Ólafur Jóhann Ólafsson. Sakramentið.
Veröld, 2017. 346 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2018
Undirrituðum varð það á í eftirköstum síðasta jólabókaflóðs að blanda sér í umræður á Facebook um skáldsagnauppskeru síðasta árs. Þótt umræðan hafi verið í hóflegri alvöru eins og gjarnan gerist á þeim vettvangi þá sýnist mér nú, þegar rykið hefur sest, að ég geti alveg staðið við þá niðurstöðu sem ég komst að þá:
Þetta var áhugaverð vertíð fannst mér, þótt athyglin hefði gjarnan mátt dreifast meira. Ef ég ætti að velja henni yfirskrift myndi ég sennilega tala um kvenleg jól. Ekki einungis voru margar af áhugaverðustu skáldsögunum (og ljóðabókunum) eftir konur heldur komu óvenju margar skáldsögur út á síðasta ári þar sem karlar skrifa frá sjónarhorni kvenna: Ármann Jakobsson, Kári Tulinius, Ólafur Jóhann Ólafsson, Jónas Reynir Gunnarsson, Jón Kalman Stefánsson og Bjarni Harðarson gera þetta allir í sínum skáldsögum.
Það er ekki ætlunin hér að draga neinar víðtækari ályktanir af þessari athugun minni, þótt eflaust mætti velta því fyrir sér hvort þessi þráður í skáldsagnaútgáfu síðasta árs sé til vitnis um áhrif þeirra umbyltinga í kynjaumræðu sem hafa einkennt undanfarin ár, að karlmenn í hópi íslenskra skáldsagnahöfunda endurspegli stöðu kynbræðra sinna og séu í auknum mæli að reyna að fá nýtt sjónarhorn á heiminn með því að horfa á hann í gegnum augu skáldaðra kvenna af margvíslegu tagi. Sakramentið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er ein þessara skáldsagna og öðrum þræði er hún rannsókn á kúgun kvenna, valdi og þöggun eins og komið verður að hér í lokin.
Nú er það auðvitað ekkert nýtt í íslenskri skáldsagnagerð að karlar skrifi skáldsögur þar sem sjónarhornið er að mestu leyti hjá kvenkyns aðalpersónu, Salka Valka er líklega þekktasta dæmið en það má fara enn aftar í sögunni og rifja upp Sögur Rannveigar eftir Einar Kvaran sem kom fyrst út á árunum 1919–22. Þegar litið er yfir feril þess höfundar sem hér er til umfjöllunar, Ólafs Jóhanns, kemur líka í ljós að hann hefur áður skrifað skáldsögu sem sögð er frá sjónarhorni konu, Slóð fiðrildanna sem kom út árið 1999. Þegar þessar tvær sögur Ólafs Jóhanns, sem koma út með tæplega tuttugu ára millibili, eru bornar saman kemur raunar í ljós að þær eiga fleira sameiginlegt.
Aðalpersóna og sögumaður Sakramentisins er frönsk nunna á efri árum, systir Jóhanna María. Sagan gerist á þremur tímaplönum. Hún lýsir æsku sinni og námsárum í París, ferð til Íslands sem er farin um 1980 – við sjáum það meðal annars af því að systir Jóhanna kemst í tæri við nýútgefna plötu Utangarðsmanna – og loks annarri Íslandsferð sem virðist vera nálægt samtíma okkar.
Áður en systir Jóhanna María gekk í klaustur hét hún Pauline. Í köflunum um æsku sína rifjar hún upp hvernig hún áttar sig smám saman á því að hún er ólík jafnöldrum sínum, hún laðast að konum. Í Frakklandi sjöunda áratugarins var samkynhneigð enn þá glæpur og Pauline leynir hneigðum sínum fyrir umhverfinu, þótt það sé ekki laust við að móður hennar gruni hvernig í pottinn er búið. Á námsárunum í París fær hún íslenska stúlku, Höllu, sem herbergisfélaga og verður ástfangin af henni. Á milli þeirra gerist ekkert en ungur og metnaðargjarn prestur, faðir Raffin, kemst að því að þær deila rúmi í mestu vetrarkuldunum og nær með því tangarhaldi á Pauline. Vitneskju sína notar hann til að stía þeim Höllu í sundur og seinna til að kúga systur Jóhönnu Maríu þegar hún er orðin nunna og hann kardínáli.
Takið sem séra Raffin hefur á systur Jóhönnu Maríu verður til þess að hún er send til Íslands til að rannsaka ásakanir á hendur skólastjóra kaþólsks skóla í Reykjavík og samstarfskonu hans um kynferðisofbeldi sem þau hafa beitt drengi í skólanum. Það er ekkert launungarmál að hér byggir Ólafur Jóhann á sögulegum atburðum sem komust í hámæli með skýrslu Rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi sem kom út árið 2012.
Systur Jóhönnu Maríu verður lítið ágengt í rannsókn sinni. Skólastjórinn og samstarfskona hans, fröken Stein, snúast til varnar og aðstandendur drengjanna sem um ræðir þora ekki að horfast í augu við afleiðingarnar af ásökununum. Rannsókninni er sjálfhætt þegar skólastjórinn, séra Ágúst Frans, hrapar til bana úr kirkjuturninum, ekkert virðist benda til annars en að hann hafi fyrirfarið sér. Málið er þaggað niður og kardínálinn stingur skýrslu Jóhönnu undir stól. Það er ekki fyrr en löngu seinna, þegar ungur drengur sem varð vitni að dauða prestsins er orðinn fullorðinn maður og vill fá að hitta systur Jóhönnu Maríu aftur, að kirkjan neyðist að líkindum til að horfast í augu við það.
Aðalpersóna og sögumaður Sakramentisins hefur helgað líf sitt þjónustu við kirkjuna og bágstadda, meðal annars í Afríku. En þótt systir Jóhanna María kunni að birtast öðrum persónum sögunnar sem vingjarnleg eldri nunna, heil og óskipt í sinni trú, þá er persóna hennar flóknari eins og lesendur sjá hana innan frá. Hún hefur guðsorð á hraðbergi og þær ritningargreinar sem hún vísar oftast til, bæði beint og óbeint, eru orð Páls um kærleikann úr fyrra Kórintubréfi. En þótt þau orð séu henni haldreipi og hún miðli þeim til annarra á hún líka til harðari tón í viðskiptum sínum við almættið.
Lesandi sem er kunnugur skáldsögum Ólafs Jóhanns sér fljótt að býsna margt er sameiginlegt með Sakramentinu og þeirri skáldsögu Ólafs Jóhanns sem fyrr var nefnd, Slóð fiðrildanna. Frásagnaraðferðin er keimlík. Í báðum sögum segja eldri konur sögu sína, sögurnar eru á þremur tímaplönum, persónurnar snúa báðar aftur til Íslands eftir langa fjarveru til að horfast í augu við fortíðina. Í báðum sögunum kemur við sögu samkynhneigð sem þarf að fara leynt. Ýmis smáatriði tengja sögurnar líka saman, stundum er engu líkara en höfundur sé að kinka kolli til eigin verks og styrkja þessa hliðstæðu, þannig skilja báðar aðalpersónurnar eftir hund erlendis þegar þær leggja af stað til Íslands.
Það eru líka sameiginlegir drættir í æviferli aðalpersóna Sakramentisins annars vegar og Slóðar fiðrildanna hins vegar. Báðar hafa þær orðið ástfangnar sem ungar konur og aldrei síðan. Pauline gengur í klaustur, Ásdís í Slóð fiðrildanna býr með vini sínum og félaga Anthony, samband þeirra er platónskt en náið og breiðir þannig yfir samkynhneigð Anthonys.
Systir Jóhanna er býsna vel smíðuð persóna, hún er sjálfstæð og gáfuð og á ýmsan hátt leikur höfundur sér skemmtilega með þær staðalmyndir sem við höfum sennilega flest af nunnum. Hún er t.d. ágætur bílstjóri og hefur vit á bílum, sem kemur sér vel í Íslandsferðum hennar, og tónlist leikur nokkuð stórt hlutverk í persónusköpun hennar. Það er þó ekki sú trúarlega tónlist sem maður ætti kannski von á, systir Jóhanna María er mikill bítlaaðdáandi og leggur í seinna ferðalag sitt vopnuð litlum vasaspilara með bítlalögum. Hundurinn sem bíður hennar heima í klaustrinu heitir meira að segja George Harrison!
Sem spennusaga er Sakramentið tvöföld í roðinu. Annars vegar er systir Jóhanna María í hefðbundnu hlutverki spæjarans sem rannsakar glæpamál. Þar er vísað í hefðina á margvíslegan hátt, aðstoðarmaður hennar, ungur Íslendingur sem heitir hvorki meira né minna en nöfnum tveggja postula, Páll Pétursson, er dæmi um þetta. Á hinn bóginn kemur í ljós undir lok sögunnar að „glæpirnir“ eru fleiri en virðist við fyrstu sýn. Það sem lesandi og allar persónur sögunnar hafa haldið vera sjálfsmorð barnaníðingsins séra Ágústs Frans reynist vera manndráp – og banamaður hans sögumaðurinn systir Jóhanna María. Þetta er ekki óþekkt bragð í glæpasögum og nægir að minna á Agötu Christie og sögu hennar The Murder of Roger Ackroyd sem hefur komið út í tveimur íslenskum þýðingum. Þar kemur í ljós í lokin að fyrstu persónu sögumaðurinn er einmitt sjálfur morðinginn.
Og þá vakna ýmsar spurningar í huga lesandans, um sekt og sakleysi, hefnd og réttlæti. Það er ekki laust við að hugurinn hvarfli til nýlegrar íslenskrar skáldsögu, sem þó er að öðru leyti eins ólík Sakramentinu og hugsast getur, Kötu eftir Steinar Braga. Þar segir af móður sem stígur yfir öll mörk samfélagsins og hefnir dóttur sinnar, sem hefur verið myrt eftir hrottalegt kynferðisofbeldi, með því að drepa ofbeldismennina. Systir Jóhanna María hefnir líka fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis, en hefnd hennar er ekki opinber, hún gengst aldrei við henni. Hún iðrast heldur ekki gjörða sinna og skriftar aldrei eða játar synd sína fyrir neinum, eins og kannski mætti ætla af konu í hennar stöðu. Undirrituðum er ekki alveg ljóst til hvaða sakramentis titill sögunnar vísar, það er hægt að útiloka þau flest, því systir Jóhanna María skriftar ekki og hún reynir ekki einu sinni að fá aflausn fyrir syndir sínar. Það eina sem hún iðrast er að hafa ekki gert það sem hún gerði af réttum ástæðum, ekki af „umhyggju fyrir fórnarlömbum hans eða brennandi þörf fyrir að stöðva hann“ (345), heldur vegna þess að hún þolir ekki að „bera lægri hlut í stríði“ þeirra (346). Og þá má spyrja hvort það sé bara einstaklingurinn og kynferðisbrotamaðurinn séra Ágúst sem hún hrindir niður úr turninum eða hvort hann sé að einhverju leyti staðgengill fyrir kúgara hennar, kardínálann, og jafnvel fyrir kirkjuna sem stofnun.
Þótt systur Jóhönnu Maríu sé kærleikurinn hugleikinn þá einkennist samband hennar við guð ekki af kærleika eða auðmýkt. Og undir lok sögunnar fer hún langt með að afneita sjálfri trúarjátningunni.
Ég hef beðið til þín af öllum mætti, ég hef iðrast, ég hef ályktað að heimurinn væri betur settur án mín. Ég hef leitað en ekki fundið, og fyrirgefningin er alltaf handan seilingar. Í myrkviðum hugans leynast hætturnar. Þegar ég lauga andlitið í þvottaskálinni sé ég bara útlínur þess. Það dagar. Grá morgunskíman fikrar sig inn í klausturklefann minn um leið og tunglið dofnar á himni. Einhversstaðar vakir sál sem þarf á huggun að halda.
Einhvers staðar hefði líf mitt orðið öðruvísi.
Andlit mitt kyrrt í köldu vatninu.
Ég trúi á það góða í manninum og það vonda. Ég trúi ekki á fyrirgefningu syndanna, eilíft líf, miskunn þína. Ég hef séð hönd strjúka vanga og hnefa reiddan til höggs. Og þú stendur alltaf álengdar. (326 leturbr. JYJ)
Undir lok sögu er systir Jóhanna sátt við guð og menn – en algerlega á eigin forsendum. Sáttin helgast af tvennu, annars vegar því að hún fær staðfestingu á því að Halla endurgalt tilfinningar hennar á sínum tíma, en hún er nýlátin þegar systir Jóhanna kemur í síðari Íslandsferð sína. Hins vegar kemur í ljós að ungi drengurinn sem varð vitni að dauða prestsins sá að hún hrinti honum, en í stað þess að segja til hennar þakkar hann henni fyrir að hafa bjargað sér. Hún hefur þannig framið hinn fullkomna glæp, losað heiminn við illmenni og komist upp með það. Um leið hefur hún í einhverjum skilningi komið fram hefndum á þeirri stofnun sem hún helgaði líf sitt en fordæmdi hana þó og rændi hana möguleikanum á að vera elskuð og njóta lífshamingju.
Stóra spurningin er á hinn bóginn sú hvort lesandinn er jafn sáttur og sögumaður. Sá sem hér ritar sér tvær túlkunarleiðir að endalokum sögunnar. Annars vegar þá að standa með systur Jóhönnu alla leið, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Þannig lesin er sagan nokkuð einföld hefndarfantasía þar sem réttlætið sigrar að lokum og tilgangurinn helgar meðalið. Hin leiðin er nokkuð snúnari, sem sagt að líta svo á að sagan lýsi harmleik einnar mannsævi, örlögum konu sem hefur verið kúguð og kúgað sjálfa sig í nafni trúarbragða sem hún á endanum að einhverju leyti afneitar. Og þá er engin leið að líta fram hjá því að séra Ágúst Georg og kardínálinn eru ekki bara fulltrúar fyrir sjálfa sig og kirkjuna sem valdastofnun. Þeir eru líka fulltrúar rótgróins karlveldis sem hefnd systur Jóhönnu beinist kannski fyrst og síðast að. Ég er ekki frá því að mér hugnist síðari túlkunarleiðin betur.