„Ég skil bara ekki hvernig þetta er hægt,“ sagði sessunautur minn, séra Ragnheiður, að lokinni frumsýningu á Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason, Berg Þór Ingólfsson leikstjóra, Kristjönu Stefánsdóttur tónskáld og Chantelle Carey danshöfund á stóra sviði Borgarleikhússins. Hún átti við frammistöðu barnanna í sýningunni, hvernig þau, svona ung, gátu leikið, sungið, dansað, farið flikk flakk og heljarstökk aftur á bak og áfram eins og þrautþjálfaðir fagmenn. Ég segi það undir eins: Þessi sýning er undur.
Satt að segja hef ég unnað Sögunni af bláa hnettinum frá því hún kom fyrst út árið 1999. Ástæðan er sú að hún er efnismikil, hrífandi vel skrifuð og spennandi en þó fyrst og fremst er hún með svo stórt hjarta. Þetta hjarta varðveitir Bergur Þór í leikgerðinni og uppsetningunni svo mér er til efs að það hafi verið þurrt auga í salnum í sýningarlok – alla vega ekki mín augu.
Sagan gerist á Bláa hnettinum. Þar búa eingöngu börn – enginn veit hvers vegna – og þau eru hamingjusöm enda alfrjáls. Enginn segir þeim fyrir verkum eða agar þau. Þau una sér alla daga við leik og öflun fæðu og allt árið hlakka þau til hamingjudagsins mesta þegar fiðrildin fljúga úr helli sínum. Daginn eftir að það gerist þetta árið lendir geimfar þeim megin á hnettinum sem við erum og út stígur einkennilegur náungi, Glaumur segist hann heita, Geirmundsson (Björn Stefánsson), og hann er geimryksugufarandsali. Glaumur – sem börnin uppnefna fljótlega og kalla Gleði-Glaum – sannfærir börnin um að þvert ofan í það sem þau halda séu þau ekkert glöð! Það sé ekkert merkilegt að leika sér með vinum sínum, langar þau ekki til dæmis til að fljúga?
Hvern langar ekki til að fljúga? Þau kaupa fiðrildaduft af Glaumi til að fljúga með, hann klæðir þau tefloni til að óhreinindi festist ekki við þau og þau þurfi ekki að eyða tíma í að baða sig. Þegar þeim leiðist að geta bara flogið meðan sólin skín neglir hann sólina fasta á himininn svo að aldrei komi nótt. Fyrir þessi fríðindi greiða þau smám saman með æsku sinni sem Glaumur er að safna. Mig svimar þegar ég hugsa um allar skírskotanirnar sem þessi einfalda saga um græðgi og fíkn hefur.
Þegar Brimir og Hulda (Gunnar Hrafn Kristjánsson og Guðríður Jóhannsdóttir á frumsýningu) fara í kapp einn daginn um hvort þeirra geti flogið lengra og hærra villast þau yfir á hinn hluta hnattarins og missa flugið þegar ekki nýtur lengur sólar. Þar hitta þau börn sem búa við eilíft myrkur og eru að veslast upp af hungri og kulda. Söngurinn sem börnin þar syngja um daginn sem aldrei kom af því sólin reis ekki eins og hún var vön var einstaklega áhrifamikill, bæði lag og texti.
En þó að Brimir og Hulda vilji allt gera fyrir börnin í myrkrinu þegar þau komast sjálf aftur heim í ljósið þá er ekki auðvelt að sannfæra félagana um að fórna hinu eilífa sólskini fyrir ókunnuga. Hvort og þá hvernig það tekst er fyrir ykkur að uppgötva þegar þið farið að sjá þessa makalausu sýningu.
Gunnar Hrafn og Guðríður voru dásamleg í aðalhlutverkunum en freistandi er að nefna fleiri börn sem verða lengi minnisstæð, til dæmis þau Erlen Isabellu Einarsdóttur í skemmtilegu hlutverki Eydísar hinnar spöku, Björgvin Inga Ólafsson sem söng svo fallega í hlutverki Örvars og Grímu Valsdóttur sem var svo ísmeygileg í hlutverki Lóu. En ég ítreka: Þau voru öll ótrúlega góð. Og það var sannarlega ekki leiðinlegt að heyra þau syngja lögin hennar Kristjönu Stefánsdóttur sem voru hvert öðru söngvænna. Það er tilhlökkunarefni að fá þau á hljómdiski.
Aðeins þrír fullorðnir leikarar eru í sýningunni, Guðmundur Elías Knudsen sem leikur hýenuna í dimma skóginum, Hjörtur Jóhann Jónsson sem leikur skógarbjörninn og syngur blús hans af mikilli einlægni, og loks Björn Stefánsson sem leikur Gleði-Glaum af verulega óþægilegri innlifun. Látæði hans, fimi, lifandi svipbrigði og einstök snerpa gerðu hann ósjálfrátt að þeim senuþjófi sem hann á auðvitað að vera. Ég taldi ekki hvað hann skipti oft um búninga, kannski þrjátíu sinnum, og hann var snöggur að því.
Búningarnir hennar Maríu Th. Ólafsdóttur voru afar fjölbreyttir. Ekki var reynt að láta börnin líta eins út, þvert á móti – nema þegar þau ætla í stríð, þá þrammaði einsleitnin með ljótleikanum inn á sviðið. Sviðið hennar Ilmar Stefánsdóttur er hæfilega hrikalegt til að við skynjum að það er ekki hættulaust að búa á Bláa hnettinum en himinn þess er undurfagur. Þar bættist við lýsing Þórðar Orra Péturssonar sem dýpkaði og stækkaði og þrengdi að eftir því sem þörfin krafði.
Þetta var fögur upplifun. Og það er sérstakt fagnaðarefni hvað við eigum ólýsanlegan fjársjóð í börnunum okkar, svo óendanlega hæfileikaríkum og örlátum á þá hæfileika. Innilegar hamingjuóskir, allir hinir ótalmörgu aðstandendur þessarar hjartastóru sýningar.