JarðsetningAnna María Bogadóttir: Jarðsetning.

Angústúra / Úrbanistan, 2022, 246 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2023

Ég man ekki hvenær ég steig fyrst inn í Iðnaðarbankahúsið við Lækjargötu. Mig langar að segja að það hafi verið um það leyti sem ég byrjaði að drekka kaffi, einhvern tímann undir lok fyrsta árs í menntaskóla. Það er munaður sem yngra fólk í menntaskólunum í miðbænum mun því miður aldrei kynnast, að geta gengið inn í glæsilegar bankabyggingar til að stelast í frítt uppáhellt kaffi í plastmáli, svona rétt áður en haldið var á Nonnabita til að gæða sér á hádegistilboði eða á Fröken Reykjavík til að kaupa pylsu á hundraðkall. Þetta umhverfi mótaði mína kynslóð í miðborg Reykjavíkur en nú er það ekki lengur til. Alveg eins og aðrir staðir og annað umhverfi mótuðu kynslóðirnar á undan mér – og á undan Önnu Maríu Bogadóttur.

Jarðsetning fjallar um fæðingu, árdaga, uppvaxtarár, breytingarskeið, andlát og loks útför Iðnaðarbankahússins, sem setti svip sinn á horn Lækjargötu og Vonarstrætis í rétt um 57 ár, þar sem stílhrein byggingin var einn af boðberum nútímans, eða öllu heldur framtíðarinnar sem var í vændum á því mikla vaxtarskeiði sem má tengja við vígsluárið 1962. Halldór H. Jónsson, stjórnarformaður Íslands og lærisveinn móderníska meistarans Gunnars Asplund við Konunglega Tækniháskólann í Stokkhólmi, var arkitektinn og innanstokks var ekkert til sparað. Slípaður grásteinn á gólfi og veggklæðningar úr palísanderviði, mósaíkflísar í gylltum tónum og Álafossteppi mátti finna víða á gólfum. Í Jarðsetningu Önnu Maríu hefjum við leik við nýopnaða bygginguna, sem var eitt af flaggskipum íslenskra viðskiptabanka ásamt byggingum Búnaðarbankans og Landsbankans við Austurstræti. Ný bygging er fædd og það ríkir bjartsýni, von og eftirvænting í loftinu. Framtíðin blasir við með óendanlegum möguleikum sem ný tækni og nýtt fjármagn hefur fært eyjunni í Norður-Atlantshafi í ómældu magni.

Í stuttu máli fjallar Jarðsetning um hið manngerða umhverfi, um hið hannaða og hið náttúrulega, um samfélagið sem við mannfólkið höfum skapað, sem um leið mótar okkur og hegðun okkar. En bökkum aðeins. Bækur um arkitektúr eru ekki alveg óþekktar á íslensku sem betur fer. Bækur um borgarskipulag ekki heldur, þótt ekki beri mikið á þeim. En Jarðsetning er ekki hefðbundið rit um arkitektúr og borgarskipulag með upplýsingum um byggingarár mannvirkja eða áhrifavalda íslenskra arkitekta sem fæddust á fyrri hluta 20. aldar. Hér er farið dýpra. Jarðsetning er margslungið verk um hugmyndafræði, afstöðu og lífssýn, um bruðl, um jafnvægi, um endurhönnun og enduruppgötvun. Jarðsetning er einstaklega persónulegt verk en um leið almennt. Það fær okkur til að tengja. „What is most personal is most universal,“ er haft eftir bandaríska sálfræðingnum Carl Rogers og þau orð eru viðeigandi í þessu samhengi.

Þegar betur er að gáð eru mörg af áhrifamestu ritum um arkitektúr og skipulagsmál einmitt skrifuð frá persónulegu sjónarhorni höfunda, út frá því hvernig þeir hafa sjálfir upplifað hið byggða umhverfi og séð það fyrir sér. Hvað hefur farið miður, hvað hefur heppnast, hvað ætti að forðast og hvert ætti að stefna. Þannig mætti til að mynda nefna The Life and Death of Great American Cities eftir Jane Jacobs, The City in History eftir Lewis Mumford eða nýlegri bækur á borð við Street Fight eftir Janette Sadik-Khan. Nú eða Lífið milli húsanna eftir Jan Gehl sem Anna María sá einmitt um að gefa út á íslensku. Í þessum bókum er persónuleg upplifun höfunda af umhverfi sínu lögð til grundvallar til að útskýra og rökstyðja hugmyndafræði og lífssýn, oftar en ekki í bland við niðurstöður rannsókna sem renna stoðum undir málflutninginn. Það má jafnvel setja Vers une architecture eftir svissneska arkitektinn Le Corbusier í þennan flokk, þótt það rit sé mjög frábrugðið Jarðsetningu og skrifað á afar afdráttarlausan hátt með ansi sterkum besserwisserablæ.

Ekkert fer fyrir slíkum stílbrögðum hjá Önnu Maríu sem skrifar látlaust og af auðmýkt fyrir viðfangsefninu, en þó af krafti og sjálfstrausti þegar það á við. Anna María fer yfir lífsferil byggingar, sögu arkitektúrs og skipulags, um leið og hún fjallar um sitt eigið líf – leggur ólíka þræði á borð og nær að hnýta þá saman, í tíma og rúmi, á listilegan máta. Og það er lykillinn að verkinu. Við, byggingin, umhverfið, erum hluti af heild sem á sér lífsferil og ætti með réttu að eiga mismunandi æviskeið, gegna mismunandi hlutverkum, fá að máta sig við eitthvað nýtt eftir að hið gamla er yfirstaðið. Í arkitektúr og skipulagi hafa slíkar hugmyndir náð miklum og skiljanlegum vinsældum á undanförnum árum, til að mynda hjá franska arkitekta- og skipulagsparinu Anne Lacaton og Jean-Philippe Vassal sem hlutu hin virtu Pritzker-verðlaun árið 2021. Kjörorð þeirra eru: aldrei rífa, aldrei skipta út. Alltaf að bæta við, umbreyta og endurnýta (fr. ne jamais démolir, ne jamais remplacer. Toujours ajouter, transformer et utiliser). Það er einmitt leiðarljós af þessu tagi sem hefur vantað í íslenskt byggingarlandslag og á það bendir Anna María vel.

Galdurinn er fólginn í samhengi hlutanna sem gerir Jarðsetningu að einstöku bókmenntaverki, sem er í senn hlýtt, djúpt og mig langar að segja spennandi. Eins og kvikmynd eftir Christopher Nolan þar sem ólíkir hlutar raðast saman á óvæntan hátt. Byggingin sem er til umfjöllunar átti sér nefnilega nokkur æviskeið, nokkur mismunandi hlutverk, þótt hún hafi verið reist sem bankabygging og verið það alla tíð. Og það sama á við um Önnu Maríu, manneskjuna sem er vitundarmiðja verksins; hún leggur öll spil á borðið og fer yfir eigið æviskeið sem er fullt af væntingum, vonbrigðum, uppgötvunum, hindrunum, sigrum, sorg og ást. Og allt þetta getur átt sér stað í sérhverri byggingu, í sérhverri borg sem fæðist og endurfæðist, þróast og endurskilgreinir sig í tíma og rúmi. Við hefjum nám í grein sem heillar í fyrstu en ákveðum síðar að breyta um stefnu.

Vesturevrópskar iðnaðarborgir 20. aldar þróuðust út frá tilgangi, út frá atvinnustarfseminni og fólkinu sem hélt henni uppi. Hafnarborg, námuvinnsluborg, verksmiðjuborg. En með alþjóðavæðingu og tilfærslu starfa á heimsvísu verður til nýr veruleiki, nýjar áskoranir, nýr tilgangur og nýtt hlutverk. Allt þetta getum við heimfært upp á okkur mannfólkið. Anna María hefur sjálf notið þeirrar gæfu að upplifa ný hlutverk, að leita að nýjum tilgangi. Hún lauk háskólanámi í nokkrum greinum áður en hún fann sína stefnu í arkitektúr. En munum, það þýðir ekki að fyrra nám sé gagnslaust eða hafi engu skipt. Þvert á móti er það hluti af sögu hennar, hafði mótandi áhrif á æviskeiðið sem helgað var náminu og þau sem koma á eftir. Anna María, rétt eins og við flest, nýtir sögu sína og reynslu til að takast á við áskoranir nútímans. Og það ættu byggingar og borgir sömuleiðis að fá tækifæri til að gera. Við ættum ekki að upplifa algilt minnisleysi gagnvart sögu okkar, hvort sem við erum fólk, borg eða bygging.

Í bókinni eru fleiri minnisstæðar samlíkingar sem snertu þennan lesanda djúpt. Mig langar sérstaklega að taka til uppvaxtarár Önnu Maríu á Eskifirði og velferðarsamfélagið þar sem hún lýsir svo vel, „sem teiknar sig upp í menningarmannvirkjum og menningarlífi“ (bls. 51). Það er líka táknmyndin sem bygging Iðnaðarbankans hafði, um bjartsýni og framtakssemi, vandvirkni og stórhug. Módernisminn hefur fengið sinn skerf af réttmætri gagnrýni en hugsjón hans á enn erindi þótt afleiðingar hans megi túlka á marga vegu. Bæði fallegasta og sorglegasta landslag heims, stendur í Litla prinsinum eftir Saint-Exupéry, og nær ef til vill utan um þessa hugsun. En hvað sem því líður skulum við ekki gleyma því að á 7. og 8. áratug síðustu aldar byggðum við upp samfélag fyrir fólk. Við byggðum íþróttahús við hvern einasta skóla, við byggðum sundlaugar um allt land og við lögðum metnað í að halda úti menningarstofnunum, leikhúsum, útvarpi, sinfóníuhljómsveit, bókasöfnum. Hverjar eru áherslur okkar nú?

Í Kaupmannahöfn, sem er einmitt gömul iðnaðarborg sem náði að endurskilgreina sig á nýrri öld, er lögð áhersla á velferð íbúanna, hamingju þeirra og lífsgæði. Borgin hefur gengið í gegnum miklar breytingar, þéttingar- og byggðarþróun sem kallast hlutfallslega á við þá sem orðið hefur í Reykjavík. En á sama tíma var ákveðið að leggja neðanjarðarlestarkerfi handa íbúunum. Nýjar byggingar á bestu stöðum við strandlengjuna verða að bjóða upp á opin svæði, til dæmis útsýnissvæði á þaki, handa íbúunum. Jafnvel stórfyrirtæki, sem má kalla kaldrifjuð í sínum eina tilgangi að skila arði til eigenda sinna, verða að hanna byggingar sínar þannig þær megi nýta öllum borgarbúum til góðs. Af hverju eru ekki útsýnishæðir á nýjum byggingum á höfuðborgarsvæðinu? Hvað er byggt um þessar mundir handa íbúum þessa lands, handa okkur? Hvar er hið mannlega, hið almenna, í sérhverri byggingu? Eða einfaldlega í skapgerð nútíma Íslendinga? Erum við að gleyma einhverju, til dæmis því að hlúa betur að samfélagi okkar, að umhverfinu, að byggingum okkar? Erum við að byggja eitthvað annað en risastór bílastæði og bílastæðakjallara til að hvetja enn frekar til einveru í tveggja tonna málmhylkjunum?

Þessi hugðarefni eru enn betur undirstrikuð í köflunum sem mynda fimmta hluta bókarinnar – og má kalla rauðan þráð hennar. Það er vanmetið hlutverk kvenna í sögu byggingarlistarinnar, móðurhlutverkið, líknarbelgurinn, það sem heldur utan um okkur öll, nærir okkur og býr okkur undir lífið. Sterkar konur úr lífi Önnu höfðu mótandi áhrif á hana, líkt og þær hafa á okkur flest. Jafnvel þegar við tökum ekki eftir því. Það á til dæmis vel við um byggingarsöguna sem Anna María fer yfir með magnaðri sögu Charlotte Perriand, Bauhaus-kvenna og hennar eigin. Mér varð hugsað til yfirlitssýningar Hildar Hákonardóttur sem bar einmitt titilinn Rauður þráður og þess hvernig konur hafa skapað umhverfi okkar og samfélög, það sem máli skiptir, oftar en ekki án nokkurrar viðurkenningar. Hvernig hlúum við að þessu dýrmætasta sem við eigum í byggingum okkar og borgum? Það er einkenni framúrskarandi samfélaga að hlúa vel að mæðrum og börnum, það er líka einkenni framúrskarandi íbúðarhúsa og bestu borga heims. Og þarna er ástæða fyrir Íslendinga að staldra við og athuga hvað hefur farið úrskeiðis og hvað hefur heppnast, hvað ætti að forðast og hvert ætti að stefna. Þegar við gleymum þessum kjarnagildum sem eru grunnur allra góðra samfélaga, og var á einhverjum tímapunkti grunngildi í íslensku samfélagi, þá upplifum við hrun; efnahagshrun, eða þegar við gleymum okkur í of miklu amstri, of mikilli vinnu, andlegt hrun.

Eins og áður sagði eru vissulega til bækur um arkitektúr og skipulagsmál á íslensku. En bækur sem fjalla um þessi málefni á gagnrýninn hátt, í þeim tilgangi að kynna fólk fyrir hugmyndafræði, nýrri sýn sem er byggð á traustum grunni, sem rökstyðja og sannfæra, eru hvetjandi og hugmyndaríkar, þær eru ekki á hverju strái og hvað þá í þessum gæðaflokki. Anna María hefur unnið mikið þrekvirki og á allt það hrós skilið sem hún hefur hlotið fyrir Jarðsetningu. Og nú, þegar þessi orð eru skrifuð, stöndum við Íslendingar frammi fyrir afar mikilli uppbyggingu íbúða. Má þar nefna að rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða á árunum 2023–2032 kveður á um uppbyggingu 35 þúsund nýrra íbúða á næstu tíu árum og koma margar þeirra til með að rísa þar sem aðrar byggingar eru nú þegar. Þar má nefna Múlana og Höfðana, þar sem fyrir eru burðugar steinsteyptar byggingar sem saman mynda með skárri götumyndum sem finnast í Reykjavík, tja, ef við gæfum öðrum fararmáta en bílnum aðeins meira rými.

Þegar við stöndum frammi fyrir svo mikilli uppbyggingu eigum við einmitt að staldra við. Hugsum til Lacaton og Vassal, aldrei rífa, aldrei skipta út. Heldur bæta við, umbreyta og endurnýta. Hugsum málið frá umhverfissjónarmiði og frá fagurfræðilegu sjónarmiði. Leyfum sögunni að þróast og geyma sín ör, leyfum komandi kynslóðum að lesa í þau. Það er það sem bygging Iðnaðarbankans hefði átt skilið, fegursta en sorglegasta landslag veraldar. Að lokum langar mig að endurtaka orð félaga míns, Óskars Arnar Arnórssonar arkitekts, úr Víðsjárpistli sem hann flutti í upphafi ársins 2023 og kjarna svona nokkurn veginn það sem mig langar að segja: „Anna María er brautryðjandi meðal arkitekta sem notar það sem hún tileinkaði sér í arkitektanámi til að stunda arkitektúr á óhefðbundinn hátt. Hún er arkitekt framtíðarinnar – arkitekt fyrir tíma sem hafa ekki jafn mikla þörf fyrir nýjar byggingar og þeir hafa fyrir endurhugsun þess sem þegar er til staðar.“

 

Björn Teitsson