Benný Sif Ísleifsdóttir. Hansdætur.
Mál og menning 2020, 342 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2021
Í upphafskafla skáldsögunnar Hansdætra bregður höfundur upp mynd af fjölskyldu sem er að flytja úr sjóblautum kjallara í Bótarbugt, fátækrahverfi sem stendur í fjöruborðinu á litlu sjávarþorpi, í betra húsnæði ofar í þorpinu. Fjölskyldan samanstendur af Evlalíu, börnum hennar þremur, Guðbjarti, Sellu og Gratíönu, og ömmunni, Mikkalínu Maríu, sem gengur undir nafninu Mæamma. Þau eru að flytja inn á heimili bróður Evlalíu, Björns Ebeneser, þar sem Evlalía á að taka að sér heimilisreksturinn því eiginkona Björns, Borga, hefur „hvorki getað borðað né unnið, eða sofið eða vakað, síðan hann Ásgeir litli dó“ (10) og virðist jafnframt hafa gleymt tveimur eftirlifandi dætrum sínum. Höfundur notar þriðju persónu frásögn en bindur sjónarhornið við stelpuna Gratíönu sem kynnt er til sögu strax í fyrstu málsgrein:
Stelpan situr á steini neðarlega á sjávarkambinum, skankalöng og stuttklippt, skýr augun kipruð í búlduleitu andlitinu og hendurnar standa langt fram úr ermunum á kjólnum; hlutfallslega lengra en fæturnir undan faldinum, grannir innan í krukkluðum ullarsokkum og alltof stórum karlmannsskóm sem henni áskotnuðust þegar bróðir hennar óx upp úr þeim. (5)
Í framhaldinu er athyglinni endurtekið beint að hinum skýru augum Gratíönu sem „fylgist með“ því sem fram fer. Í gegnum forvitin og athugul augu hennar kynnist lesandinn fyrst fjölskyldu hennar og síðar öðrum þorpsbúum í frumstæðu og stéttskiptu íslensku samfélagi eins og það var í upphafi síðustu aldar.
Sviðsetningin á flutningi fjölskyldunnar er mjög vel gerð og í raun snilldarlegt bragð af hendi höfundar því þar eru strax dregnir upp megindrættir í persónuleika allra aðalpersónanna, sem og kynntar aðstæðurnar sem þær búa við. Þá kallast upphafskaflinn einnig á við lokakaflann og óvænt endalok bókarinnar.
Gratíana er skemmtileg persóna, sjálfstæð og ákveðin stúlka með ríka réttlætiskennd og drauma um annað líf en það sem móðir hennar og aðrar konur þorpsins hafa átt kost á. Persónulýsing hennar, ásamt því hvernig sjónarhornið er bundið við augu hennar og hugsanir, minnir á aðra vinsæla íslenska bókmenntapersónu, Öggu úr Mávahlátri (1995) eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, enda hefur Benný Sif Ísleifsdóttir ekki farið leynt með aðdáun sína á bókum þeirrar fyrrnefndu og játað áhrif hennar á sín skrif. Einnig er Gratíana greinilega í ætt við Sölku Völku, sér í lagi andstaða hennar við hlutskipti kvenna, ákvörðun hennar að ganga í buxum og varðveita sjálfstæði sitt; hún ætlar „með einhverjum hætti að klæðast karlmannsfötum í framtíðinni“ (15) og má það skiljast bæði á bókstaflegan og táknrænan máta.
Draumar Gratíönu snúast um menntun, skrif og blaðamennsku og fyrirmynd hennar er móðurbróðirinn, Björn Ebeneser, sem er ritstjóri héraðsblaðsins Arnarins. Gratíana unir sér best í prentsmiðjunni, að horfa á „þegar stöfunum er raðað í prentarann, hjólinu snúið og öll þessi orð birtast á prenti, mestmegnis orð sem Björn Ebeneser hefur sjálfur ákveðið að þar skuli standa. Af því að hann er ritstjóri. Og í hvert skipti verður hún ákveðnari í því að verða einn daginn ritstjóri sjálf“ (32). Gratíana áttar sig á að það sem stendur í Erninum „er miklu áhrifaríkara en ræður prestsins“ (32) enda sofna margir undir þeim. Lesmálið í Erninum vekur hins vegar meðvitund Gratíönu um samhengi hlutanna:
Af því að lesa landsmálablöðin sem berast á prentsmiðju Arnarins og heyra þýðingar Björns Ebenesers úr útlendu blöðunum verður Gratíönu smám saman tvennt ljóst. Fólk hefur það betra í útlöndum en á Íslandi og karlar hafa það betra en konur. Útlönd eru komin lengra á framfarabrautinni en Ísland, þar eru járnbrautir og fólk fer í ferðalög, og kemur svo heim í falleg hús með trjám og gróðri í görðum, spásserar um steinlögð stræti með niðurfelldum lokræsum og fær vatnið sitt rennandi inn í hús. Karlar eru líka komnir lengra á framframabrautinni en konur. Þeir sleppa einhvern veginn auðveldar við allt það sem gerir líf kvenna svo erfitt og leiðigjarnt; þetta sífellda vatnssull og barnastúss sem hvorutveggja kemur til vegna karlanna, á einn eða annan hátt. Það þarf að þvo þvottinn þeirra, elda matinn þeirra, fæða börnin þeirra og vaska fiskinn þeirra. Fyrir svo utan að þeir sleppa við allt þetta neðanmittisvesen sem einlægt er á konum og gerir þær svo heimilisfastar. (187)
Gratíana fer fljótlega að hjálpa til með skrif í Örninn, hún vill auka hlut kvenna í fréttum og fær viðurnefnið „aðstoðarritstjóri“ hjá frænda sínum sem kann að meta áhuga hennar á starfinu. Öðru máli gegnir um mömmu hennar sem „þykir Björn Ebeneser ekki mikill verkmaður og ritstjórn dagblaðs óttalegt dútl“ (7). Hún vill frekar reyna að halda dóttur sinni að húsverkum og öðru nytsamlegu, sem Gratíana hefur lítinn áhuga á. Evlalía á börn sín þrjú með þremur giftum mönnum og nefnir þau öll „Hansbörn“ og „þótti öðrum fremri í að feðra lausaleiksbörn“ (27). Hún er sjálfstæð og dugleg, lætur mótlætið ekki beygja sig og spyr skiljanlega: „Hvenær er hægt að treysta á karlmenn?“ (19) Hún hefur líka húmor sem kemur til dæmis fram í nafngiftum barnanna þar sem vísað er á ísmeygilegan hátt til barnsfeðranna. Elsti sonurinn ber nafnið Guðbjartur enda kom hann undir „með jarðnesku framlagi séra Hróbjarts“ (27) og Gratíana er dóttir danska kaupmannsins sem gefur börnum sælgæti „gratís, helt gratís“ (39).
Titill bókarinnar vísar til systranna tveggja, Gratíönu og Sellu, þótt sú fyrrnefnda sé tvímælalaust aðalpersónan. Sella er eldri og ekki eins kvenfrelsissinnuð og Gratíana en hún á sér draum um að verða söngkona enda hefur hún ótvíræða hæfileika á því sviði:
Það var erfitt að lýsa því, en frá því að Sella stóð upp og byrjaði að syngja og þangað til hún settist niður aftur fannst Gratíönu að hún hefði upplifað undur og stórmerki. Eitthvað sem gæti breytt heiminum, eða að minnsta kosti bænum, en þó var það sem af öðrum heimi […] Sella söng tóna en ekki lag og hún söng hljóð en ekki orð. Tónarnir voru eins og norðurljós á vetrarhimni og hljóðin eins og lóusöngur að vori en styrkur þeirra eins og mávanna þegar þeir slást um slógið. (95)
Þegar Sella verður ófrísk eftir mann sem reynist trúlofaður annarri konu virðist stefna í óefni og framtíðardraumarnir í hættu. Sú óheppni á þó eftir að færa henni tækifæri lífsins því barnsfaðirinn kaupir sig frá ábyrgð og kostar Sellu til söngnáms í Kaupmannahöfn þar sem hún ætlar að eignast barnið og gefa það. Gratíana fylgir systur sinni og fær sjálf um leið tækifæri til þess að mennta sig í prentlist og læra dönsku. En hlutirnir æxlast á annan veg en til stóð og markar þeim systrum óvæntar og aðskildar brautir. Enda eru þær ólíkar eins og er skemmtilega lýst á eftirfarandi hátt: „Þær eru eins og í eggi, tilheyra hvor annarri en eru álíka aðskildar og blóminn og hvítan“ (301). Sella kann að haga seglum eftir vindi, hún hugsar fyrst og fremst um eigin hag og drauma og skilur yngri systur sína eftir með alla ábyrgð á „vandamáli“ sem Gratíana á engan þátt í að skapa en vill þó ekki hlaupast frá.
Margar litríkar aukapersónur fléttast inn í líf þeirra Hansdætra og tekst höfundi að gæða þær allar lífi. Hér má nefna ömmuna, Mikkalínu Maríu, sem dregin er upp lifandi mynd af þar sem hún situr síprjónandi ullarsokka með kvæði og biblíuorð á vörum, sem og bestu vinkonu Gratíönu, Rannveigu, sem tilheyrir þeim fátækustu og aumustu í samfélaginu og leyfir sér ekki stóra drauma. Hún á samúð lesenda óskipta, líkt og aðrir smælingjar þorpsins.
Utan um líf og lífsbaráttu persóna sinna dregur Benný Sif upp sannfærandi mynd af íslensku samfélagi á fyrri hluta tuttugustu aldar sem er skilyrt af öflum náttúrunnar. Þegar brestur á með miklum frostavetri sem hamlar bæði atvinnulífi og aðföngum er lífi fólksins ógnað, sérstaklega þeirra fátækari og aumari. Sultur sverfur að mörgum og karlarnir hanga heima, atvinnulausir og óþarfir:
Karlar eiga svo illa heima í húsum yfir hádaginn; þeir verða eins og þaulsetnir gestir, eru hvorki nýkomnir né rétt ófarnir og heimilsfólkið kann ekki almennilega við að sinna sínum venjubundnu störfum á meðan; er eins og hálft í hvoru að hinkra eftir að þeir hysji sig á lappirnar svo hægt sé að sinna þvottinum og þrifunum og öllu því sem konur þurfa einlægt að vasast í.“ (64)
Og þannig „byltast dagarnir áfram, ísaðir, hélaðir, frosnir, engin tilbreyting í neinu, aðeins tilbrigði í vindáttum og hitastigi og meiningamunur í merkingu veðrabrigða“ (69). Lífsbaráttan er hörð, því auk kuldans herja ýmsar pestir á samfélagið og dauðinn er órjúfanlegur hluti af tilverunni.
En það er saga kvenna, kjör þeirra og barátta fyrir betra lífi, sem er þungamiðja allrar frásagnarinnar og höfundur dregur skýrt fram, eins og í tilvitnuninni hér að ofan, hversu aðskildir og ólíkir heimar karla og kvenna eru. Vinna kvenna er óþrjótandi og erfið, þær geta ekki leyft sér að sitja að drykkju eins og karlmennirnir og þær bera einar ábyrgð á afleiðingum ástalífs utan hjónabands. Þetta sér Gratíana skýrt og afneitar því kvenhlutverkinu, hún hugsar öðruvísi en hinar konurnar og þróar með sér „prinsíp og eitt af þeim prinsípum heitir kvenréttindi“ (149). Gratíana er harðákveðin í að gifta sig ekki og eignast ekki börn; hún ætlar að „vinna karlmannsstörf og fá fyrir það karlmannslaun“ (149). En staða hennar í bókarlok er önnur en hún stefndi að. Þar kemur til rík ábyrgðarkennd Gratíönu sem á vafalaust eftir að seinka uppfyllingu drauma hennar. En lesandinn trúir á Gratíönu og heldur með henni allt til enda, og vonar að höfundur geri það líka og haldi áfram að spinna sögu hennar í fleiri bókum.
Benný Sif Ísleifsdóttir hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir fyrstu skáldsögu sína, Grímu, sem kom út 2018. Með þeirri frumraun sýndi Benný Sif að hún átti gilt erindi inn á svið íslenskra bókmennta. Í Grímu komu skýrt fram styrkleikar höfundarins sem felast hvort tveggja í sterkri persónusköpun og áhugaverðri sögufléttu. Með Hansdætrum hefur Benný Sif staðfest þetta erindi sitt enn fremur. Hún hefur náð enn betri tökum en áður á sögubyggingu og stíl, bókin bregður upp áhugaverðri mynd af íslensku samfélagi á síðustu öld og kynnir lesendur fyrir persónum sem ég hygg að flestir vilji kynnast nánar.