Óskar Árni Óskarsson. Skuggamyndir úr ferðalagi.

Bjartur, 2008

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2009.

Skuggamyndir úr ferðalagiÓskar Árni Óskarsson hefur frá upphafi ferils síns skrifað raðir smáprósa sem bregða upp svipmyndum úr lífi sögumanns þeirra eða samferðamanna hans. Til dæmis mætti nefna sjö prósa röðina „Bergstaðastrætið – úr glötuðu handriti bernskunnar“ úr fyrstu bókinni Handklæði í gluggakistunni frá 1986 og níu prósa röðina „Skuggi af snúrustaur: Frásagnir og brot“ úr Veginum til Hólmavíkur frá 1997. Í fyrrnefndu röðinni eru prósarnir merktir ártölum frá 1957 til 1963 og mynda brotakennda þroskasögu. Lesendur fylgja sögumanni úr vernduðu skjóli bernskuheimilisins til stundar í bílskúr betrektum með myndum af hálfberu kvenfólki þar sem „áralangri einangrun“ lýkur kvöld eitt þegar: „… Rúnar [fær] úr’onum yfir bunka af gömlum bílablöðum.“1 Í síðarnefndu röðinni bera allir prósarnir sérstök heiti, þeir eru ekki í tímaröð en tengjast allir með einum eða öðrum hætti því hvernig menn leitast við að varðveita ‚horfin augnablik‘, t.d. á ljósmyndum, í sögum, með þurrkuðum blómum eða í minninu. Í prósa samnefndum röðinni fjallar sögumaður um minningar og segist hafa ferðast með „hús í huganum í meira en þrjátíu ár, geymt innan um öll árin þessi löngu sumarsíðdegi bernskunnar sem hanga ekki lengur saman í minninu en flögra hvert inni í öðru.“2 Hann vitjar hússins í framhaldinu annaðhvort í alvöru eða í hugskotinu og á vegi hans verða ýmis kennileiti sem koma honum kunnuglega fyrir sjónir uns hann sér dreng sem situr á tröppum hússins með hönd undir kinn og „[þ]að sem augu hans sjá er öllum hulið, en það mun fylgja honum hvert sem hann fer og slípast eins og steinn í vasa.“

Nýjasta prósaröð Óskars Árna Óskarssonar Skuggamyndir úr ferðalagi sver sig í ætt við þær fyrri en hún er lengri og inn á milli frumsamina texta birtast sendibréf, tilvitnanir í sagnaþætti, ljósmyndir og fleira. Prósarnir tengjast allir örlögum einnar og sömu fjölskyldu og í viðtölum í tilefni af útkomu bókarinnar dró Óskar Árni ekki dul á að um hans eigið skyldfólk væri að ræða og að sögumaður verksins, sem í upphafi heldur í ferðalag bæði í tíma og rúmi, sé hann sjálfur. Þessi ævisögulega tenging hefur ekki aðeins áhrif á þessa bók heldur einnig fyrri bækur Óskars Árna því í Skuggamyndum á ferðalagi birtast nokkrir prósar að nýju og þar sem þeir standa í röðum í bókunum þá hefur breytt afstaða til eins prósa ósjálfrátt áhrif á afstöðu til hinna. „Skuggi af snúrustaur“ kemur manni t.a.m. öðruvísi fyrir sjónir eftir lestur nýju bókarinnar og einhvern veginn rakið að lesa hann sem nokkurs konar lykiltexta að því bókmenntaformi sem Óskar hefur tileinkað sér; prósarnir lýsa atburðum sem hafa varðveist í minni sögumanns um langt skeið og þar hafa þeir slípast og tekið á sig form líkt og steinar í vasa. Sú staðreynd að Óskar hefur gert breytingar á sumum prósanna sýnir að þeir eru enn í mótun og hið breytta samhengi sem þeir birtast í nú undirstrikar að minningar hanga ekki saman í keðjum heldur röðum við þeim sífellt saman með nýjum hætti eftir því sem tíminn líður og aðstæður okkar breytast.

Af lýsingum einum að dæma kann að virðast ótrúlegt að það lánist að búa til bókmenntaverk úr þeim ólíku formum sem birtast í Skuggamyndum á ferðalagi en það tekst og hefur raunar lítið með lán að gera. Verkið á sér langan aðdraganda og Óskar Árni hefur með fjölmörgum styttri prósaröðum náð tökum á aðferðum sem gera honum kleift að raða saman sjálfstæðum smáprósum þannig að lesendur sjái á milli þeirra tengsl. Í Skuggamyndum á ferðalagi má hæglega greina framvindu í tíma leiti lesendur hennar auk þess sem ýmis minni verða að kennileitum sem rata má eftir. En það sem mestu skiptir er þægileg nærvera sögumannsins sem er aldrei ágengur en þó sínálægur og leiðir lesendur áfram án þess að þeir verði hans varir á löngum köflum.

Er einhver fótur fyrir þessu?

Fyrsti prósi bókarinnar nefnist „Borðið“ og hefst á lýsingu á borði Stefaníu föðurömmu sögumanns sem alltaf var dúkað á bernskuheimili hans á Bergstaðarstræti. Undir dúknum var dökkbrúnn blettur sem setið hafði fastur eftir að fóturinn var tekinn af Stefáni syni hennar á Siglufirði veturinn 1920. Bletturinn á borðinu er snertiflötur sögumanns við fortíð sem hann man ekki sjálfur og þjónar hlutverki eins konar sönnunargagns fyrir sögum sem skyldmenni hans segja honum. Áhugi hans beinist þó sjaldnast að gallhörðum staðreyndum heldur þeim forgengilegu áhrifum sem við verðum fyrir í lífi okkar en setja varanlegt mark á okkur engu að síður. Í frásögn Óskars af aflimun Stefáns frænda hans gegna ópin sem berast frá drengnum um plássið eftir að morfínbirgðirnar klárast veigamiklu hlutverki því þau gefa fjarstöddum hugmynd um gang mála: „Nágrannarnir vissu hvað gerst hafði og mörgum varð ekki svefnsamt fyrstu næturnar eftir að fóturinn var tekinn. Smám saman varð lengra milli hljóðanna og nýr skammtur af morfíni barst frá Akureyri.“3 Skynhrifum sem tengjast ánægjulegri minningum er líka lýst, t.a.m. lyktinni af lárviðarlaufi sem ‚kveikti alltaf blik í augum föður‘ sögumanns þó áttatíu ár væru liðin frá þeim atburðum sem henni tengdust. Faðirinn segir frá því þegar móðir hans tók hann með á síldarplanið á Siglufirði og þegar honum fór að renna í brjóst sendi hún hann til karla í pakkhúsi þar sem haugur af lárviðarlaufi var geymdur. Hann segir svo frá: „Síðan sópaði ég laufinu yfir mig og sofnaði alsæll undir grænni lárviðarsæng. Grútarlyktin hvarf úr vitunum og þegar ég vaknaði hljóp ég eins og ilmandi kryddbaukur um bryggjurnar “(29).

Frásögnin af lárviðarlaufinu er dæmi um texta þar sem flakkað er á milli tímasviða án þess að lesandinn verði þess var. Hún er leidd inn af sögumanninum með orðunum: „Bragðið af lárviðarlaufinu kveikir alltaf blik í augum hans.“ Orðalagið gefur til kynna að sögumaður hafi átt fjölmargar áþekkar stundir með föður sínum og því má segja að laumað sé að lýsingu á sambandi feðganna. Síðan víkur aðalsögumaður bókarinnar til hliðar af hæversku og gefur öðrum sögumanni, þ.e. föður sínum, orðið: „Í gamla daga þegar ég var strákur … [o.s.frv.]“ Saga föðurins er römmuð inn með eftirfarandi athugasemd: „… segir pabbi og stingur gafflinum í síldina.“ Hér eru tvær kynslóðir að ræða saman og þó það sé ekki tekið fram í textanum þá má gera sér í hugarlund að undirstaðan í eiginlegum og óeiginlegum skilningi sé arfur frá þriðju kynslóðinni, þ.e. borðið hennar Stefaníu ömmu. Heimsókn sögumanns til Esterar föðursystur sinnar rennir frekari stoðum undir það að um sé að ræða fjölskyldu þar sem rík hefð er fyrir sagnamennsku yfir borðum:

Ester býr í risinu á háreistu timburhúsi þar sem sér yfir bryggjurnar og fjörðinn. Í litla eldhúsinu á kvistinum beið mín hangikjöt með uppstúf, hún hafði átt von á mér. Frænka var hin hressasta, létt á sér eins og unglingur þótt hún væri komin á níræðisaldur og sjónin farin að daprast.
Er við höfðum gert hangikjötinu góð skil vaskaði ég upp meðan Ester sauð vatn í skaftpotti og hellti upp á kaffi með gamla laginu í dældaðri blikkkönnu. Úti var byrjað að skyggja og regnhryðjurnar lömdu húsið. Ester fór að segja mér ýmislegt frá ömmu og fyrstu árum hennar á Siglufirði, meðal annars þegar fóturinn var tekinn af Stebba. Hún gekk að kvistglugganum og benti mér á hvar brakkinn hafði staðið við hliðina á skemmunni sem nú hýsir Síldarminjasafnið. (13)

Ástæðan fyrir því að bók Óskars Árna hefst á aflimun Stefáns frænda hans kann að vera sú að sjálfur er hann nýstiginn upp úr veikindum í upphafi bókarinnar og eins og „oft gerist þegar þannig stendur á leituðu ýmsar spurningar á hugann og hálfgleymdir atburðir úr fortíðinni sótt á [hann] “(10). Hann leggur upp í ferðalag og víða er hann minntur á dauðann. Þannig er svartur jeppi vinar hans Sigurlaugs Elíassonar uppnefndur „líkvagninn“(11), Geirlaugur Magnússon vinur hans er á morfíni langt leiddur af krabbameini (12) og um nóttina dreymir sögumanninn að hann sé staddur í líkhúsi, þangað sendur til að sækja fótinn af Stefáni frænda sínum „og finna honum stað uppi í kirkjugarði “(13). Þegar líður á bókina safnast sífellt fleiri persónur til feðra sinna og heimildamönnum um liðna daga fækkar einum af öðrum. Næstsíðasti prósinn „Sími 6572“ lýsir því hversu fljótt fennir í sporin eftir að menn eru gengnir:

Stebbi var barnlaus og nú eru öll systkini hans dáin, allir horfnir sem þekktu hann. Engar skriflegar heimildir eru til um hann nema blaðafréttirnar af láti hans. En hann var með síma. Í símaskránni frá 1950 stendur nafn hans og símanúmer: Stefán Steinþórsson, skósmiður, Barónstíg 30, sími 6572.
Gömul símaskrá, þú opnar hana, rennir fingrinum niður síðuna, staðnæmist við nafn og bak við þetta nafn er heil ævi, dagar sem koma á eftir nóttu, mánuðir sem breyta sífellt um nöfn, ár sem taka við af nýju ári með andstreymi sínu og stundum óvæntri birtu. (131)

Bók Óskars Árna er skrifuð til höfuðs gleymskunni. Hann er ekki upptekinn af sögulegum stóratburðum heldur dvelur hann við andstreymi hversdagslífsins og hina óvæntu birtu sem stundum lýsir upp tilveru okkar. Þar er fjallað um líf þeirra sem annars væru bara tölur á blaði, t.d. einfættan dreng á Siglufirði á þriðja áratug síðustu aldar sem var „knúsaður mikið af kvenfólkinu“ og eftir faðmlögin bar hann jafnan „glitrandi síldarhreistur í dökkum hárlubbanum“ (8). Óskar Árni hefur hæfileika til að sjá það sem öðrum er hulið og þegar honum tekst best upp þá bregður hann óvæntri birtu inn í daga lesenda sinna, gerir þeim ljós verðmæti sem þeir eiga en kann að sjást yfir

 

Íslenzkur aðall

Í bók Óskars Árna koma þónokkur skáld við sögu. Mest fjallar hann um ömmubróður sinn, Magnús Stefánsson, sem tók upp skáldanafnið Örn Arnarson. Óskar vitnar í Íslenzkan aðal eftir Þórberg Þórðarson þar sem minnst er á Magnús í framhjáhlaupi og þess getið að hann hafi „löngu síðar [orðið] þjóðkunnugt skáld undir nafninu Örn Arnarson“. Magnús dvaldi á Siglufirði samtímis Þórbergi og Óskar bætir eftirfarandi athugasemd við: „Svo hlédrægur hefur Magnús þó verið um eigin skáldskap að Þórbergur mundi ekki einu sinni eftir honum í hópnum en bætti þessum línum [um Magnús] inn í frásögnina þegar honum var bent á að [hann] hefði verið í slagtogi með þeim“ (84). Orð Óskars eru algjörlega beiskjulaus og fyrst og fremst til þess fallin að bæta við persónulýsingu Magnúsar sem aldrei kom upp um hver hann væri þó hann heyrði menn fara með kvæði Arnar Arnarsonar í hans viðurvist (72). Óskar Árni Óskarsson er líkur frænda sínum að því leyti að hann hefur verið hálfgerður huldumaður í íslenskum bókmenntum þó reyndar megi fullyrða að fáir njóti meiri virðingar meðal kollega sinna en hann. Í Íslenskri bókmenntasögu Máls og menningar er hans aðeins getið á einum stað fyrir hækur sínar og útgáfu á tímaritinu Ský. Þórbergur Þórðarson var utangarðs í íslenskri bókmenntaumræðu vegna óvenjulegrar formhugsunar og flókinna tengsla milli ævi hans og verka en á síðustu misserum hefur orðið breyting þar á og segja má að höfundarverk hans hafi gengið í endurnýjun lífdaga vegna þeirrar umræðuhefðar sem nú er að skapast um það. Smáprósar Óskars Árna falla illa að uppbyggingu bókmenntasögu sem miðast fyrst og fremst við flokkana; ljóð, leikrit og skáldsögur en sjái menn hann fyrir sér í kompaníi við Þórberg þá ætti enginn að velkjast í vafa um að hér eru á ferðinni fagurbókmenntir. Sjálfur virðist Óskar Árni sjá Þórberg fyrir sér sem nokkurs konar ferðafélaga og í því sambandi mætti benda á ljóðið „Á vegum úti“ úr bókinni Loftskip frá árinu 2006.

Þegar Óskar Árni las upp á Bókmenntahátíð í Reykjavík 2005 ásamt Andrej Kurkov, James Meek og Hanan al-Shaykh má segja að hann hafi stolið senunni. Þetta er rifjað upp hér vegna þess að Óskar Árni Óskarsson skrifar bækur sem höfða nær undantekningarlaust til þeirra sem komast í kynni við þær; hann er óvenjulegur höfundur og nú eru runnir upp óvenjulegir tímar.

 

Haukur Ingvarsson

Tilvísanir

  1. Óskar Árni Óskarsson: Handklæði í gluggakistunni, Blekkbyttan: Reykjavík, 1986, s. 37.
  2. Óskar Árni Óskarsson: Vegurinn til Hólmavíkur: ferðaskissur, Bjartur: Reykjavík, 1997, s. 69.
  3. Óskar Árni Óskarsson: Skuggamyndir á ferðalagi, Bjartur: Reykjavík, 2008, s. 7. Framvegis verður vísað í bókina með blaðsíðutali innan sviga aftan við tilvitnanir.