Íslenska sakamálasagan, fjölmenningarsamfélagið og Vetrarsól eftir Auði Jónsdóttur

Auður Jónsdóttir. Vetrarsól.

Mál og menning, 2008.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2009.

VetrarsólHugtakið „póstmódernismi“ felur í senn í sér sýn á samfélagsgerðina og viðhorf til fagurfræðilegra umbyltinga nýliðinna áratuga. Í höfuðriti sínu, Póstmóderníska ástandinu, gerir franski heimspekingurinn Jean-Francois Lyotard hvort tveggja að umfjöllunarefni en lætur sig hið fyrrnefnda þó meiru varða. [1] Áhugi Lyotards á samfélagsgerðinni leiðir til athyglisverðrar tengingar milli hins póstmóderníska menningarstigs og þess sem í dag er jafnan kennt við hnattvæðingu. Í ritum sínum dregur Lyotard fram mynd af hinni velstæðu vestrænu sjálfsveru sem í krafti sögulegrar „rökvísi“ situr í stafni framþróunar og velmegunar. Um er að ræða neysluknúið sjálf í neysluknúnu samfélagi; sjálfsvera þessi stendur frammi fyrir óþrjótandi valkostum, veröldin hefur skroppið saman en reynslu- og neysluheimurinn hefur að sama skapi margfaldast að umfangi. Á póstmódernískum tímum púsla upplýstir neytendur saman sjálfsmynd sinni, skapa sér lífsumhverfi og kjósa sér verustað úr samblandi hins alþjóðlega og hins þjóðlega; ráp milli menningarheima á sér stað umhugsunarlaust. „Við“ lifum í sólskini fjölbreytileikans, „allt gengur“, eins og sagt er. Landamærin sem mörkuðu lífheiminn hér áður fyrr skipta ekki lengur jafn miklu máli, yfir þau er flogið á hljóðhraða og þverþjóðleg samvinna hefur í mörgum tilvikum gert þau ósýnileg.

Gott og vel. En að baki þessum heimi er annar veruleiki sem Lyotard veitir ekki síður athygli og kennir við raunsæi peninganna, raunsæið sem „skapar öllum hneigðum farveg líkt og kapítalisminn veitir öllum þrám framrás“. [2] Þarna bendir Lyotard á fylgifisk hins margklofna athafna- og tilvistarfrelsis samtímans, þá staðreynd að hinn upphafni póstmóderníski veruleiki, eins og hann birtist okkur í verslunarmiðstöð forréttindanna, er afar þröngt skilgreindur og ennfremur byggður á tilteknum heimspólitískum kringumstæð- um. Frelsið er ekki sjálfsagt, það grundvallast á valdi og misvægi. Rétt eins og hnattrænt flandur á einkaþotum skilur eftir sig kolvetnisspor sem einhvern veginn þarf að þrífa, þá þarf að taka til eftir hið ljúfa líf neyslunnar enda þótt afleiðingarnar sjáist ekki frá okkar hefðbundna útsýnisstað, ekki frekar en kolvetnissporið. Á Vesturlöndum hafa breyttir framleiðsluhættir gert heilu stéttirnar úreltar; einkavæðing og afbygging regluverksins hafa sleppt fjölþjóðlegum fyrirtækjum lausum á almenning en skörpustu skilin hafa að sjálfsögðu skapast á milli fyrsta heimsins og svo hinna heimanna sem koma aftar í talnaröðinni, annars heimsins og þess þriðja, „þróunarríkjanna“ sem ekki hafa fylgt stórstígum framfaraskrefum okkar. Sambandið milli „okkar“ og þeirra hefur sjaldan verið flóknara en einmitt nú – á tímum sem Samuel Huntington kennir á heldur misvísandi hátt við „átök menningarheima“ en mætti sennilega frekar lýsa sem sársaukafullu breytingarferli sem gengið hefur yfir rótfastar valdablokkir heimsins. [3]

1.

Það er um margt villandi að hefja umfjöllun um skáldverk eftir Auði Jónsdóttur með orðinu „póstmódernismi“. Ó-póstmódernískari höfundur en Auður hefur fram til þessa verið vandfundinn í íslenskum samtímabókmenntum, enda hefur hún jafnan virst vera á þeirri skoðun að hefðbundnar byggingareiningar skáldsögunnar séu traustar og standi fyllilega fyrir sínu enda þótt tímarnir hafi tekið stakkaskiptum. Hingað til hefur það verið innihaldið sem skiptir máli í sögum Auðar, sjálft næringargildið, en ekki útlitið eða nýjabrum í framreiðslu og samsetningu. Að þessu leytinu til hefur Auður átt lítið sammerkt með þeirri póstmódernísku sýn, þeirri björtu sjálfsmeðvitund og flöktandi sjálfsrýni sem gera textaafurðir nýbylgjunnar að eins konar bókmenntalegum endurskinsmerkjum, hlutum sem glitra í ljósgeislum leslampans og tryggja þannig fjarlægð sína frá lesandum. Í fyrstu láta skáldsögur Auðar ekki mikið yfir sér, stíllinn er látlaus og bygging þeirra hefur jafnan verið línuleg; sjónarhornið að sama skapi óumdeilt og afstaða höfundar skýr; stundum er höfundarafstaðan jafnvel svo skýr og áberandi að það jaðrar við uppivöðslusemi, aðrar raddir og sjónarhorn fá ekki að hljóma. En þetta þýðir þó ekki að hugtakaþyrpingin umhverfis póstmódernisma sé merkingarsnauð þegar hugað er að verkum Auðar. Líkt og komið hefur fram ber póstmódernismi með sér fjölda ólíkra fylgihnatta og skírskotana, enda er um listafræðilegt og fagurfræðilegt hugtak að ræða, og gildishlaðið sem slíkt, en einnig félagsfræðilegt og pólitískt verkfæri; hinn póstmóderníski veruleiki er veruleiki síðkapítalismans og hnattvæðingarinnar. Þegar litast er um í íslenskri skáldsagnagerð er ljóst að enginn hefur gert sér þennan veruleika, eins og hann birtist þegar blæju neyslufrelsis og forréttinda er svipt burtu og raunveruleiki „peninganna“ birtist, eins og Lyotard orðar það, að efniviði á sambærilegan hátt og Auður Jónsdóttir.

Í inngangi að nýlegu ritgerðarsafni sem Auður ritstýrði í félagi við Óttar M. Norðfjörð, Íslam með afslætti, þar sem fjallað er um vandasamt samband íslams og vestursins, sjálfa höfuðsögu samtímans, segir meðal annars að bækur „eig[i] jú að fá að njóta sín sem órjúfanlegur þáttur af samfélagsumræðunni jafnt sem heimsumræðunni“. [4] Þessi orð koma auðvitað frá ritstjórunum báðum og vísa sérstaklega til viðkomandi greinasafns, en þau má í vissum skilningi yfirfæra á skáldverk Auðar sem virðast einmitt oft og tíðum eiga brýnt erindi við samfélagslegan veruleika, og þá ekki síst með þeim hætti að tengja samfélagsumræðuna eins og henni vindur fram á Íslandi við erlenda strauma. Í hverri skáldsögunni á fætur annarri hefur Auður fjallað um samskipti fólks sem tilheyrir ólíkum menningarheimum og hún hikar ekki við að sviðsetja verk sín á erlendri grund. Flókinn veruleiki valdatengsla og aðstöðumunar er kallaður fram og bent er á hvernig hegðunarmynstur sem einkennist af valdamisvægi grundvallist jafnan á pólitískum og þjóðfélags-efnahagslegum forsendum. Þannig er líka óhætt að segja að í þematískum skilningi skapi stöðug og gagnrýnin umfjöllun Auðar um hið „útlenda“ og samband þess við hið „íslenska“ – samskipti „okkar“, forréttindahópa vestrænna lýðræðisríkja, við alla „hina“, óheppna íbúa öngstræta og afdala hins hnattvædda heims – henni allmikla sérstöðu í íslenskum nútímabókmenntum. Auður fæst við stór viðfangsefni. Hún virðist hafna þeirri hugmyndafræði að sjálfhverf tjáning laskaðs sjálfs sé hin eina færa mótspyrna andspænis föllnum kapítalískum heimi. Þess í stað grundvalla pólitískar hugmyndir formgerð skáldsagna hennar, hún umfaðmar hugsjónir og hugmyndafræði sem drifkraft fyrir skáldskap. Þetta gefur verkum hennar sérstakt og áleitið yfirbragð og getur verið krefjandi og haft hugvekjandi áhrif á lesendur. Á hinn bóginn er pólitísk sannfæring vitanlega engin ávísun á góðar bókmenntir. Þótt höfundur beri í brjósti brennandi sannfæringu um að fjölmenningarsamfélagið Ísland sé orðið til og hafi verið til um alllangt skeið þótt um það hafi ríkt þagnarhjúpur í menningunni, og að þennan þagnarhjúp beri að rjúfa – og hversu hárrétt sem allt þetta er – þá leiðir sú sannfæring ekki sjálfkrafa að marktæku skáldverki, líkt og önnur skáldsaga Auðar, Annað líf (2000), er dæmi um. Í þeirri skáldsögu voru efnistökin að vísu nægilega athyglisverð í sjálfu sér til að lesandi sýndi slakri úrvinnslunni nokkurt umburðarlyndi.

Þarna er á ferðinni ein fyrsta skáldsagan sem tekur á hinu nútímalega fjölmenningarsamfélagi sem smám saman hefur orðið til á Íslandi. [5] Leitast er við að veita innsýn í líf tælensks nýbúa í Reykjavík, ungrar og glæsilegrar fyrrverandi vændiskonu sem kemur til landsins sem eins konar „póstlistabrúður“ (með nokkrum mikilvægum fyrirvörum) og framvindan lýsir sambandi hennar við beitingakarlinn Guðjón, mann á sextugsaldri sem veitir henni húsaskjól (og deilir með henni svefnherbergi og innan skamms rúmi). Hér fer margt úrskeiðis, yfirbragð skáldsögunnar er klaufalegt og sjónarhornið á líf nýbúans litast af stöðluðum formgerðum og tekst því aldrei að vera sannfærandi. En tilraun er engu að síður gerð til að skapa samhengi fyrir skáldlega umfjöllun um hið útlenda í miðju hins innlenda, að víkka þematískar lendur íslenskra skáldsagna með því að birta mynd af samskiptum vitundar sem mótuð er í fjarlægu menningarrými við hið sínálæga umhverfi sem íslenskir lesendur bókarinnar þekkja svo mætavel. [6] Nýjasta skáldsaga Auðar, Vetrarsól, á þetta sameiginlegt með Öðru lífi. Í nýju bókinni verður sögusviðið einnig til úr samblandi hins hnattræna og hins staðbundna, hið útlenda setur úr jafnvægi venjubundinn veruleika Íslendingsins og skilningsleysi og fumkennd samskipti andspænis því sem er framandi birtast hér líkt og í Öðru lífi. Í Vetrarsól tekst þó ólíkt betur til og sýnin á skörun menningarheima, hætturnar og kostina sem henni fylgja, er skýrari.

2.

Vetrarsól segir af hinni hæglátu og eilítið feimnu Sunnu, konu um þrítugt sem starfar á bókaforlagi, og sem hefur að sumu leyti siglt lífi sínu í strand. „Núna átti barnið að vera komið. Núna átti rétta vinnan að vera fundin. Núna átti ég að hafa uppgötvað rétta staðinn í lífinu“ (93), hugsar hún á einum stað og lýsir þannig bæði væntingum sínum og vonbrigðum. Metnaðurinn sem eitt sinn dreif hana áfram hefur smám saman slokknað, eða verið ruggað í svefn af þeirri röð tilfallandi afleysingar- og íhlaupastarfa er henni hafa verið fengin ár eftir ár á forlaginu, án þess að hún nokkurn tíma höndli þann frama innanhúss sem hún þráir, eða að skáldadraumarnir sem móðir hennar er sannfærð um að knosi sálina verði að veruleika (250). Langvarandi þunglyndi virðist reyndar ráða hér nokkru um, sjálfsmyndin er ótraust (Sunna er manneskja sem „líður áfram en óttast allt“, 122) og ekki bætir úr skák að efasemdir um samband hennar við hinn myndarlega Axel vakna í framrás sögunnar. Þau Axel hafa verið saman um árabil en þegar sagan hefst situr Sunna hálfpartinn uppi með son hans, hinn geðuga og hálfstálpaða Helga sem er í heimsókn frá Danmörku, meðan faðirinn er veðurtepptur vestur á fjörðum í viðskiptaerindum. Fjárhagsáhyggjur gera þeim erfitt fyrir og á þeim ber Axel ábyrgð. Hann er bjartsýnismaður sem þó virðist ekki skilja fyllilega þau veruleikatengdu atriði sem greiða þarf úr svo að hægt sé að hrinda draumum í framkvæmd. Það sem hér vekur þó mesta athygli er söguvettvangurinn, bókaforlagið, og þær skírskotanir sem fylgja honum. Það er líkt og verkið vilji vekja athygli á uppruna sínum og áþreifanlegri hlið skáldskaparins. Til að hnykkja enn frekar á þunga sviðsetningarinnar er aðalvertíð allra forlaga, jólin, um það bil að skella á. Hinar miklu annir sem fylgja þessum uppgripsmánuði reynast ein af mörgum flækjum sem herja á líf Sunnu í sögunni. Tímarammi bókarinnar er þessu samkvæmt býsna þéttur og skilmerkilega framsettur. Enda þótt súkkilaðijóladagatalsins sem svo skemmtilega yljar lesanda á fyrstu síðum bókarinnar njóti ekki við þegar fram í sækir er auðvelt að fylgjast með framrás tímans því kaflar bera heiti mánaðardaga og tímatalning af ýmsu tagi reynist miðlægur þáttur. Því mætti jafnvel halda fram að hugmyndin um tíma, og þá ekki síst liðnar stundir og minningar, sé hér í lykilhlutverki, eins og lesandi sér reyndar holdgerast í manninum með klukkuna, ógæfumanni sem ráfar stundum inn á forlagið með tifandi klukku í tösku og Sunna annast af mikilli þolinmæði.

Bókaforlagið þjónar margþættu hlutverki í formgerð og þematísku samhengi verksins. Með sviðsetningunni virðist söguhöfundur að hluta til vera á höttunum eftir ákveðinni greiningu á rökvísi íslenska bókamarkaðarins og með því að fleyta söguþræðinum áfram (að hluta til) á bókmenntalegu verkbóli er sjónum beint að bókmenntum sem vöru og framleiðslu, sem iðnaði. Viðskiptavætt umhverfi nútímalegrar bókaútgáfu, og vandræðagangur Sunnu við að athafna sig innan marka þess, verður tækifæri til að koma á framfæri gagnrýninni sýn á ýmsa anga menningarframleiðslunnar og því sem á eilítið hástemmdan hátt mætti kalla niðurlægingu listarinnar í markaðssamfélagi nútímans. Rétt er þó að taka fram að þetta er gert án þess að verkið verði nokkru sinni skrækróma; raunar er fínleg og húmorísk aðferð höfundar við að vefa þennan andpopúlíska þráð inn í framvinduna eitt af því sem stendur upp úr í bókinni. Þannig lýsa nokkrir fyndnustu en að sama skapi vandræðalegustu kaflarnir því vanþakkláta verkefni að reyna að fá bækur forlagsins teknar í umboðssölu í matvörustórverslunum, en Sunna er fengin í slíkar afleysingar í upphafi sögunnar. Samkeppnin milli forlaga um að koma bókum sínum að er hörð því veltan á þessum vettvangi er mikil. „Bókabúðir“ þessar reynast hins vegar ekki mjög víðsýnar í smekk sínum, enda kannski ekki við öðru að búast af verslunarvitund sem lokuð er inni í örfáum fermetrum og er umkringd af dósamat, uppþvottaefni og pulsum. Það er hins vegar í þessu umhverfi, mitt í tilboðasúpunni og fjöldaframleiddri afurðagnægtinni sem helsta „lífæð“ íslenskrar bókmenningar slær, og í þeirri staðreynd felst ein af mörgum harmsögum bókarinnar. Sölustjóri lágvöruverðsverslunarinnar vill þannig aðeins vinsæla glæpasagnahöfunda og fúlsar við öllu öðru, sama hvað Sunna reynir að „prútta um prósentur“ til að koma „hámenningunni“ inn meðfram reyfurunum. Það er reyndar ekki sama hvaða reyfara er um að ræða, matvöruverslunin vill fá bækur eftir vinsælasta höfund landsins, sakamálaséníið Valgarð Jónsson, máttarstólpa forlagsins og æskuvin Sunnu. Vonlausar tilraunir hennar til að fá sölustjórann til að breikka úrvalið uppskera að lokum eftirfarandi umsögn: „Vina mín, ég skal gera mitt besta, ég skal selja eins mikið af Valgarði og lýður leyfir. Ég lofa því svo að bræðurnir fari ekki á hausinn og þú missir vinnuna og allt þetta aumingjans fólk neyðist til að hætta að skrifa og þýða og teikna og búa til bækur. Allt sem gefur því yndi í lífinu. Mér er virkilega alvara. Ég vil ykkur vel“ (36). Í þessum orðum má tvímælalaust greina kaldhæðið viðhorf verksins til þess söluvettvangs sem það veit að það mun sjálft enda á í jólavertíðinni.

Hér er skýrlega að ýmsu að huga. Dregin er upp mynd af sakamálasögunni sem drifkrafti íslenskrar bókaverslunar; ekki er nóg með að lesendur virðist hafa lítinn áhuga á öðrum bókmenntagreinum (að sögn sölustjórans) heldur niðurgreiðir íslenska sakamálasagan bókstaflega „æðri“ listsköpun. Og það gerir hún, líkt og „vinsamlegt“ viðmót sölustjórans („Ég vil ykkur vel“) gefur til kynna, af óútskýranlegri en alltumlykjandi gæsku og fórnfýsi. Allt þetta aumingjans fólk sem vinnur við að skrifa bækur sem ekki seljast, og teiknar þess á milli sem það dútlar við þýðingar, það starfar allt í skjóli hinnar sönnu  auðskapandi kapítalísku vélar, sakamálasögunnar, sem er hið eiginlega þorskígildi íslenskra bókmennta. Ekki er beinlínis efast um þessa rökvísi – víst seljast sakamálasögur Arnaldar og Valgarðs í bílförmum, og ekkert segir að skáldverk slíkra höfunda séu sjálfkrafa lítilsverð, eða að vænar sölutölur séu til vamms – en gefið er til kynna að ýmislegt sé athugavert við kerfi sem byggist á grunni blindrar sölumennsku og afþreyingargilda. Lengra mætti að sjálfsögðu halda með þessar vangaveltur. Sakamálasögur berast ekki til lesenda af sjálfu sér. Máli skiptir hvaða forlag gefur þær út og stendur þeim að baki. Forlag sem áskapað hefur sér virðingu með útgáfu fagurbókmennta er t.d. sérstaklega vel í stakk búið til að kynna reyfarahöfund fyrir almenningi og fjölmiðlum, svo mark sé á tekið. Miðillinn er merkingin, sagði ágætur spámaður eitt sinn, og það á hvergi jafn vel við og í markaðsstarfssemi. Sunna reynist hins vegar arfavondur „miðill“ fyrir sakamálasöguna eins og skáldsagan í heild sinni sýnir á víðtækan hátt, og endurspeglast á skemmtilegan hátt í þrákelkni hennar að vilja selja eitthvað annað en Valgarð til matvörubúðanna.

3.

Með Valgarði Jónssyni innlimar söguhöfundur á vissan hátt íslensku sakamálasöguna. Miðlægur þáttur í útgáfuherferð nýjustu bókar þessa vinsæla höfundar er námskeið um sakamálaskrif sem haldið er í boði forlagsins, en námskeiðinu er einnig ætlað að heiðra tíu ára höfundarafmæli skáldsins. [7] Að sjálfsögðu fellur það í skaut Sunnu að sjá um framkvæmd námskeiðsins, og þannig er í enn eitt skiptið seilst inn í einkalíf hennar og frítíma sem þó er fullskipaður. En af námskeiðinu og forlagssviðsetningunni má vera ljóst að verkinu er áskapað allnokkurt svigrúm til sjálfsögulegra hugleiðinga, og sýn þess á ýmsa þætti bókmenningar samtímans (ekki aðeins Íslands) er bæði hæðin og gagnrýnin. Skondið dæmi um það er sérkennileg „hámenningarleg“ barnabók sem forlagið hefur nýverið gefið út í þýðingu þar sem vítiskvölum Strindbergs er miðlað í gegnum Bangsímon og umbreytt í lífslexíur fyrir börn nýaldar. [8] Þetta bókarskrípi neyðist Sunna sem sagt til að kynna í verslunarmiðstöð klædd í illa saumaðan heimatilbúinn bangsabúning, sem vart er fallið til að styrkja faglega sjálfsmynd hennar. Á þessu andartaki, eða kannski því þegar Sunna kastar upp í búningnum, nær altækt vald markaðsmennskunnar hámarki (lágmarki) í verkinu – það að versla með bækur er togað sundur og saman í háði. Þessi „þráður“ gagnrýni og jafnvel svartsýni verður þó ekki eintóna eins og sést á lagerstarfsmanninum Kjartani sem spáð hefur heimsendi allt frá því að Þórbergur fór á útsölu – en enda þótt veröldin sé vond dregur söluafsláttur á verkum Þórbergs vart slíkan dilk á eftir sér. Þannig mæta málsvarar menningarinnar einnig kaldhæðnu viðhorfi söguhöfundar þótt auðséð sé að verkið stendur með Sunnu í sölutilraunum hennar, og afhelgun bókaforlagsins er viðhaldið sem rauðum þræði í gegnum söguna alla.

Vinsæl afþreyingarform mynda þó mikilvægasta vettvang menningarumfjöllunar í verkinu og segja má að gengið sé skrefi lengra en sem nemur nám-  skeiðinu við innlimun sakamálasögunnar því Vetrarsól bregður á leik með sjálfa formgerð og efnistök tegundarinnar; hún sviðsetur sjálfa sig sem sakamálasögu. Orðalagið er valið af kostgæfni því af ýmsum ástæðum er mjög til efs að hér sé á ferðinni verk sem setja skuli í flokk með Valgörðum íslenskra bókmennta. Að minnsta kosti verður að skjóta inn ýmsum fyrirvörum áður en það er gert. Vetrarsól er sakamálasaga sem fjallar um sakamálasöguna sem bókmenntategund og gerir sköpun og markaðssetningu slíkra verka að viðfangsefni. Fjallað er um stöðu sakamálasögunnar í íslenska bókmenntakerfinu við upphaf tuttugu og fyrstu aldarinnar. Vetrarsól er með öðrum orðum sjálfsöguleg og meðvituð um tegundarlega stöðu sína. Hún notar skjól sakamálasögunnar á allt að því glæpsamlegan hátt til að grafa undan hefðum formsins. Þetta skiptir að sjálfsögðu umtalsverðu máli því að staða lesanda mótast mjög af því hvernig bókin yrðir á hann, hvernig hún býr til samskiptaferli sem ákvarðar meðal annars fjarlægð lesanda frá efniviðnum. En með sjálfsögulegum aðferðum skilur verkið sig jafnt frá helstu erindrekum tegundarinnar og hefðbundinni framvindu sakamálasögunnar, en þessi „aðskilnaður“ er ítrekaður í gegnum sjálfa meðferð þess sakamáls sem í venjubundnum skilningi ætti að knýja frásögnina áfram, en er í raun og veru fjarverandi – en um þann þátt verður fjallað nánar hér að neðan. Ljóst er að tengsl Auðar Jónsdóttur við hið póstmóderníska ástand hafa tekið stakkaskiptum í nýrri skáldsögu og að til viðbótar við umfjöllun um hinn síðkapitalíska veruleika notfærir hún sér nú póstmódernísk skáldskaparbrögð. Þannig má segja að Auður endurnýi eigið höfundarverk á eftirtektarverðan hátt.

Fyrst er rétt að huga nánar að námskeiðinu góða. Í upphafstíma þess, skammdegiskvöldstund eina í desemberbyrjun, varpar góðlátlegur og kasóléttur leiðbeinandinn, Oddný, fram þekkingarfræðilegri spurningu er lýtur að skilgreiningu glæpasagna. Hvernig vitum við hvenær við höfum slíkt verk undir höndum? spyr hún. Helgi, sem Sunna hafði í fjarveru Axels neyðst til að taka með sér á námskeiðið, er snöggur til svars og segir að í glæpasögum sé framinn glæpur. Rökhugsunin er býsna skörp en kennarinn spyr á móti: eru allar sögur sem fjalla um glæp glæpasögur? Hér þagnar Helgi og kennarinn svarar neitandi. Svo er ekki, segir hún, og vitnar í fræðirit um sakamálasagnahefðina íslensku eftir „K.J.“ sem heitir Glæpurinn sem ekki fannst þar sem því er haldið fram að augljós munur sé á verkum eins og Morðinu í Austurlandahraðlestinni eftir Agöthu Christie og Glæp og refsingu eftir Dostojevskí. Skilgreining þessi á glæpasögunni er vitanlega ófullnægjandi þar sem nauðsynlegt er að styðjast við formgerðareinkenni og þematísk mótíf en ekki huglægar tiktúrur og fyrirframgefna gæðastaðla hefðarinnar. Rökhugsun lýsingarinnar, sem birtist sem tilvitnun, er hins vegar merkingarþrungin og dæmigerð fyrir þá sjálfsvitund sem hnarreist gerir vart við sig í verkinu. Athygli lesanda er vakin á mikilvægu skilgreiningaratriði – því að hægt sé að nýta sér „einkenni“ glæpasögunnar án þess þó að tilheyra hefðbundinni birtingarmynd slíkra sagna. Frá sjónarhóli söguhöfundar má jafnvel ímynda sér að stigskiptinguna sem þarna er lýst beri að hafa í huga þegar sjálft verkið sem miðlar þessari  hugsun er metið. Þá skiptir ekki síður máli að Glæpurinn sem ekki fannst er raunverulegt rit, höfundur þess er Katrín Jakobsdóttir líkt og upphafsstafirnir hér að ofan gefa til kynna, og í kaflanum sem tilvitnunin er tekin úr leitast Katrín einmitt við að sýna fram á og einangra þá formgerðarþætti sem liggja sakamálasögunni til grundvallar. [9]

Þarna gerir merkileg aðferð við að innlima fræðilega umfjöllun um glæpasöguna vart við sig, bæði með því að vitna beint í eina fræðiritið sem út hefur komið á íslensku um tegundina og með sviðsetningu námskeiðsins sjálfs. Í umfjöllun sinni um glæpasögutegundina leggur kennarinn sérstaka áherslu á að í sakamálabókum sé gjarnan dregin upp mynd af því sem hún nefnir „jaðarsamfélög“ – óvenjulegum þjóðfélagskimum sem jafnan eru góðborgaranum ókunnir, eða aðeins kunnir af (brenglaðri) afspurn. [10] Þetta má til sanns vegar færa, og aðdráttarafl hinnar hefðbundnu sakamálasögu skýrist e.t.v. að hluta til af því. Glæpasagan fjallar um atburði sem eiga sér stað handan við meginstraum hins daglega lífs og skartar gjarnan persónum sem tilheyra menningarkimum sem birta þjóðfélagslegar þverstæður, öfgar eða duldar hneigðir af einhverju tagi. Þannig má segja að sakamálasagan kortleggi veruleikann á annan hátt en hin hefðbundna raunsæisskáldsaga gerir – sýn krimmans er á yfirborðinu myrkari, hún tengist göllunum á samfélagsformgerð nútímans nánum böndum, firringu borgarinnar og óhugnaði undirvitundarinnar. Áhersla er lögð á það sem jafnan er hulið sjónum og birtu er brugðið á það sem aflaga fer. Þetta þýðir að veruleikinn verður í vissum skilningi annarlegur samhliða því að raunæistilfinning er nauðsynleg fyrir áhrif sögunnar. Þannig fetar sakamálasagan einstigi milli kóða raunsæissögunnar og gotnesku hryllingssögunnar, þess að gegnumlýsa umhverfið og birta innsýn í martraðarkenndir og ótta. Á þessu er þó önnur hlið sem vikið verður að síðar, en það er hér sem spurningar vakna um hlutverk og stöðu íslensku glæpasögunnar því býsna löng bið reyndist eftir því að bókmenntategundin birtist á Íslandi sem samfelld virkni. Eða eins og kennarinn á námskeiðinu orðar það, íslenska sakamálasagan „skaut rótum snemma á síðustu öld en tók fyrst á sig skýra mynd í lok hennar“ (64). Hver er ástæðan fyrir því að nútímavæðingu Íslands fylgdi ekki tilkoma sakamálasögunnar, líkt og raunin var annars staðar í Evrópu?

Algeng skýring á því er að margir þeir samfélagslegu þættir sem grundvalla rökvísi sakamálasögunnar hafi löngum verið fjarverandi hér á landi. Samfélagsþróunin hafi einfaldlega verið með þeim hætti að alvarleg glæpamál hafi verið sjaldgæf og smæð samfélagsins þar að auki takmarkað mögulegt umfang og trúverðugleika þess hulduleiks sem jafnan fer fram á síðum glæpasagna. Þannig útskýrir samfélagslegt tímamisræmi milli Íslands og umheimsins fagurfræðilegt mislag í bókmenntagreinum. Oddný tekur á sinn hátt undir þessa skýringu en útfærir hana á nákvæmari hátt: „við skulum hafa í huga að í kringum aldamótin byrjaði heimsmynd okkar að breytast svo að nú geta íslenskir lesendur samsamað sig alvöru glæpum. Netnotkun, vaxandi fjölmenningarsamfélög og ódýrir flugmiðar innan Schengen-svæðisins ljá glæpum meiri  trúverðugleika. Í umróti nýs árþúsunds finnum við jafnvel til öryggis við að treysta á aðferðir gamaldags lögreglumanna“ (64). Af þessu má lesanda skiljast að Ísland fyrri tíma hafi hreinlega verið of frumstætt fyrir glæpasöguna til að skjóta rótum. Á umliðnum árum hafi Ísland hins vegar færst svo mjög í átt til meginlands Evrópu og nútímans að böl þessara tveggja heima hafi loks gert landnám. Þessi nýju rök íslenska lífheimsins hafa í framhaldinu skilyrt lesendur og endurskapað, og umbreytt bókmenntaskilningi þeirra. Hvað svo sem manni finnst um þessa kenningu kennarans þá er rétt að gaumgæfa áhersluna sem þarna er lögð á hlut fjölmenningarsamfélagsins og hnattvæðingarinnar í túlkun og skilningi, og tilverurétti, íslensku sakamálasögunnar.

4.

Hvernig ber að skýra það að í landslaginu sem nú blasir við í íslenskum bókmenntum séu það fyrst og fremst glæpasögur sem gert hafa fjölmenningarsamfélagið sem minnst var á hér að ofan í samhengi við aðra skáldsögu Auðar, Annað líf, að umfjöllunarefni? Það virðist að minnsta kosti óumdeilanlegt að það hefur fallið í skaut sakamálasögunnar umfram aðrar bókmenntategundir að taka til umfjöllunar ýmsa mikilvæga þætti breyttrar heimsmyndar, s.s. innflæði erlends vinnuafls á uppgangs- og virkjunartímum (Blóðberg eftir Ævar Örn Jósepsson, 2005), aðlögunarferli menntaðs nýbúa í lífi og starfi (Afturelding eftir Viktor Arnar Ingólfsson, 2005), fordóma í garð fjölmenningarsamfélagsins (Vetrarborgin eftir Arnald Indriðason, 2005), örlög erlendra verkamanna sem lenda í slagtogi við erlendar mafíur (Land tækifæranna eftir Ævar Örn, 2008), og samspil íslenskra glæpamanna og glæpamanna frá Eystrasaltslöndum (Ódáðahraun eftir Stefán Mána, 2008). Þetta kann að tengjast „innbyggðri“ hneigð formsins til að gaumgæfa lítt séða anga samfélagsins, líkt og minnst er á hér að ofan; þá kann þetta einnig að skýrast af einhverju sem kenna mætti við „siðferðilega sýn“ tegundarinnar þar sem greina má á milli verka sem öðrum þræði stinga á samfélagslegum graftarkýlum (Simenon, harðsoðna hefðin) og svo þeirra sem fjalla um það hvernig jafnvægi og reglu er á nýjan leik komið á í kjölfar þess að hinni hefðbundnu samfélagsskipan er ógnað (Christie og breski skólinn). Í þessu sambandi mætti einnig nefna áhersluna á réttlætissjónarmið og lagalegan grunn samfélagssáttmálans, en útfærsla þessara tveggja þátta er undirliggjandi viðfangsefni greinarinnar.

Misjafnt er að sjálfsögðu með hvaða hætti ólíkir höfundar takast á við viðfangsefni sín, og þannig er erfitt að alhæfa nokkuð um það með hvaða hætti ofangreindir höfundar gera fjölmenningarsamfélaginu skil þótt sameiginleg sé gagnrýni á bág kjör minnihlutahópa og innflytjenda, misréttið sem þeir sæta og fordóma samfélagsins. Hins vegar er einnig rétt að benda á annan þátt sem þessar bækur eiga flestar sameiginlegan, og mætti jafnvel tengja við ákveðna hneigð innan greinarinnar, en það er hversu algengt er að bókunum ljúki með sköpun þess sem í öðru samhengi hefur verið kennt við „sýndar-jafnvægi“. [11] Vissulega fjallar sakamálasagan í sinni nútímalegu birtingarmynd gjarnan um  félagslega kvilla af ýmsu tagi, hjá því verður vart komist, og um slík málefni er oftar en ekki fjallað að hætti hefðbundinna raunsæisverka. En slíkt á við aðeins upp að ákveðnu marki. Úrlausn fléttunnar hörfar nær undantekningarlaust frá samfélagsgreiningunni að hinu einstaklingsbundna og tilviljunarkennda, frá því sem kalla mætti sundurgreinandi sýn, eða röklegri bölsýni því heimurinn hættir ekkert að farast þótt eitt morðmál sé leyst, og setur fram „draumkennt samræmi“ og endurheimt samfélagslegt „jafnvægi“ sem umhverfi söguloka – allt fellur í ljúfa löð og hulunni hefur verið svipt af misindismönnunum. [12] Í fyrstu er samfélagsgerðin í uppnámi því glæpur hefur verið framinn en frá sjónarhorni sýndarlausnarinnar felur uppljóstrun sakamálsins aðeins í sér innantóma og falska friðþægingu gagnvart kerfislægum vanda. Félagsleg vandamál, t.d. fordómar gegn útlendingum, reynast þjóna því hlutverki að skapa litríkt umhverfi fyrir æsandi spennusögu og samfélagsgreiningin líkt og leysist upp samhliða því að hetjan nær markmiði sínu.13 Með því að staðfesta röggsemi lögregluyfirvalda og hæfileika þeirra (nú eða blaðamanna eða einkaspæjara) við að viðhalda lögum og reglu, þegar sýnt hefur verið að glæpir borga sig ekki, þegar draumsýnin um örugga tilvist og traust félagslegt gangvirki hefur verið staðfest, ja, þar birtist í leiftursýn formúlan fyrir afturhaldssömu bókmenntaformi. Í endalausri endurtekningu er hugmyndafræðin um ágæti stofnana samfélagsins – þegar öllu er á botninn hvolft – fest í sessi og bókmenntagreinin skapar samtímis efa um getu sína til að fjalla á raunsæislegan hátt um „jaðarsamfélög“ sem og þær skuggahliðar sem hér að ofan voru nefndar sem mikilvæg einkenni greinarinnar. Glæpasagan er í þessum skilningi klappstýra hins yfirborðskennda og því er það ekkert fagnaðarefni að á Íslandi hafi henni einhverra hluta vegna verið „úthlutað“ þessu mikilvæga viðfangsefni, fjölmenningarsamfélaginu – ef sú er raunin. Eitt af því sem gerir Vetrarsól að skemmtilegri og jafnvel nokkuð djarfri sakamálasögu er að frásagnaraðferðinni sem leiðir að „sýndar-jafnvægi“ er hafnað. Ólíkt hinni hefðbundnu sakamálasögu sem að lokum staðfestir stöðugleika hinnar fyrirframgefnu og réttlátu samfélagssýnar, þá beinir Vetrarsól sjónum lesanda að fremur óhugnanlegri heimsmynd, veröld þar sem samfélagssáttmálinn er ótryggur og óskýr, þar sem réttlætissjónarmið ná ekki fram að ganga, veröld þar sem skýr siðferðileg „sýn“ getur reynst hættulegri en glæpsamlegt eðli. Lokaorð bókarinnar eru skemmtilegt dæmi um þá fjölmörgu viðsnúninga sem felast í verkinu, en lesandi sem ekki hefur lesið skáldsögu Auðar þarf ekki að hlaupa yfir það sem hér kemur á eftir, málsgreinarnar eru þess eðlis að þær spilla ekkert fyrir sjálfri „úrlausninni“ (sama á þó ekki við um 6. kafla hér að neðan):

Ég heyri snarkið í pönnunni, bráðum fær mamma fregnir um barnabarnið. Og Axel. Trúlega heyrir hann líka sögu frá Barcelona, hérna sem við búum án þess að eiga neitt nema minningar, allra síst eldhúsinnréttinguna sem hann smíðaði úr timbri út á reikning hjá Húsasmiðjunni. Við getum skipst á sögum, reynt að greina það glæpsamlega í lífinu og byrjað á vistkerfinu, við getum spjallað um alla þessa sekt, saklausa sektina. Gjaldþrota manneskjur hafa engu að tapa.
Þær geta horft á lygarnar flögra allt um kring, suðandi moskítóflugur í næturhúmi, augað greinir eina af þúsund eins og njósnara sem afhjúpar sig svo hinir megi þrífast. Suðið ærir hlustirnar. Taugarnar þenjast við að fálma út í rökkrið. Grunurinn ágerist að ein hafi náð að stinga. Að glæpur hafi verið framinn.
Mögulega glæpir.
Hvers er að benda? (255)

Minningarnar sem vitnað er til eru burðarstólpi sögunnar, en sú allsherjarupplausn sem þarna gerir vart við sig um skilgreiningu og eðli hins glæpsamlega getur talist lýsandi fyrir bókina. Sama á við um þann áberandi stað sem áhyggjum af peningum og hinu hversdagslega striti er fenginn í þessum lokaorðum. „Glæpurinn“ – hver svo sem hann er – er skýrlega ekki slitinn úr samhengi við hið daglega líf, eins og snarkið í pönnunni sýnir, og að sama skapi er spurt hver eigi skilgreiningarréttinn á góðu og illu en hann liggur vitanlega glæpafléttum til grundvallar. Allt er þetta birtingarmynd þess hvernig róttækur sjálfsögulegur viðsnúningur einkennir nálgun Auðar að sakamálasagnaforminu.

5.

Í upphafskafla bókarinnar rekur Sunna augun í tilkynningu í blaðinu þar sem auglýst er eftir ungri konu sem horfið hefur sporlaust. Hér er um að ræða gamla vinkonu Sunnu, Arndísi, en þær höfðu kynnst á námsárum sínum í Barcelona áratug fyrr, en borgin, líkt og tilvitnunin hér að ofan gefur til kynna, skiptir umtalsverðu máli í framvindu sögunnar. Vinskapurinn var náinn því þær leigðu saman íbúð. Ólíkari gátu tvær vinkonur þó ekki verið. Arndís var sjálfsörugg og heillandi, sjarmeraði heiminn og vafði um fingur sér, en Sunna var eins og sól á bakvið ský, dauf og hálfósýnileg í samanburði (eins konar vetrarsól, jafnvel, af henni stafar ekki mikill „hiti“). Arndís var lífsreynd, hún hafði þegar kortlagt veröld sína, Sunna var saklaus og samskipti hennar við umhverfið fálmkennd. Það þarf því ekki að koma á óvart að vináttan sem þarna varð til reyndist ekki grundvallast á jafnrétti eða gagnkvæmri virðingu, heldur var sem Sunna yrði eins konar lærisveinn Arndísar, viðfang menningarlegs uppeldis, litlausa viðhengið sem dró fram fjölbreytni og litadýrð foringjans. Reyndar mætti túlka sambandið á jákvæðari máta – Arndís er gædd gríðarlegum lífskrafti og enginn vafi leikur á því að „sýn“ hennar á umhverfið er langtum frjórri en heimsmynd Sunnu – en aðferð söguhöfundar miðar við að draga hægt og rólega fram ákveðin vafasöm einkenni svo niðurstaða um eðli sambandsins verður aðeins til í þrepum í framvindu sögunnar. Framan af er samverustundum Sunnu og Arndísar í Barcelona lýst í nostalgískum ljóma, en slík endurlit brjóta upp nútíð sögunnar á sama tíma og þau endurspegla huglæga þætti í fari Sunnu; mitt í þrengingum núsins leitar hugur hennar aftur í tímann, en því samhliða er fortíðin rannsökuð og endurskoðuð. Fréttin af hvarfi Arndísar leggst skiljanlega illa í Sunnu, hún verður áhyggjufull. Það er þó e.t.v.  einkennilegt hversu mikið henni er í mun að halda atburðinum frá sínum nánustu, hún vill glíma ein við þessar sérkennilegu kringumstæður, og upprisu fortíðarinnar. „Ég þekkti atferli hennar, ég vissi hvers hún ætlaðist til af öðrum. Ég þekkti fortíð hennar“ (79), hugsar hún á einum stað og gefur þannig til kynna þau nánu tengsl sem eitt sinn ríktu milli hennar og Arndísar. Tengsl sem enn hafa ekki slitnað að því er virðist.

Hér er haganlega haldið utan um formið af hálfu höfundar. Ef hugað er að krimmalögmálum er upphaf sem þetta velþekkt og vinsælt, vísi að óhæfuverki er varpað í kjöltu lesanda áður en hann hefur tækifæri til að staðsetja sig í söguheiminum. Mannshvarf hentar vel til að knýja áfram vél reyfarans, og höfundur spinnur eftirköst fréttarinnar á fimlegan hátt í fyrstu köflum bókarinnar; hvarfið loðir við frásögnina og vitund Sunnu, og ertir sömuleiðis skynsvið lesandans. Senn gerir sérkennileg biðstaða þó vart við sig. Í stað hinnar hröðu söguþróunar sem hálft í hvoru er krafist af hefðinni taka vandamál við markaðssetningu sakamálasagna og fagurbókmennta að ná yfirhöndinni, ásamt námskeiðinu sem haldið er í tilefni höfundarafmælisins um réttar leiðir til að skrifa sakamálasögu. Þetta kann að koma á óvart því auðvelt er að ímynda sér að fyrsta lexían á slíku námskeiði væri einmitt sú að ekki sé ráðlegt sviðsetja fyrirferðarmikið sakamálsögunámskeið á viðkvæmum stað í upphafi fléttu sem leitast við að vekja áhuga lesanda á úrlausn flókins sakamáls. Á hinn bóginn er þetta vitanlega stórskondin aðferð til að leiða áfram þann sjálfsögulega þráð sem fyrst er vakinn til lífsins með sviðsetningu sögunnar sem innanbúðar(saka)máls á bókaforlagi.

Ljóst er að Auður fer á svig við „eðlilegar“ frásagnarreglur sakamálasögunnar. Veðurtepptur eiginmaður og sonur hans reynast mun fyrirferðarmeiri í vitund Sunnu en mögulegar skýringar á hvarfi æskuvinkonunnar. Biðstaðan hverfist í kringum einkalíf sem er hversdagslegt og raunverulegt, og birtist í sífelldri frestun þess að takast á við „sakamálið“ sem í upphafi er vísað til með hvarfi Arndísar. Sú sífellda frestun sem gerir vart við sig kjarnast í því að enginn í bókinni tekur sig til og fer að rannsaka hvarfið, að hluta til vegna þess að veruleikinn reynist svo miklu flóknari og meira aðkallandi en það sem liggur utan hans, þ.e. ævintýrið og sakamálafléttan. Í ljós kemur að „þrjóska“ Sunnu og andóf hennar gegn því að haga sér eins og almennilegri aðalpersónu sæmir og rannsaka hvarf æskuvinkonu sinnar (en henni reynist jafnvel ofviða að taka upp símann og hringja eitt símtal) er eins konar gabb af hálfu söguhöfundar – rannsóknin fer ekki fram nema að hluta til í samtímanum, verkefni Sunnu er að kafa ofan í fortíðina og grafast fyrir um löngu liðna atburði, hún þarf að endurtúlka og endurvekja tímabil ævi sinnar sem hún hélt að væri grafið og gleymt. Þar fyrir utan sýnist Sunnu það vera hálfgert glapræði að blanda sér í rannsókn á mannshvarfi, sem má vissulega til sanns vegar færa. Í tilviki Vetrarsólar virðist því um að ræða geirabók sem öðrum þræði er ekkert alltof hrifin af sjálfri tegundinni sem hún tilheyrir, en slík togstreita vekur að sjálfsögðu upp margþættar spurningar um hvernig höfundur notar formið og í hvaða tilgangi. Í raun virðist söguhöfundur taka á yfirfærðan hátt þátt í nám-  skeiðinu sem Sunna skipuleggur, námskeiðinu þar sem kennt er hvernig eigi að skrifa sakamálasögu. Þetta mætti líka orða sem svo að undir lokin útskrifast lesandi af námskeiðinu sem bókin sjálf sviðsetur. Þessi metafóríska mynd af sjálfsögulegri þátttöku skáldsögunnar í eigin tilbúningi getur jafnvel skýrt suma þá galla sem finna má á verkinu og lúta að byggingarþáttunum sakamálafléttunnar. Bókin bókstaflega gerir viðvaningsskap við sakamálaskrif að viðfangsefni, og því e.t.v. ekki að undra að hún beri sjálf nokkur merki viðvaningsskapar þegar kemur að sakamálafléttunni, þegar hún loks kemst á flug, og úrlausn hennar. Á einum stað er meira að segja birt barnslegt framlag Helga til sakamálanámskeiðsins; skilaboðin eru e.t.v. þau að það sé í lagi að vera „naíf“ á þessu sviði ef hjartað er á réttum stað.

6.

Skáldsagan sem Auður sendi frá sér á undan Vetrarsól, Tryggðarpantur (2006), fjallaði um ósamstæðan hóp af konum sem lífið hafði varpað saman af tilviljun. Vetrarsól endurtekur að nokkru leyti þessa grundvallarformgerðarhugsun. Í fortíðarköflum bókarinnar kynnumst við þremur konum sem eiga fátt sameiginlegt annað en að örlagaþræðir þeirra hafa tvinnast saman í borg sem þeim er öllum ókunnug. Í Tryggðarpanti segir frá Gísellu, miðaldra konu sem lifir hinu ljúfa lífi í ónefndri evrópskri stórborg (spænsk borg kemur sterklega til greina, því ekki Barcelona?), en vaknar upp við þann vonda draum að arfurinn sem hafði fleytt henni áfram í gegnum lífið er uppurinn. Lausnin á fjárhagsvandræðunum er að safna saman hópi af meðleigjendum, konum sem eiga við vandamál að glíma og vantar húsnæði (líkt og Napassorn í Öðru lífi) en raunir þeirra ætlar hún sér að nota sem efnivið í grein fyrir byltingarsinnað tímarit á vinstri vængnum (ein af mörgum aðferðum söguhöfundar til að hæðast, oft mjög kaldranalega, að vitundarmiðju verksins). Í kjölfarið færist lesandi að kjarna bókarinnar, þeirri merkingarhlöðnu formgerð sem höfundur hefur lagt býsna mikið á sig til að koma í kring – hinu fjölmenningarlega samfélagi þar sem Gísella, fulltrúi lyotardískra forréttinda og vestrænnar sjálfumgleði, stjórnar framvindunni og reynir að móta „leigjendurna“ eftir sínu höfði. Hugmyndin er góð þótt umgjörðin sé gölluð að því leytinu til að viðhorf söguhöfundar til vitundarmiðjunnar, Gísellu, er svo fullt andúðar og meinfýsinnar fyrirlitningar að á köflum er sem sjónarhornið kæfi framvinduna, boðskapurinn er predikaður af of miklum þunga. Það er vandasamt að segja sögu frá sjónarhorni sem höfundur er hugmyndafræðilega, siðferðilega og/eða pólitískt ósammála, slíkt krefst nákvæmni og mikillar jafnvægislistar, og Auði tekst ekki fyllilega að leysa verkið af hendi. Í Vetrarsól er ekki um jafn flókið frásagnarlegt verkefni að ræða, stuðst er við hefðbundna fyrstu persónu frásögn spennubókmennta, sögunni vindur fram í röð knappra undirkafla sem óhætt er að segja að henti verkinu og höfundarrödd Auðar vel. Samband Vetrarsólar við Tryggðarpant skýrist enn frekar þegar líður á fyrrnefndu bókina, en upp úr miðju taka endurminningarnar um Barcelona sífellt að verða fyrirferðarmeiri. Færist þar smám saman í forgrunn vinátta Arndísar við flóttakonu frá Marokkó að nafni Fatíma. Líkt og Gísella gerir gagnvart leigjendum sínum í fyrri bókinni nálgast Arndís þessa nýju vinkonu sína með háleitar hugsjónir að markmiði en útfærsla þeirra reynist hér líkt og þar erfið í framkvæmd.

Arndís er vandfýsinn neytandi, alveg eins og merkjavörusérfræðingurinn Gísella, sem hefur lag á að laða fram það besta úr borgarsamfélaginu. Þannig er ferðalögum þeirra Sunnu um borgina lýst sem endalausri röð ævintýra. Arndís er menningarlegur flakkari Lyotards, hún lagar sig að umhverfinu auðveldlega og reynist hagleiksmanneskja þegar að því kemur að tileinka sér hið ókunnuga og blanda saman við hið þekkta. Á þessu reynast þó vera undantekningar. „Framandi lífsstíll heillaði þó einungis innan ákveðinna marka. Þegar við ráfuðum um í sólbakaðri sykurangan sem einkenndi borgina á góðviðrisdögum varð stundum á vegi okkar fólk sem hún umbar engan veginn. Ólöglegur innflytjandi frá Afríku að selja fölsuð merkjasólgleraugu gat fengið hana til að agnúast lengi yfir linkind í Spánverjum, portvörðum Evrópu, eins og hún kallaði þá […] Verst þótti henni að sjá konur með slæður yfir höfðinu eða andlitinu; einhverju sinni þegar kona með höfuðslæðu varð á vegi hennar hvíslaði hún að sig langaði til að hrista hana til meðvitundar“ (49–50). Menningarlegt umburðarlyndi Arndísar, líkt og svo margra, takmarkast við ytri landamæri Evrópu, það sem liggur utan mæranna í austri, heimur múslima, er ógnandi og óþekkjanlegur, og kjarnast í kvenkúgun höfuðblæjunnar. Það eru þessi mörk sem atburðir fortíðarinnar hverfast um.

Fatíma aðstoðar frændur sína á ódýrum veitingastað sem Arndís venur komur sínar á og innan skamms er sú fyrrnefnda farin að kenna hinni arabísku. Vinskapurinn þróast áfram og að lokum treystir Fatíma þessari nýju, evrópsku vinkonu sinni fyrir því að nokkru fyrr hafi henni verið nauðgað af ókunnum manni, hún sé nú ólétt og að hún óttist mjög viðbrögð frænda sinna, þeir séu „geggjaðir“ (137), ekki síst vegna þess að hún sagði þeim ekki frá nauðguninni þegar hún átti sér stað. Þeir séu því ólíklegir til að trúa henni og þá geti verið á illu von. Arndísi er veitt aukin innsýn í veröld múslima, en að sama skapi veita kringumstæðurnar henni óvænt tækifæri til að framkvæma í reynd það sem hún í tilvitnuninni hér að ofan segist vilja gera: grípa inn í og bjarga konu undan ofríki íslams. Aðstæður Fatímu eru mjög vandasamar. Hún er ólöglegur innflytjandi og á sér því aðeins takmarkað skjól í heilbrigðiskerfinu, hún er fátæk og ólíklegt er að fjölskyldan sýni henni nokkurn skilning (það sem síðar gerist í sögunni gefur til kynna að Fatímu hafi einmitt stafað hætta af frændum sínum). Hér hafa með öðrum orðum skapast kringumstæður þar sem „inngrip“ virðist réttlætanlegt. En svar Arndísar við vandanum reynist róttækara, og jafnvel fjarstæðukenndara en nokkurn skyldi gruna. Hægt er að segja að farið sé yfir öll mörk trúverðugleika í þeim þætti úrlausnar sögunnar er viðkemur „hjálparstarfsemi“ Arndísar, og engan þarf að undra að hvarf hennar í nútíð sögunnar tengist þessum örlagaríku atburðum úr fortíðinni (en upp um þá er að vísu ekki ljóstrað fyrr en í bláenda sögunnar), en einnig má lesa þennan hluta atburðarásarinnar sem melódramatíska tákn-  mynd fyrir það hvernig hugsjónir spillast, og hvernig óraunsæjar áætlanir draga dilk á eftir sér. Þess má geta að stríðsrekstri vindur fram í bakgrunni sögunnar, væntanlega í Írak og/eða Afganistan, en þannig er skírskotað til annars konar „inngrips“ sem einnig var á sínum tíma reynt að réttlæta út frá mannúðarsjónarmiðum. Takmörk eru að sjálfsögðu fyrir því hversu langt er hægt að ganga með hliðarstæður af þessu tagi, en engin tilviljun er að sögumaður greinir alltaf öðru hverju frá fréttaflutningi af framgangi stríðs „í fjarlægu landi“ (38), minnt er á að heimurinn bókstaflega logar í illdeilum og samgangur milli menningarheimanna er oft og tíðum þyrnum stráður.

Sunna byggir eigin brú milli menningarheima þótt ekki sé jafn „langt“ farið og í tilviki Arndísar. Hún eignast spænskan kærasta, Jordy, en áður hafði fram komið að faðir hennar er spænskur, hún er afrakstur einnar nætur gamans milli hans og móður sinnar sem aldrei hefur til Spánar komið, og Sunna hefur aldrei þekkt föður sinn. Dvöl hennar í Barcelona er því undirbyggð af illskilgreinanlegri löngun til að nálgast „föðurarf“ sinn, en líkt og faðir hennar stakk móður hennar af, yfirgefur hún Jordy án skýringa, og nagar sú ákvörðun hana enn tíu árum síðar. Hér skapast þó annars konar tengsl við Fatímu, og raunar þau mikilvægustu. Líkt og Fatíma verður Sunna ófrísk en ólíkt henni á Sunna sér „auðvelda“ útgönguleið. Hún flýgur til Íslands í fóstureyðingu, jafnar sig í nokkrar vikur og snýr svo aftur til Barcelona eins og ekkert hafi í skorist. Söguþróun þessi er gjörólík þeirri röð hörmunga sem þungun Fatímu reynist hafa í för með sér, og segja má að þarna birtist „raunsæi peninganna“ skýrum dráttum. Á ferðum sínum um Reykjavík í nútíð sögunnar uppgötvar Sunna að hún er aftur orðin ólétt og má þannig segja að ákveðnum hring sé lokað. Þetta þematíska skírskotunarkerfi reynist síðan tengjast sjálfum konungi sakamálasagnanna, Valgarði Jónssyni, á óvæntan hátt. Í ljós kemur að ein af ástæðum þess að Sunna hefur hálft í hvoru forðast hann síðan þau voru saman í skóla er að hún stal frá honum rúmfötum eftir nótt eina sem þau hálfpartinn eyddu saman. Ástæðan var blettur eftir tíðablóð sem Sunna skammaðist sín fyrir. Þegar þau hittast aftur á námskeiðinu þessum áratug síðar spyr Valgarður eftir rúmfötunum, og þeim er í kjölfarið skilað. Auk þess að vera eini „glæpurinn“ sem í raun er leystur í verkinu mynda rúmfötin og tíðablóðið sérstakan vettvang sem að sumu leyti virðist sameina vangaveltur sögunnar um barneignir, fóstureyðingar og blóði drifin örlög Fatímu.

Býsna hryllileg saga sem Jordy segir Sunnu síðasta kvöldið sem þau eru saman í Barcelona gegnir sömuleiðis táknrænu hlutverki í verkinu. Hann leiðir hana að frægu kennileiti í borgarlandslaginu, húsi sem eitt sinn var vettvangur fyrir skelfilega röð glæpa. „Svona hryllingi er best að gleyma“ (174) segir Sunna að sögunni lokinni en Jordy svarar neitandi, „glæpirnir meg[a] aldrei gleymast. Fórnarlömbin skiptir það engu máli hvort þau voru drepin fyrir sekúndubroti eða hundrað árum. Glæpurinn er það sem eftir stendur“ (174). Þarna birtist að mörgu leyti „aðferðafræði“ sakamálasögunnar sem sögð er í Vetrarsól. Eina lausnin sem að lokum er í boði er viðnámið sem felst í því að gleyma ekki. Þegar Sunna spyr nokkru síðar hvort Jordy haldi að svona lagað gerist nokkuð lengur svarar hann hálfhlæjandi: „Auðvitað […] Í hvaða veröld lifirðu? Það verður alltaf til fólk sem sýgur blóðið úr öðrum með bestu lyst. Bara í blaðinu í dag las ég um barnaþrælkun, mansal, líffæraþjófnað, eiturefnamengun og lyfjabrask. Veistu nema sjö ára barn hafi saumað strigaskóna þína?“ (174). Þessi hversdagslegi en samt veraldlegi vísdómur felur að sumu leyti í sér viðhorf skáldsögunnar til glæpasagnaformsins – atburðarásin einskorðast ekki við tiltekið hryllingshús, einstakan glæp eða hvatalíf einstaklingsins, sakamálin eru allt í kring og umhverfis okkur öll, ósýnileg eins og moskítóflugur í næturhúminu. Það er ekki boðið upp á neitt sýndarjafnvægi undir lokin. Síðasta fullyrðing Sunnu í verkinu, „Mín bíða ákvarðanir“ gefur þvert á móti til kynna að veruleiki sakamálasögunnar dugi ekki fyllilega til að ramma eða afmarka vandamálin sem vaknað hafa og hún hefur horfst í augu við í framrás sögunnar.

Vangaveltur um það hvort tiltekin verk tilheyri í raun ákveðnum geirum eða tegundum (sakamálasögum, ástarsögum, hryllingssögum) eða hvort þau notfæri sér formgerðir og staðla þeirra í öðrum (og þá „æðri“) tilgangi eru að sjálfsögðu ekki nýjar af nálinni, og nægir þar að vísa til hugtaksins sem vikið var að í upphafi. Gjarnan er bent á að hinu póstmóderníska ástandi fylgi eins konar díónýsísk víma þar sem skýrar útlínur hverfa og form blandast saman í gleðilegri skemmtan þar sem mannamunur er ekki lengur gerður. Múrar falla, bókmenntir verða nautnalegar þar sem „alvöru“ höfundar taka að skrifa bækur af því tagi sem almenningur hefur alltaf lesið í mestum mæli. Umberto Eco skrifar sakamálasögu, John Updike vísindaskáldsögu, Joyce Carol Oates hryllingssögu.

Hér ber þó að varast fljótfærnislegar ályktanir. Trúverðug rök má færa fyrir því að þrátt fyrir þessa „leiki“ riðlist stigveldið ekki mikið á póstmódernískum tímum, tegundirnar sitja enn fastar í sínum ásköpuðu þrepum í virðingarstiganum. Hinn póstmóderníski leikur fer fram á forsendum hábókmennta og hámenningar, og það að erindrekar þeirra geri sér dagamun í fagurfræðilegu gettói sjönrubókmennta getur vart talist byltingarkennt á þann hátt sem stundum hefur verið haldið fram.14 Þetta sést í flokkunarkerfi hvaða bókabúðar sem er – verkum áðurnefndra höfunda, Ecos, Updikes, Oates, er aldrei raðað í hillur í samræmi við tegundarlegar fyrirmyndir heldur sitja þær stoltar í bragði við hlið systkina sinna í „fagurbókmenntahluta“ bókabúðanna. Á ensku er sambærileg hegðun í hversdagslífinu kölluð „slumming“ og vísar til þess að þrátt fyrir ákveðna tegund af góðborgaralegri ævintýramennsku sé menningarlega og efnahagslega kapítalið áfram á sínum stað. Í tilviki Vetrarsólar er niðurstaðan sú að fjarlægðin frá valgarðískum skyldmennum er skýr því hér er leikið með sakamálahefðina á meðvitaðan hátt, sumt er notað, öðru varpað fyrir róða. En það að tilraunin heppnast jafn vel og raun ber vitni er eftirtektarvert í samhengi við samskipti þeirra bókmenntategunda sem um hefur verið rætt hér. Í raun tilheyrir verkið kannski helst þeim flokki sem bókmenntafræðingurinn Oddný lýsir á námskeiðinu sem „öðruvísi“ (66) glæpasögum, og nefnir þar sem dæmi Móðurlausa Brooklyn eftir Jonathan Lethem, Svörtu bókina eftir Orhan Pamuk, og New York-þríleik Pauls Auster. Það sem Oddný segir um þessar bækur á fullvel við Vetrarsól: „Í skáldsögum þar sem leikið er með glæpasagnaformið leynist oft helsta þrautin í hugarheimi söguhetjunnar, öngstrætin búa í vitundinni. Því sjálfmiðaðri sem glæpurinn er, því ríkara verður fagurfræðilegt gildi sögunnar!“ (66).

 

 

Björn Þór Vilhjálmsson

 

Tilvísanir

  1. Hér er reyndar rétt að taka fram að í enskri útgáfu La Condition postmoderne: rapport sur le savoir, sem nefnist The Postmodern Condition: A Report on Knowledge, er ritgerðin „Answering the Question: What is Postmodernism?“ jafnan látin fylgja sem viðauki en þar eru listfræðilegar vangaveltur höfundar meira áberandi. Í íslenskri þýðingu ritsins, Hið póstmóderníska ástand: skýrsla um þekkinguna (þýð. Guðrún Jóhannsdóttir, Reykjavík: Háskólaútgáfan, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2008) hefur sú ákvörðun hins vegar verið tekin að sleppa þessum viðauka.
  2. Jean-François Lyotard. „Answering the Question: What is Postmodernism?“ The Postmodern Condition: A Report on Knowledge. Þýð. G. Bennington og B. Massumi. Minneapolis: University of Minnesota Press, 1984, bls. 76.
  3. Samuel Huntington. The Clash of Civilizations and the Remaking of World Order. New York: Simon & Schuster, 1998.
  4. Auður Jónsdóttir og Óttar M. Norðfjörð, ritstjórar. Íslam með afslætti. Reykjavík: Nýhil, 2008, bls. 7.
  5. Hugtakið „fjölmenningarsamfélag“ er býsna víðfeðmt og illskilgreinanlegt, ekki síst þar sem hugmyndin um fullkomlega einsleitt samfélag í nútímanum verður að teljast hæpin. Hugsanlega má velta fyrir sér hlutfalli íbúa sem eru af erlendu bergi brotnir, og staðfesta tilvist fjölmenningarsamfélagsins þegar ákveðnu hlutfalli hefur verið náð, en slíkri aðferðafræði hættir til að vera handahófskennd og mun að lokum stranda í skerjagarði kynslóðanna. Þá mætti velta fyrir sér þáttum á borð við komu herliðsins á Miðnesheiði og samskiptaferlinu við það, hvort „Ástandið“ hafi ekki verið kennimerki um fjölmenningarsamfélag, og þar fram eftir götum. Líklegast til árangurs þykir mér þó að horfa til viðhorfa og stofnana, og þannig kortleggja það ferli sem á sér stað þegar meðvitund vaknar um gildi þess að breikka samfélagsvíddina, þegar ráð er gert fyrir öðrum menningarhópum í lagabálkum og félagsþjónustu, þegar stofnanir eins og Alþjóðahúsið eru stofnaðar, og þegar reglur um innflytjendur og hælisleitendur verða bæði opnari og mannúðlegri. Tilvist fjölmenningarsamfélags er þá skilgreiningaratriði sem tengist hugarfari og stofnunum.
  6. Samskiptum hins innlenda og hins útlenda hafa að sjálfsögðu margoft verið gerð skil í íslenskum skáldskap, og alltof langt mál væri að gera tæmandi úttekt á því efni hér. Rétt er þó að nefna að fjölmörg verk Thors Vilhjálmssonar má tengja á athyglisverðan hátt við þetta efni og það hvernig landamæri hins íslenska og erlenda geta verið á flökti í vitundinni. Þá fjallar Thor öðrum þræði um íslam og sjálfsmorðsárásir í Mánasigð (1976). Í víðum skilningi má einnig nefna Hægara pælt en kýlt (1978) eftir Magneu J. Matthíasdóttur og sögusafnið Komið til meginlandsins frá nokkrum úteyjum (1985) eftir Kristján Karlsson. Í annarri tóntegund eru Engill, pípuhattur og jarðarber (1989) eftir Sjón ásamt nokkrum töfraraunsæisverkum Vigdísar Grímsdóttur. Samúel (2002) eftir Mikael Torfason, Stormur (2003) eftir Einar Kárason og Afleggjarinn (2007) eftir Auði A. Ólafsdóttur falla einnig í þennan hóp. Þessar sögur sem öðrum þræði fjalla um samskipti Íslendinga og útlendinga gerast þó flestar á erlendri grund og vitundarmiðjan er oftast íslensk persóna. Sérstaða skáldsögu Auðar Jónsdóttur felst að hluta til í því að hún gerist á Íslandi og Íslendingurinn því ekki í hlutverki aðkomumanns eða ferðalangs heldur er íslenskt samfélag sett fram sem framandi í augum aðkomumanns (það á reyndar einnig við um skáldsögu Hallgríms Helgasonar, 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp (2008), og hér mætti ennfremur benda á tengingu við Með titrandi tár (2001) eftir Sjón). En áhersla Auðar á pólitíska og efnahagslega hlið hnattvæðingarinnar er sérstök í samhengi við ofangreindar bækur.
  7. Þess má geta að líkt og Valgarður Jónsson heldur upp á tíu ára höfundarafmæli sitt í skáldsögunni markar Vetrarsól einnig tíu ára höfundarafmæli Auðar Jónsdóttur, en fyrsta skáldsaga hennar, Stjórnlaus lukka, kom út árið 1998.
  8. Innblástur fyrir þessa sérkennilegu bók má finna í skemmtilegri tvennu Benjamins Hoffs: The Tao of Pooh (1982) og The Te of Piglet (1993), en þar eru einmitt austrænar lexíur settar fram í gegnum dæmisögur af ástsælum dýrum A.A. Milnes.
  9. Katrín Jakobsdóttir. Glæpurinn sem ekki fannst. Saga og þróun íslenskra glæpasagna. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. Háskólaútgáfan, 1999, bls. 19–41, tilvitnun sem notuð er í Vetrarsól er á bls. 19.
  10. Um þetta ferli í víðum skilningi má lesa í ágætu félagsfræðiriti Stanleys Cohens, Folk Devils and Moral Panics. New York og London: Routledge, 2003.
  11. Um hugtakið „sýndar-jafnvægi“ og afþreyingarbókmenntir, sjá Halldór Guðmundsson. Loksins, loksins. Vefarinn mikli og upphaf íslenskra nútímabókmennta. Reykjavík: Mál og menning, 1986, bls. 63–64.
  12. Sama.
  13. Vinsæl sakamálasaga Stiegs Larsson, Karlar sem hata konur, dansar á athyglisverðan hátt á mörkum þessara „takmarkana“ og nær að sumu leyti að yfirstíga þær. Samfélagsgreiningin leysist í öllu falli ekki upp undir lok verksins heldur virkjar höfundur á býsna margbreytilegan og meðvitaðan hátt frásagnareinkenni sem liggur sakamálahefðinni í bókmenntum, sjónvarpi og kvikmyndum til grundvallar, þótt um það sé jafnan þagað þunnu hljóði, þ.e.a.s. ofbeldi gegn konum, og birtir í „jafnvægislausri“ og gotneskri mynd, einmitt til að framandgera það og færa frá orðræðusviði klisjunnar og hins normalíseraða yfir á svið hins aðkallandi og kerfislæga.
  14. Fyrir frekari umfjöllun um þetta má benda á ritgerð Ástráðs Eysteinssonar, „Hvað er póstmódernismi? Hvernig er byggt á rústum?“ Umbrot. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999.