Þórður Helgason: Alþýðuskáldin á Íslandi, saga um átök
Hið íslenska bókmenntafélag, 2023. 424 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2024.
Í hinu viðamikla verki sínu Alþýðuskáldin á Íslandi, saga um átök leiðir Þórður Helgason lesendur inn í veröld sem flestum er sennilega með öllu framandi, og kannski illskiljanleg þótt ekki séu nema hundrað ár liðin frá lokum þess tímabils sem fjallað er um. Þar segir frá deilumálum sem risu hátt og hleyptu illu blóði í menn en flestum finnst nú að séu löngu útkljáð og hafi ekki skipt neinu máli þegar upp var staðið, því niðurstöðurnar hafi hvort sem er verið fyrirsjáanlegar. Sennilega myndu nú flestir álíta að rímnakveðskapur alþýðuskáldanna hafi að miklu leyti verið lítt merkilegur leirburður um lítt áhugaverð efni og vörnin fyrir hinni fornu sveitamenningu fyrirfram töpuð, innrás nútímans varð ekki stöðvuð. En gildi verksins er ekki síst fólgið í því að það flytur lesandann mitt inn í átökin, inn í þann tilfinningaheim sem þau voru sprottin úr og gerir honum ljós þau rök sem voru á bak við þau.
Í orði kveðnu fjallar verkið um „alþýðuskáldin“ og deilur þeirra við „lærðu skáldin“, en þegar betur er að gáð kemur í ljós að um er að ræða tvenns konar deilur, annars vegar orðasennur um rímur og skyldan skáldskap sem naut mikillar hylli meðal alþýðu en ýmsir aðrir höfðu horn í síðu á, og hins vegar skiptar skoðanir um hina fornu sveitamenningu og þann „nútíma“ sem farinn var að ógna henni í æ meira mæli. Þessar deilur féllu að sumu leyti saman en að sumu leyti ekki, og væri því skýrara að halda þeim aðskildum.
Fyrri deilan stóð á milli „alþýðuskáldanna“ svokölluðu og þeirra sem fengið hafa heitið „lærðu skáldin“ og er þá miðað við að fyrri skáldin hafi verið óskólagengin, aðeins fengið svokallaða alþýðufræðslu, og iðkað hefðbundinn íslenskan skáldskap enda ekki þekkt neitt annað, en hin síðari komið úr Lærða skólanum eða Latínuskólanum í Reykjavík, gjarnan stundað nám við háskólann í Kaupmannahöfn, og kynnst stefnum og straumum samtímans í bókmenntum. Þess ber þó að gæta að alþýðumenntun í skólum og heimakennslu var af skornum skammti og sjóndeildarhringur alþýðunnar næsta þröngur. Á Íslandi var naumast hægt að tala um neina „menntamannastétt“ í þeirri víðu merkingu sem orðið hafði í öðrum löndum, það er að segja sérstaka stétt sem gæti haft áhrif á almenning sem slík. Hlutverk Lærða skólans var að ala upp verðandi presta og sýslumenn (og síðar verðandi lækna), það er að segja yfirvaldið í landinu, „varðhunda kerfisins“ eins og sagt hefði verið á öðrum tímum, og gera þessa pilta færa um að stunda nám í háskólanum í Kaupmannahöfn ef verða vildi í viðkomandi námsgreinum. Þetta hlutverk var svo skýrt að sú hugmynd var á kreiki, sem Jónas frá Hriflu hrinti síðan í framkvæmt um skeið, að takmarka tölu skólapilta við áætlaða þörf landsins fyrir þessar ákveðnu menntastéttir. Meðal þessara námsmanna leyndust vitaskuld einhverjir sem horfðu út yfir þennan þrönga ramma en þá fóru þeir í rauninni út fyrir kerfið og framtíð þeirra óviss nema ef þeir gerðust prestar eða sýslumenn. Það var helst með stofnun blaða og tímarita að fram kom einhver vísir að raunverulegri menntamannastétt í erlendri merkingu orðsins.
Milli þessara menntamanna sem höfðu verið ungaðir út í Lærða skólanum og svo alþýðu manna gat því myndast gjá sem erfitt var að brúa og Vestur-Íslendingurinn Jón Bjarnason lýsir árið 1889, og er þá ekkert að skafa af því:
Hann lýsir dáðlausum menntamönnum, hrokagikkjum, uppfullum stéttardrambs sem leggi sitt af mörkunum til að halda alþýðunni fáfróðri, prestunum sem messa hálffullir eða alfullir, og alþýðunni er gert að hlusta á þá „röfla einhverja lokleysu er einkum hljóðar um undirgefni“. Alþýðan heyrir ekki annað heima en „fornsögur Íslands og Noregs, og edduhnoð, sem nefnt er rímur, sem sumir ímynda sér að sé skáldskapur“. (bls. 138)
Skilgreiningin á alþýðuskáldum og lærðum skáldum er á köflum óljós, ýmis önnur heiti koma við sögu, svo sem „hagyrðingar“, „rímarar“, „leirskáld“ og „þjóðskáld“ sem höfundur skilgreinir eins og hægt er, og um mörg skáld er álitamál á hvorn básinn á að draga þau. Þetta er allt gott og blessað. En einfaldast er kannski að miða flokkaskiptingu við rímurnar, annars vegar eru þau skáld sem ortu rímur og kvæði undir í rímnaháttum í hefðbundnum stíl, eins og hann hafði tíðkast á landinu öldum saman, og hins vegar þau skáld sem ortu gjarnan undir erlendum bragarháttum svo sem hexameter, terza rima eða sonnettuformi og beittu þeim stíl sem fylgdi þessum formum erlendis. Sum fóru lengra aftur í tímann, leituðu í norræna hefð og tóku til dæmis upp fornyrðislag, ljóðahátt og slíkt, en ef þau ortu kvæði undir rímnaháttum fylgdu þau nýrri fagurfræði sem braut í bága við stíl rímnanna. Finnst mér hentugt að ganga hér útfrá þessari tvískiptingu, þótt ýmislegt kunni þá að verða útundan.
Þetta verður ljósara ef litið er á upphaf deilnanna sem er eins skýrt og vel markað og kostur er á, en það er ritdómur Jónasar Hallgrímssonar um Rímur af Tristan og Indíönu eftir Sigurð Breiðfjörð, sem birtist í Fjölni 1837. Segja má að Jónas hafi ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur, því Sigurður Breiðfjörð var þá vinsælasta rímnaskáld þjóðarinnar. En eins og höfundur segir blasir við að með þessum ritdómi hefur Jónas alla greinina í huga, öll rímnaskáldin. Og hann endursegir síðan dóm Jónasar:
Dómurinn er þungur en er fagurfræðileg tilraun til að leiða inn nýjan smekk í ljóðagerð þjóðarinnar. Rímur Sigurðar „eyða og spilla“ að mati Jónasar „tilfinningunni á því, sem fagurt er og skáldlegt“, efnið er „ligisaga“ einskis virði fyrir lesendur sem ekkert geti af henni lært, höfundur rígbindur sig við söguna án þess að leggja henni nokkuð til með eigin sköpun og þær einkennast af hortittum, bögumælum, málleysum, kenningum, sem ekkert vit er í, og röngum áherslum. (bls. 58)
Þessi skýrorði dómur gaf svo tóninn sem aðrir tóku upp, svo sem Björn M. Olsen árið 1891. Hann skýrir niðurlægingu skáldskaparins með því að „alþýðan hafi búið við svo litlar kröfur og úreltan smekk að rímnahöfundar hirtu ekki að vanda sig á öðru en ríminu og „keptust hvor við annan að kveða sem dírast, bjuggu sjálfir til óskiljanleg orðskrípi til að bjarga ríminu, brugðu fyrir sig mirkum og oft rammvitlausum eddukenningum, þegar þeir voru í vandræðum, og höfðu á staksteinum heilt safn af hortittum til að berja í götin““. (bls. 17).
Við þessi hörðu orð Jónasar og Björns M. Ólsens myndi nútímalesari jafnvel bæta því við að rímnaskáldin virtust lítið hugsa um að byggja upp skýrar og smekklegar ljóðlínur. Stundum virðist orðunum raðað saman af handahófi í blóra við alla venjulega eða skáldlega orðaröð, þau reka sig hvert á annað í belg og biðu. Til að fá einhverja merkingu þarf sá sem hlustar eða les að raða þeim upp í huganum án þess þó að hafa nokkuð til viðmiðunar („vísna gjörð í dottin dá“, bls. 152), „skjótt fékk margt þó glapið“, bls. 359) og stundum virðist ekki vera nein skiljanleg merking. Áherslur eru stundum rangar („Á hugmynda flugi“, þar sem áherslan hvílir á á og mynd, bls. 91), stundum vegna bragliða eða þá til að skapa innrím. Sjaldgæfum eða sérhæfðum orðum sem fá skýra merkingu af samhenginu í mæltu máli er slengt fram nánast í lausu lofti þar sem ekkert styður við þau:
Margar fremdir þjáir þrá,
þeim svo fer hnignandi, (bls. 289)
Og nefna má dæmi um fjölmargt af þessu tagi í sama erindinu:
„Friðarandinn yðar stand
eyði vanda, greiði
viðblasandi liði´ á land
leið og granda sneiði.“ (bls. 202)
Þetta held ég að sé nokkurn veginn einsdæmi í skáldskap um víða veröld, skáldin hafa jafnan reynt að smíða hljómfagrar og merkingarbærar ljóðlínur allar götur síðan Hómer sló á sína lýru og kvað upphaf Ilíonskviðu, því hvar er þær að finna ef ekki þar?
Hvernig ber að líta á alla þessa gagnrýni sem nútímalesendum virðist oft á tíðum harla réttmætar? Nú er rétt að líta á eitt, þeir sem tíunda gallana ganga jafnan út frá skrifuðum textum eins og þeir séu kjarni málsins og því megi líta svo á að rímurnar séu bókmenntir og þá ekki síst ætlaðar til lestrar. En rímur voru ekki lesnar, þær voru kveðnar af sérstökum og sérhæfðum kvæðamönnum, undir harla sérkennilegri tónlist. Um þetta fjalla gagnrýnendur rímna ekki, nema þeir nefni „rímnagól“. Það var fyrst séra Bjarni Þorsteinsson sem fór að safna þessari tónlist af alvöru og birti hann mikinn fjölda af því sem hann kallaði „rímnalög“ í riti sínu Íslenzk þjóðlög, bls. 803-919. En með allri virðingu fyrir hinum siglfirska sómaklerki verður þó að segja að nafngiftin er röng, það voru aldrei til nein rímnalög í þeirri merkingu sem menn hafa löngum lagt í orðið „lag“. Rímnakveðskapurinn byggðist á „lagboðum“ eða „stemmum“, ákveðnum formúlum sem kvæðamaðurinn lagði til grundvallar en spann sífelld tilbrigði við, gjarnan með notkun örsmárra tónbila, örtóna, eins og skýrt kemur fram í dregnum tónum síðustu atkvæða í hverri vísu. Kveðandin gat því verið mjög fjölbreytt, og persónuleg eftir kvæðamanni, þótt það kynni að fara fram hjá óinnvígðum.
Á tímum guðsmannsins er ólíklegt að menn hafi haft nokkrar forsendur til að skilja þessa list, það var tæpast til nein leið að skrásetja hana fyrr en upptökutæki komu til sögunnar, því leiddu menn hana að mestu hjá sér og litu í staðinn á textana eina. En ef við lítum svo á að kveðandin hafi ekki verið aukaatriði, eins konar viðbót, heldur í órjúfanlegum tengslum við textann má líta svo á að kveðandi og texti í sameiningu hafi í rauninni verið eitt verk, eins konar Gesamtkunstwerk ef leyfilegt er að nota það orð. Það er þá jafnframt verk sem verður ekki fyllilega til fyrr en kvæðamaðurinn tekur til við að kveða á sinn persónulega hátt, jafnvel með stemmum sem hann hefur sjálfur samið. Þetta verk má skoða að hefðbundnum hætti, ljóð með laglínu sem undirstrikar það. En ef á þetta er litið sem eina heild, í samanburði við tónlist, má snúa þessum tengslum við og líta á kveðandina eins og strengjasveit í tónverki en textann sem slagverk. Þá verður ljóst hlutverk hinna flóknu og margbreytilegu rímnahátta með sín endalausu tilbrigði í enda- og innrími er að skapa sem fjölbreyttastan ryþma, því meiri dýrleiki því meira kikk. Þetta skýrir einnig þá rykki í flutningi rímna sem fór fyrir brjóstið á þeim sem kunnu lítt að meta þetta listform. Ef þessu hefðu fylgt synkópur hefði þarna verið á ferli einhvers konar tegund af djassi. En við þetta verður líkast til eitthvað annað undan að láta, og því koma fram þeir gallar sem bent hefur verið á.
Hinn frægi dómur Jónasar eru orð manns sem var þaulkunnugur ljóðlist Heines og vafalaust fleiri rómantískra skálda í Danmörku og Þýskalandi. En höfundur bendir á að ýmsir fræðimenn hafi fundið mótsögn í dóminum, „ef hann er settur í samhengi við rómantísku stefnuna en forvígismenn hennar hennar báru einmitt fyrir brjósti bókmennt og bóklistir alþýðunnar“, eins og Gunnar Karlsson orðar það (bls. 58). Og Dagný Kristjánsdóttir metur þessa þversögn í dómi Jónasar svo að hann ráðist gegn því sem var helsta vígi alþýðumenningarinnar, rímunum: „Sú „alþýðumenning“ sem Jónas boðar er nýsköpun, hámenning sem héðan af skal heita „alþýðumenning“. Og Guðmundur Hálfdánarson dregur þessa ályktun: „Sjálf kenningin um menningarlega þjóðernisstefnu var þannig flutt inn erlendis frá og alls ekki sprottin úr íslenskum jarðvegi.“ (58).
Þessi orð fræðimannanna má nú bera saman við dóm Einars H. Kvaran aldamótaárið 1900 um ástand bókmenntanna hundrað árum áður. Honum er niðurlægingin efst í huga eins og Jónasi og Birni Ólsen en lítur einkum til yrkisefnanna:
„Það er eins og skáldin á þeim tímum hafi aldrei séð himininn verða rauðan eða blágrænan, aldrei séð skýin taka á sig furðulegar myndir, aldrei heyrt sjóinn tryllast né verða að skínandi spegli, aldrei séð storminn í algleymingi sínum, aldrei fundið hlýja goluna leika um kinn sér, aldrei látið hugann reika víða í grænni laut í logninu, aldrei séð fjöllin blá, né rauð né hvít, aldrei heyrt lóuna syngja.“
Þórður Helgason á auðvelt með að sjá í gegnum þessi orð: „Í þessum dómi Einars felst vissulega undarleg þversögn; hann furðar sig í raun á því að alþýðuskáldin hafi ekki verið handgengin rómantísku stefnunni – sem þau áttu lítinn sem engan kost á að kynnast um aldamótin 1800.“ (bls. 17).
Þetta er vissulega rétt, en á bak við þessar þversagnir er þó ein grundvallarstaðreynd. „Lærð skáld“ og aðrir lærðir menn, sem ekki voru skáld, komu úr því sem þeir kölluðu „fásinni“ á Íslandi og gengu inn í heim Vesturlanda með sérstaka bókmenntahefð, tónlistarhefð og andlegar hefðir sem byggðar voru á aldagamalli þróun. Af þessu vissu Íslendingar svo til ekkert, þeir voru sér á báti og höfðu farið aðra leið í skáldskap, og tónlist að vissu leyti líka, mótað aðra hefð. Á 19. öld, og vafalaust löngu áður, var bilið orðið svo breitt að engin leið var til að brúa það útfrá forsendum þessa tíma. Rímur voru hinar lélegustu bókmenntir, og stemmurnar engin tónlist, aðeins „gól“ að mati menntamannanna, eða þá „kátlegustu skrípi“ (bls. 150). Það sem menn á Vesturlöndum álitu að ætti að vera aðalviðfangsefni ljóðlistar fyrirfannst ekki í íslenskum kvæðum, varla heldur raunveruleg ljóðform. Þeir sem vildu lyfta íslensku menningarlífi upp á svipaðar hæðir og þeir sáu í kringum sig þegar þeir fóru utan, til Kaupmannahafnar og annað, sáu því aðeins einn kost: hann var að flytja inn erlenda alþýðumenningu á einhvern hátt og um leið það sem rómantíska stefnan erlendis sótti til hennar.
Rímurnar í heild, texti og kveðandi, er einstakt listform og eingöngu bundið við Ísland. Nú ætti gjáin ekki lengur að vera eins hyldjúp og á 19. öld, og því væri rétt að gefa listforminu meiri gaum en áður hefur verið gert, kannski með því að birta almenningi á geisladiskum eða streymisveitum heilu rímnaflokkana með ítarlegum skýringum. Við njótum þess að fræðimönnum veifandi sínum upptökutækjum tókst að ná í skottið á síðustu mönnunum sem kunnu listina. Jafnvel mætti koma á fót námskeiðum í rímnakveðskap, textum og kveðandi.
Í þeim deilum sem stóðu um hina fornu alþýðumenningu, milli þeirra (mörgu) sem vildu varðveita hana og hinna (mun færri) sem réðust á hana og vildu hana feiga, koma rímurnar einnig við sögu, en nú í öðru og víðara samhengi. Þessar deilur hafa gjarnan verið túlkaðar á þann hátt, að hér hafi verið á ferli stéttabarátta, þær hafi staðið milli bændastéttar, þeirra sem bjuggu á sínum búum og voru sæmilega bjargálna, og hinna sem vildu efla nýja atvinnuhætti, einkum fiskveiðar, og stuðla að byggingu sjávarþorpa. Bændurnir hafi óttast að með þessum nýjungum misstu þeir sitt ódýra vinnuafl, sem gat fengið meira kaup og betri kjör annars staðar, og hættu að geta beitt sínum hefðbundna og harða aga. Þetta er vitanlega góður og gildur marxismi. En við lestur Alþýðuskálda á Íslandi kemur í ljós að deilurnar voru mun víðtækari, fjöldamargir risu upp bændamenningunni til varnar, án þess að nokkur gæti sagt að þeir væru á snærum (stór)bænda. Og þá kom ýmislegt til sögunnar, þar á meðal rímurnar, en nú sem hluti af öðru, kvöldvökunum, þar sem rímur voru kveðnar en einnig lesnar sögur af alls kyns tagi, meðal annars hinar klassísku Íslendingasögur. Til þessara vetrarkvölda hugsa skáldin með mikilli ánægju:
Vetrar löngu vökurnar
vóru öngum þungbærar,
við ljóðasöng og sögurnar
söfnuðust föngin unaðar.Ein þegar vatt og önnur spann,
iðnin hvatti vefarann,
þá var glatt í góðum rann
gæfan spratt við arin þann.
(Ólína Andrésdóttir, bls. 101).
Þegar vetur gekk í garð var tími skáldanna kominn, nú gátu þau loksins sinnt list sinni:
Með vetrarbyrjun vífin kát
við mig ræðu taka:
Negldu saman Norðra bát
nú er farið að vaka.
(Árni Sigurðsson, 1838, bls. 95).
Í þessu nýja samhengi sáu menn nú kosti á rímnakveðskap sem hvorki Jónas Hallgrímsson né Björn M. Ólsen voru að velta fyrir sér. Kvöldvökum með rímum og sagnalestri var ekki síst þakkað fyrir að hafa stuðlað að varðveislu tungunnar, og tóku margir í þann streng: „Jóhann Sveinsson frá Flögu 8…] getur þess að vísurnar (og rímurnar) hafi geymt mikinn orðaforða sem ella hefði gleymst, „fornum orðum, heitum og kenningum”.“ (bls. 316). Aðrir taka enn dýpra í árinni. Albert Eiríksson frá Hesti sagði: „Alþýðan varðveitti og verndaði þannig tunguna og þjóðleg fræði, þegar mentamennirnir dependera af þeim dönsku“ (bls. 314). Þetta segja líka þeir sem voru annars ekki hrifnir af rímum, svo sem Grímur Thomsen: „Þó að þessi kveðskapur hefði oftast óverulegt og stundum ekkert fagurfræðilegt gildi, þá varð hann samt mjög til að vernda tunguna fyrir algerri tortímingu.“ (bls. 316). En meira fylgdi rímunum en varðveisla tungunnar, í þeim komu einnig fram „yfirburðir“ hennar: „Þessi fjölbreytileiki braganna sýnir bezt yfirburði íslenzkrar tungu, hversu hún er orðrík og liðug til alls kveðskapar að bragliðum, ljóðstöfum og hendingum,“ sagði „Rímnakarl“ 1892 (bls. 249).
Fyrir utan að varðveita tungumálið bentu sumir á að rímurnar varðveittu fornar sögur, og gengur það þvert á það sem andstæðingar rímnanna sögðu. Samt er þetta engan veginn út í hött eins og Rímur af Gunnari á Hlíðarenda (Sig. Breiðfjörð), Rímur af Ingólfi Arnarsyni landnámsmanni (Símon Dalaskáld), Rímur af Hávarði Ísfirðing (Símon Dalaskáld) og Ríma af Gissur jarli (Sveinn Sölvason) og margar fleiri eru til vitnis um. Og þessi rímnakveðskapur hafði einmitt gildi, því:
í mönnum betur loða ljóð
en lesið efni kvæða. (bls. 313).
Hvað gat sú nýja menning boðið á móti þessu? Það var fjölmargt, en á það var gjarnan litið með miklum ímugust. Eitt var alþýðumenntun í skólum, en um gildi skólanna efast þó margir og töldu sjálfsnám æskilegra: „Að skólaskylda sé óhafandi hér, er svo ljóst, að það þarf ekki útskýringa við“ (bls. 141). Guðmundur Friðjónsson telur að of margt ungt fólk hafi það markmið með skólagöngu að komast hjá því „að bera byrðar alþýðu, byrði vinnunnar, byrði útgjaldanna, byrði föðurvanda og móðurskyldu – í stuttu máli: byrði atorku- og iðjulífs.“ (bls. 141). Og Sigurður Nordal – af öllum mönnum – segir, árið 1919: „„Ef nánar á að skýra í hverju alþýðumenntun Íslendinga er fólgin og hvað gefur henni gildi sitt, þá er skýringin í einu orði: sjálfsmenntun. Skólar okkar bera í engu af skólum annarra þjóða, nema síður sé. Það er viðleitni alþýðunnar sjálfrar, hvað menn halda lengi áfram að menta sig, sem veldur yfirburðum hannar.“ Sigurður telur það til gildis hve landið er strjálbýlt: „heimilismenntun“ hafi þá komið í stað skóla og gefist betur.“ (bls.143).
Í Reykjavík þróast nú nýir siðir, sem vekja andúð fjölmargra. Þar tíðkast dansleikir, erlend fatatíska og svo fara menn að lesa þýddar bókmenntir. Í gagnrýninni á þessa lífshætti við sjávarsíðuna voru ekki spöruð stóru orðin:
Dansinn er mesta djöfuls þing,
dillar hann hórum öllum. –
Þær öfugt snúast alt um kring
með amors boðaföllum. (bls. 325).
Í bæjunum var ekkert nema siðspilling og ónáttúra, jafnvel Sundhöllin hafði ekkert upp á að bjóða nema „gerfi-unnir“:
Þar má leikni fugla og fiska
fremja á sviði gerfi-unna. (bls.301).
Á móti þessu ónáttúrulega og siðspillta bæjarlífi boðuðu menn heilbrigði sveitanna. En þegar grannt er á þessar deilur er litið sést að þær snúast um ákveðin orð: þar sem íbúar bæjanna töluðu um „hvíld frá erfiði“ töluðu forsvarsmenn sveitanna um „leti“, og þegar bæjarbúar töluðu um „frelsi“ töluðu sveitamenn um „lausung“. Þessar deilur snerust því á vissan hátt um annað og djúpstæðara fyrirbæri, hinn yfirgengilega vinnuþrældóm sveitanna sem viðurkenndu enga hvíld og jafnvel enga æsku, börn áttu að fara að vinna svo að segja um leið og þau gátu gengið. Þessu lýsir séra Árni Þórarinsson vel í ævisögu sinni. Nú vildi svo til að kvöldvökurnar margrómuðu voru einnig hluti af þessari vinnuþrælkun, þær fólust í því að einn kvað eða las meðan allir aðrir unnu af kappi, og kostur þeirra var sá að undir lestri eða rímnakveðskap unnu þeir betur en ella, með þessu var hægt að fá þá til að leggja meira á sig og hafa allan mannskapinn undir aga. Með þeim breytta vinnumóral sem fylgdi sjávarþorpunum og breiddist hægt út var enginn grundvöllur lengur fyrir hinar hefðbundnu kvöldvökur.
Bók Þórðar Helgasonar er efnismikil og fróðleg og vísar til margra átta. En einn ljóð finn ég þó á henni, í hana vantar atriðisorða- og nafnaskrár. Þetta fannst mér bagalegt og svo kynni öðrum að finnast.