Sá skemmtilegi og frumlegi leikhópur Sómi þjóðar frumsýndi í gærkvöldi í Tjarnarbíó nýtt verk, SOL, byggt á sannri sögu. Höfundar eru að venju þeir Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson sem leikstýrir að þessu sinni en leikur ekki í sýningunni. Hann á líka búningana og frábæra leikmynd ásamt Valdimar Jóhannssyni en Valdimar hannar ljós ásamt Hafliða Emil Barðasyni.
Mér var ekki alveg rótt á leiðinni í leikhúsið og framan af sýningunni. Ég hafði lesið í viðtölum við Tryggva að verkið gerðist að nokkru leyti í heimi tölvuleikja og sá heimur er mér algerlega framandi. Ég hef aldrei spilað tölvuleik – varla einu sinni séð fyrirbærið nema þá bregða fyrir í bíó. En ég hefði ekki þurft að kvíða. Verkið snýst um annað þótt tölvuleikir séu stór partur af umhverfinu.
Davíð (Hilmir Jensson) er fíkill og fíkn hans er tölvuleikir. Þar hefur hann lengi átt góðan félaga í Hauki (Kolbeinn Arnbjörnsson) en upp á síðkastið hefur Haukur sýnt meiri áhuga á djammi og drykkju en leikaraskap í heimahúsum. Hann reynir sitt ýtrasta til að fá Davíð með sér í stuðið en Davíð er gríðarlega tregur, vill raunar alls ekki fara út úr húsi. Átök þeirra vinanna um þetta voru afskaplega vel gerð, vel skrifuð og leikin og sannfærandi. Haukur verður verulega áhyggjufullur út af vini sínum sem honum finnst vera að hverfa raunheimi. Hann veit líka að Davíð er hugfanginn af „stúlkunni“ Sol (Salóme Rannveig Gunnarsdóttir) sem þeir hafa kynnst í leikjunum, sterkustu, fljótustu, fallegustu og gáfuðustu stúlkunni í tölvuheimi. Hvað nú ef Sol er bara plat? Nígeríusvindlari eða eitthvað þaðan af fjarlægara mannheimi? Þegar Haukur fær tækifæri til varar hann Sol við því að fara illa með Davíð, það geti haft alvarlegar afleiðingar. Í framhaldinu kynnumst við Sol í raunheimi þar sem hún heitir bara Lísa og hápunktur verksins verður þegar Davíð og Lísa hittast í alvörunni.
(Hér er ákaflega freistandi að minna á kvikmyndina Davíð og Lísu (Frank Perry 1962, um tvo unglinga sem finna hvort annað í heimavistarskóla fyrir geðfatlaða. Ég giska á að nöfn persóna í SOL séu ekki einber tilviljun.)
Verkið sem ég hélt að yrði langt handan við minn skilning reyndist vera undurfalleg og býsna gamaldags ástarsaga en allur umbúnaður gerir hana ferska og spennandi. Sviðið er tæknilega flott: raunheimur er lítið og fábrotið herbergi með rúmi, borði undir tölvu, stól og skáp en svæðið fyrir framan það er tölvuleikjaheimurinn, nakinn en fylltur af hljóðum og myndum. Í heillandi atriði undir lokin dansa þau Davíð og Lísa út úr raunheimi og inn hinn heiminn og verður sérstaklega að hylla Sigríði Soffíu Níelsdóttur hreyfihönnuð fyrir þennan dans sem fyllti mig af gleði og hrifningu.
Hlutverk Davíðs er langstærst og Hilmir beitir hér öllu sem hann kann svo ótrúlega vel, svipbrigðum, áráttukenndum hreyfingum, líkamsburði og fasi, til að sýna ungan mann sem er þjakaður á sál og líkama. Það er alveg magnað að horfa á hann tala með öllum kroppnum þannig að maður veit nákvæmlega hvernig honum líður þótt hann segi ekki neitt. Atriði þar sem hann talar á máli tölvu sem er sífellt slegin á ranga lykla er frábærlega samið og verður drepfyndið í flutningi Hilmis. Allt önnur verður persónan svo þegar raunheimur lokast að baki hennar, örugg og djörf, eins og best kom í ljós í áðurnefndum dansi.
Salóme og Kolbeinn eru verðugir mótleikarar, Haukur hans Kolbeins ekta hress náungi og Lísa hennar Salóme dásamleg stelpa, fyndin og sjarmerandi þótt ekki reynist hún beinlínis vera Sol.
Hér er kominn nýr smellur í Tjarnarbíó, góðir leikhúsáhugamenn. Ekki missa af honum.
Silja Aðalsteinsdóttir