Haraldur Sigurðsson: Samfélag eftir máli. Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi.

Sögufélag, 2023.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2024.

 

Það er til ágætis samkvæmisleikur, sem á einhvern óskiljanlegan hátt hefur ekki enn verið tekinn fyrir í áramótaskaupinu, sem myndi ekki beinlínis gera samkvæmið betra – heldur bókstaflega eyðileggja það. Ímyndið ykkur að einhver myndi ganga inn í fermingarveislu/stúdentsveislu/fimmtugsafmæli, stilla sér upp í stofunni miðri og spyrja: „Hvað finnst ykkur svo um Borgarlínuna?“ Friðurinn væri senn úti, svo mikið væri víst. Og því kannski best að leiðrétta að slíkur samkvæmisleikur væri ekki ágætur, heldur afleitur. En fyrir 40 árum hefði spurningin „Hvað finnst ykkur um Kringluna?“ líklega vakið svipuð viðbrögð. Og það er fullkomlega eðlilegt. Heitar umræður sem þessar eru eingöngu til marks um hve skipulag og skipulagsmál skipta okkur miklu máli, hve sterkar skoðanir við höfum á mótun umhverfisins í kringum okkur, hvernig við viljum ráðstafa því og nýta það.

Í bókinni Samfélag eftir máli: Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi fer Haraldur Sigurðsson, skipulagsfræðingur, farið í saumana á þeim öflum sem hafa mótað skipulagsmál og þróun þeirra, bæði almennt í hinum vestræna heimi, hvaðan helstu áhrif berast, sem og uppruna og þróun þeirra á Íslandi. Talsverð vöntun hefur verið á slíku yfirlitsriti um skipulagsmál á Íslandi. Bæirnir byggjast eftir Pál Líndal hefur hingað til verið helsta ritið sem fagfólk og annað áhugafólk um skipulagsmál hefur leitað í, en það kom út árið 1982. Ekki má heldur vanmeta þátt þeirra Guðjóns Friðrikssonar og Eggerts Þórs Bernharðssonar, sagnfræðinga, sem lögðust í það stórvirki að skrifa sögu Reykjavíkur á 10. áratug síðustu aldar þar sem uppbygging þéttbýlis og skipulagsmál eru jafnan áberandi.[1] Öll þessi rit koma enda við sögu hjá Haraldi, sem sýnir umfram allt gæði þessara verka og að þau standast tímans tönn. Þá má ekki gleyma framlagi Trausta Valssonar, skipulagsfræðings, á löngum og farsælum ferli við rannsóknir á skipulagsmálum hérlendis sem erlendis. Þessi listi er ekki tæmandi. En í bók Haraldar kveður við annan tón en í fyrrnefndum verkum. Bók hans er yfirgripsmeiri og metnaðarfyllri en áður hefur sést í þessum flokki bóka.

Haraldur, sem er mörgum að góðu kunnur sem skipulagsfulltrúi í Reykjavík en er einnig með menntun í sagnfræði, vann að verkinu um árabil meðfram störfum sínum fyrir borgina – þar sem hann hefur gegnt lykilhlutverki við mótun tímamótaverkefna í skipulagsmálum í Reykjavík. Þar ber fyrst að nefna annars vegar Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, þar sem Haraldur var verkefnisstjóri og helsti ráðgjafi, og hins vegar Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Þó svo að Haraldur starfi við skipulagsgerð í Reykjavík fer því fjarri að viðfangsefni bókarinnar takmarkist við skipulagssögu borgarinnar. Í viðtali við Torgið, fréttabréf Skipulagsstofnunar, sagði Haraldur að

[h]vatinn að skrifunum var að skapa betri þekkingu á sögunni þannig við gætum lært af skipulagsákvörðunum fortíðarinnar og stuðlað að betri skipulagsgerð til framtíðar litið. Í bókinni er hins vegar ekki verið að draga sérstaklega fram einstakar ákvarðanir eða áætlanir sem við gætum kallað mistök og ég forðast að setjast í dómarasætið í þeim efnum. En það sem rak mig áfram í skrifunum á seinustu árum er þörf mín til að skilja betur eðli og tilgang skipulagsgerðar og horfa á hana í hinu stóra samhengi, fræðilega og alþjóðlega, í raun að skrifa til að víkka út eigin huga.[2]

Hógværð höfundar skín í gegn í þessu tímamótaverki. Hógværðin felst einkum í því að Haraldur dæmir ekki fyrri tíma skipulagsgerð. Hann rekur þannig sögu þéttbýlismyndunar og skipulagsmála á Íslandi og tekst um leið að setja lesendur í spor þeirra sem tóku ákvarðanir á hverjum stað og tíma, gjarnan í samhengi við söguna og stöðu þekkingar innan lands og utan. Á einhverjum stöðum má vissulega greina ákveðna kankvísi, eins og þegar fjallað er um eitt umdeildasta skipulagsmál í sögu landsins:

Þegar Bretar færðu íslensku þjóðinni flugvöllinn til eignar í júlí 1946 þá var það Ólafur Thors forsætisráðherra sem veitt Reykjavíkurflugvelli „viðtöku“ og ávarpaði samkomuna, en ekki borgarstjórinn Bjarni Benediktsson. Í ljósi efasemda margra bæjarbúa um staðsetningu flugvallar í hjarta bæjarins var það ef til vill viðeigandi að það væri ekki borgarstjórinn sem þakkaði Bretum þessa gjöf.[3]

Á sama tíma og við fáum innsýn í mál sem hefur ekki aðeins verið umdeilt á síðari tímum, heldur allt frá byrjun, fer Haraldur heldur ekki of langt í að draga lesendur á eina eða aðra skoðun, heldur leggur spilin á borðið – sem raðast oftar en ekki skemmtilega upp. Þessi tónn er gegnumgangandi alla bókina og er það vel. En að því sögðu þá liggur hér mun meira til grundvallar. Skipulagsmál eru í eðli sínu flókin en um leið einföld. Þau snerta á félagslegum, efnahagslegum, sálfræðilegum, verkfræðilegum, líffræðilegum, lagalegum og lýðheilsulegum þáttum, svo fátt eitt sé nefnt. Sá síðastnefndi fær veigamikinn sess í bókinni enda voru lýðheilsumál einn helsti drifkraftur í því að skapa lagalega umgjörð um skipulagsmál í upphafi 20. aldar, þegar réttmæt krafa um bættar aðstæður alþýðufólks með tilliti til húsnæðiskosts varð æ háværari. Áhrif garðborgar Ebenezers Howards voru þar greinileg. Garðborgin snerist um það að skapa umgjörð fyrir heilnæmt sveitalíf í borginni, þar sem vistarverur fólks væru skornar frá skarkala iðnaðar- og atvinnusvæðum hennar. Að fólk hefði kost á björtu húsnæði þar sem var hreint loft og hægt að viðhafa hreinlæti, með salerni og rennandi vatni og hefði aðstöðu til að geyma og elda matvæli (sem var reyndar einnig helsta hugsjón módernismans sem síðar kom). Á þessum tíma voru læknar framarlega í skipulagsumræðunni, þeirra fremstur Guðmundur Hannesson, sem skrifaði einmitt fyrsta alvöru ritið um skipulagsmál á Íslandi á fyrstu áratugum 20. aldar. Haraldur setur hugmyndir Guðmundar í samhengi við alþjóðlega strauma í skipulagi út frá íslenskum veruleika og gerir það listilega vel. Þegar þarna var komið við sögu var alls ekki óeðlilegt að læknir hafi reynst slíkur áhrifamaður og í raun tímanna tákn, þar sem skipulagsmál á Íslandi voru svo að segja hvítur strigi og fræðileg þekking á málaflokknum afar takmörkuð. Haraldur rifjar í því samhengi upp einkar viðeigandi ummæli Guðmundar: „Íslensk byggingarlist lá öldum saman undir grænni torfu“. Annars má velta fyrir sér hvers vegna læknar láta ekki meira í sér heyra þegar kemur að skipulagsmálum í dag, þar sem helstu lífsstílstengdu sjúkdómar samtímans tengjast með einum eða öðrum hætti því samfélagi sem við höfum skapað í kringum samgöngur og (of)neyslu, sem er innrammað í (bíla)skipulag. En það er önnur saga.

Eins og glöggir lesendur átta sig kannski á, vísar titill bókarinnar til smásögu eftir Svövu Jakobsdóttur, Eldhús eftir máli, sem kom fyrst út í bókinni Veizla undir grjótvegg árið 1967. Sagan fjallar í stuttu máli um mann, Ingólf, sem ætlar að teikna upp hið fullkomna eldhús, eldhús sem verður svo fullkomið að þar þurfi aldrei að sóa einu handtaki – ekki eyða neinni umframorku. Eldhúsið hannar hann vitaskuld ekki fyrir sjálfan sig, heldur eiginkonu sína sem er, á táknrænan hátt, nafnlaus. Ingólfi tekst að hanna útópíska eldhúsið sitt, að hans mati paradís hinnar heimavinnandi húsmóður, án þess þó að hafa nokkurn tímann spurt nafnlausu eiginkonuna um hvernig henni fyndist eldhúsið, hvort hún gæti séð fyrir sér að nota það, eða hvort hana langaði yfir höfuð að dvelja löngum stundum í eldhúsi.

Þarna tókst Svövu að kjarna þær samfélagsbreytingar sem einkenna nútíma- og tæknivæðingu vestrænna samfélaga frá upphafi 20. aldar, þar sem umhverfi okkar, bæði innandyra sem utan, athafnir okkar, í starfi og frístundum, hefur verið hólfað niður og skipulagt svo „vélin“ gangi eins og smurð. Karlinn var vitaskuld táknmynd yfirvalda, og yfirvaldið er um leið karlinn, samfélag hannað af körlum, fyrir karla. Þessi vísun passar fullkomlega fyrir bók Haraldar, þar sem hann tekur ekki aðeins tillit til hinna fjölda fræðilegu þátta sem áður var minnst á, heldur skoðar einnig sögu skipulagsmála með kynjagleraugum – en þar er af mörgu að taka. Það á ekki síst við þegar kemur að bílaborginni sem var sköpuð víða um heim um miðja 20. öldina, eða eins og Haraldur segir sjálfur, „það er óhjákvæmilegt að skoða stórkarlalegt gatnaskipulag einkabílsins og úthverfavæðingu hversdagslífsins, með tilheyrandi auknum aðskilnaði almannasviðsins og einkasviðsins, með gleraugum kynja- og kvennasögunnar.“[4]

Þegar kemur að öðrum fræðilegum þáttum tekst Haraldi það einkar vel úr hendi að halda þessum boltum á lofti, án þess að missa athygli lesanda. Efnahagslegir þættir voru t.a.m. ráðandi þegar kom að mótun þéttbýlis á Íslandi, sérstaklega á millistríðsárunum og fram á 6. áratug síðustu aldar. Verð á aðfluttum efnum, lánakjör til framkvæmdaaðila og staða bæjarsjóða réði því miklu um hvert skyldi stefna, t.d. þegar kom að sérbýlisstefnu annars vegar og gerð fjölbýlishúsa hins vegar – en þar er einkar áhugaverð aðkoma Jónasar H. Haralz, hagfræðings og síðar bankastjóra, sem hafði kynnt sér húsnæðisstefnu í Svíþjóð þar sem fjölbýlisstefnan var áberandi.[5] Haraldur vekur okkur einnig til umhugsunar um hve mikið af bestu byggingarsvæðum borgarinnar, í suðurhlíðum Skólavörðuholts eða Landakotstúns, voru frátekin fyrir „eins konar villubyggð með ríflegum forgörðum til suðurs.“ Í öðrum borgum á Norðurlöndum og á meginlandi Evrópu, þar sem gætti áhrifa garðborgarhreyfingarinnar, eins og var vissulega raunin í Reykjavík snemma á 20. öld og fram eftir millistríðsárunum, voru þessi svæði einmitt notuð sem byggingarsvæði fyrir húsnæði alþýðufólks, ekki hinna sem mest áttu.[6]

En það voru fleiri öfl að verki, og eitt þeirra mætti kalla örlög, eða heppni. Til dæmis hvernig skipulagsdeild Reykjavíkur var í allt í einu skipuð ungu og kraftmiklu fólki með alþjóðlega reynslu einmitt þegar eitt mesta húsnæðisátak í sögu borgarinnar gekk í garð. Þar má nefna Gunnar H. Ólafsson, Gunnar Hansson, Aðalstein Richter og auðvitað Einar Sveinsson, húsameistara Reykjavíkur frá 1934 til dauðadags, 1973. Þá verður sérstaklega að minnast á þátt Kristínar Guðmundsdóttur, sem var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka gráðu í innanhússarkitektúr – en klassísk hönnun eldhúsa hennar má enn víða finna í fjölbýlishúsum í Reykjavík. Okkar eigin Margarethe Schütte-Lihotzky, ef svo má að orði komast, konan sem hannaði Frankfurtar-eldhúsið. Eldhúsið má alls ekki gleymast, besta partýið er alltaf í eldhúsinu.

Uppbygging bókarinnar er rökrétt, þar sem lesendur eru leiddir í gegnum tilurð skipulagsfræða, alþjóðlega og á Íslandi, í sex köflum sem þræða okkur til ársins 1966 þegar Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 var samþykkt. Það er sérstaklega til hróss að alþjóðlegi þráðurinn er aldrei langt undan – og sömuleiðis er rétt að vekja athygli á nokkurs konar ritgerðum sem eru á milli kafla, „Hin náttúrulegu heimkynni mannsins,“[7] hin stórgóða „Blaðið er ekki lengur autt,“[8] „Jane Jacobs. Manneskjulegri og kvenlægari raddir vakna,“[9] og að lokum „Efasemdir um nútímann.“[10] Ritgerðirnar brjóta upp formið og gefa lesendum enn og aftur tækifæri á leggja eigið mat á viðfangsefnið, eins og það er margslungið og um leið einfalt.

Og hvernig einfalt? Í grunninn snúast skipulagsmál um það hvernig við förum með landgæðin okkar, hvernig við ákveðum að haga uppbyggingu húsnæðis og annarra framkvæmda, hvernig við kjósum að nýta landið og vernda það. Frá sjónarhorni almennings sem býr í þéttbýli höfum við svo mismunandi þarfir, kannski hefur grunnskólabarn aðrar þarfir en eldri borgarinn, eða hvað? Flest viljum við eiga kost á því að geta gengið að góðum almenningssvæðum vísum, við viljum að börnin okkar geti gengið í skólann án þess að vera ekin niður á leiðinni og það sakar ekki að geta labbað í helstu verslun og þjónustu innan hverfis. Einfalt, en samt svo flókið.

Það eru þessar andstæður sem takast sífellt á og það gera þær á Íslandi jafnt sem annarsstaðar. Í bókinni er einmitt að finna frábæra tilvitnun í leikskáldið Jökul Jakobsson sem skrifar um Reykjavík árið 1953, að hún sé „undarleg borg andstæðna og mótsagna … einkennilegt sambland smáþorps og stórborgar, menningar og ómenningar, liðins tíma og nýrrar aldar, skipulags og skipulagsleysis, fátæktar og ríkidæmis, gróinnar arfleifðar og ringulreiðar, sögu og örlögleysis.“[11] Allt þetta fangar Haraldur Sigurðsson einstaklega vel. Bókin er þá enn ein rósin í hnappagat Sögufélags, sem hefur á undanförnum árum fundið nýjan tón í útgáfu fræðibóka, sem eru í senn einkar læsilegar og aðgengilegar án þess að gefa nokkurn afslátt á fræðilegri nálgun höfunda á viðfangsefni sín. Í þessum flokki má til dæmis nefna Farsótt, eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur, eða Andlit til sýnis, eftir Kristínu Loftsdóttur, auk annarra sem hafa vakið verðskuldaða athygli. Þá má ekki gleyma að minnast á framúrskarandi myndaritstjórn bókarinnar sem á lykilþátt í velgengni verksins. Fjöldi ljósmynda sem hefur ekki verið birtur áður prýðir bókina og það sama á við um skipulagsuppdrætti sem eru mikið augnayndi og í raun ómissandi við að gera Samfélag eftir máli að því burðarverki sem það kemur til með að vera um ókomna tíð.

 

Björn Teitsson

 

 

Tilvísanir

[1] Guðjón Friðriksson: Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar. 1870-1940. I-II, Reykjavík, 1991-1994.

Eggert Þór Bernharðsson: Saga Reykjavíkur. Borgin. 1940-1990. Reykjavík, 1998. Fyrsti hluti þessa stórvirkis, Saga Reykjavíkur – Í þúsund ár 870-1870, eftir Þorleif Óskarsson, kemur skiljanlega minna við sögu í heimildaskrá Samfélags eftir máli.

[2] „Að skapa betri þekkingu á sögunni“. Torgið. Fréttabréf Skipulagsstofnunar. Vor, 2024. Bls. 9. https://www.skipulag.is/media/attachments/Torgid_Frettabref_Skipulagsstonun_8tb_april2024_LQ.pdf

[3] Bls. 257.

[4] Bls. 338.

[5] Bls. 300.

[6] Bls. 227.

[7] Bls. 47-54.

[8] Bls. 284-289.

[9] Bls. 390-393.

[10] Bls. 364-374.

[11] Bls. 302.