Sjón. Korngult hár, grá augu.

JPV útgáfa, 2019.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2020.

Korngult hár, grá auguTitillinn Korngult hár, grá augu kallar umsvifalaust fram mynd af norrænni manneskju, ljósri yfirlitum. Það að hárið sé korngult en ekki bara ljóst býr til tengingar við sveitasælu, jafnvel sakleysi. Bókarkápan sýnir sömuleiðis ungan, brosandi dreng, myndin þó pixluð og því óskýr, jafnvel ögn skrumskæld. Í þessari skáldsögu eftir Sjón er sögð saga Gunnars Kampen, ungs og efnilegs drengs sem elst upp í Vesturbæ Reykjavíkur um og eftir seinna stríð. Myndin sem dregin er upp af honum gæti vel verið falleg æskumynd en hún skekkist og afskræmist um leið því ljóst er að þegar þessi drengur vex úr grasi verður hann nýnasisti. Á sama hátt umbreytast gamlar myndir af ljóshærðu ungviði þegar betur er rýnt í myndefnið og augað nemur borða skreyttan hakakrossi eða handlegg sem rís til heiðurs Adolfs Hitler. Fáar myndir sameina á jafn áhrifaríkan og harðneskjulegan máta sakleysi, fegurð og ómennska grimmd. Í nútímanum býr þessi mynd nánast yfir mætti goðsögunnar. Spurningin sem hlýtur að brenna á okkur er hvernig sakleysið getur umbreyst í slíka grimmd. Og að einhverju leyti er það spurningin sem Sjón leitast við að svara í þessari knöppu, sögulegu skáldsögu.

Sögutími Korngult hár, grá augu er um það bil frá 1938 til 1963 og hún hefst á því að ungur maður finnst látinn í lestarklefa á Englandi, lögreglumennirnir stumra yfir líkinu sem við fáum að vita að er af ungum Íslendingi, Gunnari Kampen. Við fylgjum síðan Gunnari frá fyrstu minningu, þegar hann er barn á leið að Rauðavatni ásamt fjölskyldu sinni og reynir að meðtaka hið nýja orð; Rauðavatn … rauð mjólk? Við fylgjum honum alla leið að síðustu minningu, þegar hann situr helsjúkur í lestinni þar sem hann mun innan stundar bera beinin og sér þjón færa sér glas af rauðri mjólk. Milli þessara tveggja mynda, sem ramma inn líf Gunnars, birtast brot úr uppvexti og æsku og svo, í síðari hluta bókarinnar, bréfaskriftir hans við ættingja, félaga og framáfólk í alþjóðlegum hreyfingum nasista.

Sjón byggir á sögulegum heimildum þegar hann fjallar um heim íslenskra nasista. Tengsl nýnasista við Sjálfstæðisflokkinn og marga úr yfirstétt landsins eru þekkt en engu að síður rann þessum lesanda kalt vatn milli skins og hörunds þegar kom að þeim hlutum sögunnar. Hér var stofnuð lítil sella sem hafði furðusterk tengsl við lykilfólk í hreyfingu nýnasista um allan heim og höfundur leiðir fram á sjónarsviðið raunverulegt fólk í bland við skáldaðar persónur, Bandaríkjamanninn Lincoln Rockwell, stofnanda bandaríska nasistaflokksins, og Savitri Devi, hugmyndasmið nýnasista og einn stofnanda Alheimssamtaka nasista, konuna sem sögð er hafa fært Hitler á guðlegan stall. Meðan Rockwell var í bandaríska hernum dvaldist hann um tíma hér á landi og giftist íslenskri konu og vitað er að Savitri ferðaðist um Ísland og fylgdist með Heklugosi. Því er kjörið að láta leiðir þeirra og Gunnars Kampen liggja saman og Sjón dregur upp magnaða bernskumynd af fundi Savitri og Gunnars. Persóna Gunnars byggist líka á sögulegum heimildum en er þó fyrst og fremst sprottinn úr penna höfundar. Það er auðvitað ekkert leyndarmál að á Íslandi voru nasistar – bæði fyrir, eftir og á tímum heimstyrjaldarinnar síðari, nasisminn kraumaði undir, hopaði við fall Hitlers og þriðja ríkisins en hefur sjálfsagt aldrei horfið alveg. Það er hollt að minna sig á að hér, rétt eins og annars staðar í heiminum, getur kynþáttahyggja og mannhatur blómstrað.

Hvernig verður nýnasisti til? Auðvitað er ekkert einhlýtt svar til við því enda leitast höfundur ekki við að veita það, heldur beinir sjónum að einum dreng og veltir upp ýmsum flötum, lítur til uppvaxtar hans, hugar að flóknu sambandi drengsins við föður sinn og tengslum við aðra fullorðna í æsku. Faðirinn, hinn norski Páll Kampen, útbýr litla kompu inn af svefnherberginu sem sitt einka-afdrep. Þar situr hann við útvarpið allt stríðið og fylgist með fréttum frá ýmsum heimshornum. Úr kompunni heyrast hróp og stunur þegar faðirinn lifir sig inn í skelfilegar stríðsfréttirnar. Þar inni er líka það eina sem Páll á til minja um föður sinn, hrísvöndurinn sem hann var barinn með sem barn. Vöndurinn fær á sig goðsagnakenndan blæ í hugarheimi Gunnars litla sem veltir mikið fyrir sér hvernig afinn hafi notað hann á son sinn en það er fátt um svör:

„En það skiptir ekki lengur máli hvernig hann var notaður.“ Páll Kampen, birgðavörður á tækjalager Eimskipafélagsins, strauk fingrum hægt yfir hrísið sem svaraði snertingunni með lágu braki, það var svo uppþornað að greinarnar hefðu brotnað við fyrsta högg, en það vissi sonur hans ekki. Hann hélt áfram með brest í röddinni: „Mestu skiptir að hann er hjá mér.“ (18)

Faðirinn er ráðgáta, hann er fjarlægur og berst greinilega við ýmsa djöfla þótt ekki sé hann sýndur beita drenginn ofbeldi. En beint á eftir kaflanum um föðurinn og vöndinn kemur kafli um Lúther Alfreðsson, kennara í gagnfræðaskóla í Austurbænum sem býr í næsta húsi við Kampen-fjölskylduna. Lúther þessi er formaður Hjólhestafjelagsins Sleipnis sem er einnig félag um heilbrigt líferni og í ofanálag þýskuskóli. Eftir vinnu dyttar Lúther að hjólunum og gefur sér gjarnan tíma fyrir Gunnar litla. Síðar selur hann móður hans þríhjól sem Gunnar hefur augastað á; „Þú borgar mér bara í kartöflum. Tólf ættu að duga.“ (23) Merki Hjólhestafjelagsins Sleipnis er rauður átta arma kross en merkið er tekið niður skömmu eftir að breski herinn kemur til landins. Kannski er stærsti áhrifavaldur Gunnars þó elskuleg föðursystir hans, Kirsten. Mynd af föðursystkinunum Gunnars, þar sem sjá má unga ljóshærða Kiki, hangir á veggnum í kompunni. Faðirinn talar mikið um þessa kátu norsku frænku: „Án hennar hefðum við dáið úr sorg þegar krabbinn tók hana mömmu okkar. Kirsten kunni ekki bara að spila á puntstrá, hún kunni líka að dansa eftir laginu sem hún lék á puntstráið. Það var fallegur dans.“ (24–25) En Kirsten er óþekkjanleg þegar fjölskyldan mætir niður á höfn til að taka á móti henni tveimur mánuðum eftir uppgjöf Þjóðverja. Eins og fleiri úr fjölskyldu föðurins hafði hún greinilega verið á bandi innrásarliðsins. Hún er ekki svipur hjá sjón, niðurlægð, hárlaus, mögur kona sem allir fyrirlíta. Gunnar, barnið, er sá fyrsti af fjölskyldunni til að átta sig og hleypur til að koma henni til hjálpar. Þau deila herbergi þar sem hún á erfitt með að sofa ein og á hverjum morgni lætur hún hann mæla hversu mikið hár hennar hefur vaxið um nóttina. Þótt frásögnin dvelji sjaldnast lengi við augnablikin sem mynda ævi Gunnars er landgangi Kirsten frænku þó lýst í smáatriðum og er hann ein eftirminnilegasta mynd bókarinnar. Slík augnablik eru nokkur í frásögninni og hefðu að ósekju mátt vera fleiri því á slíkum stundum rís gáfa höfundarins hvað hæst , þar sem skyndilega er eins og tíminn stöðvist og auga lesandans fær að nema heildarmyndina í öllum sínum dásamlegu, merkingarhlöðnu smáatriðum.

Samband Gunnars við Lúther og Kirsten frænku er ekki reifað í löngu máli en milli línanna má lesa að þessir tveir einstaklingar hafi haft djúp áhrif á barnssálina – þessi tvö veittu barninu athygli og hlýju. Eldmóður og kraftur Lúthers fyrir málstaðnum hafa haft áhrif en ekki síður niðurlæging frænkunnar sem reyndist bæði Gunnari og föður hans svo vel. Ef Gunnar vill standa með þessum tveimur, stendur hann á móti óvinum þeirra. Síðar snýst Lúther hugur og hann reynir einnig að telja skjólstæðingi sínum hughvarf en þá hefur lærlingurinn löngu farið fram úr meistara sínum og Gunnar neitar að hitta Lúther, hann er svikari við málstaðinn.

Að einhverju leyti auðveldar það lesandanum að tengjast Gunnari að hann er látinn, ungur maður, strax á fyrstu síðu bókarinnar. Vegna dauða hans getum við fundið til með honum, jafnvel syrgt hann. Því án þess dauða, sem jafnframt verður ákveðinn dauði skipulagðrar starfsemi nasista hér á landi, væri hættulegra að spyrja að leikslokum. Gunnar og félagar hans eru í síðari hluta bókar komnir með lista yfir gyðinga á Íslandi og þótt þeir hafi enn ekki látið til skara skríða er gömul saga og ný að ef slíkir listar eru á annað borð til er næsta skref að gera eitthvað við þá. En Gunnar deyr, í blóma lífsins, skömmu á eftir föður sínum og við getum syrgt ungan mann um leið og við fögnum því að hann nái ekki að vinna nein níðingsverk. Þannig nær bókin að enda vel og illa á sama tíma. En um leið er hún áminning um að þó að Gunnar Kampen sé skáldsagnapersóna þá á hann fjölda skoðanabræðra og ógnina sem af þeim stafar ber að taka alvarlega.

Sjón hefur áður fjallað um persónur sem hafa trú á yfirburðum norræna kynstofnsins. Hér má nefna Argóarflísina (2005) sem hefst á eftirfarandi orðum: „Ég, Valdimar Haraldsson, var á tuttugasta og sjöunda ári þegar ég hóf útgáfu lítils tímarits um helsta hugðarefni mitt: tengsl fiskneyslu og yfirburða hins norræna kynstofns.“ Þennan þráð má líta á sem tengsl milli annars gjörólíkra verka, sérstaklega í ljósi þess að í Korngult hár, grá augu rekur á fjörur Gunnars gamla árganga af nasistablaðinu Fróni sem gefið var út í Vestmannaeyjum 1937–38 en einn af þeim stóðu á bak við það var (að sögn Gunnars) Friðjón, sonur Valdimars nokkurs Haraldssonar. Þjóðernishyggja er aftur í brennidepli í CoDex 1962-þríleiknum; Í fyrstu bókinni, Augu þín sáu mig (1994), fylgjum við flóttamanninum Leó Löwe sem kemur að gistihúsi í Kükenstadt í neðra Saxlandi. Hann ferðast með lítinn leirklump í hattaöskju og þegar hann kynnist þjónustustúlku á gistihúsinu móta þau úr honum lítinn dreng. Í bók tvö, Með titrandi tár (2001), sem gerist á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar, ferðast Leó til Íslands með leirdrenginn og tekst um síðir að gefa honum líf. Í þriðju bókinni, Ég er sofandi hurð (2016), er Jósef sjálfur, leirdrengurinn, í forgrunni. Hér eru augljós tengsl við golem, goðsögn úr gyðingdómi þar sem mennirnir skapa mannsmynd úr leir og gefa henni líf. En það er varhugavert því eins og allar verur sem maðurinn skapar og reynir að stjórna getur goleminn snúist gegn skapara sínum, orðið skrímsli. Goðsagan boðar hversu háskalegt sé þegar mennirnir taka sér guðlegt vald. Goleminum er gefinn lífsandi með því að rita stafi á enni hans og lífið svo tekið aftur með því að afmá orðin, þannig er það textinn sem gefur lífið. Sjón hefur sjálfur gert goleminn að umtalsefni í skrifum sínum og dregið fram hliðstæður milli skaparans og skáldsagnahöfundarins sem gefur líf með því að rita texta og getur tekið það líf á sama máta.[1] Í CoDex 1962 er leirdrengurinn Jósef mögulega bara venjulegur maður en önnur sköpunarverk mannins eru hins vegar orðin hættuleg. Í Korngult hár, grá augu skapar Sjón veru, gefur henni líf með texta sínum og áður en hún nær að snúast gegn mannkyninu, gegn skapara sínum, tekur hann lífið til baka.

Bæði í Argóarflísinni og Með titrandi tár heldur höfundur ákveðinni írónískri fjarlægð við persónurnar og hugmyndir þeirra en hún er varla til staðar í Korngult hár, grá augu. Þá má einnig segja að það sem skilji á milli feigs og ófeigs í Argóarflísinni og Korngult hár, grá augu sé vitneskjan sem við búum nú yfir um grimmdarverk þriðja ríkisins. Þannig er auðveldara að henda gaman að hugmyndum Valdimars Haraldssonar (þótt glórulausar séu) á meðan hugmyndir Gunnars Kampens hringja öllum viðvörunarbjöllum. Þegar þar er komið í mannkynssögunni má öllum vera ljóst hvert þessar hugmyndir leiða. Í öllum bókunum dregur Sjón hins vegar athygli okkar að því hversu ginkeyptir Íslendingar virðast alltaf hafa verið fyrir kenningum um yfirburði norrænna manna. Hvort sem það er kuldinn, eða nálægðin við sjóinn, óblíða náttúruna eða „hreina“ matvöruna, snýst umræðan um hversu sterk og ómenguð þjóðin og náttúran séu. Þaðan er svo stutt yfir í umræðu um að vernda náttúruna, vernda þjóðararfinn, standa vörð um íslenskan menningararf – og hver getur ekki tekið undir þau sjónarmið? Rétt eins og óravegur virðist á milli myndarinnar af ljóshærða barninu og fangabúða nasista virðist sömuleiðis himinn og haf á milli þjóðernisástar og þjóðernishreinsana. En höfundur sýnir vel að þessar hugmyndir geta verið skuggalega líkar og að gefnar forsendur skipta öllu máli.

Korngult hár, grá augu er söguleg skáldsaga, rétt eins og Argóarflísin og Með titrandi tár og raunar fleiri bækur höfundar. Þær eru þó ekki sögulegar skáldsögur í hefðbundinni merkingu orðanna, ekki af því að þær byggi ekki á traustum grunni nákvæmra heimilda – lesandinn fær ríka tilfinningu fyrir heiminum sem hann er staddur í hverju sinni – heldur vegna þess að frásögnin lýtur eigin lögmáli. Lögmálið er tengdara súrrealískum ljóðum höfundar en raunsæislegum bókmenntaarfi Íslendinga og tengjast helst furðusögum, riddarasögum og goðsögum. Hér má aftur nefna Argóarflísina sem er í raun endursögn á goðsögunni um Jason og Keneif og ekki síður hluta þríleiksins CoDeX 1962. Þær eru harmrænar en þó á köflum leikandi léttar – gjarnan skreyttar litríkum tjöldum hvers tíma og minna stundum á kvikmyndir þær sem drengurinn Máni Steinn hafði svo mikla unun af í annarri sögulegri skáldsögu höfundar, Mánasteini (2013). Þær eiga það líka allar sameiginlegt að vera stuttar, ólíkt þeim doðröntum sem sögulegum skáldsögum hættir til að vera. Engu að síður rúmast þar heill heimur, fullur af andagift og smáatriðum. Korngult hár, grá augu er slík söguleg skáldsaga, en hún er mjög knöpp og á köflum saknaði þessi lesandi litríkra leiktjaldanna sem skreyta hinar skáldsögurnar. Þær voru líka stuttar en flæddu engu að síður yfir bakka sína á meðan Korngult hár, grá augu heldur sig oftar innan kjalar.

Korngult hár, grá augu er þannig knappasta skáldsaga Sjóns en það er ekki bara bókin sjálf sem er knöpp, höfundurinn gefur þar minna upp en í öðrum verkum. Í fyrri hluta bókar, þar sem minningarbrot úr æsku Gunnars koma fyrir, er upplifunin takmörkuð af sjónarhorni barnsins sem ekki skilur til fulls hvað er að gerast. Í síðari hluta bókar víkur frásögnin frá minningum og snýr sér að sendibréfum og skeytum. Þar birtast mörg andlit Gunnars sem skrifar eðlilega öðruvísi bréf til vinkonu sinnar en til móður sinnar, öðruvísi til hátt setts nasista í útlöndum en til litla bróður heima á Íslandi. En hvað er hann raunverulega að hugsa? Hvernig líður honum? Með bréfunum nálgumst við hann og fjarlægjumst á sama tíma, um leið og hann skipuleggur næstu skref fyrir íslenska nasistaflokkinn. Kannski liggur vandi sögunnar þar, hvernig getum við nálgast Gunnar án þess að dæma hann? Hvernig getum við syrgt unga manninn ef við sjáum hvert hugur hans stefnir? Þarna hvílir hið viðkvæma jafnvægi bókarinnar – lesandinn vill meira en þolir það þó varla – kannski getum við ekki fylgt Gunnari Kampen lengra án þess að skrímslavæða hann. Höfundurinn neyðist því til að eyða golemnum áður en hann breytist í skrímsli því það er ekki leirdrengurinn sem ber að varast, heldur þeir sem reyna að eyða honum. Kannski er Sjón, eftir allt, að skrifa goðsögu fyrir okkar tíma.

 

Maríanna Clara Lúthersdóttir

Tilvísanir

[1] Sjón.„Sjón’s top 10 artificial humans in fiction“. The Guardian, 1. ágúst 2018: https://www.theguardian.com/books/2018/aug/01/from-frankenstein-to-pinocchio-top-10-artificial-humans-in-fiction (sótt 29.11.19).