SeltaSölvi Björn Sigurðsson: Selta [apókrýfa úr ævi landlæknis].

Sögur, 2019. 273 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2020

 

Titilinn á verðlaunaverki Sölva Björns Sigurðssonar, Selta, kann að virðast óræður við fyrstu sýn. Fjallræða Krists kemur þó fljótt upp í hugann en þar líkir Kristur manneskjunni við hvort tveggja salt og ljós: „Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? […] Þér eruð ljós heimsins. […] Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu“ (Mattheusarguðspjall, 5. kafli). Hugleiðingar um salt og ljós eru endurtekin stef sem hljóma víða í sögunni sem gerist á mörkum tveggja hugmyndastrauma og um leið á mörkum tveggja heima. Í Evrópu er upplýsingin að ryðja sér til rúms en á Íslandi hefur myrkrið, fátæktin og fáfræðin enn undirtökin, enda landið í sárum eftir hörmungar Skaftárelda og móðuharðinda og lífsbaráttan hörð. Í stuttum aðfaraorðum bókarinnar má lesa að það sem á eftir fylgi sé skýrsla, send Félagsráðinu í Kaupmannahöfn, undirrituð þann 13. október 1839 með bókstafnum L, sem stendur fyrir starfandi landlækni Íslands. Landlækni ber skylda til að senda árlega skýrslu til Félagsráðsins og fær að launum ársstyrk til embættisins, auk þarfavöru á borð við rúg og salt. Óðara verður lesanda ljóst að hér er engin venjuleg skýrsla á ferðinni, enda ber hún undirtitilinn [apókrýfa úr ævi landlæknis]. Orðið apófkrýfa vísar til einhvers sem er leynilegt eða falið, apókrýf eru til að mynda kölluð þau fjölmörgu trúarrit sem ekki hlutu náð fyrir augum kirkjufeðranna sem settu saman Biblíuna eins og hún er prentuð. Slík rit eru engu að síður þekkt og lesin víða, þau lóna á jaðri hins viðurkennda texta. Í aðfaraorðunum Seltu fær lesandi að vita að skýrslan hafi að geyma frásögn af örlögum konu að nafni Ohne-Lise Jonsdóttir, auk frásagna af fleira fólki „og ferð yfir land“. En skýrslan er einnig „rituð um fjörusteina, hvalhræ og sandopin kríuegg, og um drenginn sem flaut upp í fjöru til mín aldraðs manns undir fjalli fyrir hálfu ári. Hann er framtíðin.“ Síðar í sögunni skrifar landlæknir:

Venja segir að árlega þurfi að skila skýrslu og því nýti ég lausar stundir sem þessar til að lýsa því sem fyrir augu ber og taka mæli á þaki, grasi, manneskju og hesti. Steintegundir, blómknúppar, fuglaegg og sjávarhiti eru rannsóknarefni sem meiri vinna fer í, en ég tel þennan litla únívers hér um kring í raun ekki minna rannsóknarefni. Kóperníkus hefði vart fundið stöðu jarðar gagnvart sólinni hefði hann ekki staðið einhvers staðar sjálfur. (69)

Við skýrslugerðina tekur sögumaður mið af sínu eigin litla úníversi um leið og hann stækkar það til muna með lestri heimspekirita og belgískra blaða sem honum berast með pósti og gefa innsýn í öra þróun í hugmyndaheimi jafnt sem tækni og vísindum. „Skýrslur mínar segja nær undantekningalaust frá atburðum dagsins á undan og eru sjaldnast merkilegar“ (11), skrifar hann en það á þó ekki við skýrsluna Seltu, enda eru atburðir þeirra daga sem mynda uppistöðu frásagnarinnar allt annað en venjulegir; senda hinn aldraða sögumann á vit erfiðs ferðalags, fortíðar og sárra minninga, um leið og hann þarf að sinna skylduverkum sínum við krefjandi aðstæður: „Lífið undir jöklum er langdregin þjóðsaga, mestmegnis af pestum og vondu veðri, og flest mitt aksjón hér í fámenni felst í vitjunum til fólks sem liggur kvalið í sárum sínum eða spúir upp eldfjallaösku og blóði“ (11).

 

Fabúla í sögulegum tíma

Sagan hefst á því að ungan dreng rekur á fjörur undir Hjörleifshöfða, í ágústmánuði 1839. Landlæknir sem býr á Höfðabrekku, austasta bæ í Mýrdal, skrifar að hann hafi heyrt „kallað neðan úr fjöru: Komdu og náðu í mig“ (9). Ásamt félaga sínum, póstflutningamanninum Mister Undertaker, bjargar hann drengnum og undrast mjög þetta óvenjulega landrek. Skömmu síðar skrifar hann:

Lesendum þessarar skýrslu til útréttingar er rétt að geta þess að ég heyrði drenginn ekki kalla svo rödd hans bærist upp í bæ, né sá ég í raun nokkrar stjörnur. Mister Undertaker bankaði upp á hjá mér í birtingu eftir að hafa komið auga á þúst niðri í fjöru og sagðist vilja fá mig með sér til að athuga þetta. (10–11)

Þessi klausa gefur innsýn í aðferð sögumanns sem leyfir sér skáldleg tilþrif fremur en að fylgja staðreyndum. Síðar í frásögninni segir: „Á Íslandi er sagt að enginn munur sé á þjóðsögum og sagnfræði. Þetta spinnst í einn órofa þráð og við vitum ekki hvað er satt og hvað ekki nema við förum sjálf af stað og skoðum það“ (90). Vel má halda fram að þetta sé lykillinn að frásagnaraðferð bókarinnar og tengist áðurnefndum undirtitli um apókrýfan texta. Sú „sagnfræði“ sem höfundur byggir á í verkinu er að ýmsu leyti kunnugleg en fengist þó vart inni í viðurkenndum fræðiritum. Vísað er til sögulegra atburða og þekktra staða sem hjálpar lesanda að ramma frásögnina inn í tíma og umhverfi. En inn í þennan sögulega ramma vefur höfundur fabúlu, eins og hann komst sjálfur að orði í útvarpsviðtali. Sá sem les bókina með raunsæisgleraugum er því á villigötum, til að njóta frásagnarinnar með öllum hennar ævintýralegu vendingum verður lesandi að fallast á þau skáldskaparlögmál sem í henni ríkja, þá er uppskeran ríkuleg. Einnig má velta fyrir sér hvort fabúlan sé að einhverju – jafnvel mjög miklu – leyti tilkomin vegna vímu eða óráðs sögumanns, eins og vikið verður að síðar.

 

Ferðasaga með útúrdúrum

Sölvi Björn hefur sagt að ein af kveikjum verksins sé ferðabók Sveins Pálssonar (1762–1840) læknis, sem og aðrar íslenskar ferðabækur fyrri alda. Í grein um Svein í Læknablaðinu (4. tbl., 2012) segir að hann hafi verið „einn hinna fyrstu lærðu lækna hérlendis og þjónaði áratugum saman víðlendu og erfiðu læknishéraði og var hugrakkur og þrekmikill ferðagarpur og vatnamaður. Sveinn var auk þess lærður náttúrufræðingur og fór ungur nokkrar rannsóknarferðir um landið til að kanna náttúru þess og landshætti og ritaði um þessar ferðir merkar ferðabækur. Þá var hann mjög vel ritfær og eftir hann er mikið efni, bæði í útgefnu máli og handritum.“ Þessi lýsing á að breyttu breytanda einnig við sögumann Seltu en höfundur segir söguna að engu öðru leyti byggða á persónu Sveins.

Í grunninn mætti skilgreina Seltu sem ferðasögu. Eftir að landlæknir finnur drenginn í fjöruborðinu við Hjörleifshöfða og hefur hlúð að honum leggur hann af stað í langt ferðalag um suðurströnd Íslands og yfir hálendið alla leið til Skagafjarðar, þar sem hann væntir þess að fá skýringar á því hvers vegna drengnum var komið í hans forsjá. Þetta er hættuför, það hallar að hausti og allra veðra von, og á leiðinni þarf að sundríða jökulár og mæta fleiri vægðarlausum náttúruöflum. En áður en haldið er í leit að uppruna drengsins þarf landlæknir að sinna skyldustörfum á borð við það verk að saga handlegg af konu í Meðallandi til að freista þess að bjarga lífi hennar. Í upphafi ferðalagsins nýtur hann samfylgdar félaga síns, Mister Undertaker, sem einnig hefur sérstökum erindum að sinna, eins og að kafa inn í hvalshræ á suðurströndinni í þeirri von að finna þar amburstein. Inn í söguna fléttast svo frásögn af lífi sögumanns þegar hann var ungur maður í læknanámi á kúregísku deildinni á Amager í Kaupmannahöfn. Þar lagði hann stund „á laudanum-fræði og handlækningar undir leiðsögn Jons Himmelwunder, þýsks manns er talinn var einn færastur lækna í norðurálfu“ (28) en reynist ekki aðeins vera „vísindamaður mikill“ heldur og „hroðaleg manneskja“ (75). Himmelwunder svífst einskis í viðleitni sinni til að skilja anatómíu mannslíkamans og persóna hans minnir einna helst á starfsbróður hans Dr. Jekyll og Mr. Hyde úr skáldsögu Roberts Louis Stevensons. Þegar sögumaður fær til afnota herbergi á heimili hans kemst hann að því að sá „Jon Himmelwunder sem höfuð bar yfir aðra lækna á kúregíum var ekki sá sami Jon og réð ríkjum á heimili sínu“ (29). En á því heimili kynntist sögumaður ástinni sinni, H. Sophie, dóttur Himmelwunders, sem varð „húð [hans], hugur og hjarta“ (27–28), og barnungri systur hennar, Ohne-Lise. Hann verður þess áskynja að þeim „stóð stuggur af föður sínum“ (29) og einsetur sér að bjarga þeim undan illu föðurvaldi. Hann biður um hönd H. Sophie og líkt og í ævintýrunum er honum lofuð konan ef hann leysir fyrst af hendi ákveðna þraut sem varðar Ohne-Lise. Ekki fer þó betur en svo að hann glatar Ohne-Lise í hendur barnaræningja í Belgíu. Bæði hann og H. Sophie leita hennar um alla Evrópu en sjálf fara þau ætíð á mis og sjást ekki aftur. Í uppgjöf og sorg snýr hann aftur til Íslands þar sem hann hefur glímt við samvisku sína, sorgina og missinn í tæplega fjörutíu ár. Fortíðarfrásögn sögumanns er bæði æsileg og ævintýraleg og minnir á köflum helst á píkaresku sögurnar sem mikilla vinsælda nutu í Evrópu allt frá miðri sextándu öld og langt fram á þá átjándu.

 

„Heimur er að vakna“

Persónulýsingarnar í bókinni eru dregnar stórum og sterkum dráttum og má skilja hverja og eina þeirra fyrst og fremst sem táknmynd, því höfundur gefur raunsæinu langt nef þegar hann lýsir persónum ekki síður en þegar hann lýsir ýmsum atburðum. Hér er lýst karakterum, eða eins og segir á einum stað: „Já, við erum heppin að eiga karaktera hér í sveitinni“ (171). Orðin eru lögð í munn þeirrar persónu sem er skýrasta táknmynd verksins, en það er átján ára stúlka, Dagmar, sem er „klárust Íslendinga nú um stundir“ (226), eins og sögumaður kemst að orði þegar hann skrifar bréf til Danmerkur í tilraun til að koma henni í læknanám fyrstri kvenna. Nafnið Dagmar mun vera dönsk mynd af Dragomír, sem merkir kær friður. Drottning Valdimars sigursæla sem varð kóngur í Danmörku á ofanverðri tólftu öld hét Dragomír en Danir kölluðu hana Dagmar í merkingunni Dag-mær. Sé landlæknir sjálfur tákn um mann sem lifir á mörkum tveggja hugmyndakerfa er Dagmar tákn nýja tímans. Á einum stað segist sögumaður vera „um það bil tvöhundruð og þrjátíu ára að aldri“ (189) og má ef til vill túlka sem svo að hann sé táknmynd ríflega tveggja alda skeiðs í sögu þjóðarinnar. Hin unga Dagmar er hins vegar merkisberi upplýsingarinnar, vill tendra ljós á stiku svo það lýsi meðal manna, svo aftur sé vísað til fjallræðunnar.

Persónulýsing stúlkunnar er ofurhetjulýsing og bráðskemmtileg sem slík. Dagmar er ofurgáfuð, einstaklega útsjónarsöm og góðmennskan uppmáluð. Hún vill opna augu fólks „fyrir birtunni og leyfa sköpunargáfu náttúrunnar að vera samherji fremur en andstæðingur“ (158). Áhugavert er að stúlkuna rekur á fjörur sögumanns á svipaðan hátt og drengurinn í upphafi sögu. Hann fann hana „nær dauða en lífi í ósnum við Breiðbalakvísl fyrir sjö árum“ (152) en þá var hún ellefu ára. Stúlkubarnið hafði lifað af að vera „borin út úr bæ, send burt“ (153) og „sagðist vera komin af eldbæ og hafa gert sér gott úr því að vera hrakin“ (154). Í rúmlega hálft ár lifir hún af hrakninga „við kaldasta þel þessa lands“ og „tíndi sér ber og veiddi fiska og fugla“ (155). Dagmar dvelur á Höfðabrekku hjá landlækni sem hlúir að henni og kemst að því að „hún var fróðari en nokkur manneskja sem [hann] hafði áður hitt á Sandi“ (155-156). Í ljós kemur að hún hafði „fundið ensæklópídíur á vegum fransks leiðangurs sem gleymdi dóti við Hörgsá. Hún hafði semsé verið í háskóla frá því að hún var barn, lært frönsku af sjálfri sér og séð annan heim í gegnum þokuna sem réð yfir dögum annars fólks“ (157). Við „höfuðbrekku þessarar stúlku“ átti landlæknir engin svör enda var hún „ólík þeim tæpu sextíu þúsund sálum sem bjuggu á Íslandi árið 1832“ (158). Frásögnin af Dagmar er kjörnuð lýsing á hugsjónum upplýsingarinnar, skrifuð með ýkjum og húmor og er sannur skemmtilestur. Höfundur bætir femínískum þræði saman við, enda segist Dagmar „vera komin í beinan kvenlegg af Sapho“ (158) og bætir síðar við „að þótt fólk væri vinnuþý eldfjalla og jökla, þá gæti kona gert meira en að deyða lamb og liggja undir karlmanni þar til hún deyr af sárum sínum“ (159). Átján ára gömul rekur Dagmar Kirkjubæjarhæli þar sem hún iðkar sinn nýja sið mennsku og birtu og hlúir að fólki „sem samfélag undir jöklum hefur af ýmsum sökum hafnað“ (161). Lýsingin á lífinu á því hæli „fábjána“ er öll hin kostulegasta og koma þar ýmsir þræðir frásagnarinnar saman.

 

Fjölbreyttur stíll

Hér að framan hefur verið vikið að fjörlegum og ýkjukenndum köflum bókarinnar, en frásagnarstíll bókarinnar einkennist af fjölbreytni og bylgjast eftir söguefninu hverju sinni. Grunntónn frásagnarstíls Sölva Björns er einfaldur og tær en býr engu að síður víða yfir heimspekilegri dýpt og fegurð. Þetta gildir ekki síst um náttúrulýsingar bókarinnar sem eru margar, eins og við hæfi er í ferðafrásögnum. Í náttúrulýsingunum nær ljóðræna víða undirtökunum þótt sparlega sé með hana farið; annars staðar ræður gróteska ríkjum, enda varla annað í boði þegar lýst er sjúkdómum, fátækt og viðurstyggilegum aðbúnaði hinna aumustu þegna, jafnt í Evrópu sem á Íslandi. Orðfæri sækir höfundur að einhverju leyti til ferðabóka átjándu og nítjándu aldar en einnig til annars konar bókmennta, og víða má t.a.m. finna vísanir í rómantíska ljóðlist. En orðfæri höfundar er þó líka æði nútímalegt á köflum og má kannski skilja sem ábendingu til lesanda um að tengja efnið samtímanum. Þótt sögutíminn sé í grunninn ofanverð átjánda öld og fyrri hluti þeirrar nítjándu eru samtímavísanir margar í verkinu. Þegar drenginn rekur á fjöru landlæknis í upphafi frásagnar skrifar hann:

Ég hef í belgískum blöðum, sem ég fæ send með dönskum póstskipum, nýlega lesið um að mannrek á fjörur sé í suðurlöndum daglegt brauð, og færist í vöxt nú um stundir. Oftar en ekki er þar um að ræða fólk á barnsaldri, á flótta undan mannöpum sem herja á hvern frjósemisblett sem fyrirfinnst. Alls staðar í heimi hér er svengd og djöfulgangur, þótt misjafnt sé þar um eftir því hvar maður er hverju sinni staddur. Hér á grjóthólma finnst hins vegar sjaldan manneskja í fjöru, og nær aldrei barn.“ (13)

Um slík ósköp má einnig lesa í samtímamiðlum, eins og allir vita. Löngu síðar heldur ein af skrautlegri persónum bókarinnar, Monsieur Pons, ræðu sem felur í sér spásögn um framtíð á Íslandi – og er þar margt kunnuglegt:

„Landið ykkar verður úrsvalt sker svo lengi sem þið lifið, með álíka fáeinum hræðum og nú er. En hingað munu slæðast hérar og þegar aðalhérinn verður búinn að fjölga sér og grafa góða holu á einhverjum staðnum, þá mun hann soga allt til sín. […] Hérarnir verða frekir, þegar þeir finna landið […] Aðalhéri mun soga upp fiskana með andardrætti sínum. Hann mun skíta ambersteinum eins og útvalinn búrhvalur. Hann mun lepja upp mý af stöðuvötnum eins og silungurinn sem enginn nær. Hann mun finna fegurð fossanna og selja hana. Hann mun sleikja sér steina hvar sem þeir gefast.“ (192–193)

Fleiri dæmi mætti nefna þar sem atburðir í fortíð kallast á við atburði í samtíð og mætti nefna líkindi með móðuharðindum og þeirri loftslagsvá sem vofir yfir samtíðarmönnum. Á einum stað segir: „Notre Dame brennur á nokkur hundruð ára fresti en brýrnar standa flest af sér“ (244) en síðast brann kirkjan á þeim tíma sem höfundur var líkast til að leggja lokahönd á handrit Seltu. Jafnvel má sjá tengingar á milli þess lungnasjúkdóms sem landlæknir og Ohne-Lise þjást af, berklana, og þess kórónavíruss sem herjar á heiminn nú á dögum, þótt sá sjúkdómur hafi ekki skotið upp kolli fyrr en eftir útgáfudag bókarinnar!

 

„Því hann hefur nærst á hunangsdögg! / Og hamstrað mjólk úr Paradís!“

Ekki verður skilist við Seltu án þess að þeim möguleika sé velt upp að þessi ævintýralega frásögn sé enn meiri fabúla en lesandann grunar í fyrstu. Er verkið allt – eða að hluta til – kannski einfaldlega hugarórar sögumanns, vaktir af laudanum-vímu? Tilvísanir til laudanum (ópíumdropa) eru mýmargar í bókinni og kynntist sögumaður lyfinu fyrst á námsárum sínum í Kaupmannahöfn: „Ég var þá að megni að nema laudanum-fræði, það vorið, og gera tilraunir með papaverine og virkni þess á sjúklinga“ (24–25). Víða er gefið í skyn að hann hafi einnig kannað virkni lyfsins á sjálfan sig: „Ég notaði ekki mikið laudanum en ampúlaði ef nauð rak til, þegar aðstæður voru verstar“ (43). Ef við skoðum aftur líf og örlög sögumanns þá blasir við að hér talar maður sem hefur þurft að glíma við mikinn harm og hefur ýmislegt á samviskunni, meðal annars það að hafa „litið undan“ þegar lærifaðir hans stundaði sín myrkraverk í þágu vísindanna: „Enn þann dag í dag er það mín eina ástæða fyrir því að ríða Sand og reyna að bjarga fólki. Er ég að bjarga sjálfum mér, eða þeim sem sluppu undan sög Himmelwunder?“ (34). Eftir að hann hefur glatað bæði ástinni sinni, H. Sophie, og barninu Ohne-Lise, sem hann átti að gæta, var hann „orðinn illa til reika og hættur að hafa hið minnsta gaman af lífinu“ (47) og spyr sjálfan sig:

Átti ég þá til eilífðar að gamna mér við tregann, eða taka mér í hönd eggvopn þau er fyrir mig höfðu verið lögð: Ampúlu með laudanum, landlæknisbréf og sogberkju með göddum til blóðtöku? Hvort reyndist það fremur upplitsdjarft, að halda að nýju H. Sophie-laus á grjóthólma, með barn okkar horfið í heljardóm, og reyna við slíkt skap að líkna löndum mínum með aðferðum þeim er ég hafði varið drýgstum hluta fullorðinsára minna í að nema? Eða verja þeim sem eftir voru í útlenskt volæði og eymd í kringum anderlensk síki? Hvorugur kosturinn var góður, en hvort sem til góðs eða ills var, þá valdi ég þann fyrri. (47)

Sögumaður dregur kunningja sinn og gamlan félaga, Mister Undertaker, „farlama af alkoholismus og syphilis“ (47), upp úr ræsinu í Anderlecht og hefur hann með sér til Íslands, þrátt fyrir að Undertaker eigi stóran þátt í því hversu ógæfulega málin hafa snúist fyrir hann sjálfan. Þeir eru báðir búnir menn, „en kannski á búinn maður skilið annað tækifæri“ (47). Upplýst er að Undertaker hefur notað papaverine, jurtina sem ópíum er unnið úr, og á sú neysla þátt í þeim ógöngum sem hann hefur ratað í (51 og 58). Ávanabindandi neysla laudanum var landlæg í Evrópu á átjándu og nítjándu öld, ekki síst meðal skálda og listamanna sem töldu vímuna efla sköpunargáfuna. Meðal neytenda voru rómantísku skáldin, Shelley, Byron og Coleridge, en sá síðastnefndi var háður lyfinu. Það er vafalaust ekki tilviljun að í Seltu kemur eitt þekktasta ljóð Samuels Taylors Coleridge, Kubla Khan, mikið við sögu.

Ljóðið orti skáldið að sögn eftir laudanum-vímu og ber það undirtitilinn Draumsýn: Brot (A Vision in a Dream: A Fragment) og mun hafa verið ort 1796. Til er íslensk þýðing Helga Hálfdanarsonar á ljóðinu en Sölvi Björn notast ekki við hana heldur birtir eigin þýðingu á fyrsta erindi ljóðsins (95–96), ásamt lokalínum þess (100) og vonandi birtir hann allt ljóðið í nýrri þýðingu sem fyrst, því brotið í Seltu lofar góðu. Spyrja má hvort höfundur velji þetta ljóð Coleridge vegna þess að það er draumsýn sprottin úr laudanum-vímu því efnisleg tengsl á milli ljóðsins og Seltu eru að öðru leyti lítil. Hér fyrr var nefnd skáldsaga Roberts Louis Stevenson, The Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde, en almennt er talið að verkið sé samið á örfáum dögum í lyfjavímu, þótt menn deili um hvaða lyf Stevenson notaði. Er höfundur með slíkum beinum og óbeinum vísunum að gefa í skyn að apókrýfa skýrslan Selta sé draumsýn laudanum-neytanda sem liggur á milli svefns og vöku heima í Höfðabrekku allan tímann? Svefn og vaka er gegnumgangandi stef í frásögninni og tengist ekki bara því að vakna upp af svefni gamalla tíma og siða. Við fáum að vita að landlæknir vill helst liggja í rúminu og sofa á milli þess sem hann les í Dicourse Descartesar og teflir skák við hestinn sinn, Maltus: „Ég myndi sitja hér að tafli við Maltus og una mér við það ævintýralíf sem er mér helst í huga núna: Að vera einn í heiminum við eldiviðarkubb, brúnt brauð, lekt þak yfir höfði og Discourse“ (68). Síðar segir hann:

Satt að segja eyði ég nær öllum morgnum núorðið í að lesa Descartes þegar byrjar að birta. Hann var latur eins og ég og skrifaði bara í rúminu, af því að dagur vekur mann til himins og þá fær maður café. Svo legg ég mig aftur. Einstaka sinnum kemur manneskja á hlað og vill lækningu, þá sinni ég því. (85)

Og aðeins síðar upplýsir hann:

Oft hefur mig raunar langað til að segja sögur eins og sagnameistararnir í Arabíu bjuggu til fyrir löngu; sögur af nóttum sem líða í endaleysu svo alltaf þarf ein að bætast við. Ein nótt, og með henni ein saga. Þær sögur, hins vegar, sem ég hef ritað á blað og mér eru tamastar á tungu, eru ekki jafn fullar af fyrirburðum og eilífðarnæturnar á Arabíuskaganum, heldur fjalla nær allar um eymingja, jarðargos og mólendi. Svo ég fer að þylja þetta upp, muldur um fugla og fiska og hetjulega hesta sem engin straumgnýr fær unnið sama hversu brimsjórinn gerir þá gegnvæsta. „Við erum á Maltusi,“ segi ég við drenginn, „hann er bestur hesta í heimi hér og lætur okkur ekki af sér fyrr en landi er náð.“ (89)

Sú túlkun gengur sem sagt ágætlega upp að skýrslan Selta sé draumsýn gamals og lasburða manns sem liggur í rúmi sínu, sprautar sig með laudanum til að lina þjáningar berklasjúkdómsins sem á hann herjar, og hittir í vímunni aftur kæra ástvini sem hann glataði fyrir áratugum. Hin ævintýralega skýrsla hans væri þá lýsing á köfun hans sjálfs inn á við, inn í það „hræ“ sem hann er orðinn. Hafa má í huga að þegar félagi hans Undertaker segir honum frá þeirri ætlan sinni að kafa inn í hvalshræ segir hann: „Þú segist vilja kafa inn í hræ. Kannski er það okkar stóra metafóra, okkar tveggja“ (56).

 

Soffía Auður Birgisdóttir