Eiríkur Guðmundsson. Sýrópsmáninn.
Bjartur, 2010, 232 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2012
Eiríkur Guðmundsson lýsti skáldsögu sinni Sýrópsmánanum sem „tilfinningalegri rannsóknarskýrslu“ í viðtali við Morgunblaðið 10. nóvember 2010. Lýsingin kallar fram ýmis konar hugrenningatengsl, en fyrst og fremst við hina frægu Rannsóknarskýrslu Alþingis eins og til var ætlast. Skýrslan sú var gefin út á 2000 síðum í níu bindum í mars, eða um hálfu ári áður en skáldsagan kom út. Rannsóknarskýrsla Alþingis fór óðara í fyrsta sæti á metsölulista íslenskra bóka og í ágúst sama ár trónaði hún enn á toppnum yfir söluhæstu bækur ársins (sló meira að segja við Póstkortamorðum þeirra James Patterson og Lizu Marklund).
Í henni er gerð „tilraun til að rannsaka og útskýra aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna árið 2008“, eins og sagði í kynningu, og hefur hún fengið heitið „Íslendinga sögur hinar síðari“ hjá hinum alræmdu „gárungum“. Því má halda því fram að í Sýrópsmánanum geri Eiríkur tilraun til rannsaka og útskýra aðdraganda og orsök þess tilfinningalega (á)falls sem fólgið er í skipbroti ástarsambands. Það er að minnsta kosti einn gildasti þráðurinn sem rekja má sig eftir í bók hans, sem hlaut tilnefningu til Menningarverðlauna DV snemma árs 2011.
Tenging Eiríks við „hrunið“ er ekki út í bláinn. Sýrópsmáninn gerist meðal annars í Reykjavík á okkar dögum og yfir borgina hefur lagst einkennileg „þoka“: „Í útvarpinu voru stöðugar fréttir af þokunni. Stundum var því haldið fram að hún lægi í makindum yfir landinu öllu. Að heilu firðirnir væru horfnir“ (34). Þokan gleypir menn, hús, landslag og hluti en við höfnina er verið að byggja „Spiladós“ úr gleri. Þessi táknmynd hrunsins minnir á aðra íslenska skáldsögu sem kom út 2009; Gæsku Eiríks Arnar Norðdahls, þar sem eldar loga í Esjunni og reykinn leggu yfir borgina og skæðir sandstormar geisa.
Það er reyndar tilvalið að bera þessar tvær skáldsögur saman sem „hrunskýrslur“ og inn í þann samanburð mætti draga fleiri íslenskar skáldsögur frá síðustu árum, til að mynda Konur Steinars Braga (2008) og Bankster Guðmundar Ólafssonar (2009). Af nýútkomnum skáldsögum eru einnig að minnsta kosti tvær sem taka mætti með í þennan samanburð, Mannorð eftir Bjarna Bjarnasonar og Hálendi eftir Steinar Braga.
Allar þessar sögur gerast í gjörningaþokunni sem legið hefur yfir Íslandi frá hausti 2008 – eða aðdraganda hennar – og gaman er að sjá á hversu ólíkan hátt höfundarnir nálgast efnið. Kannski má segja að Guðmundur Ólafsson standi næst hinni „raunsæju“ frásögn; Eiríkur Örn velur leið hins ærslafengna karnívalíska skops, Steinar Bragi slær sterkan hryllingstón, Bjarni Bjarnason vekur upp spurningar um siðferði og æru (með ívafi fantasíu, eins og reyndar fleiri) en stíll Eiríks Guðmundssonar er ljóðrænn, brotakenndur (á köflum) og vinnur stöðugt með vísanir og textatengsl.
En eigi Sýrópsmáninn í óbeinu samtali við aðrar íslenskar samtímaskáldsögur á hann stöðugt í beinu samtali við erlenda bókmenntatexta. Heimur sögumanns er samslunginn heimi bók menntanna, hann reynir að henda reiður á lífið með hjálp skáldskapar. Frásögnin er sögð í fyrstu persónu, sett fram sem nokkur konar minningasaga þar sem sögumaður tengir sífellt hugleiðingar sínar og minningar við bókmenntir enda sér hann lífið fyrir sér sem ljóðaúrval: „Lífið. Selected poems“, eins og segir á síðu 88 og víðar í bókinni.
Í heimi Sýrópsmánans fléttast sem sagt stöðugt saman heimur skáldskaparins og heimur hins áþreifanlega „veruleika“. Og kannski má segja að í því sé fólgin tilraun sögumanns til að að reyna að brjóta niður það þykka „skilrúm“ sem tímar okkar „hafa fyrir löngu smíðað […] milli draums og veruleika“. Þarna á milli „liggja engin leynigöng lengur“ því „þetta skilrúm er þykkara en Kínamúrinn enda var það mun lengur í smíðum en hann og kostaði fleiri mannslíf“ (39).
Í skrifum um Sýrópsmánann er talað um texta Eiríks sem „dulkóðaðan“ hvað þetta varðar og að lesandinn finni stöðugt fyrir þörf til að rekja þræðina út úr verkinu í leit að dýpri skilningi á söguheimi þess (sjá t.d. ritdóm Hjalta Ægissonar á vef Víðsjárþáttar Ríkisútvarpsins og lýsingu í umsögn dómnefndar Menningarverðlaun DV). Það getur áreiðanlega verið skemmtilegur leikur að grafast fyrir um rætur allra textatengsla og vísana í Sýrópsmánanum en það er hins vegar ekki nauðsynlegt; bókarinnar má njóta án þess, enda hlyti hún að teljast misheppnuð sem sjálfstætt listaverk ef svo væri ekki. Hins vegar víkkar það að sjálfsögðu merkingarheim textans þegar lesandi ber kennsl á vísanir og tengsl.
Þótt frásögn Sýrópsmánans fylgi ekki línulegum frásagnartíma, skipti á milli nokkurra sögusviða og víða sé skotið inn stuttum hugleiðingum – eða örfáum orðum – á milli lengri kafla þá er hér engu að síður um heildstæða frásögn að ræða að mestu leyti. Sögusviðin eru fjögur. Í fyrsta lagi Reykjavík undir oki þokunnar, eins og lýst hefur verið. Í öðru lagi lítið þorp úti á landi þar sem sögumaður hverfur aftur til bernsku sinnar þegar hann bjó hjá ljóðelskum afa sínum.
Í þriðja lagi Ítalía, en þangað fer sögumaður ásamt konu sinni og barnungum syni í því skyni að flýja þokuna og hlúa að ástarsambandi sem virðist í brotum. Hann kemst þó að því að erfitt að flýja þokuna því „þessi borg, Reykjavík, er víðar en ætla má af landakortinu […] Borgarbúi er ekki fyrr farinn burt en borgin heldur í humátt á eftir honum“ (82). Fjórða sviðið er svo hugarheimur sögumanns, eins og áður er lýst, og sem stundum virðist ekki síður slungið þoku en hinn áþreifanlegi heimur.
Eins og í fyrri bókum sínum, 39 þrep á leið til glötunar (2004) og Undir himninum (2006) er Eiríkur Guðmundsson öðrum þræði að leika sér að formi sjálfsævisögunnar og eflaust ekki tilviljun að fyrsta vísun hans til annars bókmenntaverks er í skáldævisögu Nabokovs, Look at the Harlequins. Hugleiðingar um minni og gleymsku koma víða við sögu:
Sumt man ég vel. Annað man ég alls ekki. Eitthvað hef ég skrifað í dagbókina mína, margt er þar afar óljóst því stundum hef ég gripið til dulmáls, sem blekkir engan nema sjálfan mig. Það er eins og einhver eða eitthvað tali upp úr svefni, en það er ævisaga mín. (13)
Stuttu síðar segir: „Það má vel vera að lyfin sem ég tók á unga aldri, allt of snemma, hafi gert mig að vafasamri heimild, til frambúðar“ (15). Rétt á eftir fer sögumaður í fylgd vinar síns til grímugerðarmanns og grímur og speglar reynast meðal hinna gegnum gangandi stefja frásagnarinnar; allt kunnug leg stef í frásögnum sem snúast um leit að sjálfsmynd og sjálfskilningi, eins og hér er raunin, og niðurstaðan virðist vera: að best væri „að mæta lífinu með grímu“ (217). Hinn þungi undirtónn frásagnarinnar er tilvistarlegur og sögumaður glímir við eigin vanmátt gagnvart tilverunni og þá sérstaklega ástinni sem kemur, að því er virðist óhjákvæmilega, ætíð með þjáninguna í farteskinu. Það er niðurstaða margra bóka sem sögumaður hefur lesið: „ástin og þjáning eru eitt og hið sama“ (126), og gott ef það er ekki einnig hans eigin niðurstaða, sprottin af lifaðri reynslu.
Vanmáttur sögumanns virðist þó ekki bara bundinn ástinni heldur litar hann alla tilveruna sem honum virðist um megn að glíma við. Hann hefur verið rekinn úr starfi sínu hjá Vísindavefnum fyrir að svara spurningum út í hött og hefur hvorki löngun né döngun í sér til að útvega sér annað starf. Hann er sannur fulltrúi hinna fjöldamörgu vanmáttugu karlmanna sem hafa skotið upp kollinum í íslenskum (sem erlendum) samtímabókmenntum; Hetja vorra tíma virðist vera karlmaður án tilgangs ekki síður en á tímum Rússans Lermontovs – „hinn óþarfi maður“ var þetta kallað á sínum tíma.
En rangt væri þó að halda því fram að vanmátturinn og tilgangsleysið sé aðeins bundið hinum karlkyns sögumanni Sýrópsmánans því mótleikari hans í þjáningunni, konan L., virðist jafnvel dýpra sokkin í þunglyndi en hann. Við L. eru tengd stef sem tengjast hinum bláa lit. Lag Ninu Simone, „Little girl blue“, fylgir henni, sem og „blómið bláa og hvíta“. L. er þögul og sorgmædd og virðist litlu færari en sögumaður að takast á við veruleikann, þó hún stundi vinnu sína samviskusamlega.
Eitt af gegnumgangandi stefjum frásagnarinnar er setningin „lífið kremur mann“ og reyndar eru þetta lokaorð bókarinnar. Ekki veit ég hvort höfundur sé hér að vísa í fleyg orð leiklistarfrömuðarins fræga Stellu Adler sem sagði eitthvað á þann að veg að þótt lífið brjóti mann niður og kremji sálina þá minnir listin okkur á að til er líf. Sú hugsun á þó vel við Sýrópsmánann þar sem stöðugt er reynt að grafa leynigöng á milli hins hlutlæga veruleika og draumanna; heims listarinnar sem sögumaður heldur dauðahaldi í eins og skipreika maður í fleka.
Þannig er frásögnin sjálf í mótsögn við fullyrðingu sem lesa má á síðu 167: „Listin er gagnslaus“. Eða hvað? Á listin kannski einhverja sök á hinni tilvistarlegu angist sögumanns sem leitar inn í heim skáldskapar í stað þess að takast á við „veruleikann“ eins óspennandi og hann nú getur verið á sínu hversdagslega og óskáldlega plani? Svarið við þeirri spurningu liggur ekki ljóst fyrir í þessari bók Eiríks, þó hallast ég að hinu að það sé listin sem gefi lífinu gildi og geri okkur kleift að takast á við lífið, þótt það kremji mann stöðugt.
Titill bókarinnar er óræður en Eiríkur Guðmundsson segist hafa fengið hann frá Byron:
Byron notaði þetta hugtak ekki um himintungl heldur nokkuð annað sem tengdist lífi hans og ástum, sem voru nokkuð skrautlegar. Sýrópsmáninn er þó umfram allt í mínum huga órætt fyrirbæri sem tengist ástum, og óhugnaði, en gæti líka verið eitthvað sem liðast upp úr viskíglasi eða út úr gamalli bók með gulnuðum síðum, síðla kvölds. (Viðtal við Morgunblaðið 10. nóv. 2010)
Í bókinni má lesa ýmsar útskýringar á fyrirbærinu sýrópsmána, til að mynda: „[…] eitthvað sem reikar stöðugt um himininn og heldur fyrir okkur vöku en við kunnum ekki að nefna, ég kalla það stundum sýrópsmána“ (93). Eða: „Þann dag og næstu nætur uppgötvuðum við það sem L. kallaði hið tortímandi afl, eitthvað sem menn hafa skrifað bækur um öldum saman án þess að verða mikið ágengt, ég kalla það sýrópsmána“ (205). Sýrópsmáni er því eitthvað sem erfitt er að ná tökum á, eins og lífinu sjálfu, og getur því hver lesandi ráðið í titilinn eftir sínu höfði.
Á einum stað í Sýrópsmánanum má lesa þetta:
Sumar sögurnar las ég aftur og aftur. Skáldsögur þarf að tilreykja, eins og pípur, það getur tekið langan tíma, mörg ár. Þær lifa sínu lífi líkt og þær sofi á bak við tímann, rumska kannski eftir þúsund ár, og eftir það er ekki nokkur leið að fá frið fyrir þeim. (138)
Ég efa ekki að Sýrópsmáninn er saga sem þolir endurtekinn lestur, texti Eiríks Guðmundssonar er vel skrifaður, margræður og býður upp á margs konar túlkanir. Þótt hér hafi verið lögð áhersla á hinn tilvistarlega þunga textans væri ósanngjarnt að taka ekki fram að víða er saga Eiríks fleyguð skopi og íróníu sem jafnvel tengist angist sögumanns. Þannig grefur frásögnin stundum undan eigin alvöru eða skopast af sjálfri sér; kannski mætti tala um afbyggjandi frásagnarhátt í þessu sambandi.