Ég gæti vel trúað því að fleiri áhorfendur Spaugstofunnar en ég hafi verið búnir að gleyma hvernig það er að hlæja dátt – missa hreinlega stjórn á hlátrinum. Finna gleðibólurnar stíga upp úr iðrunum og springa í loftrörunum á leiðinni upp í munninn svo að allur kroppurinn skelfur! Svona tilfinning greip mig nokkrum sinnum þar sem ég sat á miðnætursýningu þessara óborganlegu félaga á stóra sviði Þjóðleikhússins í gær.

Yfir til þínOg svo þegar maður er búinn að missa sig yfir karakterunum hverjum af öðrum – Boga og Örvari, Geir og Grana, Ólafi og Dorrit, Ragnari Reykás, Gylfa Ægissyni, Páli Óskari, Svetlönu og Boris, gamla karlinum sem játar öllu, hagyrðingunum sem vilja ekki yrkja dónalegar vísur en dettur ekkert annað í hug – þá syngja þeir „Yfir til þín“ sem er eins og Hallormsstaðaskógur Halldórs Laxness („Bláfjólu má í birkiskógnum líta“) ortur upp á nýtt fyrir nýja tíma: „Yfir til þín í vænginn við þig stíg ég /og um það engu lýg ég / mín elsku frónska þjóð.“ Þá breytist hláturinn snarlega í lýrískan grát. Hefur enginn stungið upp á þeim texta og lagi sem nýjum þjóðsöng?

Margt er kunnuglegt úr sjónvarpinu í sýningunni Yfir til þín en allt er það þá lagað að nýju sviði. „Óperuna“ sem Örn Árnason flytur og syngur öll hlutverkin, sópraninn, tenórinn og bassann, hef ég séð áður í svipaðri mynd en það breytti því ekki að hún hlægði mig óskaplega. Splunkuný (held ég) er svo mikil syrpa af útúrsnúningi á tveim alkunnum barnavísum, Afi minn fór á honum Rauð og Fljúga hvítu fiðrildin, eins og ýmsir listamenn myndu yrkja þær upp á nýtt og/eða flytja þær. Þar voru margir kallaðir til og hermdu Karl Ágúst og Örn eftir fólki eins og Bubba, Megasi, KK, Ríó Tríói og Of Monsters and Men af snilld. Mesta kátínu vakti það óvæntasta þegar þeir tóku flutning Jónsa og SigurRósar. Auðvitað er nokkuð mikið um neðanbeltisbrandara eins og við er að búast þegar komið er fram á nótt. Mér fyndist persónulega óþarfi að fjölga þeim, en leikhúsgestir virtust sannarlega kunna að meta þá.

Þeir félagar sprella líka við áhorfendur og var einkum atriðið gott þegar þeir kölluðu konu upp á svið sem þeir fullyrtu að gæti leikið á gítar. Ekki kom í ljós hvort sú ágiskun var rétt. Öll er sýningin römmuð inn af miklum brag um þá félaga og brambolt þeirra í áratugi eftir Karl Ágúst sem fluttur er af ábúðarmikilli rödd Arnars Jónssonar eins og Guð talaði sjálfur að utan og ofan. Ekki kom síst í ljós þar hvað Karl Ágúst er einstaklega hagmæltur og orðheppinn.

Ýmsir hagir aðilar koma að sýningunni með piltunum og ber þá fyrstan að telja Jónas Þóri Þórisson sem situr í hliðarstúku og leikur undir herlegheitin, einnig sviðslistamennina Ágústu Skúladóttur, Katrínu Ingvadóttur, Finn Arnar Arnarson, Hermann Karl Björnsson og Elvar Geir Sævarsson sem hafa allir lagt hönd á plóg. En fyrst og fremst ber að þakka Spaugstofuhópnum sjálfum fyrir að minna mig á hinn frelsandi hlátur.

Silja Aðalsteinsdóttir