Fyrsta frumsýning haustsins á stóra sviði Þjóðleikhússins var í gærkvöldi á ærslaleiknum Eltum veðrið eftir leikhópinn og Kjartan Darra Kristjánsson. Leikstjórn er einnig í höndum Kjartans Darra og leikhópsins en frábært tjaldsvæðið á sviðinu gerði Ilmur Stefánsdóttir. Þórhildur Sunna Jóhannsdóttir klæddi útilegufólkið í býsna dæmigerða búninga, allt eftir persónugerð og efnahag, nema hvað eitt parið skar sig úr, auk þess sem „þemað“ setti strik í reikninginn á tímabili. Tónlistin var fjörleg og söngvæn í Stuðmannastíl, hún var eftir Sváfni Sigurðarson og bráðskondna textana gerði hann líka í samstarfi við leikhópinn, einkum Hallgrím Ólafsson. Myndbönd eru skemmtilega notuð, þau gerðu Ásta Jónína Arnardóttir og Kjartan Darri. Lýsinguna hannaði Jóhann Bjarni Pálmason en Aron Þór Arnarsson sá um hljóðhönnun.

Öll eigum við minningar úr útilegum – frá bernskuárunum eða seinni tíma – með fjölskyldu, vinum, á útihátíðum eða með löggiltum ferðafélögum. Þær eru eins mismunandi og þær eru margar og sagan segir að við sköpun þessa leikverks, Eltum veðrið, hafi leikhópurinn safnað saman miklu magni af sögum úr eigin reynslu og annarra; afar margar ganga – eðlilega – út á úrgang. Eitt er alveg greinilegt: þau hafa skemmt sér óguðlega við að semja textann og spinna bláþráðinn sem heldur honum saman. Leikgleðin sauð í hópnum og nokkrum sinnum sviptu þau burt blekkingunni og minntu á að þau væru leikarar að leika leikrit á sviði fyrir fullan sal af fólki. Þau uppskáru háværan hlátur fyrir það eins og annað grín.

Við erum stödd á tjaldsvæði á ónefndu landsvæði í bongóblíðu. Fyrir eru á staðnum umsjónarmaðurinn David (Þröstur Leó Gunnarsson) og eilífðarsóldýrkandinn Tommi (Sigurður Sigurjónsson) í sínum húsbíl. Á sviðinu er líka lítið kúlutjald sem verður hastarlega fyrir stóra glæsihjólhýsinu þeirra Guðrúnar og Stefáns (Ilmur Kristjánsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson) þegar þau aka því inn á sviðið. Þau færa litla tjaldið auðvitað frá, af því að þau eru „aðal“. Ragna og Andri (Eygló Hilmarsdóttir, Hallgrímur Ólafsson) eru sein en koma þó – vonandi með lærið. Þá vantar bara Hjálmar (Hilmar Guðjónsson) sem er ástæða þessa samfundar gamalla vina. Við fáum veður af því í samræðum Davids og Tomma að þetta fólk hafi líka verið þarna í fyrra og þá hafi orðið banaslys. Konan sem dó var eiginkona Hjálmars og nú ætla vinirnir (undir stjórn Guðrúnar) að hjálpa honum að komast yfir sorgina. En Hjálmar kemur þeim hastarlega á óvart með því að kynna Svandísi (Hildur Vala Baldursdóttir) sem nýja kærustu og er ekki vitund sorgmæddur. Hvað á það að þýða – og hvað er þá til ráða?

Ekki er rétt að rekja söguþráð verksins frekar, sjón er sögu ríkari, auk þess eru áhorfendur komnir til að njóta leikaranna frekar en textans. Þeir brugðust heldur ekki, hver um sig bjó til sína sérstöku manngerð og fór létt með það. Ekki var ljóst hvers vegna David þurfti að vera útlendur því ekki heyrðist það á mæli hans, kannski var það til að hann mætti vera hermannlegur í framgöngu sem fór Þresti Leó ágætlega. En hrekkirnir voru alíslenskir. Tommi var hinn dæmigerði Íslendingur með sitt töfraduft sem var jafngott út í kaffi og á hælsæri og Sigurður þurfti lítið að gera til að við værum fullkomlega með á nótunum. Í höndum Ilmar varð Guðrún þessi ómissandi stjórnsama gæðakona sem er hryggjarstykki íslensku þjóðarinnar og Gói var hinn dæmigerði eiginmaður þeirrar konu, góður skaffari, undanlátssamur og vænn. Andri og Ragna eru af aðeins öðru sauðahúsi en nauðsynleg hinni stjórnsömu Guðrúnu svo að hún megi njóta sín til fulls, Eygló fór vel með vínhneigð Rögnu og Andri Hallgríms var þessi dásamlegi gaur sem snýr sig út úr öllu í hvelli. Hjálmar er geðgóður og þægur í túlkun Hilmars og hefur passað í þennan hóp meðan Dóra hans lifði en nú hefur líf hans tekið aðra stefnu. Því að Svandís er af allt öðru tagi en þau hin og brýtur upp heildina. Hún er eins og álfamær í tröllahöndum. En hún er heldur ekki öll þar sem hún er séð og mikið hlýtur að vera hressandi fyrir Hildi Völu að fá að vera heit og eldfjörug eftir allt Frostið!

Áður en ég hætti og kveð verð ég nefna að á einum stað bregða leikararnir sér í gervi vera af öðru tagi og syngja og dansa sem þær, og þó að mörg atriði í Eltum veðrið séu afbragðsgóð fær það atriði fyrstu verðlaun frá mér.

Silja Aðalsteinsdóttir