Þorvaldur Kristinsson. Lárus Pálsson leikari.
JPV útgáfa, 2008.
Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2009.
Þessi bók er fagnaðarefni.
Hún er það af ýmsum orsökum. Í fyrsta lagi er hún ágætt framlag til þess að kveða niður þann gamla draug að enginn sé eins dauður og dauður leikari. Og víst er um það að leiklistin, þessi hverfula list augnabliksins, á erfiðara með að verja sig og sína minningu hjá eftirkomandi kynslóðum en bæði ljóðinu og tónverkinu og málverkinu er unnt. En er list Mikhaíls Fokin, Isadoru Duncan eða Mary Wigman að minni fyrir það að þau standa ekki lengur á sviðinu, svo að tekið sé nú dæmi af annarri listgrein sem á undir sama högg að sækja? Getum við yfirleitt skilið framvindu nútímadanslistar án þess að hafa þekkingu í þeirri nýsköpun sem þessir þrír listamenn höfðu fram að færa. Sigurður Nordal skrifaði einu sinni fræga ritgerð um samhengið í íslenskum bókmenntum. Síðar hafa aðrir fræðimenn bent á samhengið í íslenskri myndlist og íslenskri tónlist. Saga íslenskrar leiklistar – ef við notum orðið leiklist sem er auðvitað hlaðið verðmætamati – er stutt; það er ekki fyrr en á fyrstu tveimur áratugum tuttugustu aldar sem hún nær þeim mæli að kinnroðalaust sé hægt að tala um list. Síðan er í þeirri sögu samhengi. Einn þeirra sem hvað mest lögðu af mörkum í að viðhalda því samhengi fram á okkar daga var einmitt Lárus Pálsson. Sem leikari og ekki síður sem leikstjóri. En það segir sitt að í bókartitlinum er hann nefndur leikari, svo sem venja var um hans daga, þó að afrek hans sem leikstjóra væru ekki minni. Leikstjórinn hefur einhvern veginn alltaf verið ósýnilegri hér á landi, þó að svo sé ekki víða erlendis.
En Lárus og Indriði Waage byggðu einfaldlega upp það sem í dag er kallað nútímaleiklist á Íslandi, sambærilega við leiklist nágrannalandanna. Höfum við löngun til að gleyma því, efni á að gleyma því? Getum við yfirleitt skilið okkur sjálf ef við, fyrirgefið orðbragðið, gefum skít í rætur okkar? Á okkar dögum eru hæstustig lýsingarorða svo ofnotuð og misnotuð að það þarf að kveða sterkt að til að koma boðskap inn í moðhausa. Miðlungs gaulari er kallaður stórsöngvari á síðum blaðanna.
Bókin er fagnaðarefni fyrir þær sakir að lítið hefur þrátt fyrir allt verið skrifað um íslenska leiklist af fræðilegri könnun og þekkingu. Fyrir utan almenna leiklistarsögu og bækur til dæmis um einstök leikskáld er ekki úr miklu að moða. Að viðtalsbókum sem þeir Njörður P. Njarðvík og Ólafur Jónsson skrifuðu um þá Harald Björnsson og Brynjólf Jóhannesson, sem báðir voru samverkamenn Lárusar þótt eldri væru, er auðvitað mikill fengur. En það er á annan máta, listamenn lýsa í samtölum mönnum og málefnum eins og það kom þeim fyrir sjónir. Nokkrar yngri bækur af sama toga hafa einnig heimildagildi, en því miður er um sumar slíkar bækur að segja að frá leiksögulegu sjónarmiði verða þær stundum viðsjárverðar vegna huglægni og skorts á faglegum vinnubrögðum. Minnið er brigðult.
Þessi bók er annars konar. Með erlendum þjóðum er það ekki óalgengt að fræðimenn taki sér fyrir hendur að reisa þeim leikhúsmönnum sem upp úr standa í hverri kynslóð minnisvarða í formi svokallaðra monografía, sem er svolítið annað form en blaðamennskuævisögur, og þekkjast auðvitað vel bæði í sagnfræði og bókmenntasögu. Þau skrif eru þá framlag til þeirrar menningarsögulegu könnunar sem stöðugt er í gangi. Á seinni árum hafa augu manna einmitt beinst að því að skoða menningarsöguna í samhengi, en einskorða sig ekki við að rekja framvindu einstakra listgreina, þó að þess þurfi einnig með. Þetta tengist væntanlega þeirri kröfu sem einnig hefur látið á sér kræla: að menning og listir séu óaðskiljanlegur hluti allra annarra þátta í samfélagsþróuninni, pólitískra, efnahagslegra og félagslegra, og iðulega aflvaki nýrra hugmynda sem móta þá framþróun. Ekki skraut sem menn hafa bara efni á þegar eitthvað er aukreitis í buddunni. Hér mætti til dæmis byrja að taka til með því að breyta um nafn á „listskreytingasjóði“.
Á því er skýring hversu lítið af marktækum faglegum skrifum hefur verið um leiklist okkar, og kann það að vekja nokkra furðu, svo vinsæl sem leiklist hefur verið á Íslandi allar götur frá 1860, svo vinsæl að fæstar þjóðir munu geta sýnt viðlíka aðsóknartölur. Það er líka skýring á því hvers vegna bókmenntamenn yfirleitt sniðganga leikritun í bókmenntaumræðunni, líkt og þaðan sé engra umræðuverðra hugmynda að vænta, allt snýst um skáldsögur og ljóð (og barnabækur lafa stundum með). Skýringin er sú að leiklistarfræði eru enn ekki orðin gjaldgeng á Íslandi.
Skýringin er sú, meðan fjöldi nýrra kennslufaga hefur haldið innreið sína í íslenska háskóla, að enn er enginn kennslustóll í leikhúsfræðum við nokkurn íslenskan háskóla. Þó að leiklistarsaga eða leikritunarsaga hafi verið kennd öðru hverju í Háskóla Íslands, hefur hún þó verið hornreka, svo að það sé sagt fullum fetum. Á sama tíma eru leikhúsfræði kenndi við eftirtalda háskóla á Norðurlöndum: Kaupmannahöfn, Árósum, Ósló, Björgvin, Þrándheimi, Lundi, Stokkhólmi, Gautaborg, Uppsölum, Umeå, Helsinki, Tampere, Åbo (Turku) og sjálfsagt fleiri. Með öðrum orðum er þar litið þannig á að menningarsagan verði ekki rakin gloppulaust án þess að leiklistarsagan sé þar fullgild fræðigrein. Og það gerist í ljósi þess að með aðferðum leiklistarfræðanna er hægt að nálgast einn þátt menningarsögunnar – og þar með sögu hverrar þjóðar – sem ekki næst tangarhald á með öðrum leiðum og fyllir því í myndina.
Í þriðja lagi er fengur að þessari bók af því að hún er skrifuð á látlausan og aðgengilegan hátt öllum almenningi, þó að faglegar rannsóknir búi að baki. Efninu er þjónað að flærðarlausu. Sú mynd sem dregin er upp af Lárusi er auðvitað huglæg að vissu marki, en höfundur fellur hvergi í þá gryfju að hefja söguhetju sína á stall á kostnað annarra. Frásögnin byggist vissulega talsvert á bréfum Lárusar sjálfs og svo frásögnum þeirra sem honum voru nátengdir, og fer þá ekki hjá því að stundum sé skorið nærri hjarta. Leikarar og leikstjórar eru ekki hamingjusamari en aðrir menn, þó að ungir og efnilegir leiklistarnemar geri sér oft vonir um slíkt. Þegar Lárus kemur heim með Petsamo til starfa hér í Iðnó við þröng kjör, voru honum eigi að síður búin betri skilyrði en öðrum samstarfsmönnum, og ég er ekki viss um að það komi nægilega skýrt fram í bókinni að það kostaði fórn af hálfu hinna sem kannski voru búnir að berjast fyrr á sviðinu á annan áratug – í hjáverkum. En þeir gerðu sér einfaldlega grein fyrir, að þarna kom til þeirra vel menntaður og hæfileikaríkur atvinnumaður.
Valið reyndist rétt. Fimmti áratugurinn var blómaskeið hjá Leikfélagi Reykjavíkur og stærstan hlut þar átti Lárus, fyrst og fremst sem leikstjóri, þó að hann léki jafnframt mörg rómuð hlutverk. Í ljósi þess verður kannski að skoða þá tilfinningu vonbrigða á fyrsta reglulega leikári Þjóðleikhússins sem Þorvaldur lýsir í bókinni og vitnar í bréf til danska leikstjórans Edwins Thiemroth, vinar Lárusar. Í fyrsta lagi var Lárus í hópi þeirra sem sóttu um starf Þjóðleikhússtjóra, en fyrir valinu varð maður sem ekki hafði starfað að leiklist. Í öðru lagi gat Lárus nú ekki lengur valið sér í sama mæli verkefni sem leikstjóri, en í samningi hans við L.R. mátti hann velja eitt slíkt á hverju leikári. Í þriðja stað mun einnig mega lesa úr þessum skrifum vonbrigði hans yfir því að honum, sem hafði alið upp nýja kynslóð íslenskra leikara með leikskóla sínum, skyldi ekki falið að veita hinum nýja Leiklistarskóla Þjóðleikhússins forstöðu, starf sem leikhússtjórinn, sem ekki var fagmaður, tók að sér. Í fjórða lagi lýsa þau óþoli leikara vegna verkefna og hlutverkaskipunar, óþoli sem er skiljanlegt og oft sárt, því að í þeim efnum er veröldin grimm. Og listamenn ofurviðkvæmir og Lárus þar engin undantekning.
En hins vegar verður að segjast eins og er að þetta umrædda leikár, sem hér er tekið sem dæmi, kom eigi að síður glæsilega út fyrir Lárus, og kannski hefði einhver verið ánægður. Sú opnunarsýning sem mesta athygli hafði vakið, Íslandsklukkan, gekk þetta haust 1950 og langt fram eftir vetri við ómældar og verðskuldaðar vinsældir. Hann stýrði um haustið léttvægum en geðþekkum gamanleik, Pabba, með þeim hjónum Alfreð Andréssyni og Ingu Þórðardóttur á hátindi listar sinnar, og hann stýrði einu athyglisverðasta leikriti þeirra ára, Flekkuðum höndum eftir Jean-Paul Sartre í minnisverðri sýningu. Í viðtali við Guðlaug Rósinkranz eftir að hann kom að utan þar sem hann hafði verið að kynna sér leiklist og hvað væri nýjast á boðstólum (Tíminn 22. júní 1949) nefnir Guðlaugur að hann hafi í utanferð sinni í Bretlandi og á Norðurlöndum séð 32 leiksýningar en nefnir sérstaklega þrjú leikrit: Sporvagninn [Tennessee Williams], nýtt leikrit eftir SØnderby [hér mun um að ræða Konu ofaukið, sem var tekið aftur til sýninga á Konunglega leikhúsinu þetta leikár og sýnt svo í Reykjavík í árslok 1950 í leikstjórn Indriða Waage] – og Flekkaðar hendur. Verður því að álykta að Guðlaugi hafi verið kappsmál að sýna þetta leikrit Sartres, en hins vegar var það ekki að skapi öllum vinstri mönnum, því að þar takast á flokkshollusta og praktískir pólitískir hagsmunir þegar breytt er um dægurstefnu. Sjálfur bannaði Sartre sýningar á þessum leik nokkru síðar og stóð það bann í áratugi. Þetta er nefnt hér sem dæmi.
Annars verður þó að álíta að aðalleikstjórar Þjóðleikhússins hafi í krafti fagþekkingar sinnar og reynslu haft töluvert að segja um verkefnaval fyrstu árin, og bendir margt til þess, þó að það yrði of langt mál að rekja hér. En í viðbót við þessi leikstjórnarverkefni átti Lárus á þessu sama leikári 1950–51 tvö af bestu hlutverkunum á á öllum sínum glæsta ferli, Kalla prins í Heilagri Jóhönnu Shaws, þar sem hann sló sjálfri Önnu Borg við, og Argan í Ímyndunarveikinni, þar sem stíltilfinning hans og hárfínt, fágað skopskyn naut sín til fullnustu.
Hann var bókmenntanna maður og sagði síðar frá því þeim sem hér heldur á penna að bókmenntanámskeið sem hann sótti þegar í Menntaskólanum hefði kveikt þann áhuga og haft áhrif á að hann valdi að fara út á leiklistarbrautina. Sjálfur hefur hann lýst á gamansaman hátt í bók um danska leikarann Holger Gabrielsen, sem var kennari hans, hversu lítið upplagt Gabrielsen þótti að hann væri lagaður til slíks.
Þorvaldur gerir ágæt skil námi og ferli Lárusar í Danmörku, en litla leikhúsið hans Sams Besekow í Riddarasalnum á Friðriksbergi var fjörefnagjöf í danskt leikhúslíf undir stríð og má sjá hvernig þau listrænu leiðarljós sem þar voru í hávegum höfð fylgja Lárusi síðar á listferlinum; bæði á þetta við um verkefnaval og fagurfræðilega nálgun. Listamaðurinn á ekki að vera eyland, sannur húmanisti er enginn sá sem ekki lætur sig örlög meðbræðranna skipta og fjallar um þá í list sinni. Tímarnir örvuðu auðvitað til slíkrar afstöðu. En hjá Lárusi situr andinn í fyrirrúmi, ekki áróðurinn, og nútímaverk sem hann valdi sér, eins og Hái-Þór eftir Maxwell Anderson, Á flótta eftir Ardrey, Orðið eftir Kaj Munk og Jónsmessudraumur á fátækraheimilinu eftir Pär Lagerkvist fjalla öll um það sem Kjarval orðaði einu sinni svo: Það er ábyrgðarhlutur að lifa. Svo að ekki sé minnst á verk eins og Í deiglunni og Horft af brúnni eftir Arthur Miller á Þjóðleikhúsárunum. Jafnframt var Lárus meiri nýjungamaður í sviðsetningum sínum en menn hafa almennt gert sér grein fyrir og má benda á Kaupmanninn í Feneyjum og Bæinn okkar sem dæmi þess hvernig hinni landlægu raunsæisumgjörð var varpað fyrir róða.
Hann hóf sígild leikverk að nýju til verks, eftir nærfellt 20 ára hlé frá því að Indriði Waage réðst af stórhug í að sýna fyrstu Shakespeareleikritin á Íslandi. Þrjár af markverðustu sýningum á verkum heimsbókmenntanna sem sáu dagsins ljós í Iðnó á fimmta ártugnum voru undir stjórn Lárusar, Kaupmaðurinn í Feneyjum, þar sem samúð með hinum ofsóttu gyðingum var sjáanleg, Eftirlitsmaðurinn eftir Gogol, þar sem ráðist er gegn hégómaskap og útkjálkamennsku og Volpone eftir Ben Jonson þar sem ráðist er gegn græðgi og fláttskap. En í tveimur öðrum sígildum verkum fór Lárus með aðalhlutverkin, Pétri Gaut og Hamlet, tveimur erfiðustu og eftirsóttustu hlutverkum leikbókmenntanna og hafði fullan sigur. Og í Þjóðleikhúsinu bætti hann um betur m.a. með leikstjórn sinni á Sem yður þóknast, þar sem leiktexti Helga Hálfdanarsonar hljómaði í fyrsta sinni á íslensku leiksviði, mögnuðum sýningum á Föðurnum og Kröfuhöfum eftir Strindberg og svo einstaklega stílhreinni og skemmtilegri sýningu á Æðikollinum eftir Holberg, þar sem realisminn var ekki að flækjast fyrir neinum. En Þorvaldur dregur heldur enga fjöður yfir að ein þessara sýninga, á harmleiknum Júlíusi Sesar, þótti mistakast, og að Lárus virðist hafa gert sér fulla grein fyrir því. Í sviðsetningum Lárusar kom fram sjálfstæður skilningur, en gaman hefði verið að fara meira í saumana á túlkun hans á t.d. Pétri Gaut og Hamlet, þó að oftlega sé lítið hald í lýsingum leikrýna. Og bera saman við erlendar túlkanir, t.d. Alfreds Maurstad á Pétri, en sýning Gerdar Grieg virðist hafa dregið dám af sýningu norska Þjóðleikhússins í leikstjórn Halfdans Christensen 1936 þar sem Maurstad lék Pétur sem óstýrilátan bóndastrák sem fjandinn hljóp í og sendi á flótta frá veruleikanum, eins og norski gagnrýnandinnn Anton Rønneberg komst að orði.
Lárus stýrði þeim fjórum íslenskum verkum sem mest tíðindi voru að á fimmta áratugnum, Gullna hliðinu og Vopnum guðanna eftir Davíð Stefánsson, Uppstigningu Nordals og Skálholti Kambans. Gullna hliðið öðlaðist meiri vinsældir við frumflutning sinn en dæmi voru fyrir; en þannig átti Lárus líka sinn þátt í að sú sýning, sem farið var með í boð til Helsinki 1948, varð eins konar yfirlýsing um að Íslendingar stæðu öðrum Norðurlandaþjóðum jafnfætis á leiksviðinu.
Þannig mætti lengur telja. Þorvaldur dregur fram margvíslegan fróðleik, sem ekki hefur verið á vitorði margra sem áhuga hafa þó haft fyrir íslenskri leiksögu, eins og því hvernig stóð á því að Gerd Grieg kom hér til starfa með íslenskum leikurum á stríðsárunum. Þar kom til kunningsskapur Lárusar við Nordahl Grieg. Annað verður nokkuð út undan, eins og til dæmis hvernig Agnar Bogason nánast lagði Lárus í einelti í Mánudagsblaðinu. Kannski hefði mátt lýsa starfi Lárusar á öndverðum árum Þjóðleikhússins ítarlegar. Bókin er það læsileg að hún hefði vel mátt verða nokkrum blaðsíðum stærri.
Þorvaldur lýsir nærfærnislega en án undandráttar þeim árum þegar fer að halla undan fæti fyrir Lárusi og líkamlegir kraftar hafa ekki í við andlegan metnað. Kannski hefði mátt gera hlut Lárusar í útvarpsleikhúsinu rækilegri skil, sá hlutur var gríðarlega mikilsverður, og þar má í mörgum tilvikum neyta vitnanna við. Einstaka aðfinnslur nenni ég ekki að hirða um; nefni aðeins sem dæmi um ónákvæmni á bls. 218, þegar lýst er uppsetningu Lárusar á Gullna hliðinu í Ósló 1946. Þar segir: „Sýningarinnar var beðið með nokkurri eftirvæntingu enda höfðu islensk leikrit ekki ratað á sviðið í Ósló, ef undan eru skilin helstu verk Jóhanns Sigurjónssonar sem sýnd voru í Norska leikhúsinu á fjórða áratug aldarinnar. Í Noregi var lítil þekking á íslensku leiklistarlífi, en nú gekk leikstjórinn ötullega fram í að kynna það með viðtölum í blöðum.“ Satt er það að lítil þekking var á íslensku leiklistarlífi í Noregi og er enn; gildir það raunar um öll Norðurlöndin að fylgst hefur verið tilviljunarkennt með því sem gerist í íslensku leikhúsi. En hins vegar hefði það gefið fyllri mynd og réttari, ef tíundað hefði verið að áður en Norska leikhúsið lék Fjalla-Eyvind og Galdra- Loft á fjórða áratugnum hafði þar átt sér stað frumfutningur Konungsglímu Kambans (í árslok 1916, ári á undan íslensku sýningunni). Þá hafði Þjóðleikhúsið norska áður flutt Fjalla-Eyvind 1913 og svo Vér morðingjar eftir Kamban 1921, hvort tveggja leikritanna með Johanne Dybwad, virtustu leikkonu Norðurlanda, í aðalhlutverkunum. Við þetta má bæta, af því að næst leiddi þessi vinna Lárusar með Gullna hliðið til uppsetningar hans á sjónleiknum Á flótta í Björgvin, að leikhúsið þar hafði tvívegis tekið íslensk verk til sýninga, Fjalla-Eyvind haustið 1912 (á undan Þjóðleikhúsinu) og Vér morðingjar 1920, einnig á undan Þjóðleikhúsinu í Ósló.
Menn þurfa auðvitað ekki að vera sammála öllu í túlkun og greiningu Þorvalds á ferli Lárusar, enda er það ekki aðalatriðið. Hér er heiðarlega staðið að verki og einnig viðbúið, eðli málsins samkvæmt, að spurningar og umræður vakni um einstaka málsþætti. Sumum hefði kannski þótt að meiri tenging hefði mátt vera milli þess sem Lárus var að vinna á sviðinu og þess sem var að gerast í veröldinni í kringum hann. Þó að hann væri heils hugar í list sinni, var langt frá því að hann byggi í fílabeinsturni. Aðalatriðið er auðvitað að hér eru einum helsta listamanni sinnar kynslóðar á Íslandi gerð verðug skil, eigi síður en skáldum og myndlistarmönnum sem áður hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi. Það er sem sagt fagnaðarefni að þessari bók. Kannski verður hún til að minna á þörfina á að koma upp viðhlítandi kennslustóli í leikhúsfræðum; þá gæti hún orðið væntanlegum nemendum fyrirmynd um sams konar rit. Efnin bíða.