Kristján Eiríksson. Lifandi mál lifandi manna: Um esperantotímabil Þórbergs Þórðarsonar.

JPV útgáfa, 2020. 425 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2021

 

Lifandi mál lifandi manna. Um esperantotímabil Þórbergs ÞórðarsonarSjálfsagt vita allir sem áhuga hafa á Þórbergi Þórðarsyni og skrifum hans að Þórbergur var altalandi og -skrifandi á alþjóðamálinu esperanto og vann ötullega að útbreiðslu málsins á Íslandi. Hversu stór þessi þáttur var í skrifum Þórbergs hefur þó ekki verið mikið til umræðu í Þórbergsrannsóknum og því er mikill fengur að riti Kristján Eiríksson íslenskufræðings Lifandi mál lifandi manna þar sem finna má í íslenskum þýðingum flest það sem Þórbergur frumsamdi á esperanto og fjallað um ýmislegt sem varðar þennan þátt í lífi hans og skrifum. Kristján nefnir í formála bókarinnar að esperantoþátturinn í höfundarverki Þórbergs hafi „jafnan orðið útundan þegar menn hafa skrifað um þann mikla meistara máls og stíls“ (7). En þekking Þórbergs á esperanto kann að vera mikilvægari fyrir skrif hans en blasir við í fyrstu eins og Benedikt Hjartarson hefur líka bent á. Benedikt hefur til að mynda leitt að því líkum að sennilega séu tengsl á milli esperantisma Þórbergs og þekkingar hans á evrópskri framúrstefnu, sem aftur kann að hafa haft áhrif á ljóðagerð Þórbergs í upphafi tuttugustu aldar.[1] Í gegnum evrópsk esperantotímarit fékk Þórbergur innsýn í stefnur og strauma í listum sem ekki margir Íslendingar kunnu skil á á þessum tíma. Benedikt tekur reyndar svo djúpt í árinni að segja að menningarlíf á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar hafi „í raun [einkennst] af fjarveru þeirrar fagurfræðilegu starfsemi sem markaði djúp spor í jarðveg evrópskrar menningar og gjarnan er kennd við framúrstefnu.“[2] Þarna kann að vera komin ein skýringin á því af hverju Þórbergur er á undan samtíma sínum í ýmsu sem varðar skáldleg skrif og fagurfræði.

Sjálfur hefur Kristján Eiríksson fengist lengi við rannsóknir á sviði esperanto og stílfræði og meistaraprófsritgerð hans í íslensku árið 1979 fjallaði um stíl Ofvitans og Íslenzsks aðals. Kristján hefur einnig fengist við þýðingar úr esperanto og stofnaði hann tímaritið La Tradukisto, sem kom fyrst út á afmælisdegi Þórbergs 12. mars 1989 og síðan allt fram til 12. mars 2010, þrjú tölublöð árlega. Samtals komu 60 tölublöð af ritinu sem ætíð er tengt nafni Þórbergs enda gefið út til að heiðra minningu hans og til heiðurs „hugsjónum hans um málfræðilegt jafnrétti fyrir allt fólk“.[3] Markmið La Tradukisto var tvíþætt; að nota alþjóðamálið sem brú til að kynna íslenskar bókmenntir fyrir útlendingum og að kynna Íslendinga fyrir erlendum bókmenntum. Í dag er La Tradukisto aðgengilegt og öllum opið á veraldarvefnum: tradukisto.esperanto.is

Lifandi mál lifandi manna skiptist í tólf kafla, þar af eru sjö kaflar sem hafa að geyma skrif Þórbergs sem hann frumritaði á esperanto en hér er efnið tekið saman, ýmist í þýðingum Þórbergs sjálfs eða Kristjáns. Fimm kaflar bókarinnar geyma svo samantekt og umfjöllun Kristjáns um líf og starf Þórbergs með áherslu á esperantoþáttinn. Í fyrsta kaflanum er gefið stutt yfirlit yfir ævi Þórbergs og í þeim næsta fjallað sérstaklega um það sem Þórbergur kallaði „fimmtu endurfæðingu“ sína og segir frá í Endurfæðingakróníkunni sem hann sendi Stefáni Einarssyni árið 1934 sem þá vann að litlu riti um Þórberg í tilefni fimmtugsafmælis hans. Flestar endurfæðingar Þórbergs voru tilþrifamiklar uppljómanir sem lustu hann óvænt. En því var ekki þannig varið með þá fimmtu því hún fólst í því að hann endurfæddist „hægt og kurteislega með hálftíma lestri á dag inn í Esperanto“.[4]

Líkt og Þórbergur gerði sjálfur í viðtölum leggur Kristján áherslu á að esperantismi Þórbergs sé nátengdur öðrum áhugamálum hans um alheimsspeki á borð við spíritisma, yoga, guðspeki og alþjóðapólitík: „Þessa alheimshyggju segir [Þórbergur] hafa leitt sig um síðir til esperantos“ (18). Þessi áhugamál Þórbergs urðu síðan til þess að hann kynntist hinu róttæka félagi þjóðleysingja SAT (Sennacieca Revuo Tutmonda), gerðist þar félagi og „áskrifandi að báðum þeim blöðum sem félagið gaf út, Sennaciulo (Þjóðleysingjanum) og Sennacieca Revuo (Tímariti Þjóðleysingjafélagsins)“ (20). Stuttu síðar þýðir hann grein úr fyrrnefnda tímaritinu og birtir í Alþýðublaðinu.

Í þriðji kafla (36-48) fjallar Kristján um orðasöfnun Þórbergs en þó sérstaklega um íslensk-esperanto orðabókina sem hann vann að áratugum saman, ásamt fleiri mönnum. Í kaflanum er birt íslensk þýðing á ræðu sem Þórbergur flutti á fundi íslenska esperantofélagsins í árslok 1927 og „sýnir hún vel hvernig Þórbergur hefur hugsað sér vinnslu orðabókarinnar“ (37). Þrátt fyrir óhemju elju Þórbergs fór svo að bókin kom aldrei út og að líkindum hefur helsti þröskuldurinn verið útgáfukostnaður. Hið gríðarmikla seðlasafn Þórbergs er nú varðveitt í bóka- og skjalasafni Íslenska esperantosambandsins og unnið að því að koma því á tölvutækt form. Þótt því verki sé ekki fulllokið var opnað fyrir netaðgang að hluta efnisins 12. mars á þessu ári og má nálgast það á vefsíðu Íslenska esperantofélagsins: thorbergsbok.esperanto.is

Kristján bendir á að seðlasafn Þórbergs sé „ekki einungis merkilegt sem efni til íslenskrar-esperantískrar orðabókar heldur einnig sem heimild um íslenskt talmál á sínum tíma [og] sögulegt gildi þess sé talsvert fyrir íslensku“ (46). Hér er einnig við hæfi að minna á að þótt Þórbergi tækist ekki að gefa út íslensk-esperanto orðabók þá skrifaði hann þrjár kennslubækur í málinu og hélt fjölda námskeiða fyrir almenning. Að auki gaf hann árið 1933 út bókina Alþjóðamál og málleysur þar sem hann færir af eldmóði rök fyrir því að allir ættu að læra esperanto. Bókin er mjög skemmtileg aflestrar á köflum, jafnvel fyrir þá sem hafa ekki sérlegan áhuga á esperanto, því höfundareinkenni Þórbergs leyna sér ekki; hann var á móti þyrkingslegri fræðslu og kryddar því ritið með sögum og snjöllum og skemmtilegum rökfærslum. Fyrir þá sem áhuga hafa á málinu geymir Alþjóðamál og málleysur gríðarlega fróðleik um stöðu esperanto víða um heim á ritunartímanum. Þótt bókin telji hátt á fjórða hundrað blaðsíðna kallar Þórbergur það „yfirlitsrit“ þar sem aðeins sé „stiklað á stærstu steinunum“ (Alþjóðamál og málleysur, 7). Kristján Eiríksson er álíka lítillátur þegar hann segir um sína bók að „vissulega [vanti] talsvert á að esperantotímabili Þórbergs séu hér gerð rækileg skil“ en það er þó von hans „að lesendur fái sæmilega heildarmynd af störfum Þórbergs á þessum tíma og hvernig heimssýn hans mótast smám saman af hugsjónum þeim sem tengjast alþjóðatungunni, til dæmis þjóðleysingjastefnunni“ (9).

Fjórði kafli bókar Kristjáns ber einmitt yfirskriftina „Þórbergur og þjóðleysingjastefnan“ (49-75) og er þar um að ræða fyrstu ítarlegu úttektina sem gerð hefur verið á þessum þætti í ferli Þórbergs. Því má segja að þetta sé helsta nýjungin sem bók Kristján hefur að fram að færa í Þórbergsrannsóknum. SAT (Þjóðleysingjafélagið) var stofnað árið 1921 og í upphafi var meginhlutverk þess „að sjá um skipulag verkalýðshreyfinga esperantista meðal ólíkra þjóða“ (49). Forseti sambandsins, Frakkinn Eŭgeno Lanti, lagði þó áherslu á „að það væri ekki sérstakt markmið sambandsins að berjast fyrir útbreiðslu esperantos heldur væri esperanto tæki þess til að berjast fyrir hugsjónum og bættum kjörum óbreyttrar alþýðu á gjörvallri heimsbyggðinni“ (49). Þótt Þjóðleysingjafélagið „skilgreindi sig sem ópólitískt félag“ voru „félagar í því lengst af vinstrimenn úr hópi kommúnista, sósíalista eða anarkista sem lögðu megináherslu á þjóðlausa stéttabaráttu“ (49-50). Auk þess taldi félagið „mikilvægt að stytta vinnutíma og hefja mannkynið á hærra menntunarstig með því að nýta vísindin og gagnrýna hugsun sem best. Og því var trúin á hefðarsannleik eitur í þeirra beinum“ (50), skrifar Kristján Eiríksson og ekki erfitt að skilja að Þórbergur Þórðarson hafi hrifist af hugsjónum félagsins en hann gekk í það haustið 1926 og var virkur í starfinu, sótti til að mynda þing þess í Amsterdam 1931.

Í fimmta kafla er fjallað um nokkra erlenda esperantista sem koma við sögu Þórbergs, tekin saman æviágrip þeirra og rætt hvernig þau tengjast Þórbergi. Þar fer fremstur áðurnefndur Eŭgeno Lanti en einnig er fjallað um Henrik Seppik, frumkvöðul esperantos í Eistlandi, og hina hollensku Gerarda de Waart sem, auk þess að kenna og fyrirlesa um esperanto, ástundaði „að lesa í geðslag manna og skaphöfn út frá rithönd þeirra“ (79) og þekkt er bréf Þórbergs til hennar um þá list. Þá er hér fjallað um ungverska prestinn Andreo Csech sem var frumkvöðull leikrænnar kennsluaðferðar í esperanto sem Þórbergur heillaðist af, og Indverjann Lakshmiswar Sinha sem var nemandi og góðvinur Nóbelskáldsins Tagore. Sinha kynntist Þórbergi og heimsótti Ísland á fjórða áratugnum. Síðast en ekki síst er fjallað um búlgarska esperantistann Ivan Ĥristov Krestanov sem dvaldi á Íslandi um nokkurra mánaða skeið 1937-38 og kenndi esperanto eftir aðferð Csech. Varðveitt eru nokkur bréf frá Krestanov til Þórbergs sem „yfirleitt [eru skrifuð] í gamansömum tón“ (87).

Viðamesti kafli bókarinnar er sjötti kafli sem hefur að geyma skrif Þórbergs um esperanto og esperantoviðburði (89-186). Hér eru endurbirtar nokkrar greinar sem áður hafa birst í tímaritum og greinasöfnum Þórbergs, svo sem „Auðvaldinu er illa við alþýðumenntun“, „Svona á ekki að skrifa ritdóma“ og greinaflokkurinn „Nýtt skilningarvit“ sem birtist í Alþýðublaðinu um áramótin 1926-1927. Einna áhugaverðastur hér er áður óbirtur kafli sem tekinn er úr handriti Þórbergs sem varðveitt er á handritadeild Landsbókasafnsins og Kristján telur að sé skrifaður á svipuðum tíma og Þórbergur er að fást við Íslenskan aðal og Ofvitann og segir: „Ef til vill má líta á þetta verk Þórbergs sem framhald Ofvitans sem lauk 1913“ (89). Í kaflanum lýsir Þórbergur vel esperantoferli sínum, hversu mikil upplifun það var fyrir hann að kynnast málinu sem hann telur að flestir ættu auðvelt með að læra og notar hann oft orðið „lifandi“ þegar hann lýsir innviðum málsins og uppbyggingu.

Í sjöunda kafla eru birt viðtöl sem tekin voru við Þórberg um esperanto (187-196) og í áttunda kafla er að finna þýðingar Þórbergs á esperantotextum annarra höfunda (197-220). Hér er meðal annars að finna smásöguna „Mannsbarn“, eftir eistneska esperantistann Henrik (Allari) Seppik, sem Þórbergur þýddi með vini sínum Hallbirni Halldórssyni og birtist í Iðunni 1927.

Níundi kafli bókarinnar inniheldur þrettán bréf sem Þórbergur frumritaði á esperanto, bæði persónuleg bréf og opinber bréf sem birtust í tímaritum. Af þeim síðarnefndu er líklega þekktast bréfið með yfirskriftinni „Heimspeki eymdarinnar“ sem hann skrifaði í framhaldi af svörum sem hann hafði fengið frá guðspekingnum C. Jinarajadasa við spurningum sem hann hafði sent honum á haustdögum 1927 þegar Jinarajadasa heimsótti Ísland og talaði á nokkrum guðspekifundum. Þórbergur var ósáttur við svör guðspekingsins, ekki síst vegna neikvæðrar afstöðu hans til esperantos, og þess vegna kaus hann að skrifa bréfið á esperanto og birta það í tímaritinu Nova Epoka. Íslensk þýðing Þórbergs á þessu „bréfi“, sem nær væri að kalla tímaritsgrein, birtist fyrst í tímaritinu Rétti árið 1927 en hefur verið endurbirt oft í ritgerðasöfnum Þórbergs. Einnig eru hér önnur þekkt opinber bréf Þórbergs; „Bréf til jafnaðarmanns“ og „Bréf til nazista“. Mörgum kann að finnast persónulegu bréfin hafa meira skemmtigildi en þau opinberu. Viðtakendur þeirra eru nokkrir erlendir esperantistar og góðvinir Þórbergs, þau Vilmundur Jónsson og Kristín Guðmundardóttir. Einn af esperantistunum er áðurnefnd Gerarda de Waart, „rithandarfræðikona“, og hér er birt margra síðna bréf Þórbergs til hennar þar sem hann fellir palladóma yfir ýmsum samtímamönnum sínum, svo sem Stefáni frá Hvítadal og Halldóri Laxness, og vill fá rithandarsérfræðinginn til að staðfesta ályktanir sínar um viðkomandi menn. Meðal annars er skemmtilega sagt frá því þegar Stefán frá Hvítadal skírðist til kaþólsku, sem og af ýmsum viðskiptum Halldórs Laxness og Jónasar frá Hriflu, svo fátt eitt sé nefnt.

Tíundi kaflinn hefur að geyma þýðingar fjögurra texta sem Þórbergur frumsamdi á esperanto, auk frásagnarinnar „Á ferð með Þórbergi“ eftir Jónas Árnason. Sjálfsævibrot Þórbergs „Þrjú þúsund, þrjú hundruð og sjötíu og níu dagar úr lífi mínu“ fer hér fremst og er það ein besta heimildin sem til er um ævi Þórbergs á tímabilinu frá hausti 1918 til ársloka 1927. Þórbergur þýddi sjálfur greinina á íslensku og birtist hún fyrst í Iðunni 1928. Þá er hér einnig stutt grein um fund Íslands, sem og fyrirlestur sem Þórbergur flutti í esperantoklúbbum í Danmörku og Svíþjóð 1936. Þá fer frásögn Jónasar Árnasonar á undan ræðu sem Þórbergur flutti á friðarþinginu í Varsjá í Póllandi 21. nóvember 1950. Kristján setur frásögn Jónasar á undan ræðunni „þar sem líta má á hana sem eins konar inngang hennar þótt hún sé vissulega margfalt lengri“ (350). Texti Jónasar leiftrar af húmor, ekki síður en margir textar Þórbergs, og fer vel á að hafa hana með hérna.

Í ellefta kafla eru birt sýnishorn úr kennslubókum Þórbergs á esperanto. Um er að ræða leskafla sem Þórbergur hefur frumsamið á esperanto og koma þar við sögu ýmis helstu áhugamál Þórbergs, svo sem eilífðarmálin og stjörnur himinsins.

Í tólfta og síðasta kaflanum er endurbirt grein Þórbergs „Legsteinninn“ þar sem hann setur fram óskir sínar um hvað ekki eigi að gera við skrokk sinn „þegar ein vika er liðin frá burtsofnun hans úr þessum heimi“ (384). Þessi grein er mikill skemmtilestur og endar á ósk Þórbergs um grafskrift á esperanto, sem á íslensku útleggst: „Liggur hér Þórbergur. Lifði í fátæktarlandinu. Dó í forheimskunarlandinu. Dó í forheimskunarlandinu.“

Þótt mikið af því efni sem fyllir bók Kristjáns Eiríkssonar hafi birst áður er fengur að því að hafa aðgang að því á einni og sömu bók og mun auðvelda rannsóknir á þessum þætti í lífsverki Þórbergs Þórðarsonar í framtíðinni. Því má segja að bókarhöfundur hafi náð því sem hann segir í lokaorðum hafa verið aðalmarkmiðið með bókinni; „að gera sem flest þessara verka Þórbergs aðgengileg á einum stað“ (388). Þá er einnig gagnlegt að Kristján fylgir öllu efninu eftir með tengingum og skýringum og getur um fyrstu birtingar þess. Eins og fram hefur komið bætir Kristján einnig ýmsu nýju við í rannsóknum á höfundarverki Þórbergs Þórðarsonar, svo sem í kaflanum um Þórberg og þjóðleysingjastefnuna.

Vera kann að einhverjum finnist titill bókarinnar, Lifandi mál lifandi manna, einkennilegur þar sem varla er með gildum rökum hægt að halda því fram að esperanto sé í dag lifandi tungumál – nema þá í þröngum hópi áhugamanna. En hugmyndina að titlinum hefur Kristján vafalaust fengið úr „Opnu bréfi til Kristjáns Andréssonar“ sem Þórbergur skrifaði og birti í Tímariti Máls og menningar (3.–4. tbl., 1970). Þar gagnrýnir Þórbergur þjóðernisstefnu Rússa og andúð þeirra á esperanto: „Þeir bönnuðu að vísu ekki esperanto, en þeir hundsuðu það og settu saman falsrök gegn því, þvælu, sem maður hafði hlustað á í tugi ára, nokkurnveginn svona: Esperanto er tilbúið mál. Tilbúið mál getur aldrei orðið lifandi mál. Þess vegna er esperanto og hlýtur alltaf að verða dautt mál“ (64). Þótt ljóst sé að Kristján vilji taka undir gagnrýni Þórbergs á þessi „falsrök“ er varla annað hægt en að horfast í augu við þá staðreynd að esperanto getur vart talist „lifandi mál“, baráttan fyrir „málfræðilegu jafnrétti“ og hugsjónum þjóðleysingja hefur í hinum vestræna heimi lotið í lægra haldi fyrir enskunni sem sækir mjög að þjóðtungum á borð við íslensku – og margir harma.

Soffía Auður Birgisdóttir

 

 

Tilvísanir

[1] Benedikt Hjartarson, „Þjóðlausar tungur. Tilraun um Þórberg, evrópska framúrstefnu og esperantisma.“ „að skilja undraljós.“ Greinar um Þórberg Þórðarson, verk hans og hugðarefni, [ritstj. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Hjalti Snær Ægisson], Reykjavík: Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan: 2010, bls. 109–133. Aðrar greinar Benedikts um Þórberg, esperanto og framúrstefnu eru: „„Prrr – prrr – prrr – prrr – Reykjavík!“ Þórbergur Þórðarson og púki fútúrismans“, Heimur ljóðsins, [ritstj. Ástráður Eysteinsson, Dagný Kristjánsdóttir og Sveinn Yngvi Egilsson], Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2005, bls. 50–65 og „Af úrkynjun, brautryðjendum, vanskapnaði, vitum og sjáendum. Um upphaf framúrstefnu á Íslandi.“ Ritið, 6. ár, 1/2006, bls. 79–119.

[2] Benedikt Hjartarson. 2010. „Þjóðlausar tungur“, bls. 109.

[3] Sjá vefsíðu La Tradukisto: https://tradukisto.esperanto.is/index.php/

[4] Stefán Einarsson, Þórbergur Þórðarson fræðimaður – spámaður – skáld fimmtugur, Reykjavík: Heimskringla, 1939, bls. 9.