Guðmundur Andri Thorsson. Segðu mömmu að mér líði vel.
JPV útgáfa, 2008.
Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2009.
Segðu mömmu að mér líði vel eftir Guðmund Andra Thorsson segir frá tæpum sólarhring í lífi miðaldra arkítekts sem býr í Reykjavík ásamt föður sínum og hundinum Pjatta. Einkunnarorð bókarinnar eru sótt til Rolling Stones og Páls postula og fjalla um draumana og hverfulleikann og hvernig allt jarðneskt er sjónhending, annað en kærleikurinn. Sögumaður á sér kærustuna Kötu sem er á sama aldri, og ferðalag sögunnar snýst um óútskýrða fjarveru hennar á þessum sólarhring þar sem virðist vera slökkt á símanum eða hún utan þjónustusvæðis. Eitthvað er það sem knýr hann til að gera (sér) grein fyrir „atburðum þessara daga“, búa til úr þeim samfelldan þráð, á sama hátt og skáldkonan amma hans gerir í ástarsögum sínum úr sveitinni:
skipulega og í réttri röð svo að ég geti áttað mig á því sem gerðist og kannski dregið einhverjar ályktanir af því – um eitthvað (14).
Sagan er sögð í fyrstu persónu eins og tvær fyrstu skáldsögur Guðmundar Andra, Mín káta angist og Íslenski draumurinn, en því formi er beitt meðvitað og af meiri list en í þeim sögum. Meðal verðleika þess frásagnarforms er hvernig sögumaður er frjáls að því að kveða upp ýmsa dóma án þess að lesandinn skynji í þeim vísifingur hins alvitra höfundar, en fyrirferð sögumanns var einmitt helsti gallinn á Náðarkrafti, síðustu bók Guðmundar Andra. Í fyrstu persónu frásögn er sögumaður tiltekin persóna innan söguheimsins og ályktanir hennar um aðrar persónur og atburði eru á hennar ábyrgð. Þessi persóna gefur lesanda hlutdeild í hugsunum sínum og tilfinningum og getur orðið honum býsna nákomin. En um leið er sá möguleiki fyrir hendi að hún blekki bæði sjálfa sig og aðra. Þá veit hún kannski ekki um nærri allt sem er að gerast í kringum hana, eða innra með henni sjálfri, um leið og vitneskja lesandans er bundin við hennar vitundarheim. Og hver er hún í raun og veru?
Sögumaðurinn Einar lifir reyndar ekki í neinni sjálfsblekkingu. En hann burðast með ýmislegt sem hann hefur bælt með sér eða er ekki fyllilega meðvitaður um, og í fyrri hluta sögunnar, þar sem hann er í forgrunni, er ýmsum þráðum ofið sem skýrast í lokin þegar myndin er fullkomnuð. Einar er ósköp venjulegur maður, að nálgast fimmtugt. Fyrri hluti sögunnar snýst að miklu leyti um hann sjálfan og daglegt líf hans. Hann nýtur ekki sérlegrar velgengni í starfi, enda hugmyndir hans um lífrænt samband húss og manns ekki beinlínis samkvæmt nýjustu tísku. Hann er „fremur fáskiptinn og viðkunnanlegur maður“, og draumar hans snúast um kyrrlátt fjölskyldulíf og garð með Kötu sinni í einhverju útópísku Stuðlaseli. Fyrstu samfunda þeirra minnist hann þannig:
Ég man hvað himinninn var blár, trén í görðunum há og stolt, starrarnir hnarreistir sem stóðu heiðursvörð á grindverkunum, bílarnir á lóðunum latir og góðviljaðir (30).
Hann virðist eiga sér sterkar rætur í sveitinni, þ.e. fæðingarsveit móður sinnar, þó að hann sé sjálfur fæddur og uppalinn á mölinni:
Inni í mér …
Titrandi fífa, gutl í læk, grasbalinn sléttur, brakandi ilmur sólar í blóðbergi og lyngi, húsið góða og mamma.
Og trén sem við mamma og Skáldís amma gróðursettum þegar ég var lítill og eru systkini mín sem uxu með mér og dóu sum eins og sumt í mér, og lifðu sum (12—13).
Faðir hans á að baki langt líf sem múrari og blásari í dægurlagahljómsveit þar sem móðir hans var söngkona. Hún er löngu dáin og þeir feðgarnir hafa „alltaf hugsað hvor um annan“ (28). Í upphafsköflunum segir hann frá samskiptum þeirra, vinum sínum, sínum umliðnu ástum og frá Kötu og lífi hennar áður en fundum þeirra bar saman. „Klukkan var orðin margt“ þegar þau kynntust, en samband þeirra virðist einlægt og djúpt. Af einhverjum ástæðum er sögumaður samt mjög óöruggur vegna fjarveru hennar, og undir lokin er hann við það að bugast þegar „gamla magnleysið“ hvolfist yfir hann. Ef til vill óttast hann að öllu sé lokið. Hlutirnir gerast án þess maður veiti þeim eftirtekt: „sjálfa hina afmörkuðu stund“ greinir maður ekki:
Flóð fylgir fjöru, dagar dofna, mánuðir líða og ár. Við sitjum svo í hvunndagsrökkri á miðvikudagslegu kvöldi með súpuskeið á lofti á leið í munninn og það rennur upp fyrir okkur að allt er fjarverandi. Það gerðist allt í einu einhvern tímann að maður missti af mannlegri snertingu. Sambandið rofnaði. Maður hætti að tengjast. Og fólk hverfur inn í þann gráa flaum sem er allir hinir (57).
Lýsing liðinna atburða í miðri hinni daglegu önn eru hluti af „rausinu“ þegar sögumaður á erfitt með að einbeita sér að efninu og skipa því rétt niður. Líka umhverfið þegar hann er í gönguferð með hundinn:
húmið og hljóðlát hamingja kvöldmatartímans þegar venjulega fólkið situr saman og skiptist á matarílátum, saltstaukum og setningum – og augnatillitum. /…/ Hús er líka kvöldmatartíminn og kvöldmatartíminn er stund ástarinnar. Þegar hann er ekki virtur á heimilum venjulegu fjölskyldnanna fölnar ástin og verður að endurminningu um angan og þrá eftir því að tengjast (35).
Pabbinn fæst við að mála í ellinni, hættur í múrverkinu, allir hljómsveitarmennirnir dánir. Dagleg samskipti þeirra feðga eru ekki sérlega náin en í föstum, vanabundnum skorðum. Móðir sögumanns kemur naumast fyrir í fyrri hluta nema sem rödd af gömlum upptökum á plötum og í útvarpi:
Og kringum hásu röddina hennar mömmu sveimaði tenórsaxinn hans pabba svo óumræðilega blíður og strauk og kjassaði melódíuna af allri þeirri djúpu dýpt og mjúku mýkt sem hann þráði alla tíð svo mjög að sýna henni (49).
Þessum fyrri hluta lýkur þegar síminn loksins hringir, en þá hafa augu sögumanns hvílt á innrammaðri auglýsingu úr Mogganum um dansleik Danshljómsveitar Binna Frank frá deginum þegar foreldrar hans hittust fyrst. Sú saga er í forgrunni í síðari hluta sögunnar og hefst á upprifjun þessa dags fyrir 50 árum.
Og hér breytist frásagnarhátturinn. Sögumaður sér og nemur allt sem heiti hefur þar sem hann stendur í útjaðri söguheimsins. Í lýsingunni á ballinu á Hálogalandi fer frásögnin á flug í fínlegri íróníu. Allt lifnar, náttúran, sem lýst er með tilþrifum og ívafi frá Steini Steinarr og öðrum góðskáldum, hljómsveitarmennirnir, textarnir, stígandin í leik hljómsveitarinnar, sveitarbragurinn, ömmur og mömmur meðfram veggjunum, uppburðarlitlir ungir menn – og ein af ungu stúlkunum sjö, heimasætan Laufey á höfuðbólinu Hálogalandi, sem sést frá tveimur sjónarhornum:
Hún var ung. Hún var með rauðbrúnt hrokkið hár niður á háls og freknur á nefinu, þykkar varir og há kinnbein. Hún leit út fyrir að vera skemmtileg og hún var með stór og brún augu sem ljómuðu tilbúin að taka við heiminum og afar stórt nef sem gat greint það jafnóðum sem heimurinn færði henni. Hún var fíngerð og lágvaxin og hæglát og framhleypin. Hún var ekki fríð en hún hreyfði sig með þokka (100).
Þegar hún Lulla mamma þín stóð fyrir framan okkur í hljómsveitinni – skrifaði hann mér til Kaupmannahafnar – í sínum rósfagra æskukjól fannst mér ég skilja hana, mér fannst ég væri sá eini sem myndi nokkru sinni skilja hana. Því hún var svo ung og þokkablíð er hún fór með lögin hans Binna sem væru þau henni einni samin – hvað þau og voru þá undrastund. Er hún stóð þar á mjóum skóm fyrir framan okkur, útskeif, nett og fögur þá skildi ég að hér eftir myndi það ævinlega undir mér komið hvort hún gréti; mitt hlutverk væri að sjá til þess að hún brosti; ég hefði vald á því hvort hún syrgði (106).
Sögumaður setur sig í síðari hlutanum í gervi ósýnilegs áhorfanda. Í þessum söguheimi sér hann og veit og sundurgreinir út frá sínum forsendum, og það gengur fullkomlega upp. Til hliðar er vitnað í bréf föður hans með sínu sérstaka orðfæri. Og hér er hans eigin upphafi lýst:
Um leið og þau horfast í augu verður til ástand. /…/ Ástand sem átti eftir að þéttast sífellt allar þeirra stundir. Áform sem enn hafa ekki fengið orð og fengu sum aldrei svo mikið sem hugsun. Líf sem átti eftir að flögra. Fræ sem urðu til. Ég ligg í loftinu og þau brosa bæði (99).
Í frásögnina blandast einnig sagnaheimur Skáldísar, móðurömmu hans, sem er sýndur í skemmtilegri hnotskurn í sögunni. Og lífsskoðun Skáldísar er í samræmi við sögur hennar:
Því að amma leit á ástina eins og marxistar og frjálshyggjumenn líta á þjóðfélagsþróunina. Rétt niðurstaða var óhjákvæmileg vegna þess að hin óhjákvæmilega niðurstaða var rétt (116).
Beinteinn, maður hennar, skynjar hins vegar þegar í stað að í þessu tilviki ná „Indriði og Sigríður“ ekki saman, heldur hefur spjátrungurinn að sunnan unnið hug og hjarta dóttur þeirra. Því Beinteinn hefur það jarðsamband og innsæi sem Skáldísi skortir. Hann er skáld þessa húss sem hann hefur reist og innréttað með eigin höndum.
Hann hafði ort það. Um öll herbergin lá fínofið net tilfinninga, atvika og hugrenninga – og í hvert sinn sem stríkkaði á því fann hann það í hjarta sér (117).
Hetjudáð myndarlega sveitapiltsins, sem í sögum Skáldísar lyftir hulunni frá augum stúlkunnar og vekur heitar tilfinningar hennar í hans garð, hefur ekki önnur áhrif en að greiða henni leiðina burt.
Ástin læðist út eftir dalnum og á eftir henni mæna stráin og tittlingarnir, fífur og fíflar, lóur hrista örlítið hausinn en brosa í gogginn, öldurnar ýfast í ánni, sjálf vindáttin snýst og blærinn ýtir mjúklega á eftir þeim, allt teygir sig af megni í áttina suður þangað sem ástin læðist (123).
Undirtitill skáldsögunnar er Saga af ástum. Hún fjallar um hverfulleika lífsins. Og hún fjallar um kærleikann, tengslin á milli manna, ást foreldra og barna, karls og konu. Meginefnið er ástarsaga foreldranna, sem reynist vera undirtónn í öllum fyrri hlutanum, og hún er sýnd í margs konar speglum í hinum síðari. Þar má nefna náttúrurómantíkina, skáldsagnaheim ömmunnar og heim dægurlagatextanna, auk atvikalýsingarinnar sjálfrar. En engin af þessum draumamyndum rætist. Það er fyrst alveg í lokin að nöturleg saga þessarar litlu fjölskyldu raðast endanlega saman. Það gerist í bréfi föðurins þar sem hann lýsir bæði hamingju þeirra í upphafi og horfist í augu við sjálfseyðilegginguna og sína „miklu sök“. Og um leið fullkomnast myndin af örlögum móðurinnar sem blandast saman við slitróttar minningar sögumanns úr bernsku.
Gluggar skelltust. Hurðir skelltust. Golan varð að stormi sem þyrlaði upp ryki og smán, gnauðaði á glugga og ýlfraði við dyr. Fótatak barst frá berum iljum. Og söngl. Stundum raulaði hún hásum rómi frammi á nóttunni á meðan við biðum þess að veðrinu slotaði og pabbi kæmi heim (144).
Fléttan sem fyrr var getið, símtalið sem lætur bíða eftir sér, hin óútskýrða fjarvera, er í raun aðeins rammi utan um þá sögu og um leið hinn djúpi undirtónn allrar skáldsögunnar.
Þegar bókarheitinu er flett upp á bloggsíðum koma tvö lýsingarorð upp aftur og aftur: hugljúf og ljúfsár. Það fer lítið fyrir ljúfleikanum í þeirri sögu sem hér er sögð. Hin hófstillta frásögn er einn af meginkostum bókarinnar, en veldur því greinilega að hún hefur verið vanmetin og lesin of yfirborðslega.
„Við mamma þurftum nálægð“. Í endurminningunni tengist móðirin Hálogalandi, leikjum og nærveru, ilmandi lyngi, ánni, tímanum sem streymir burt. Bréfið sést hvergi í fari föðurins, engin iðrun, engin nánd. „Við þurfum fjarlægð til að vera nánir“ (138). Í sögulok kemur Einar að föður sínum látnum í rúminu:
Glugginn var lokaður og ekkert í herberginu bærðist, allt var alveg kyrrt og alveg hljótt og alveg afstaðið nema á trönunum var málverk sem sýndi hreyfingu. Það var bátur sem sigldi hægt eftir lygnum sjó – út í bláan buskann. Himinninn var ófullgerður (152).
Sagan er mjög fallega skrifuð eins og tilvitnanirnar hér að ofan bera með sér og ber af þeim skáldsögum síðasta árs sem ég hef lesið.