Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi í gærkvöldi á stóra sviði Borgarleikhússins Óskaland eftir bandaríska leikskáldið Bess Wohl í lipurri þýðingu Ingunnar Snædal. Hilmir Snær Guðnason leikstýrði en Börkur Jónsson gerði áferðarfallega en gelda leikmyndina sem reyndist vera góð mynd af lífi fólksins í húsinu. Búningar Urðar Hákonardóttur voru vel við hæfi, einkum var snjallt að klæða utanaðkomandi persónur í mun litríkari föt en heimafólk. Þar kom líka til skemmtileg vinna Guðbjargar Ívarsdóttur sem sá um leikgervi. Moses Hightower samdi tónlistina en Þorbjörn Steingrímsson sá um hljóðið, hvort tveggja dálítið groddalegt sem rímaði ágætlega við sýninguna að öðru leyti.

Við sjáum í byrjun leiks hjón sem eru að setjast að borðum. Þau virðast vera einkar samhent, alveg ljóst hvort þeirra á að gera hvað í undirbúningi máltíðarinnar, orðalaust, enda hafa þau Nanna og Villi (Sigrún Edda Björnsdóttir, Eggert Þorleifsson) verið gift í hálfa öld. En fyrsta setningin sem Nanna segir er ekki í samræmi við þessa kyrrlátu heimilismynd því hún segist vilja skilja – og Villi samþykkir það undireins. Það kemur raunar í ljós í framvindunni að leyndur vandi þessa hjónabands er einmitt þögnin, hjónin hafa „aldrei rifist“, eins og börnin þeirra klifa á, og heldur aldrei sagt hvort öðru hvernig þeim líður, hvað honum finnst um matinn hennar og hvernig henni finnst hann standa sig í bólinu. Þögult samkomulag er þeirra lífsleið. Þó reynast þau vita sitthvað hvort um annað. Þegar leyndarmálin koma úr kafinu veit Villi um duldar tilfinningar Nönnu til annars manns („ekki leyna augu er ann kona manni“) og Nanna veit allt um Körlu (Katla Margrét Þorgeirsdóttir). Þetta er býsna vel hugsað hjá höfundi.

En Nanna og Villi fá sannarlega ekki að skilja í sömu ró og spekt og þau hafa lifað. Synir þeirra, Benni og Baldur (Jörundur Ragnarsson, Vilhelm Neto), eru æfir yfir tilhugsuninni og setjast upp hjá foreldrum sínum til að telja þeim hughvarf. Með í för er kona Benna, Júlía (Esther Talía Casey), háólétt. Nú taka við nokkrir dagar þar sem miðaldra börnin reyna að fá foreldrana til að skipta um skoðun og dægrin runnu hjá án viðstöðu (með hjálp ljósabeitingar Gunnars Hildimars Halldórssonar) með sínum stöku viðburðum. Annar hápunkturinn var þegar við komumst að því með hvelli að Villa er ekki eins mikið sama um þróun mála og hann lætur, hinn var næturævintýri Baldurs með Tomma, félaga af djamminu sem Fannar Arnarsson lék afar fjörlega. Reyndar finnst mér eftirá að hyggja að honum hafi liðið einna best á sviðinu, hann gerði Tomma svo sannfærandi slakan og einlægan – fyrir honum voru þetta einföld skyndikynni sem ástæðulaust var að flækja, annars væri hann farinn!

Valið á þessu verki er skiljanlegt því að það býður upp á sérlega bitastæð hlutverk fyrir vinsæla eldri leikara og Eggert og Sigrún Edda bregðast ekki. Einkum fannst mér Sigrún Edda njóta sín, ekki síst í samspili þeirra Kötlu Margrétar sem var stórkostlega yfirdrifin sem viðhald Villa. Benni á að vera taugastrekkt týpa og var allan tímann eins og festur upp á þráð, það varð nokkuð einhæft þó að Jörundur ráði vel við þessa týpu. Yngri sonurinn er allt annars eðlis og Vilhelm vann honum talsverða samúð. Júlía Estherar Talíu var nokkuð dæmigerð menntuð bandarísk millistéttarkona eins og við þekkjum þær úr bíómyndum en kannski hefur hún smitast af tengdamóður sinni þannig að líf hennar breytist eftir þessa heimsókn.

Hvaða ályktun má svo draga af verkinu? Að börn manns haldi áfram að vera börn og bregðast við eins og átta ára þó að þau verði miðaldra? Já, efalaust. En fyrst og fremst er Bess Wohl að biðja fólk um að tala saman, segja hug sinn áður en það er um seinan. Það gildir um fólk hvar sem það býr en verkið er samt mjög bandarískt. Vissulega er það staðfært í orði kveðnu en þótt Nanna og Villi búi á Selfossi erum við alltaf í Ameríku – nema kannski meðan við hlustum á veðurfregnirnar í upphafi.

Silja Aðalsteinsdóttir