Ég játa að ég tengdi sjaldan við gleðileiki Shakespeares á sýningu Íslensku hreyfiþróunarsamsteypunnar, Úps!, í Tjarnarbíói í gærkvöldi sem Víkingur Kristjánsson stýrir. Jú, vissulega fór Hannes Óli Ágústsson einu sinni í kjól sem gat verið vísun í að á tímum Shakespeares voru kvenhlutverk leikin af körlum, og einu sinni tíndust allir þátttakendur inn á sviðið með eins hárkollur – sem gat verið vísun í tvíburaminnið í verkum stórskáldsins. Annars fannst mér sýningin aðallega vera rannsókn á því hvað fær okkur manneskjurnar til að hlæja.
Við hlæjum að vandræðagangi annarra, það sýndu þátttakendur fram á með ýmsum hætti alla sýninguna. Hún byrjar á efnisyfirliti, eins konar munnlegri leikskrá sem Katrín Gunnarsdóttir flytur með (óvelkomnum) innskotum frá Hannesi Óla. Katrín man ekki alveg nógu vel röðina á atriðum og kemur ekkert sérstaklega vel fyrir sig orði og þetta varð smám saman ansi fyndið. Svo hætti það að vísu að vera fyndið en einnig það er partur af rannsókninni: Hvað hlæjum við lengi að sama brandaranum? Stólaatriðið var ennþá betur heppnað og líka mun meiri dans. Þar kepptust þátttakendur við að ýta eða sparka sama stólnum undan hinum í flóknu munstri. Það er vitaskuld rosalega fyndið þegar einhver dettur á rassinn!
Okkur finnst líka fyndið þegar einhver tekur að sér verk sem hann ræður illa við. Það sýndu Melkorka Sigríður Magnúsdóttir og Ragnheiður Bjarnarson í dansatriði þar sem Ragnheiður var herrann og Melkorka dansmærin og Ragnheiði tókst afar óhönduglega að grípa eða halda Melkorku í erfiðum dansstöðum. Vandræðalega fyndið var líka atriðið þar sem Melkorka dansaði gullfallegan klassískan ballett en átökunum fylgdu afar óheppileg líkamshljóð. Svo var meira að segja rjómatertuatriði! Íslendingar hlæja að fólki sem sýnir mont eða sjálfbirgingslega framkomu eins og Hannes Óli þegar hann þakkar sér það sem kurteislegra væri að þakka öllum hópnum. En andstyggilegt kvenfyrirlitningaratriði Katrínar vakti ekki hlátur meðal áhorfenda í gærkvöldi þó maður geti ímyndað sér í ljósi umræðna undanfarið að það veki hlátur meðal hóps sem er öðruvísi samsettur.
Það mátti sjá á hópatriðum í sýningunni að hún var þaulæfð og þau geta margt, þessar ungu manneskjur. Þau voru fyndin og fjörug og sérstaklega gaman var að horfa á Melkorku dansa. Ég hefði þó viljað sjá hugmyndaríkari úrvinnslu miðað við sýningu Samsteypunnar á Kandílandi í fyrra.