Ragnar Helgi Ólafsson: Bókasafn föður míns.
Bjartur, 2018. 197 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2019
Langafi minn, Magnús Magnússon, sem hafði lært ensku og frönsku af laxveiðimönnum í Borgarfirði, átti dágott bókasafn sem hafði meðal annars að geyma bækur á útlensku. Þegar hann gekk fyrir ætternisstapa fékk hver og einn að ganga í safnið og hirða úr því það sem hann vildi, afgangurinn var svo borinn út á tún þar sem hann varð rigningunni að bráð.
Rúmri öld síðar stóð Ragnar Helgi Ólafsson frammi fyrir sama vandamáli og erfingjar Magnúsar Magnússonar. Ásamt fleiri ættingjum sínum hafði hann erft bókasafn föður síns sem þakti fjóra veggi og hafði að geyma ríflega fjögur þúsund bækur, að bókum í geymslu og kössum í bílskúr ótöldum, og nú var á dagskrá að ákveða örlög þessa bókagrúa, því móðir hans var að flytja í minni íbúð. Það þurfti því að komabókum fyrir hingað og þangað, setja sumar á fornsölu ef einhver fornsali hafði þá nokkurn áhuga á þeim – sá sem höfundur skiptir við notar orðið „tunnumatur“ um einhverjar þeirra – og allmörgum varð að farga. Söguna af þessum vanda segir hann í riti sem ber titilinn Bókasafn föður míns eins og beinast liggur við, en honum fylgir jafnframt, með agnarsmáu letri, ískyggilegur undirtitill: sálumessa. Sitthvað fleira býr nefnilega undir, því eins og höfundur segir þegar lagt er af stað: „Ég er að kveðja bókina sem hugtak og sem hlut.“ (11)
En hvernig útsetur hann nú þetta requiem, í angurværum moll? Gegnum verkið ganga ýmsar laglínur sem fléttast lipurlega saman í breiða hljómkviðu. Ein þeirra er minningabrot eða svipmyndir af föður og afa höfundar, bókasöfnun þeirra og af hinsta sjúkdómi og andláti föðurins, sem sungin er af mikilli hlýju. Þar má einnig heyra frá uppruna og sögu bókasafnsins, sem á sér langar rætur. Þessu fylgir fjöldi af litlum myndum af hinu ólíkasta tagi og án titils, sem eiga það sameiginlegt að þær gera lagboðana sem snöggvast sýnilega, þær eru myndrænn kontrapunktur.
Önnur laglínan er söngur um einn af helstu þáttum safnsins, alls kyns verk sem nefnast einu nafni „þjóðlegur fróðleikur“. Upp úr þeim eru teknar fjölmargir lagboðar, örstuttar mannlýsingar eða sögubrot sem skotið er inn í tónfléttuna, yfirleitt án nokkurra sérstakra tengsla við hana. En laglínurnar tvær „bókasafn“ og „þjóðlegur fróðleikur“ eiga það sameiginlegt að þær snúast um að varðveita hvers kyns brotabrot úr fortíðinni án þess að valið sé úr – „Ég fann engar hreinar línur í bókasafni föður míns“ (174), segir höfundur – og oft í belg og biðu. Í leiðinni slær hann öðru hverju, og með misjafnlega löngu millibili, það sem hann kallar „minnisnótur um þjóðlegan fróðleik“, og kemur þá í ljós að þessi séríslenski vikivaki, sem ungir menn hæðast gjarnan að, fylgir sínum föstu lögmálum, þar er af nokkrum setningi sungið. Síðasta minnisnótan er þannig:
Kommur. Í textum af meiði þjóðlegs fróðleiks er kommum dritað fjálglega út um allar trissur. Kommur virðast hafa verið billegar í fortíðinni. Punktar hins vegar dýrir. Chateaubriand hefði eflaust verið sáttur við greinarmerkjasetninguna: Lífið er fullt af kommum sem vitna um þáttaskilin þegar eitt líf tekur við af öðru, þar er dokað við áður en haldið er áfram. Punktur hins vegar, hann er endanlegt greinarmerki. (155)
Er þetta torskilið? Kjarninn í þessum „þjóðlega fróðleik“ er sá að hann er varðveisla varðveislunnar vegna, þar er litið á fortíðina sem hafdjúp af tónum, sem eru hver tengdir öðrum, og um er að gera að láta sem flesta þeirra enduróma inn í framtíðina.
Þriðja laglínan er hins vegar af öðru tagi. Hún er ljóðrænt tregróf um horfnar bækur og bókasöfn, og endar á coda sem virðist hafa slegið áheyrendur mjög, því margir hafa tekið undir: „Allt bendir til þess að það að lesa (til að mynda úr bók) sé deyjandi list. Lestur langra texta verður varla hversdagsíþrótt í framtíðinni. Líklega verður slík iðja skilgreind sem einhverskonar sérfræðihæfni eða sniðugt hobbí, svona eins og að kunna að slá tún með orfi og ljá.“ (145) Fáum töktum síðar endurtekur hann þetta coda í annarri útsetningu:
Ég hef á tilfinningunni að við séum að lifa efstu daga bókarinnar. Það er ekki bara innihald bókanna sem mætir fálæti heldur er það bókin sjálf sem hlutur. Bókina rekur út á jaðarinn í menningu okkar. Það er eflaust viðbúið, fyrirsjáanlegt jafnvel. Bókin er úrelt tæki, sem hannað var til að bera á milli manna tegundir skilaboða eða form þekkingar sem sífellt minni eftirspurn er eftir. Bókin er á hverfanda hveli, bæði sem form og efni. (161)
Þetta er kjarni verksins og boðskapur, það er þess vegna sem hljómkviðan er sálumessa, og því er brýnt að ljá honum eyra. En til þess þarf að víkka skalann.
Þegar Condorcet setti fram framfarakenninguna fyrstur manna, í lok 18. aldar, víkur hann að þeim hindrunum sem tafið hafa fyrir framförum, og nefnir þá einkum bókabrennur, því framfarirnar byggðust að hans dómi einkum á bókmenningu. En þessi hætta er nú úr sögunni, segir hann, því prentlistin hefur gert það að verkum að bækur eru til í svo mörgum eintökum að enginn einvaldur né trúflokkur getur komist yfir að brenna eða tortíma öllum eintökum af sömu bók þannig að hún hverfi með öllu, svo og sú þekking sem hún hafði að geyma. Eftir bókabrennum nasista að dæma virðist Condorcet hafa mikið til síns máls, þær voru fyrst og fremst táknrænar; Hitler hafði engin tök á að afmá með öllu neina bók. En er þetta lokaorðið? Til að skoða það verður að fara lengra, miklu lengra aftur í fortíðina.
Í 39. bók sinnar miklu Rómverjasögu segir Livius sagnaritari frá því að árið 186 f. Kr. að voru tímatali, hafi orðið heilmikið havarí út af Bakkusarhátíðum, sem þá var farið að halda í Róm og víðar í Ítalíu að grískri fyrirmynd, fylgdi þeim úlúlatus, sinfóníur og bumbusláttur, fyrir utan margt annað. Öldungaráðið taldi nauðsynlegt að bregðast við og gaf út tilskipun, senatus consultum. En hvernig átti að gera almenningi kunnugt um þessa ráðstöfun þingsins? Til þess var haft Lögbirtingablað þess tíma, tilskipunin var letruð á bronstöflur og vafalaust fest upp víða; þannig gat almenningur lesið hana og vitað að hverju hann gekk. Þetta mun hafa verið algengt, en því er þessi saga alþekkt að ein af þessum bronstöflum varðveittist og fannst rúmum átján öldum síðar, nálægt þeim stað þar sem hún hafði upphaflega verið fest upp. Hún er nú hin merkasta heimild um latínu eins og við hæfi var að rita hana á þessum tíma.
En þetta sýnir einnig – og til þess renna fleiri rök – að á þessum tíma hefur lestrarkunnátta verið útbreidd á Ítalíu, svo mjög að yfirvöld gátu treyst á hana við stjórnun landsins. Í borgum voru bókasöfn, og vel stæðir einstaklingar áttu sín eigin söfn sem fóru vafalaust eftir áhugamálum hvers og eins, í Pompei fannst bókasafn epíkúringa með safni af verkum meistarans sem nú eru með öllu glötuð (ekki var hægt að lesa nema örlítið slitur úr handritunum, rétt nóg til að vita að verkin voru raunverulega eftir Epíkúros).
En nú er rétt að fara nokkrar aldir fram í tímann, til fyrsta hluta miðalda. Þá er svo komið að á Vesturlöndum er lestrar- og skriftarkunnátta nánast horfin, almenningur er ólæs, jafnt konungar sem aðrir – Karlamagnús keisari gat ekki skrifað nafnið sitt – einungis kirkjunnar þjónar kunna á bók og þeirra þekking er gjarnan völt. Sumir hafa jafnvel látið sér detta í hug að ef kirkjan hefði ekki verið til staðar með sína klausturskóla (einu skólana sem enn voru starfræktir) hefði getað farið svo að lestrarkunnátta hefði horfið með öllu, nema á Spáni, en þar var letrið arabískt. Hvað gerðist? Það vita menn ekki gjörla, en víst er að við þetta glataðist mestur hlutinn af bókakosti fornaldar, sumir hafa reiknað út að níu tíundu hlutar hans hafi gufað upp. Ekki varðveittist annað en þær bækur sem lesnar voru í skólum, svo og þær sem lágu og rykféllu öldum saman í bókaskemmum klaustra víðs vegar þangað til húmanistar fundu þær aftur á Endurreisnartímanum, eftir miklar leitir. Svo er að sjá að bókasöfn fornaldar hafi yfirleitt hlotið sömu örlög og bókasafn Magnúsar Magnússonar langafa: þau hurfu vegna þess að enginn hafði nokkurn minnsta áhuga á því sem þau höfðu að geyma og heldur ekki neina getu til að að kanna það. Fyrir bragðið getum við ekki lengur lesið nema helminginn af Rómverjasögu Tacitusar, rúmlega fimmtunginn af Rómverjasögu Liviusar, svo til ekkert af Rómverjasögu Sallústs, og einar sex hundruð stakar ljóðlínur og brot úr ljóðlínum úr hinu mikla söguljóði þjóðskáldsins Enníusar í átján bókum um fyrstu aldir Rómar, að þeim verkum ótöldum sem ekki er lengur stafkrókur eftir af, nema kannski titillinn (Ennius samdi mörg leikrit sem eru glötuð með öllu).
Þegar öllu er á botninn hvolft hafði Condorcet því rangt fyrir sér, það er ekki einungis eldur og vatn sem geta tortímt bókarmennt, andlegur sljóleiki í alls kyns gervum er enn skaðlegri. Það er til hans sem tregróf Ragnars Helga Ólafssonar vísar svo og ýmissa annarra sem hafa slegið sama streng. En hvað er að gerast í þessum samtíma okkar sem veldur þessari svartsýni? Við erum að því leyti betur sett en þeir sagnfræðingar sem eru að rýna í hrun menningar á lokatímum fornaldar að við getum skilgreint þá þróun sem nú er að ganga yfir. Hún er ekki nema angi út úr mun víðtækara vandamáli, og það er valdarán sértrúarflokks sem hefur á örskömmum tíma lagt sína dauðu hönd á gervallt mannlíf, hins harðsvíraða safnaðar tölvudýrkenda. Valdatakan gekk auðveldlega fyrir sig, án þess að menn skildu í svipinn hvað var að gerast, því hinir trúuðu gátu vísað til þeirra röksemda sem sterkust eru í mannheimum, og hafa verið það um alllangt skeið, en það er framfarakenningin, hún leyfir engar mótbárur.
Tölvuvæðingin átti semsé að vera nýtt spor fram á við, í átt til gósenlandsins, og til að hamra því inn í menn hófst geigvænlegt tölvutrúboð, boðberarnir settust að efahyggjumönnum, þuldu yfir þeim tíðindin góðu og slepptu þeim helst ekki fyrr en þeir játuðust kreddunni. Það gerðu margir í sakleysi sínu og gerðust svo sjálfir trúboðar. Á ýmsum sviðum komu yfirvöldin á tölvuskyldu, í skólum sem og opinberum skrifstofum, og geta menn séð kraftbirtingu hennar til dæmis í kvikmyndinni I, Daniel Blake.
En fljótt kom í ljós að tölvan takmarkaði sig ekki við að vera hjálpartæki í mannheimum, svo sem til að panta flugmiða, enda leyfðu loforðin um dásemdir hennar engar slíkar skorður. Í staðinn var það hún sem sveigði mannlíf allt undir sín eigin vélrænu rök, hún lokaði menn inni í tölvuheimi þar sem þeir voru bundnir á klafa. Þetta kom fljótlega í ljós, menn fóru að finna fyrir tölvuáþjáninni, skuggahliðarnar blöstu við og þær voru margar og svartar. Ég veit ekki til þess að nokkur hafi reynt að fá heildaryfirsýn yfir þetta sorglega vandamál, enda myndi það brjóta gegn Rétttrúnaðinum, og ætla ég ekki að gera það hér. Ég ætla að takmarka mig við þá hlið sem snýr að bóklestri.
Um leið og menn gengu inn í tölvuhólinn gerðist það að þeir fóru í stórum stíl að ánetjast þessari tækni – það er hér rétta orðið – þeir sátu í tíma og ótíma fyrir framan skerminn, misstu gjarnan svefn, og það kostaði þá mikla erfiðleika að slíta sig frá honum. Þetta gat jafnvel orðið eins og eiturlyfjaneysla, snjáldra varð hinn eiginlegi heimur tölvusjúklinga, og þeir þurftu læk á læk ofan í æ stærriskömmtum. Við það einangruðust þeir frá raunverulegu mannlífi – öfugt við það sem loforðin hljóðuðu upp á – og það sem var síst betra, hugsun þeirra fór inn í tölvufarveg, þeirra reynsla og þekking varð sparðatínsla, sett saman úr sundurlausum tölvutextum. Til þessa ástands rekja menn þá sálarkröm sem rannsóknir sýna að herji illilega á ungt fólk um þessar mundir, og aukninga sjálfsvíga í kjölfarið. Sumar rannsóknir benda reyndar til þess, að sögn, að hættan á sjálfsvígum unglinga standi í beinu hlutfalli við þann tíma sem þeir sitji fyrir framan skerminn, á hinum svokölluðu „samfélagsmiðlum“.
Það gefur auga leið að eitt af því fyrsta sem lætur undan þegar ástandið er orðið með þessu móti er bóklestur, þeir sem hanga nótt og nýtan dag yfir skerminum hafa vitanlega engan tíma né orku til sökkva sér niður í ritað mál. Það er líka alveg óvíst að sálarástand þeirra leyfi það, í bókum finnast engin læk. Um leið geta þeir ekki heldur náð þeirri tækni og þjálfun sem þarf til að lesa langar bækur, eftir fáeinar blaðsíður „eru þeir búnir að missa þráðinn“, eins og gjarnan heyrist. Við þetta bætist sú útbreidda skoðun að allt sem heyri fortíðinni til, og þá líka allar bækur nema hinar nýútkomnu, og jafnvel bókin sem slík, sé úrelt og komi ekki lengur neinum við.
Það er því full ástæða til að vera svartsýnn eins og Ragnar Helgi Ólafsson, en það er samt óþarfi að sökkva niður í örvæntingu. Ég verð þess var að farið er að brydda á andspyrnu gegn þeim tölvubehemot sem allt vill gleypa, hún birtist í nýyrðum eins og orðinu „tölvuþreyta“, sem farið er að tala um, eða í spurningu sem ég hef heyrt: „hvers vegna þarf að tölvuflækja þetta?“, og hún birtist í sárum áhyggjum af velferð ungmenna.
En hvað er fyrir höndum ef tölvan heldur áfram að leika lausum hala, þeim hala sem allt sópar burt? Hér er kannski rétt að syngja hinn mergjaða latneska dómsdagssálm (með sínu lagi):
Liber scriptus proferetur
in quo totum continetur,
unde mundus iudicetur.
Eða: „Þá verður lögð fram skrifuð bók sem hefur að geyma allt það sem heimurinn er dæmdur eftir“. Hér er vitanlega átt við Lífsins Bók, en hún á aldrei á neinni hættu að glatast og mun að sjálfsögðu gegna sínu hlutverki. En við getum líka heimfært orðin upp á mannlífið, og þá kemur annað í ljós. Til að dæma heiminn hverju sinni, til að skilja hann, vega og meta, þarf bóklega menntun, bækur sem hafa að geyma forn spjöll, speki og hugsun, og þær eru forgengilegar. Það er geigvænlegt að hugsa til þess ef þær glatast. Það má aldrei verða.