Ólafur Gunnarsson. Dimmar rósir.
JPV útgáfa, 2008.
Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2009.
Ólafur Gunnarsson hefur á umliðnum árum skapað sér nokkra sérstöðu meðal þeirra íslenskra rithöfunda sem fást við sagnagerð. Hann hefur skrifað stórar og dramatískar skáldsögur með mjög siðferðilegum, jafnvel trúarlegum undirtón, hefðbundnar í formi og í anda skáldsagnahöfunda 19. aldar. Oft hefur hann fjallað um persónur sem með brestum sínum og afglapahætti leiða hörmungar yfir sína nánustu og skapa glundroða allt í kringum sig. Löngu áður en „óreiðumenn“ urðu viðtekið viðfangsefni þjóðfélagsumræðunnar hafði hann uppgötvað seiðmagn þeirra og háska sem gerir þá að ómótstæðilegu viðfangsefni skáldsagnahöfundar.
Titill þessarar nýju skáldsögu hans er heiti á dægurlagi sem kom út á plötu árið 1969 í flutningi hljómsveitarinnar Tatara og naut nokkurra vinsælda. Nafnið vísar til hippatímans svonefnda í kringum 1970 og í kynningu bókarinnar var mikið lagt upp úr þeirri vísun og að þar kæmu við sögu annálaðir tónleikar hljómsveitarinnar Led Zeppelin hér á landi á þeim tíma og fleiri viðburðir úr heimi rokktónlistarinnar.
Þegar bókin er lesin kemur þó í ljós að efni hennar er mjög fjarri þeim anda friðar og ástar sem jafnan er tengt þessu tímabili. Á það hefur reyndar verið bent að hippahreyfingin hafi ekki verið jafn saklaus og oft er haldið fram og þá bent á ýmsa viðurstyggilega glæpi sem framdir voru í tengslum við hana. Líkt og Bítlalagið „Helter Skelter“ er sagt hafa verið kveikjan að grimmilegum morðum Charles Mansons í Kaliforníu á þeim tíma mynda heimsókn og tónleikar hljómsveitarinnar Led Zeppelin hingað til lands baksviðið að þeirri skelfilegu ofbeldisárás sem lýst er í þessari sögu. Í báðum tilfellum er ráðist á þungaða konu – klíka Mansons myrti leikkonuna Sharon Tate, þáverandi eiginkonu kvikmyndaleikstjórans Romans Polanski, sem var barnshafandi, en í bók Ólafs ræðst unglingsstúlka, sem skömmu áður hafði verið nauðgað hrottalega, á barnshafandi stúlku sem hún þekkir ekki neitt svo hún deyr í kjölfarið.
Þetta er ekki eina ofbeldisverkið í bókinni, en það er athyglisvert að hvorki fyrrnefndri nauðgun né morði sem er framið í lok bókarinnar er lýst fyrir lesandanum, en þessari árás er aftur á móti ítarlega lýst. Þetta er óskiljanlegur verknaður. Hinn alvitri sögumaður varpar aðeins litlu ljósi á hann þegar hann gerist en öll sagan hnitast í raun um hann. Hér er horft inn í myrkur mannssálarinnar og viðfangsefnið leiðir hugann að nóvellu sem Ólafur Gunnarsson sendi frá sér snemma á ferli sínum, árið 1984, og ber heitið Gaga. Sú bók fjallar um mann sem hafði lesið yfir sig af vísindaskáldsögum og telur sig einn morguninn hafa vaknað á plánetunni Mars sem Marsbúar hafa útbúið sem nákvæma eftirlíkingu af átthögum hans. Þannig verður allur veruleikinn að ósvífinni blekkingu geimveranna og allar manneskjur að Marsbúum í dulargervi. Til að svipta af þeirri blekkingu ákveður hann að drepa einn þeirra og það er álíka tilgangslaus og hrottalegur verknaður og sá sem lýst er í þessari nýju sögu. Strax í sögunni Gaga var Ólafur farinn að velta fyrir sér undirrót ofbeldisins. Valdi, söguhetja þeirrar bókar, er maður sem þráir að komast út fyrir sín takmörk, afneitar hinum mennska heimi í því skyni og er tilbúinn til að drepa til að sanna að hann hafi á réttu að standa. Bæði hann og söguhetjan í Ljóstolli, sem Ólafur hafði sent frá sér nokkru áður, voru í raun öfgakennd afsprengi afþreyingarsagna sem dugðu þeim illa þegar reynt var að heimfæra þær upp á lífið sjálft líkt og riddarasögurnar Don Kíkóta forðum.
Í þessari nýju skáldsögu liggja rætur ofbeldisins þó ekki aðeins í vímuefnaneyslu og veruleikafirringu hippamenningarinnar, heldur er hér teflt saman andstæðum sjónarmiðum úr fornum trúarbrögðum og menningu, hefndinni og fyrirgefningunni, hinu forna lögmáli Gamla testamentisins, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, og boðorði Krists um að rísa ekki gegn þeim sem gera manni mein, að bjóða hina kinnina sé maður sleginn. Í sögunni er sýnt hvernig þessi sjónarmið vegast á í persónunum sjálfum og jafnframt hvernig veikleikar og brestir þeirra geta af sér heift og ofbeldi sem aftur valda sárum sem leiða til frekari ógæfu. Þannig bætast sífellt nýjar hörmungar á þær sem fyrir eru, orsakirnar liggja jafnvel hjá fyrri ættliðum sögupersónanna, svo ein þeirra talar um „erfðasynd“ (174).
Þetta er að mörgu leyti hefðbundin saga af tveimur fjölskyldum. Önnur er fjölskylda unglingsstúlkunnar Ásthildar sem er nauðgað. Afi hennar, Auðun, er orðinn gamall og heilsuveill. Honum finnst heimurinn ranglátur og ekkert skrýtið þótt menn drepi hver annan. Frá kristilegu sjónarhorni sýnir hann hroka gagnvart almættinu, neitar tilvist Guðs, storkar skaparanum og skorar dauðann á hólm. Júlía, dóttir hans og móðir Ásthildar, er dýralæknir, fögur kona og metnaðarfull í starfi. Hún þolir ekki að skepnum sé misþyrmt, en verður síðan að horfa upp á fjölskyldu sína verða ofbeldinu að bráð. Eiginmaður hennar, Þórður, er mótsagnakennd persóna, sósíalisti að hugsjón en bókhaldari fyrir stórkaupmenn, tvöfaldur í roðinu, lítill bógur, með minnimáttarkennd gagnvart eiginkonu sinni, girnist stjúpdóttur sína og skammast sín fyrir það og bregst við innri togstreitu sinni með ofsa og bræði og ofbeldi gagnvart eiginkonu sinni. Bróðir Ásthildar, Kristján, leggur stund á guðfræði í háskólanum, hjálpsamur maður og góður. Hann er fulltrúi kristinna viðhorfa í sögunni, bendir afa sínum á að bág staða okkar í heiminum stafi af því að „Adam og Eva syndguðu gegn Guði og þess vegna vorum við rekin út úr aldingarðinum“ (179), hvetur hann til að lúta vilja Guðs en talar fyrir daufum eyrum.
Í hinni fjölskyldunni eru systur tvær, Hrafnhildur og Harpa. Þær elska báðar sama manninn, trommuleikarann Guðna, tvílráðan mann sem getur ekki gert upp á milli systranna tveggja sem þrá hann en er með hugann allan við frama sinn innan rokkheimsins. Hann minnir svolítið á Hamlet og Hrafnhildi er á einum stað líkt við Ófelíu (52). Hrafnhildur er dugleg kaupsýslukona, en verður gagntekin öfund og reiði í garð systur sinnar þegar hún tekur saman við Guðna og verður síðan ófrísk. Harpa er aftur á móti blíð og nægjusöm og verður saklaus fyrir fólskulegri árás af hálfu bláókunnugrar manneskju. Leikkonan Brynhildur er móðir systranna tveggja, skapmikil kona úr vel stæðri fjölskyldu sem elskar eiginmann sinn, fjárglæframanninn Harald, þrátt fyrir bresti hans, þótt hann hafi sett fjölskyldufyrirtækið á hausinn og haldi framhjá henni. Haraldur sver sig í ætt við ýmsar af fyrri sögupersónum Ólafs. Hann er óreiðumaður, breyskur og hálfumkomulaus í tilverunni og leitar huggunar í framhjáhaldi og ólæknandi bíladellu.
Atburðarásin er í forgrunni, eitt leiðir af öðru í þeirri vél ógæfunnar sem hér fer í gang og sjaldan staldrað lengi við hugsanir og tilfinningar söguhetjanna. Stíllinn er knappur og „kaldur“. Kaflar eru oft stuttir og miðast við að ná innan þeirra dramatísku risi. Aftur á móti má finna að byggingu sögunnar í heild. Lesandinn er ekki alltaf nægilega búinn undir það sem í vændum er svo það kemur stundum eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Ef samanburður er gerður við tónverk skiptast hér ekki á hægir og ofsafengnir, lágstemmdir og háværir kaflar til að skapa andstæður í frásögninni, heldur mynda þeir öllu heldur tannhjól í sömu vélinni sem sífellt æðir áfram á miskunnarlausan hátt. Ef frá eru taldir kaflar um misheppnaðar fjárfestingar og vonlausar viðskiptahugmyndir Haraldar, sem eru óneitanlega spaugilegir, er sjaldan slakað á ósköpunum og hörmungunum, svo bókin reynir nokkuð á lesandann, ekki síst þegar fram í sækir og frásögninni víkur til Danmerkur þar sem Ásthildur sekkur æ dýpra í fen eiturlyfjanna í Kristjaníu. Í lokin finnst lesanda að auki að úrvinnslu efnisins sé ekki allskostar lokið, enn eigi eftir að hnýta ýmsa lausa enda. Höfundur lét þess getið í að minnsta kosti einu viðtali þegar bókin kom út að henni væri ætlað að vera upphaf lengra verks. Verði sú raunin verður að skoða þessa sögu sem fyrsta hlutann í stærra bálki sem meta þarf í heild síðar.
Sagan skartar sterkri táknmynd sem er í senn einn af íkonum í rokkmenningu hippatímabilsins og táknmynd fyrir forgengileikann, ófullkomleika mannanna og vanmátt þeirra til að storka náttúruöflunum eða Guði. Þetta er myndin á umslaginu utan um fyrstu plötu Led Zeppelin af loftfarinu Graf Zeppelin að hrapa í ljósum logum: „Smáneisti var nóg til að sprengja það í loft upp“ (61). En hljómsveitin Led Zeppelin gegnir líka hlutverki falsguða. Ásthildur tilbiður hana, tónlist hljómsveitarinnar er henni „betri en kirkja“ (246) og af henni þráir hún sáluhjálp eftir að hafa orðið fórnarlamb nauðgara: „… þegar hún sá Jimmy Page leggja gítarólina yfir öxlina datt henni í hug að hún væri að horfa á Guð og þar næst hugsaði hún: Ef ég svæfi hjá Guði þá myndi ég hreinsast af öllum þeim óþverra sem ég mátti þola af þessum skítuga manni“ (249–50). Myndin af Zeppelinloftfarinu er listilega útfærð í kaflanum um sálarstríð Ásthildar í kjölfar árásarinnar. Eftir að hún hefur framið ofbeldisverk sitt vitrast María mey henni í fangaklefanum og breiðir út faðminn, en þá „birtist sjálft móðurskipið Graf Zeppelin, það var úr silfri og ljómaði í sólinni, Guðsmóðir hvarf, Zeppelinloftfarið stóð kyrrt í himneskri birtu yfir heitavatnsgeymunum í Öskjuhlíð þar til eldsfár braust út í því og það byrjaði að hrapa“ (269).
Það er til marks um margslunginn hugmyndaheim sögunnar þegar teflt er saman hinum kristnu sjónarmiðum um fórnardauða Krists og guðlausri heimsmynd í samtali Kristjáns og Brynhildar eftir jarðarför Hörpu dóttur hennar. Hún hafnar í senn þeim skýringum eða réttlætingum sem rekja ódæðisverkið til misgjörða sem gerandinn hafði orðið fyrir sem og þeirri túlkun Kristjáns að Harpa hafi dáið fyrir dóttur sína. Með því að ákveða hvort ætti að lifa, Harpa eða barnið, hafði Brynhildur með nokkrum hætti tekið að sér hlutverk sem löngum hefur verið talið Guðs, en eftir að hún hafði valið vissi hún að Guð var ekki til. Harpa hafði að hennar mati heldur ekki dáið fórnardauða því að hún tók ekki þá ákvörðun sjálf. Í þessum kafla, sem er einn sá áhrifamesti í bókinni, er kirkjulegum kennisetningum vísað á bug á grundvelli mannlegs harms og jarðneskrar lífsafstöðu sem fyrst og fremst höfðar til ábyrgðar mannsins gagnvart sjálfum sér og öðrum manneskjum en styðst ekki við trú á æðri mátt eða annað líf. Í þessum kafla er rödd trúmannsins Kristjáns veik og hann hefur ekki svör við röksemdum Brynhildar.
Titill bókarinnar vekur spurningar. Eru dimmar rósir hin dökku blóm sorgarinnar, eins og í texta dægurlagsins? Eða eru þær blóm hins illa, afsprengi lasta og veikleika sem taka á sig mynd haturs, öfundar og ofbeldis og sífellt sá sér að nýju? Þeim spurningum verður hver lesandi að svara fyrir sig. Í þessari sögu er fjallað um mannlega harmleiki á áhrifamikinn hátt og varpað fram mörgum stórum og áleitnum spurningum. Hún sver sig mjög í ætt við margar fyrri bækur Ólafs í dramatískri framvindu sinni og siðferðilegum vangaveltum. Það verður forvitnilegt að sjá hvert framhaldið verður.