Ekki hef ég lengi séð eins vel heppnaða leikgerð skáldsögu á sviði og Fólkið í kjallaranum sem Borgarleikhúsið frumsýndi um helgina. Það sem gerði útslagið í leiktexta Ólafs Egils Egilssonar var hve mikið af auði sögunnar komst upp á sviðið, hve mörg atvik og hve mikið af togstreitunni og þjáningu efans sem þjakar aðalpersónuna. Þetta var gert með því að hafa alltaf tvenna tíma sýnilega, raunheim og hugarheim, og flétta þá stöðugt saman þannig að aldrei urðu rof í frásögn eða leik. Áhorfendur hafa sannarlega nóg að gera við að fylgjast með öllu saman. Ekki dauður punktur.

Fólkið í kjallaranumÞað er alls ekki einsýnt fyrirfram að skáldsaga Auðar Jónsdóttur geti plummað sig á sviði, einkum af því að hún gerist mestöll í huga aðalpersónunnar, Klöru (Ilmur Kristjánsdóttir). Kvöldið sem sagan gerist halda Klara og vel uppaldi kaupmannssonurinn Svenni (Guðjón Davíð Karlsson) matarboð, en Klara á afar erfitt með að einbeita sér að því sem er að gerast hér og nú. Það sem truflar hana er fortíðin, minningar frá bernsku- og unglingsárum sækja á, óttinn við fyllirí og rifrildi foreldranna, áhyggjurnar af Emblu litlu systur (Kristín Þóra Haraldsdóttir) og huggunin sem hún átti vísa hjá bestu vinkonunni Fjólu (Elma Lísa Gunnarsdóttir). Áleitin spurning verður smám saman hvers vegna Fjóla truflar Klöru allt í einu núna eftir margra ára sambandsleysi.

Meðan Svenni eldar – því hann er móderne súperkokkur – og tekur á móti gestunum Bogga (Hallgrímur Ólafsson) og Elínu (Birgitta Birgisdóttir) er Klara úti á svölum, í sturtu, í símanum, annars hugar eða réttara sagt annars staðar í huganum. Ömurleg útilega með foreldrunum (Jóhann Sigurðarson og Sigrún Edda Björnsdóttir), litlu systur og Fjólu fyrir löngu lætur hana ekki í friði og við fáum þá útilegu beint í æð inn á milli rétta hjá Svenna. Þetta er rosalega flott og skemmtilega gert á sérhönnuðu sviði fyrir þessa útfærslu.

Smám saman tekur nútíminn við af fortíðinni og truflar matarboðið; Embla kemur með dóttur sína (báðar leiknar snilldarlega af Kristínu Þóru) til Klöru í pössun, karlinn í kjallaranum, Barði (Þröstur Leó Gunnarsson), kemur aftur og aftur til að kvarta undan hávaða í uppaliðinu og loks koma foreldrar Klöru í heimsókn, tengdasyninum til mikils ama. Hann vill ekki af þessu fólki vita en þau eru fjölskylda Klöru sem hún elskar þrátt fyrir allt. En það er ekki nóg að elska, maður verður líka að skilja og vera tilbúinn að gefa. Að lokum er Klöru stillt upp við vegg: Hvar vill hún vera? Hvaða lífi vill hún lifa? Og ekki síst: hver vill hún vera?

Ilmur Kristjánsdóttir nýtur sín í hlutverki Klöru og sýnir vel hvað hún er fantafín leikkona. Elma Lísa er Fjóla, ávallt nálæg í hugarheimi Klöru, hún myndar skemmtilega andstæðu við Ilmi í útliti og fasi og saman verða þær vinkonurnar í verkinu lifandi komnar. Sigrún Edda var alveg hreint guðdómleg í hlutverki móður Klöru og Jóhann spilaði með henni af list í hlutverki pabbans. Upparnir gáfu leikurunum ekki eins góð tækifæri en Guðjón Davíð, Birgitta og Hallgrímur fóru vel með þau.

Kristín Eysteinsdóttir stýrir sýningunni og þarf ekki að ítreka eftir þessa lýsingu hversu vel henni tekst upp. Hún hefur líka með sér frábæra listamenn sem sjá um leikmynd og búninga (Snorri Freyr Hilmarsson), lýsingu (Björn Bergsteinn Guðmundsson) og tónlist (Frank Hall). Sviðið klýfur Nýja sviðið í Borgarleikhúsinu þannig að setið er báðum megin við það. Þetta gerði ívið erfiðara stundum að heyra til leikaranna, þeir þurfa annað hvort að snúa baki við öðrum hluta salarins eða leika á hlið við báða, og ef þeir tala lágt getur innihaldið farið framhjá þeim sem sitja á bak við þá. Sem betur fer eru leikararnir allir skýrmæltir en þeir mega vel hafa þetta í huga. Replikkurnar eru svo andskoti góðar að maður vill ekki missa af neinni þeirra.

Það er mikil gæfa að þessi frábæra skáldsaga skuli fá svona vandaða meðhöndlun á leiksviðinu og óskandi að sem flestir sjái hana.

Silja Aðalsteinsdóttir