóme er dregið skýrum dráttum og sögusviðið í kringum aldamótin sömuleiðis. Salóme og ástkona hennar, bróðir og aðrar persónur sem þau kynnast á kringluárum sínum stökkva ljóslifandi af síðunum. Þegar kemur að eldri persónunum bókarinnar er persónusköpunin ekki alveg jafn náttúruleg. Í þeirra tilviki er eins og höfundur láti nægja að útskýra hvernig persónur þau eru frekar en að sýna okkur það. Þetta veldur því að uppljóstrunin undir lok bókar hefur minni slagkraft en hún gæti. Það kemur þó ekki að sök því helsti galdurinn við bókina er hin hispurslausa frásögn Salóme af eigin lífi og þeim áskorunum sem hún hefur mætt.

Guð leitar að Salóme er metnaðarfull bók og vandlega smíðuð. Þræðir frásagnarinnar eru margir og eru vandlega fléttaðir saman, þó að stundum örli á því að bókin sé helst til löng. Helsti styrkleiki bókarinnar liggur í því að galdra fram andrúmsloft liðinna tíma og leika á lesendur með töfrum nostalgíunnar. Ástarsagan og þroskasaga titilpersónunnar bera söguna uppi. Stíllinn er afgerandi og heildstæður og kemur vel til skila hinni taugaóstyrku konu sem horfir á annað fólk full aðdáunar og hrífst af eiginleikum í þeirra fari. Samt er hún of brotin til að geta staðið með sjálfri sér. Það tekur stundum á taugarnar að lesa um Salóme þegar hún er sem óbilgjörnust við sjálfa sig en það er lesanda til huggunar að hún er hætt að láta tilviljanir og aðra stjórna lífi sínu í sögulok heldur tekur forlögin í sínar eigin hendur.

 

Gréta Sigríður Einarsdóttir