Högni eftir Auði Jónsdóttureftir Auði Jónsdóttur

 

Brot úr skáldsögunni Högni. Bjartur-Veröld gefur út.

 

 

 

 

 

 

Ég vissi ekki að Halli væri fyrirboði þegar hann kom fyrst í heimsókn.

Bara enn einn vinur pabba sem leit við í glas af einhverju sterku að spjalla um bæjarpólitíkina og fótbolta. Óvenju hávaxinn maður sem bar sig fimlega, eins og hann væri gerður úr þynnra efni en aðrir. Andlitið grannholda, augun fylltu út í það og ólguðu af einhverju sem minnti á aðdáunina í augum mömmu. Annars man ég andlitið í þoku, hann birtist eins og svipmynd, grunur um minningu. Nema hann klæddist oftast svörtum rúllukragabol og samlitum buxum úr leðri.

En það var ekkert látlaust við veru hans, nema yfirborðið. Frekar að hann væri náttúruafl. Þeir höfðu kynnst í ígripavinnu í Hveragerði yfir hásumarið, að undirbúa svið fyrir tónlistarhátíð bæjanna. Um leið og þeir hittust varð ekki aftur snúið. Veruleikinn varð annar, þó að pabbi væri ekki reiðubúinn að viðurkenna það fyrir sjálfum sér. Hvað þá öðrum.

Kannski þurfti töffara til að lífga pabba við. Svo hann yrði hann sjálfur. Halli var sami töffarinn, nema á fínlegri hátt. Hann hafði þróað blæbrigði í tali og fasi eins og aðeins þeir geta sem hafa lifað til fulls.

Ég hafði aldrei séð pabba horfa með aðdáun á neinn, fyrr en ég sá hann horfa á Halla.

Ég laumaðist inn í stofu en hikaði við að sitja hjá þeim Halla. Venjulega skellti ég mér í sófann, ég veit ekki hvað aftraði mér frá því, ætli ég hafi ekki skynjað að ég væri að trufla eitthvað viðkvæmt, án þess að skilja það.

Þeir horfðu á fótbolta nema pabbi horfði ekki eins ákafur og áður á sjónvarpið. Ákafinn beindist að þessum manni. Þeir sýndu hvor öðrum meiri áhuga en fótboltanum, man ég eftir að hafa hugsað en skildi ekki hugsunina.

Halli var framandi og kunnuglegur í senn. Eitthvað við hann eins og hann hefði alltaf verið heima. Mamma þoldi hann illa, kannski hafði hún lengi óttast að hann birtist einn daginn. Grunað komu hans. Hún hafði nælt í sætasta strákinn á Stokkseyri og vildi að hann væri eins og hann átti að vera, þó að sumt hefði stundum gefið annað til kynna.

Venjulega fannst henni svo gaman þegar fólk datt í heimsókn. Og Halli skrafaði og sagði fyndna hluti, en suma þess eðlis að þeir pabbi hlógu en ekki hún. Með honum var pabbi á öðrum stað.

Hún tók samt vel á móti honum, kannski það eina sem hún gat gert.

Á veturna kenndi Halli ensku og stjörnufræði í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Allt í einu var pabbi farinn að tala um að klára stúdentinn. Hann fór að lesa fleiri bækur eftir útlenska höfunda með skrýtnum kápum sem minntu á plötuumslög og hlusta á lög sem ég hafði aldrei heyrt með þýskum og spænskum textum.

Mamma pældi líka í að taka kvöldskóla, ef hún kæmi því við. En henni fannst lögin leiðinleg, hún bað hann að slökkva eða setja eitthvað skárra á fóninn.

Mér fannst Halli forvitnilegur og það sem hann sýndi mér, eins og þessa bók um stjörnufræði eða tölvuspilið sem var lagt saman og minnti á seðlaveski. Samt fann ég að það var betra ef hann var ekki.

Ef hann kom fór ég út að hjóla því þeir myndu spila tónlist og tala um eitthvað sem pirraði mömmu. Það fór sífellt meira í taugarnar á henni þegar þeir fóru út saman. Pabbi sótti svo í að skreppa út með Halla að eitthvað var breytt. Í snjakahvítum gallabuxum og rúllukragabol, búinn að láta klippa hárið eins og Limahl í Neverending Story.

Pabbi og Halli höfðu skroppið saman að sjá Arsenal-leik í London og hann dressað sig upp, um leið og hann keypti föt handa mömmu og mér. Ég fékk hvítan jogginggalla, svipaðan þeim sem Wham!-félagarnir klæddust á mynd í Bravó-blaði.

Stuttu eftir ferðina leit Halli við en pabbi varð mjög þungbúinn um leið og hann lokaði dyrunum á eftir honum. Ég þekkti hann ekki. Hvaða maður var þetta inni í pabba mínum? Svipurinn var fyrirboði um óveður. Ég stóð álengdar, starði á hann. Þegar hann sá mig rankaði hann við sér og starði á mig í forundran. Ég sá tár í augum hans. Hann greip mig í fangið og þrýsti mér ákaft að sér. Eins og hann ætlaði aldrei að sleppa.

Eftir þetta kom Halli ekki aftur í heimsókn.

Allt var venjulegt aftur þangað til kvöldið sem löggan bankaði upp á. Pabbi hafði verið tekinn á planinu fyrir utan Hótelið, fyrir framan pylsuvagninn, í útipartíi undir berum himni. Mamma heyrði ekki orðin þegar Palli lögga, sem hún hafði alltaf þekkt, útskýrði málið. Hún bað hann að endurtaka þau, skjálfandi í náttsloppnum sem hún gleymdi að vefja að sér, strax búin að kveikja í rettu.

Hann hafði víst verið að kaupa eina með sinnepi og lauk í pylsuvagninum eftir fútt í Gjánni þegar gamlir skólafélagar þeirra mömmu viku sér að honum og spurðu hvort honum þætti gott að totta pylsur. Hann hafði í fyrstu ekki svarað. En þeir héldu áfram að spyrja hvort pylsan væri betri en göndullinn á Halla.

Þegar hann byrjaði að borða pylsuna án þess að svara sneru þeir sér að hinum og sögðu Halla að drulla sér og riðlast frekar á kynvillingunum í Reykjavík en smita eiginkonur hommaræfla af hommaveiki.

En lögreglan sagði mömmu ekki allt, hún heyrði það seinna úr öðrum áttum þegar vinkonurnar kepptust við að pína hana með endursögnum. Hvort hún heyrði það almennilega veit ég ekki. Eða hvort ég man það rétt, ég var ellefu ára þegar hann flutti. Man það einhvern veginn svona. Ég veit að pabbi kýldi einn þeirra, pabba Rutar í bekknum mínum, og hann kýldi svo fast að hann þurfti að dúsa inni um nóttina. Eftir það kom hann ekki aftur heim.

Var fluttur í bæinn – sagði mamma en vildi ekki tala um það neitt meira. Hann hafði komið heim nokkrum dögum eftir atvikið, feiminn eins og ókunnugur maður þegar hann henti örfáum flíkum í ferðatösku og tyllti sér svo með henni inn í eldhús.

Ég ímynda mér að hann hafi sagt að hann gæti ekki elskað hana á sama hátt og hún hann því þó að hann elskaði hana á sinn hátt, þá elskaði hann karlmann á þann hátt sem hún vildi að hann elskaði sig.

Ég heyrði að hún grét. Þau bæði.

Seinna heyrði ég hana öskra í símann: Fórstu beint úr rassgatinu á honum inn í mig?

Ég heyrði útundan mér að hann hefði flutt inn til vinar Halla í Breiðholti, sem bjó til hatta og hafði meira segja búið til hatt handa Boy George. Síðan fékk hann þessa íbúð sem var eiginlega bara herbergi.

Næstu mánuðir voru ruglingslegir. Mamma var svo oft úti ef hún var ekki að vinna, ör og furðu oft klædd eins og hún væri að fara á árshátíð.

Ég reyndi að vera hress svo henni liði betur. Það pirraði hana, ég reyndi að vera ekki fyrir. Návist mín pirraði hana, henni fannst augnaráð mitt íþyngjandi. Mér létti þegar hún knúsaði mig og við bulluðum hlæjandi.

Þegar hún var þreytt horfði hún á mig eins og ég væri vera sem hefði villst inn til hennar. Þá dæsti hún: Ekki stara, elskan! Hættu að glápa svona á mig, heyrirðu það! Farðu út að leika þér! – gerðu það fyrir mig!

Ég læddist út til að vera eðlilegur meðan hún reykti með fætur uppi á borði og safnaði kröftum fyrir næstu vakt, í þriðju vinnu dagsins.

 

 

Auður Jónsdóttir