Diane Varco kom á Fringe hátíð í Reykjavík í fyrra með einleikinn Shattered sem ég sá því miður ekki, en hún fór heim af þeirri hátíð með verðlaun fyrir hann. Nú er hún komin aftur með nýjan einleik, Rise, sem Jessica Lynn Johnson stjórnar og við fáum að sjá á undan gestum á Fringe hátíðinni í Edinborg í ágúst. Diane frumsýndi Rise í dag í Mengi og það var sannarlega reynsla fyrir augu og eyru. Í klukkutíma leikur hún orðmargar, krefjandi rökræður margra ólíkra persóna úr hugarheimi sínum undir styrkri fundarstjórn Sannleikans sem ekki leyfir nein undanbrögð eða vífilengjur. Meðal persónanna sem mætast á fundinum má nefna Skömmina, Reiði barnsins og Reiði rithöfundarins sem hver um sig fékk sínar sérstöku hreyfingar og svipbrigði.
Persónan í Rise er ung kona sem þykist fær í flestan sjó en er í rauninni tætt og brotin hið innra – eins og kemur í ljós þegar hún lendir á tunglinu – eða ánetjast fíkn, með öðrum orðum – og hefur ekki lengur fast land undir fótum. Þá fer Sannleikurinn að krefja hana um hreinskilni, um að opna á bældar minningar og tilfinningar til að losa um krömina sem veldur villunni, og smám saman fáum við frásagnir af óþægilegum atvikum í bernsku hennar og uppvexti sem hún hefur ekki viljað horfast í augu við. Þá kemur meðal annars fram að henni var hvað eftir annað hafnað af sínum nánustu í æsku, þá var hún send í fóstur og þau heimili voru ekki öll góð. En það hjálpar að segja frá og persónan er á betri stað í lokin – hún hefur risið upp eins og titillinn gefur til kynna.
Diane Varco er geysilega hæf leikkona, skiptir leikandi milli ótal persóna og lætur þær birtast ljóslifandi í hreyfingum, svipbrigðum og raddbeitingu. Ég var sérstaklega hrifin af Skömminni sem var óhugnanlega fölsk og undirförul í tilraunum sínum til að grafa undan sjálfstrausti stúlkunnar. Efni verksins er gott en textinn var helst til langur og samanþjappaður og skiptin milli persóna urðu stundum of hröð, þar var aldrei gefinn stundarfriður fyrir íhugun. Ég hef trú á að Diane eigi eftir að slaka á með meiri þjálfun og ná dýpri áhrifum.
Seinni sýningin á Rise er í Mengi laugardagskvöldið 1. júlí kl. 21.
Silja Aðalsteinsdóttir