ArmelóÞórdís Helgadóttir: Armeló.

Mál og menning, 2023. 374 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2024.

 

Fyrsta skáldsaga Þórdísar Helgadóttur, Armeló, segir frá fólki sem lifir í kandíflossskýinu sem hjúpar okkur flest í samtímanum. Þar er allt sætt og ekkert satt, ekkert sem sýnist og engu treystandi. Sæta gumsið snýst á ógnarhraða, verður að örfínum þráðum og á grundvelli loftsins á milli þráðanna verður til sykurský, bergmálsskjól þar sem ekkert kemur á óvart og ekkert truflar ef þess er gætt að staldra ekki við, finna raunverulega fyrir einhverju, snerta af forvitni, ástúð eða af öðrum ástæðum. Það rignir aldrei úr kandíflossskýinu né leysist það upp svo lengi sem þeysiþeytingurinn hefur sinn gang. Ef þess er hins vegar ekki gætt sígur skýið saman og verður að ólögulegum klumpi sem splundrast í þúsund parta ef tilfallandi sleggja, sem einhver grípur, lemur á það. Við það splundrast allt og öll sem hafa límklístrast við klumpinn á meðan hann enn var bleikt sykurþráðaský. Og það er einmitt það sem gerist í skáldsögunni Armeló.

Lífið í ofangreindu kandíflossskýi, með öllu sínu afskiptaleysi og innantómum þykjustuleikjum, er varla í frásögur færandi. Þar ríkir hin stöðuga endurtekning með einstaka uppbroti eins og að lita á sér hárið, til þess eins að verða skömmu síðar leiður á þeim lit eins og öllum hinum litunum eða stara stöðugt á tvisvar sinnum ellefu pínulitla kalla á símaskjánum berjast við að koma einum og sama boltanum á ákveðinn stað með hlaupum og spörkum. Takist það verða mikil fagnaðarlæti og svo er haldið áfram að sparka. Í skáldsögu verða að vera persónur sem með einhverjum hætti takast á við tilveru sína, elska og þrá, hata og hræðast, hugsa, heillast og dreymir. Tilvera í svífandi kandíflossskýi þar sem persónur láta sér meira og minna standa á sama um allt, fylla skilningarvitin með því að hlusta og horfa á aðra setja sjálfa sig á svið, er ekki áhugavert söguefni. Til að svo megi verða þarf að opna inn í þennan heim, einhver þarf að stíga út fyrir skýið með öllu sínu lulli, afskiptaleysi og þykjustuleikjum og afhjúpa til að mynda að í nefndu skýi er þrátt fyrir eilífar endurtekningarnar að finna manneskjur sem vilja meiri hraða í þeytingnum, meiri peninga, meiri völd og frægðarljóma hvað sem það kostar.

 

Ferðalög eru í frásögu færandi

Elfur heitir unga konan sem við sláumst í för með þegar hún hrekst út úr hjúpandi skýi sínu og líkt og nafn hennar gefur til kynna ferðast hún í gegnum lífið líkt og fljót eftir farvegi án merkjanlegs áhuga á þeirri leið sem það rennur. Elfur hefur látið tilleiðast að fara með eiginmanni sínum, Birgi, í ferðalag. Þau hafa aldrei áður í sínu þrettán ára hjónabandi farið í ferðalag, hvorugt langað til þess né kannski nokkurs annars. En upp á síðkastið hefur ýmislegt breyst. Birgir hefur sagt upp vinnu sinni hjá skattinum og hafið störf hjá nýju „startöpp“-fyrirtæki í eigu tveggja gamalla vina sinna sem ætla sér stóra hluti í líftækni sjónlækninga. Nanoret heitir fyrirtækið og einkunnarorð þess eru Seeing Clearly. Við vistaskiptin breytist Birgir „hægt og rólega: tískufatnaðurinn, yfirvinnan, […] golfið“ (48) – og nú þetta ferðalag um Evrópu, frá vestri til austurs. Birgir skipuleggur allt, flug og gistingu, leigir bíl og hvaðeina. Elfur þarf einungis að renna með frá einni borg eða bæ til þess næsta, og vegna þess að henni dettur ekkert í hug til að sýna andstöðu sína segir hún einfaldlega já.

Við hittum þau hjónin í Amsterdam og Elfur er þegar búin að fá meira en nóg, það er stirt á milli þeirra, eitthvað ósagt liggur í loftinu og Birgir þarf að skreppa, „smá í sambandi við vinnuna […] Ég verð eldsnöggur“ (41). Hann er lengi í burtu, marga klukkutíma. Á meðan arkar hún að túristasið um borgina, eltir annað fólk því sjálfri dettur henni ekkert í hug. Daginn eftir skal haldið áfram til næsta áfangastaðar, Armeló. Þangað kominn þarf Birgir aftur að skreppa: „Grípa nokkra hluti. Eitthvað í morgunmat og svona. […] Kannski drykki.“ (15) Hún ætlar að tékka þau inn á hótelið á meðan, sem gengur ekki í fyrstu atrennu og það sem meira er: Birgir kemur ekki aftur, bílaleigubíllinn er líka horfinn, allur farangur þeirra og vegabréfin. Það er lán í óláni að þegar Birgir var í sturtu morguninn eftir að hann hafði skilið hana eftir eina í Amsterdam hafði hún „í ósjálfráðu viðbragði“ opnað bakpokann, sem Birgir skildi aldrei við sig á ferðalaginu, og fundið þar „bunka af úttroðnum umslögum af tvö hundruð evra seðlum“ (131) og troðið einhverju af þeim ofan í veskið sitt. Löngu seinna áræðir hún að telja seðlana en hættir „þegar hún er komin upp í fimmtíu þúsund evrur“ (134), vel á áttundu milljón íslenskra króna.

Elfur stendur sem sagt alein og farangurslaus í smábænum Armeló, þar sem er ein kirkja, fáeinar verslanir, lögreglustöð og sjúkrahús sem samkvæmt nokkrum læknum, sem hún hittir á þorpskránni, er í vondum málum vegna ólöglegra líffæraflutninga. Hún er ekki með vegabréf en flugmiða heim eftir tvær vikur frá borg í öðru landi og sand af seðlum. Það er því fátt annað að gera en að slást í för með öllum þeim sem ganga merkta gönguleið í gegnum evrópska skóga, ýmist frá austri til vesturs eða öfugt eins og Elfur afræður að gera. Hún hefur þegar árangurslaust reynt að ná símasambandi við Birgi og talað við lögregluna, og komist að þeirri niðurstöðu að Birgir hafi kosið að láta sig hverfa og tekið þannig af henni ómakið að horfast í augu við þá staðreynd að „hjónabandið hafði verið dauðadæmt lengi.“ (130)

 

Að ferðast en sitja samt á sama stað

Ferðalög munu samkvæmt viðtölum við Þórdísi Helgadóttur, höfund skáldsögunnar Armeló, hafa verið kveikjan að sögunni. Af hverju erum við svo sólgin í að panta okkur flug og dvelja um hríð fjarri eigin hversdagslega umhverfi, horfa á annað fólk lifa í sínu hversdaglega umhverfi, skoða listaverk sem einhver skapaði fyrir langa löngu fyrir allt annað fólk og fornar menjar um hversdagslegt líf fólks fyrir ennþá lengra síðan.

Það er vel til fundið af höfundinum að láta Elfi ekki hafa farið í nám að loknu stúdentsprófi heldur hefja störf í ritfangaverslun í miðbæ Reykjavíkur, kannski fimmtán árum áður en sagan hefst. Staðreynd sem gefur gott tilefni til að lýsa þeim breytingum sem orðið hafa á Reykjavíkurborg og mannlífinu þar í kjölfar herferðanna allra til að auka fjölda ferðamanna sem nú rennur í flaumum eftir götum miðborgarinnar. Í ritfangaversluninni hafði lengst af verið boðið upp á „blekpenna, skrautskriftarpensla og blek, sérinnfluttar japanskar pappírsvörur – og slangur af bókum.“ Nú einkennist framboðið af „seglum og húfum […] meira að segja tuskulundarnir höfðu á endanum hlotið inngöngu“ (112–113) og Elfur sjálf orðin hluti af flaumi ferðamanna sem hún hafði reynt að leiða hjá sér á götum Reykjavíkur. Munurinn er bara sá að flaumurinn sem hún nú fylgir streymir eftir vel afmörkuðum skógarstígum þar sem engin önnur virkni er í boði en að setja annan fótinn fram fyrir hinn. Við slíkar aðstæður fer ekki hjá því að hugurinn taki að reika. Margvíslegar minningar, hugsanir og spurningar leita á Elfi þegar hún hefur ekki lengur tækifæri til að fylla tómið innra með sér með sviðsetningum annars fólks á sjálfu sér, kvikmyndum eða hlaðvörpum, sem eru í miklu uppáhaldi hjá henni. Einkum hlaðvörp um svikara sem hafa fé út úr öðrum með lygum, aðdáun og ástarjátningum.

Slíkt frásagnarbragð gefur höfundi færi á að fara um víðan völl í lífi Elfar fram að þessu, aftur á bak og fram, eftir því sem minningar sækja á huga hennar. Aukabónus þessarar frásagnaraðferðar er svo að innan um og saman við má koma á framfæri misskýrum vísbendingum um það sem koma skal í framvindu sögunnar.

 

Í tóminu er ekkert hald

Fáir myndu viðurkenna að Elfur og Birgir væru dæmigerð ung hjón. En kannski eru þau einmitt dæmigerð, að minnsta kosti er fátt í lýsingum á daglegu lífi þeirra sem kalla mætti óvenjulegt. Tengdó hafði hjálpað þeim að kaupa sæmilega íbúð, hann á rafmagnshjól og hún gamla bíldruslu, þau vakna á morgnana og fara í vinnuna, koma heim, skella einhverju hálftilbúnu í ofninn, borða fyrir framan skjái og drekka bjór. Ýmist horfa þau saman á þáttaséríur á streymisveitum eða hvort á sinn símaskjáinn, hann niðursokkinn í tölvuleiki eða boltann, hún á Instagram eða að kaupa eitthvað á netinu, þangað til tími er kominn til að fara í rúmið og sofna út frá hlaðvarpi. Þau eiga auðvitað fjölskyldur, Birgir er litli bróðir, var stöðugt hampað af móður sinni og stóru systur sem sáu fyrir sér mikla framtíð honum til handa, hvöttu hann í hvívetna en tóku líka af honum alla fyrirhöfn „og svo varð hann náttúrulega bara ógeðslega týndur“, (336) eins og systir hans orðar það seint í sögunni. Elfur er hins vegar alin upp við algert afskiptaleysi beggja foreldra og stóra systirin, sem á aðdáun hennar alla, hafði horfið út af heimilinu þegar Elfur var enn barnung. Hún fór venjulega leið í gegnum skólakerfið og útskrifaðist sem stúdent, meira að segja hálfu ári fyrr. Hún hefur frá unglingsárum alltaf átt kærasta, enda afbragðshlustandi með óendanlega aðlögunarhæfni, og hver kærasti verður henni tilboð um að taka á sig nýtt hlutverk. Stelpurnar eru ekki eins ginkeyptar fyrir þessari aðlögunarhæfni, meiri sókn eftir samkeppni þar: „Besta vinkona mín í tíunda bekk sagði mér beinlínis upp þegar ég mætti einn mánudaginn með sömu klippingu og hún hafði frumsýnt vikuna áður.“ (157) Einhverjar vinkonur frá skólaárunum hafa þó orðið eftir en þau sambönd eru ekki lengur stór þáttur í lífi hennar. Elfi „þótti enn vænt um þessar stelpur,“ eins og hún orðar það, en hópspjall sem snýst mest um „kerrur og útivistarklæðnað, dugði bara ekki til að halda lífi í deyjandi vináttunni.“ Birgir hefur hins vegar haldið sambandi við sína æskufélaga og Elfur finnur sig betur með þeim. Pörin í þeim hópi eru seinni til barneigna og hún „því ekki eins utanveltu“ (92)

Lesandinn fær þó takmarkaða innsýn í ofangreind sambönd, utan ítarlega frásögn af brúðkaupi annars besta vinar Birgis og aðaleiganda fyrirtækisins Nanotek sem gefur ágæta mynd af lífstíl munaðar sem peningar fá keyptan, samkeppninni sem ríkir í því samhengi og Birgir er orðinn hluti af. Ítrekaðar frásagnir af samskiptum Elfar við samstarfskonur sínar í ritfangaversluninni gefa svo tækifæri til umræðu um mátt internetsins til að staðfesta sjálfan sig og afvegaleiða á sama tíma, en einnig um ferðalög og muninn á því að vera túristi á Tene og ferðalangur á framandi slóðum, „fá kúltúrinn beint í æð, gista ódýrt“ (114). Þessar frásagnir af samtölum samstarfskvennanna, þar sem Elfur virðist oftar en ekki utanveltu, eru nokkuð langdregnar, þær tefja heildarfrásögnina og hefði að ósekju mátt stytta. Það sama má að sumu leyti segja um frásögnina af ástarsambandi Elfar og Hreiðars, sem endar með Interrailferðalagi sumarið eftir stúdentspróf þar sem hann „stakk mig af í Delfí“ (153).

Eftir alla kærasta unglingsáranna kemur sambandið við Hreiðar Elfi á óvart: „Hann hlutstaði þegar ég talaði og sagði að ég væri fyndin og klár. Hann horfði alltaf beint á mig og það var eins og við það tæki ég í fyrsta skipti á mig form.“ (158) Formið virðist þó ekki haldast þrátt fyrir ákefð hennar í byrjun ferðalagsins, þjótandi um í leit „að merkilegustu leynistöðunum […] Við ætluðum sko ekki að vera túristar, sagði ég honum, heldur ferðalangar.“ (159) Eftir því sem á ferðalagið líður þrýtur Elfi samt erindið, hún „hefði eiginlega ekki upplifað neitt nýtt. Ekki gert neina uppgötvun og kannski ekki einu sinni fundið til neinnar sérstakrar gleði.“ (170) Peningarnir eru líka á þrotum og í sjálfri Delfí bregst hún við áformum Hreiðars um að fá neyðarlán hjá mömmu sinni með því að hóta honum lífláti: „Ég drep þig ef þú gerir það.“ (162) Kannski tilfallandi orð, mælt í hálfkæringi þrátt fyrir tárin sem fylgja, en kalla fram í huga lesandans sambærileg orð Birgis í Amsterdam daginn áður en hann hverfur. Og viti menn, daginn eftir lætur hún sig hverfa í Delfí, flýgur heim tóm og engri reynslu ríkari eftir ferðalagið.

Elfur er einstök persóna í íslenskum bókmenntum, falleg og greind miðað við hugleiðingar hennar en almennt allsendis skoðana- og framtakslaus. Á köflum þóttist ég sjá í henni andpersónu kvenhetja Íslendingasagna sem bregðast snaggarlega en jafnframt yfirvegað við þegar þeim þykir að sér vegið og verða gerendur í hefndaraðgerðum til að jafna hlut sinn. Elfur einfaldlega rennur, „aldrei nógu sannfærð um neitt til að mér fyndist þess virði að berjast fyrir því“, (48) eins og hún sjálf orðar það.

En kannski er þetta alls ekki saga um ákveðna persónu heldur miklu fremur saga um heim sem er að éta sig upp innan frá og eftir liggja skeljar af manneskjum án innihalds. Engin persóna bókarinnar er þess eðlis að lesendur samsami sig við hana en við könnumst við margt í fari þeirra. Einkum þörfina fyrir að geðjast og vera elskuð, uppgjöfina og hjálparleysið, og auðvitað hinar þrálátu spurningar um hvað sé rétt og hvað sé rangt að hugsa og aðhafast.

Þórdísi tekst af mikilli djúphygli að lýsa hjálparleysi Elfar í tómi sínu sem henni gengur svo illa að fylla og lýsir sér til dæmis í því að elta ókunnugt par um götur Amsterdam, eða þegar Birgir er horfinn og hún er alein á hótelinu í Armeló: „Í dauðaþögninni á hótelherberginu sótti að mér sú tilfinning að ég væri ekki ég sjálf.“ (49) Eigi að síður reynir hún „að ríghalda í sálina“ sem skreppur út „eins og baun úr baunabelg“ og ekkert er eftir nema líkaminn, „náttúrugripur“ sem hún kannast ekki við. „Þetta stykki, þessi tilfallandi einstaklingur […] – tilhugsunin um að þetta væri ég lamaði mig.“ (49) Eftir einn af fyrstu dögum skógargöngunnar er hún gersamlega örmagna og verkjar í allan líkamann: „Verst voru samt ónotin inni í höfðinu á mér. […] Kæfandi grautur af sorg, skömm og örvæntingu sullaðist um án þess að ég gæti greint tilfinningarnar í sundur eða mótað heila hugsun.“ (74)

Lýsingarnar hér að ofan gætu mögulega átt við þá ógæfusömu aðila sem verja tíma sínum í að svíkja peninga út úr öðrum með því að ljúga og þykjast elska viðkomandi og dá en gætu, eins og iðulega mun hafa komið í ljós þegar slíkt er afhjúpað, unnið fyrir þessum peningum með minni fyrirhöfn. Peningarnir eru með öðrum orðum ekki undirrót svikanna heldur „að það væri einfaldlega ekkert innra líf til staðar hjá þessu fólki. […] Þau litu út eins og manneskjur en voru eitthvað annað. Tómar skeljar“, (111) eins og Elfur orðar það í hugleiðingum sínum um eitthvert hinna fjölmörgu hlaðvarpa um svikahrappa sem hún rifjar upp á göngu sinni.

 

Framvinda og spenna

Skáldsagan Armeló skiptist í sex mislanga hluta. Í fyrsta hlutanum segir frá upphafi ferðalags hjónanna og bílferðinni til Armeló. Þar ber fátt til tíðinda en á einhverju augnabliki aksturins hrekkur Birgir í kút við að sjá mynd af konu sinni á risaskilti, „auglýsing fyrir eitthvað. Örugglega tannkrem eða sólgleraugu […] Lygilegt.“ (9) Já, lygilegt en ekki til að dvelja við því hversu vel má greina mynd á skilti þegar ekið er eftir hraðbraut. Annar hlutinn, sem er sýnu lengstur, segir frá skógargöngu Elfar með öllum sínum útúrdúrum til fortíðar og vísunum til framhaldssögunnar, eins og rakið var að nokkru hér að framan. Frásagnarbragð sem þekkt er úr glæpasögum til að skapa spennu. Hvarf Birgis er og reglulega reifað, einkum með símtölum frá félögum hans í Nanotek.

Örstuttur þriðji hlutinn, sem gerist um borð í lest og ber þann táknræna titil „hvergi“, markar lok skógargöngunnar og í fjórða hluta tekur stórborgin Prag við sem sögusvið með allri sinni mannmergð, „boho-chic“ og „[g]erðarlegar byggingarnar“ sem „hafa lifað söguna og kynslóðirnar.“ (204)

Við komuna til Prag hefur Elfur endanlega yfirgefið nærandi náttúru skógarins með sínum róandi græntónum og gengið inn í menningarsöguna, þar sem rangalar hugsana kynslóðanna og afurðir þeirra ráða ríkjum. Á Karlsbrúnni vindur sér að henni glæsilegur maður og heilsar henni með virktum kunnugleika. Henni bregður en því ekki að leika leikinn og vera um stund auglýsingafyrirsætan Bella í Prag, borg sem henni hafði frá fyrstu stundu verið svo kunnugleg: „Kannski hafði ég séð þetta allt saman áður“ (205) – á samfélagsmiðlum? Í ljós kemur að Bella þessi, sem sannarlega virðist nauðalík Elfi, dvelur jafnaðarlega á fínasta hóteli borgarinnar og því þá ekki Elfur? Í hönd fara miklir menningar- og munaðardagar. Tibor, en svo segist áðurnefndur kavalér heita, reynist góður félagi og hinn besti elskhugi. Listamaður er hann líka og vill að Elfur sitji fyrir hjá sér. Hann vill gera af henni leirstyttu en skömmu áður hafði Elfur einmitt rambað inn á veitingastaðinn Golemovo Bistro skammt frá hótelinu fína. Ætlar Tibor að endurskapa tvífara Bellu, þ.e. Elfi, sem gólem og blása síðan í lífi? Að eigin sögn starfar Tibor fyrst og fremst sem listaverkasali og þarf því stundum að ferðast. Elfur er þá ein í borginni, en nú án nokkurra vandræða, enda búin að safna tóminu innra með sér í svartan stein og henda honum í Moldá, fara í allsherjar líkamlega yfirhalningu á öllum snyrtistofum hótelsins og þræða merkjavöruverslanir. „Ég svamlaði um borgina í tískulíkamanum, stikaði yfir götusteinana á háhæluðum skóm, vandlega merktum réttum hönnuði“ (227) – og fólk snýr sér við götunum, þekkir hana. Lífið er dásamlegt!

Þessi uppsveifla Elfar á ferðalagi endar ekki – frekar en á fyrri ferðalögum – vel, Hún lifir beinlínis öll hlaðvörpin sem hún hefur hlustað á og satt best að segja ekki með mikið áhugaverðari hætti en þar segir frá.

Þegar hér er komið sögu í þessari marghringlaga skáldsögu standa enn nokkrir lausir endar út í loftið: félagar Birgis í Nanotek hafa fylgt Elfi á ferðum hennar og haft í hótunum. Hvernig gat hinn framtakslausi Birgir gengið út úr tilveru sinni og til hvers var hann með alla þessa peninga? Sannarlega efniviður í þokkalega glæpasögu sem og verður raunin í sjötta og síðasta kafla bókarinnar. Reyndar mjög óvenjulega glæpasögu.

Í raun má segja að Armeló sé þrjár bækur, ferðasaga, saga um svik og tál og glæpasaga, ásamt inngangs- og tengiköflum. Frásagnarstíll þessara „bóka“ er ekki gerólíkur en þó frábrugðinn. Elfur er alls staðar frásagnarmiðjan en útúrdúrarnir í meginfrásögninni sem eiga upptök sín í hugarflæði hennar breytast og fá mismikið rými. Á skógargöngunni snúast þeir að mestu um líf hennar fram að ferðalaginu og í Pragkaflanum tengjast hugleiðingar Elvar borginni sjálfri og þeim menjum menningarsögunnar sem blasa hvarvetna við. Eftir að glæpasagan tekur yfir er frásögnin drifin áfram af hugarferðalögum Elfar inn í líf annarra persóna sögunnar þótt hún sjálf sé víðs fjarri. Í krafti síns innra tóms virðist hún andstætt öllum hefðbundum lögmálum geta sett sig inn í huga og aðstæður annarra persóna, beinlínis lifað sem þær, þótt fjarlægar séu bæði í tíma og rúmi. Þetta er óvenjulegt frásagnarbragð sem lukkast nokkuð vel, enda er yfirskrift næstsíðasta kaflans, sem inniheldur þær flestar, „neyðarútgangur“ (287). Á þessum hugarferðalögum skýrist loks hvarf Birgis þótt í hrottafengin lok sögunnar, þegar högg sleggjunnar dynur á samanskroppnum og glerhörðum kandífloss-klumpinum svo hann splundrast, sé enn ýmsum spurningum ósvarað.

 

Ljóðið lýsir upp tómið

Eins og fram kom í upphafi er Armeló fyrsta skáldsaga Þórdísar Helgadóttur, sem hefur lokið námi í heimspeki, ritstjórn og ritlist. Hún hefur áður sent frá sér smásöguna Út á milli rimlanna (2016), smásagnasafnið Keisaramörgæsir (2018) og ljóðabókina Tanntöku (2021), sem var tilnefnd til ljóðabókaverðlaunanna Maístjörnunnar og Fjöruverðlaunanna. Veturinn 2019–2020 var Þórdís leikskáld Borgarleikhússins og stutt leikverk hennar, Þensla, hafði verið sýnt þar leikárið áður. Þá er Þórdís félagi í skáldahópnum Svikaskáld sem hefur skrifað saman og gefið út þrjár ljóðabækur og skáldsöguna Olíu, sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Í þeim verkum sem Þórdís hefur sent frá sér í eigin nafni er sjálfið í ofgnóttarsamfélagi samtímans gjarnan umfjöllunarefnið, þær áskoranir sem mannseskjan stendur frammi fyrir í heimi loftslagsvár og þykjustuleika samfélagsmiðla. Eins og ljóst má vera er þetta einnig umfjöllunarefni skáldsögunnar Armeló, lýst upp frá ólíkum sjónarhornum. Í veruleika okkar með allri sinni sögu, menningu, framförum og framleiðslu blasir við ein allsherjarupplausn sem ekki verður miðlað án þess að beita fjölbreytilegum frásagnarbrögðum.

Þórdís hefur í fyrri verkum sínum hneigst til súrrealisma sem einkennist meðal annars af því að stíga yfir og snúa upp á hindranir raunveruleikans, fólk sér sýnir og fær vitranir, ferðast á milli heima, á milli persóna, og margt fleira sem gefur færi á að skoða veruleikann frá óvæntum sjónarhornum og kveikja þannig nýjar hugsanir. Í Armeló notar Þórdís ýmis brögð hins súrrealíska jafnframt því að segja frá með raunsæjum hætti og af mikilli nákvæmni, sem stundum drífur frásögnina áfram, skapar væntingar og spennu, en dregur á stundum heildarsöguna óþarflega á langinn, auk þess sem spurningar vakna um samhengi sumra hliðarsagnanna í heildarframvindunni.

Að mínu mati er það hinn blátt áfram og hversdagslegi ljóðræni stíll Þórdísar í þessu mikla frásagnarflæði sem lyftir sögunni til þess lofs sem hún hefur fengið. Það er hið ljóðræna tungutak lýsinganna á umhverfinu – skóginum, stórborginni, útsýni út um lestarglugga – jafnt sem eðli og líðan aðalpersónunnar, sem opnar okkar vestræna heim með svo afhjúpandi hætti og skapar jafnframt Elfi, þessa einstæðu persónu í fjölfeldi sínu, fjölfeldi sem er við öll um leið og hún sjálf er ekki neitt. Skáldsagan Armeló er áhugaverð tilraun með persónusköpun og frásagnaraðferðir til að ná utan um ruglið í samtímanum og greina ástæðurnar fyrir því hvað við erum týnd, ráðalaus og án drauma.

 

Jórunn Sigurðardóttir