DýralífAuður Ava Ólafsdóttir. Dýralíf.

Benedikt bókaútgáfa, 2020. 205 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2021.

 

Kynslóðir koma, kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.
Gleymist þó aldrei eilífa lagið
við pílagrímsins gleðisöng.

(Matthías Jochumsson)

 

Það er óneitanlega ættarsvipur með aðalpersónunum í skáldsögum Auðar Övu Ólafsdóttur. Þær eru verulega færar á sínu sviði, ef ekki með einhverskonar sérgáfu þá í það minnsta köllun til þeirra verka sem þær fást við. Prófarkalesarinn í Rigning í nóvember kann ótal tungumál og ungskáldið Hekla í Ungfrú Ísland les Ulysses í rútunni á leið suður til að ná betri tökum á enskunni og búa sig undir að fylgja skáldskaparköllun sinni, sem hún hefur næstum yfirnáttúrulega hæfileika til. Handlagni og þrautþjálfað verkvit Jónasar í Ör er hans helsta einkenni, verður honum til lífs, ef svo má segja. Aðalpersóna og sögumaður Afleggjarans er alinn upp í gróðurhúsi og ræktun er hans köllun. Nöfnurnar og frænkurnar sem sagt er frá Dýralífi eru á þessu rófi: ef ekki með sérgáfu þá alveg áreiðanlega köllun.

Annað sem einkennir þessar persónur – þessa sögumenn og -konur – er viss fjarlægð sem þær hafa á heiminn, samferðamenn sína og umhverfið. Jafnvel á eigin tilfinningar og sviptingar í lífi sínu. Þessi afstaða gerir Heklu, Jónas og Arnljót að framúrskarandi sögumönnum, en stóri galdur Auðar Övu er kannski að það kemur ekkert niður á nándinni sem lesandinn finnur fyrir í garð þeirra. Fyrir vikið nýtur Auður Ava alþýðuhylli vel umfram það sem búast mætti við þegar um er að ræða jafn táknsæjar, lágstemmdar, listrænar, stundum tíðindalitlar og á köflum óræðar bókmenntir.

Aðalsöguhetjur Dýralífs, sverja sig óneitanlega í ætt við þennan hóp. Sérlega færar í sínu fagi og hafa tilhneigingu til að láta lífið ekki snerta sig, þó svo vilji til að fagið sem þær fást við sé lífið sjálft í sinni hreinræktuðustu mynd. Þar sameinast þær frænkur, Dómhildur yngri og eldri og um það fjallar Dýralíf.

 

II

Skáld er maður sem býr til ljóð. Veistu hvað ljóð er?
Þa svona gult á peru.

Hann er að rugla saman við ljós, en ég tími ekki að leiðrétta það.

(Pétur Gunnarsson, Sagan öll)

 

Umgjörð og uppbygging Dýralífs er nokkuð flókin, þó söguþráðurinn sé einfaldur, jafnvel rýr. Hann er ekki í stóru hlutverki, Auður Ava rekur ekki erindi sitt í gegnum atburði í þessari bók.

Ljósmóðirin Dómhildur yngri (Dýja) býr í íbúð sem hún fékk eftir ömmusystur sína, starfssystur og nöfnu (Fífu) í Vesturbæ Reykjavíkur og vinnur á fæðingardeildinni eins og hún. Dómhildur yngri hafði hug á að læra til prests en Dómhildi eldri tókst að sannfæra hana um að feta frekar í sín spor og verða ljósmóðir í einni af ferðum þeirra frænkna til að safna efni um sögu ljósmæðra og fæðingarhjálpar Norðanlands.

Dómhildur eldri er heltekin af starfi sínu. Hún bæði lifir og hrærist í því á praktískan hátt, nærist á handverkinu og ummönnun mæðra og nýbura. Eldra samstarfsfólk hennar á spítalanum kann af henni ótal sögur og man – svona nokkurn veginn – fjölda tilsvara hennar og afstöðu til nýjunga og annarra þátta starfsins. Jafnframt er Fífa upptekin af ljósmóðurstarfinu og viðfangsefni þess – upphafi lífsins – á fræðilegan hátt, út frá sagnfræði, líffræði og heimspeki.

Dómhildur yngri er líka helguð starfi sínu en hennar köllun birtist ekki á hugmyndaplaninu, heldur meira hvernig hún forðast að taka sér frí, reynir að vera alltaf á vakt, þó þar spili fjárhagsáhyggjur líka inn í. Stundum hefur lesandinn á tilfinningunni, eins og hennar nánustu, að Dýja sé ekki síður að forðast mannlega nánd en að sýna ráðdeild og fórnfúsa samviskusemi með ákvörðunum sínum um að vera alltaf í vinnunni og halda öðrum frá sér. Sá þráður – spenna í fjölskyldunni – er ekki gildur í vefnaði sögunnar, þó við fáum að vita að foreldrar hennar reka útfararstofu og eru álíka heltekin af sínum viðfangsefnum og Dýja af sínum.

Það er því löng hefð fyrir því í fjölskyldunni að annast manninn á upphafsreit og endastöð, eins og móðir mín bendir réttilega á, móðurættin þegar hann kemur í heiminn og föðurættin þegar hann kveður heiminn, móðurættin þegar ljósið kviknar og föðurættin þegar ljósið slokknar. (42)

Skýr andstæðupör er mjög áberandi í textanum: Líf – dauði, ljós – myrkur, ljósmæður og útfararstjórar, Fífa með grænu fingurna og systir hennar sem allar plöntur deyja hjá.

Auður er ófeimin við að ganga hreint til verks með tákngildi orða og atburða, að tefla saman upphafi lífs og endalokum á þennan beinskeytta hátt. Vekja athygli á merkingunni og láta svo lesandanum eftir að láta hugleiðingar kvikna. Á sama hátt er ljósið í öllum sínum myndum og hugmyndir okkar um það sífellt nálægt í textanum og aldrei fer á milli mála að það er vegna tengsla þess við kviknun lífs og orðsins sem við kusum um árið fegursta orð íslenskrar tungu.

Auður teflir á tæpasta vað með að verða einfeldningsleg með þetta tákn- og líkingamál og fyrirferð þess í sögunni. Á móti eru aðrar vísanir óljósari og meira skilið eftir fyrir þá lesendur sem hafa unun af að elta slíka þræði út fyrir textann. Annað einkenni sem hefur fylgt Auði Övu á þroskabraut rithöfundarins.

 

III

Poor little fucker, poor little kid,
Never asked for life, no she never did.

Crass, Systematic Death

 

Í stórum dráttum skiptist Dýralíf í tvo hluta: Móður ljóssins og Dýrafræði fyrir byrjendur. Í þeim fyrri gerir Dómhildur yngri grein fyrir lífsaðstæðum sínum og kynnir okkur fyrir ömmusystur sinni. Það líður að jólum, óveður í aðsigi og rafmagnið í íbúðinni sem Dýja erfði að hluta eftir Fífu er orðið dyntótt. Ljósið blaktir. Lýsingar á lífi og umhverfi Dýju skiptast á við yfirlit yfir minningar um Fífu, bæði sögumanns og samstarfsfólks hennar, og greinargerð fyrir eftirlátnum skrifum hennar: bréfum sem fóru á milli hennar og velsku ljósmóðurinnar Gwynvere fram að andláti þeirrar síðarnefndu, blaðagreinum um dýravernd og umhverfismál og sagnaþáttum af ljósmæðrum fyrir alda.

Síðari hlutinn er síðan helgaður yfirliti yfir önnur handrit Fífu sem Dýja finnur í bananakassa í fataskáp. Samhliða verða smávægilegar breytingar á aðstæðum hennar. Rafmagnið kemst í lag með hjálp rafvirkja sem leitar til Dýju vegna fæðingarþunglyndis eiginkonunnar, henni er þröngvað í frí, enda búin að vera á jóla- og aukavöktum samfleytt árum saman. Síðast en ekki síst kemur röggsöm starfssystir inn í líf hennar, flytur burt umframhúsgögnin sem fylla íbúðina og gengur í að mála, breyta og jafnvel skreyta jólatréð. Lífshættir Dómhildar yngri minna okkur á hvernig kynslóðirnar taka við jörðinni hver af annarri, gera sig heimakomna í vegsummerkjum þeirra sem á undan gengu. Að gera hversdagsleikann framandi og þar með umhugsunarverðan er eitt af erindunum sem Auður Ava rekur í Dýralífi.

Viðbrögð Dýju við þessum breytingum eru ekki stórvægileg á yfirborðinu, eða í textanum. Þó hefur hún færst nær því að vera þátttakandi í lífinu frekar en einangraður rannsakandi. Eða réttara sagt, rannsakandi rannsókna annarra, í tilraunum sínum til að henda reiður á innihaldi bananakassans.

Það eru bókahandritin sem verða að teljast kjarni Dýralífs. Segja má að þau séu fimm talsins. Í fyrri hlutanum segir frá vinnu Fífu við að safna efni um líf og störf ljósmæðra fyrri tíma í sinni heimasveit. Afraksturinn er handritið „Lifandi reynslusögur sjö ljósmæðra og eins ljósföður á Norðurlandi vestra.“  Í bananakassanum leynast að auki þrjú handrit: „Dýralíf – rannsókn  á því sem manneskjan er fær um“, „Sannleikurinn um ljósið – Hugleiðingar mínar um ljósið / Æviminningar mínar um ljósið“ og loks „Tilviljunin“. Þessu til viðbótar eru afrit af bréfum sem Dýja sendi pennavinkonu sinni, velsku ljósmóðurinni Gwynvere, um árabil og blaðagreinar um ýmis málefni, þar á meðal náttúruvernd.

Franski heimspekingurinn og stærðfræðingurinn Blaise Pascal kemur allnokkuð við sögu, og að mörgu leyti minna efnistök Fífu og viðfangsefni á þann órólega huga. Hann var allnokkuð upptekinn af hve vesæl vera maðurinn er, ósjálfbjarga og vanmáttug, en það er aðalstefið í Dýralífi Dómhildar eldri. Þá er hann einn af upphafsmönnum stærðfræðilegrar greiningar á líkindum, en í Tilviljuninni fjallar Fífa um þá heimspekilegu furðu að af öllum þeim óteljandi möguleikum sem fyrir hendi eru þá raungerist einmitt þeir sem verða til þess að hún varð til. Líkurnar á að raunveruleikinn verði nákvæmlega eins og hann er eru hverfandi.

Þá er frægasta rit Pascals, Pensées (Hugsanir) brotakennt og án augljóss samhengis líkt og afrakstur ritstarfa Fífu, sem ekki þóttu á sínum tíma tæk til útgáfu.

En handrit Dómhildar eldri eru ekki ein um að vera óreiðukenndir textar. Eitt sérkennilegasta einkenni Dýralífs er hvernig Dýja er sífellt að máta setningar, rifja upp orðalag Dómhildar eldri, rekja orðalagsmun í því hvernig starfssystur muna ólíka hluti sem þær hafa eftir henni.  Oftast eru þessi „lesbrigði“ smávægileg. Það sama er uppi á teningnum í handritunum, hluti af óreiðu þeirra eru atlögur og tilraunir til að orða hluti, breyta, laga.

Dómhildur yngri er sjálf meðvituð um möguleika tungumálsins til að villa mönnum sýn. Við fáum snemma að vita að hún missti sjálf dreng í fæðingu sextán árum áður en sagan gerist:

Það kemur fyrir að skjólstæðingar mínir spyrja hvort ég eigi börn og ég neita því.

Hefðu þær spurt, hefurðu fætt barn, hefði ég svarað, það munaði ekki miklu að ég yrði móðir. (137–138)

Hugsanlega á það áfall sinn þátt í einangrun hennar og afskiptaleysi gagnvart heiminum, en lágstemmd bókin dvelur ekki við þær tilfinningar, frekar en aðrar.

 

 

IV

Ó, undur lífs, er á um skeið
að auðnast þeim, sem dauðans beið —
að finna gróa gras við il
og gleði’ í hjarta að vera til.
Hve björt og óvænt skuggaskil.

Þorsteinn Valdimarsson, Heilsuheimt

 

Dýralíf er ekki viðburðarík skáldsaga. Sögufléttan er einföld og í bakgrunni, það verða engar heiftarlegar sviptingar í lífi Dýju, þó hún byrji seint og um síðir að koma íbúðinni sinni í „eðlilegt“ ástand með hjálp kollega og skjólstæðings úr rafvirkjastétt, reynist ástralska túristanum sem fær inni á efri hæðinni hjálparhella og fallist loksins á að taka sér frí. Það er alveg á mörkunum að þessi þáttur sögunnar haldi athygli eða áhuga lesandans lifandi. Þetta er ekki ein af þeim skáldsögum það sem allt leikur í lyndi hjá aðalpersónunni og svo dynja ósköp yfir sem hvolfa öllu við og kalla fram endurmat og djúpa sjálfsskoðun.

Hún fjallar hinsvegar um stærstu tíðindin: þá óskiljanlegu staðreynd að líf kviknar, og þá furðulegu fléttu sem fer í gang þegar ósjálfbjarga vera þarf að finna sér stað í nýjum heimi. Vesaldómur mannsins, sérstaklega í bernsku, gengur eins og þrástef í gegnum textann og í bakgrunninum er svo sú furðulega og sorglega staðreynd að einmitt þessi vesalingur hefur tekið ráðin af náttúrunni og misst tökin á þeim aftur með afleiðingar á borð við hamfaraveðrið sem vofir yfir mestalla bókina. Við fáum svipmyndir af því ástandi frá veðurfræðingnum, systur Dómhildar, sem ljósmóðirin heldur eins og öðrum í hæfilegri fjarlægð, eins og veruleika sem ekki sé gerlegt að horfast í augu við. Betra sé að einbeita sér að því smæsta.

Oft er talað um tákn og vísanir í bókum Auðar Övu Ólafsdóttur. Að nöfn, tölur, jurtir og dýr sem koma við sögu beri merkingu sem auðgi og dýpki textana, ef þau eru ekki hreinlega sjálfur kjarni málsins. Nú er það svo með táknsæi að það er langt í frá á vísan að róa með skilning, hvað þá sameiginlegan skilning, á merkingu táknanna. Heimur hinna læsu er góðu heilli löngu orðinn of margbrotinn og fjölbreyttur til þess. Eins er með vísanir í aðra texta, aðra list: enginn veit að hverju hver lesandi hefur aðgang í minni sínu eða bókasafni til að varpa ljósi á hvert verið er að leiða hann. Til allrar hamingju rata sögur Auðar Övu líka til þeirra sem láta þennan þátt þeirra sig engu varða og líta ekki á bókmenntir sem gestaþrautir.

Samt er næsta augljóst að þarna er að ýmsu að hyggja. Lesandinn hlýtur meðal annars að staldra við nafnið Ulysses Breki, sem Dýja tók á móti og er sonur rafvirkjans hjálpsama og þunglyndu konunnar hans. Eða að pennavinkona Dómhildar eldri, hin velska Gwynvere (annað nafn með djúpar bókmenntarætur), skuli í bréfi hugleiða dauða Önnu Kareninu, Aljonu Ívanovnu í Glæp og refsingu og Laviníu í Títusi Andróníkusi. Hvers vegna þessar þrjár? Að Laviníu skýtur upp í þessari upptalningu hringir öllum bjöllum, þarna við hliðina á rússnesku heimsbókmenntapersónunum sem „allir“ þekkja, sem er alls ekki raunin með þetta illræmda „bernskubrek“ Shakespeares sem fáir aðrir en einarðir aðdáendur lesa. Þetta er torráðin gáta og erfitt að finna samnefnarann eða hvernig örlög þeirra varpa ljósi á efni Dýralífs, utan þess að saman sýna þær hve vel lesnar þær pennavinkonur eru.

Eins hljótum við að staldra við fyrirferð Pascals í textanum. Pensées er ekki ómissandi hluti af kanónu hins vel lesna nútímamanns, frekar en blóðugt og smáð Shakespeareleikritið. Pascal verður að sönnu tíðrætt um vesaldóm mannsins, en er þó aðallega upptekinn af túlkun biblíunnar og öðrum trúarlegum spurningum í verki sínu. Það fer á hinn bóginn lítið fyrir  guðdómnum í Dýralífi, og hann ekki tengdur við Pascal. Í sögunni er heldur ekkert fjallað um frægustu hugmynd franska hugsuðarins, hið illræmda „veðmál“, þar sem færði fyrir því hagkvæmnisrök að rétt sé að trúa á Guð, enda hafi maður allt að græða en engu að tapa, öfugt við það ef maður trúir ekki og hættir á eilífðarpínslir ef Guð er til. Sjálfur var Pascal ekki í neinum vafa, varð fyrir persónulegri trúarupplifun þrítugur að aldri, svo rök hans eru ekki ætluð honum sjálfum.

Kannski er samt hægt að skoða Dómhildi eldri út frá veðmáli Pascals og þessari tvíbentu afstöðu hans til guðdómsins. Sjálf virðist hún aldrei í vafa um merkingu eða dýrð lífsins, hún verður daglega vitni af kraftaverkinu. En hún skrifar af djúpstæðri þörf til að bera því vitni fyrir okkur hin, sannfæra okkur um það: um undrið að við skulum fæðast jafn ósjálfbjarga og raun ber vitni, furðurnar í framgangi sögunnar sem leiða til þess að einmitt við, einmitt þessi tilteknu börn, verða til, og óskiljanlegan heilagleikann sem gerir tenginguna milli lífs og ljóss svona sjálfsagða.

Skrif Dýju, og þar með Dýralíf, eru áminning um þetta allt. Það er galdur og frjómagn vísana á borð við þær sem Auður Ava fyllir bækur sínar af, ekki síst þessa. Sjálf er hún tíðindalítil, hæg, lágstemmd. Eins og fræ. Eða egg.

 

Þorgeir Tryggvason