Brúðuheimar frumsýndu áðan splunkunýtt verk í upphæðum Þjóðleikhússins. Bernd Ogrodnik er þar allt í öllu að venju, leikritið Íslenski fíllinn er eftir hann og Hildi M. Jónsdóttur, hann hannar brúðurnar og leikmyndina, stjórnar brúðunum og semur tónlistina þar að auki. Kraftaverkamaður.
Efnið sprettur út úr fréttum undanfarin ár af vegalausu fólki vegna náttúruhamfara af ýmsu tagi auk hamfara af mannavöldum, en eins og oft er gert í barnaefni er dýr í aðalhlutverki, ekki beinlínis lítið dýr en ungt og þar með verðugur fulltrúi barns.
Fílsunginn Ayodele (Vigdís Hrefna Pálsdóttir ljær henni skýra og fallega rödd sína) missir báða foreldra sína úr þorsta og hungri vegna þurrka í Afríku. Það þótti einstaka ungum leikhúsgesti óbærilega sorglegt. Þegar Kría (Lára Jóhanna Jónsdóttir) segir Ayodele af paradísareynni Íslandi þar sem er nóg vatn ákveður hún að komast þangað. Hungruð og örþreytt ráfar hún yfir eyðimörkina, hittir eigingjarnan gíraffa (Karl Ágúst Úlfsson) sem vill ekki hjálpa henni um fæðu og verulega andstyggilegan krókódíl (Þröstur Leó Gunnarsson) sem meinar henni að drekka vatnið sitt, en loks kemst hún til sjávar. Þegar hún er að gefast upp á sundinu er hún svo bráðheppin að hitta steypireyði, sjálfa drottningu úthafanna (Ragnheiður Steindórsdóttir), sem flytur hana yfir hafið. Ekki er þó allt fengið með því. Fulltrúar andstæðinga innflytjenda eru hér í líki sauðkinda sem amast við Ayodele vegna þess að hún er öðruvísi en þær og þar af leiðandi ljót. Vandlega raddaður kórsöngur kindanna þar sem þær andmæla veru fílsins og reyna að hrekja hann burt var hrikalega fyndinn og toppurinn á sýningunni fyrir fullorðna áhorfendur!
En ekki eru allir á eyjunni jafnfjandsamlegir Ayodele. Spaugsamur og spakur hrafn (Ólafur Egill Egilsson), tvær bráðhressar mýs (Snorri Engilbertsson og Oddur Júlíusson), vitur refur (Ingvar E. Sigurðsson), kýr (Tinna Lind Gunnarsdóttir) og hestur (Stefán Hallur Stefánsson) vingast við fílsungann og þegar Ayodele bjargar kind (Edda Arnljótsdóttir) úr bráðum háska er hún hólpin. Enda þýðir nafnið hennar „endurheimt hamingjunnar“.
Sýningin er undurfalleg eins og vænta mátti. Fæðing Ayodele er orðlaus skuggamyndasýning í undursamlegri afrískri birtu; á ferðalagi hennar yfir höf og lönd rennur landslagið hjá á breiðum renningi sem verður svo ennþá breiðari þegar hinar fúlu kindur bætast í hópinn. Ólafur Ágúst Stefánsson sá um lýsinguna sem var listaverk út af fyrir sig. Brúðurnar eru í ýmsum stærðum eftir því í hvaða fjarlægð þær eru frá okkur en allar vel gerðar. Einkum er Ayodele sjálf frábærlega gerð en næstar henni vil ég setja mýsnar sem voru mikil uppspretta hláturs í salnum. Textinn var þrælfyndinn og leikinn af innlifun enda slíkt úrvalslið leikara kallað til að til fyrirmyndar er. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.
Bernd og Hildur leyna því ekki fyrir ungum áhorfendum að lífið er erfitt þeim sem verða að flýja heimkynni sín og oft heyrðust sár andvörp í salnum þegar verst gekk hjá Ayodele. En boðskapurinn er skýr: Við getum hjálpað. Hér ER nóg vatn handa öllum þyrstum.