Auður Jónsdóttir. Tilfinningabyltingin.

Mál og menning, 2019.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2020.

 „Allt í einu langaði hana svo að kyssa og vera lifandi eins og sjórinn.“[1]

Hjónabandssögur eru ekki óalgengir merkimiðar á skáldsögum þessa dagana. Það er ekki langt síðan að Dagar höfnunar Elenu Ferrante, Saga af hjónabandi Geirs Gulliksen og jafnvel Århundradets kärlekskrig Ebbu Witt-Brattström, fyrir skandinavískulesandi, kepptust um athygli lesenda – allt bækur sem kryfja hjónabönd sem illa er komið fyrir og skilnaði þegar þeim er ekki lengur hægt að bjarga.

Tilfinningabyltingin

Tilfinningabyltingin eftir Auði Jónsdóttur er skilnaðarbók, rétt eins og ofannefnd verk. Hún fjallar um upplausn hjónabands sögupersónunnar, ónefndrar konu sem nálgast miðjan aldur, og manns hennar til átján ára, og tímann sem á eftir fylgir – þessa rótlausu, ólgandi mánuði eftir að hún klippir á þráðinn sem bindur hana við allt sem hún þekkti áður.

En Tilfinningabyltingin er ekki bara saga um ástarsamband sem illa er fyrir komið. Hún er saga um ást og saga um sambönd; sambönd para, sambönd vinkvenna, sambönd foreldra og barna. Hún er sköpunarsaga konu sem þarf að verða til upp á nýtt – kannski í fyrsta sinn á eigin forsendum – og hún er sköpunarsaga rithöfundarins sem brýst um í leit að rödd sinni.

Skilnaður

Tilfinningabyltingin skiptist í þrjá hluta: Jarðhræringar, Hrafninn og Upprisu. Í fyrsta hluta staðsetur höfundur okkur í ólgunni miðri, hjónabandi sem riðar til falls. Næsti hluti, Hrafninn, er lengstur, en þar breiðir hrafn skáldsins út vængina, bleksvartur í leit að skilningi, skýringum, orðum. Í Upprisu hefur orðið annað rof, þar sem flóðgáttir skynjunarinnar opnast og glittir í nýjan skilning.

Í inngangi höfundar er gerð grein fyrir því að þótt verkið sé skáldsaga sé þar margt fengið að láni úr lífi og reynslu höfundar. „Sannsögu þessa skal lesa með gleraugum skáldskapar,“ segir þar, „því hugurinn er þannig gerður að skálda lífið stöðugt eftir hughrifum og þörfum.“ (5) Auður hefur áður róið á svipuð mið í sínum skrifum, skáldsagan Ósjálfrátt byggðist til dæmis að miklu leyti á reynslu hennar úr öðru ástarsambandi. Þessi leiðbeining gefur tóninn inn í verkið og strax á fyrstu síðunum magnast hann allur upp.

Það er ljóst af fyrstu örfáu köflunum í Tilfinningabyltingunni að Auður ætlar sér inn í kvikuna – bæði ónefndrar söguhetjunnar, ímyndar höfundarins sjálfs, og eiginmannsins. Bæði eru þau rithöfundar og listamenn og hafa lifað bóhemsku lífi síðastliðin ár, sjálfum sér nóg sem eining. En þegar sagan hefst er sambandið orðið þrúgandi og söguhetjan týnd í eigin lífi. Auður magnar upp tilfinningu doða og tómlætis, samhliða ærandi kalli undirmeðvitundar sem veit að ekki er allt með felldu: „… hún hafði enga tilfinningu fyrir tilfinningum sínum lengur. Hún beindi athyglinni stöðugt að syni sínum til að þurfa ekki að hugsa. Eða finna.“ (18)

Spennan ágerist og doðinn innra með söguhetjunni víkur fyrir óþoli sem kallar á breytingar, allt þar til hún tekur það sem lítur kannski út fyrir að vera skyndiákvörðun, en sem lesandi skilur afskaplega vel, og þvertekur fyrir að snúa aftur til skipulagðs lífs hjónanna í Berlín eftir sumarleyfi á Íslandi. Hún vill vera um kyrrt. Og þegar sú ákvörðun er tekin leiðir eitt af öðru, allt þar til hún kyssir annan mann dauðakossi hjónabandsins. Í seinni hluta bókarinnar segist söguhetjan hafa verið á valdi atburðarásar og það er sannarlega þannig sem lesandi upplifir hana – atburðirnir taka af söguhetjunni völdin. Þeir spretta upp úr innri ólgu sem Auður laðar fram af svo mikilli snilld að lesandi er sjálfur orðinn friðlaus við lesturinn: „Henni fannst hún vera andsetin af vilja, hann ólgaði í engu samræmi við það sem hugurinn taldi rökréttast, líkast því að áður ókunnugt afl hefði tekið yfir persónuleika hennar,“ (35) segir á einum stað og skömmu síðar er óþolið orðið líkamlegt: „Hún var stöðugt þreytt; hugsanirnar óþægilega hraðar og líkaminn spenntur eins og þanin stálfjöður. Hún var að kikna undan sjálfri sér.“ (42)

Þegar unnið er úr efniviði raunverulegra atburða, raunverulegum gerðum raunverulegra persóna, getur verið vandasamt að finna hina góðu jöfnu þess að segja nógu mikið, rista nógu djúpt til að persónunum blæði dálítið og þær hreyfi við lesanda; en virða þær og friðhelgi þeirra um leið. Auður fer fimlega um þau landamæri. Þar sem hún rýnir hjónabandið sem fór í vaskinn hlífir hún hvorki sjálfri sér né fyrrverandi eiginmanni sínum. Gremjan og kergjan fær að koma fram í dagsljósið en ekki án þess að aðrar og bjartari myndir séu lagðar á hina vogarskálina. Þegar eiginmaðurinn sýnir það sem orkar á lesanda sem yfirlætislegt áhugaleysi á viðleitni söguhetjunnar til að finna nýjan tón í skrifum sínum er hún fljót að bæta því við að einmitt þetta afdráttarleysi í fari hans, og óþol fyrir því að falla í fjöldann, hafi verið eitt af því sem hún hafi heillast af og elskað öll þessi ár. Tvær hliðar, ósamrýmanlegar undir lokin, en tvær.

Það er ekki erfitt fyrir nokkurn þann lesanda sem gengið hefur í gegnum sambandsslit að þekkja sig og spegla í Tilfinningabyltingunni þar sem hún lýsir sambandi í dauðateygjunum. Sérstaða bókarinnar og styrkur er hins vegar það sem á eftir sambandsslitunum kemur, þegar ákvörðunin er tekin og lífið þrjóskast samt við að halda áfram.

Foreldrar og börn

Auður byggir Tilfinningabyltinguna fínlega og vel. Við fylgjumst með söguhetjunni á einhverju erfiðasta ári lífs hennar, frá því að hún neitar að snúa aftur til síns heima að sumri og þegar upp úr sambandinu slitnar að hausti. Þar og þá hefst aðalvegferð söguhetjunnar, sem þarf og þráir að fóta sig í nýjum veruleika en er um leið ófær um það. Hugurinn of ör, suðið fyrir eyrunum of hátt til þess að hún finni ró eða fótfestu í þessum nýja heimi sem hún þó fór fram á að yrði. Stöðug endurlit til sambandsins sem var fléttast lipurlega inn í textann, jafn lífrænt og þegar manneskja í ástarsorg gerir upp aðdragandann að endinum, ráfar milli ljóspollanna og skuggasundanna í því sem var líf hennar. Öðrum þræði er það málsóknin gegn henni, meiðyrðamál sem úrillur hrossabóndi höfðar eftir að hún birtir reiðipistil um meðferð hans á landinu sem hún ólst upp á – og sem lesendur muna margir hverjir eftir úr raunheimum – sem drífur frásögnina áfram í seinni hlutum bókarinnar.

Kjarni persónugallerís Tilfinningabyltingarinnar er litla fjölskyldan í auga stormsins; kona, eiginmaður, sonur. Það er þar sem höfundur grefur á dýpið eftir svörum. Tilfinningabyltingin er bók um sambönd; fyrst hjónasambandið, en síðar hin samböndin sem móta eða hafa mótað hjónin, bæði tvö.

Greining Auðar á sambandi söguhetjunnar við son sinn og hvernig það hefur haft áhrif á ástarsambandið er óvenjulega nærgöngul og hreinskilin. Eftir veikindi sonarins í frumbernsku verður söguhetjan afar tengd barninu en það eru óttablandin og áhyggjufull tengsl. Hún upplifir veikindi barnsins sem stöðuga og raunverulega ógn og það veldur átökum í hjónasambandinu, en ekki síður innra með henni sjálfri. „Á næturnar lá hún andvaka af streitu við tilhugsunina um allt sem komið gæti fyrir son þeirra, svo tengd honum að hún hætti að finna fyrir sjálfri sér,“ (149) skrifar Auður og orðar sannleikann fyrir marga foreldra, þegar langþráð barn fyllir sjóndeildarhringinn svo að það er auðvelt að missa sjónar á sjálfinu sem var. Á eftir fylgir:

Fyrstu mánuðina tengdist hún syni sínum svo ákaft að veröldin var aðeins þau tvö. Ástin til pabbans beindist að syninum, svo skriðþung að hún átti ekkert aflögu umfram hana. […] Öll þessi hamingja að eignast barn, svo framandi djúp hamingja, samt tókst þeim ekki að finna taktinn sinn aftur. […] Það var rétt sem maðurinn hennar sagði þegar þau skildu. Þegar sonur þeirra fæddist varð rof í sambandinu. Þau urðu aldrei aftur par. (68)

Eftir skilnaðinn fjallar hún áfram um tengsl söguhetjunnar við barnið, með sama ósérhlífna hætti. Örmanían sem færist yfir hana og fær hugsanirnar til að suða í eyrunum truflar líka tengsl hennar við barnið. Hún þolir hvorki að vera frá syni sínum né nálægt honum. „Hún sat þarna, andspænis syni sínum, samt svo fjarri. Hana langaði að segja eitthvað innilegt við hann en allt sem hún sagði var úr plasti,“ (76) skrifar Auður. Og heldur áfram: „Hún bara horfði á hann og fann til samviskubits við að telja mínúturnar þangað til pabbi hans kæmi að sækja hann. Samt myndi hún tærast upp af eirðarleysi um leið og hann færi. Tætandi söknuði eins og hún tilheyrði engum lengur.“ (76)

Eftir að ákvörðunin afdrifaríka er tekin og hjónin skilja að skiptum víkkar og breytist heimur söguhetjunnar, sem árum saman hefur snúist um litlu fjölskylduna, og inn í hann flæða vinkonur. Hún sækir í æskuvini sem „hún hafði vanrækt árum saman, til að muna hver hún hafði eitt sinn verið.“ (111) Vinkonurnar halda innreið sína í söguna – sumar með skúringakúst, móðurlega umhyggju og áhyggjur af kynlífsskorti söguhetjunnar; aðrar með sambærilegar raunir og djúpar vangaveltur um hjónaband og uppeldi. Söguhetjan nýtur stuðnings þeirra og speglar sig einna helst í raunum Bellu, menntaskólavinkonunnar fögru sem einnig þurfti að berjast fyrir tilverurétti sínum sem barn, sem einnig er að ganga í gegnum skilnað, og sem einnig stendur í málaferlum vegna lands sem tilheyrði fjölskyldu hennar. Það er í samtölum við hana, og fleiri vinkonur, sem hismið er skilið frá kjarnanum og söguhetjan leitar lengra aftur í tímann í viðleitni sinni til að skilja sambandið sem dó og konuna sem hún er.

Við erum báðar í baráttu fyrir landi sem tengist uppruna okkar. […] Að berjast fyrir því að fá að viðhalda þessu sem við áttum þó tilfinningalega fallegt án þess að einhver mengaði það, hélt Bella áfram. Það var landið. Fegurðin í æsku okkar, fegurðin sem fékk að vera ósnortin. Þess vegna erum við svo reiðar núna að við endum í réttarsal. Þetta snýst allt um að vernda sjálfið sitt. Varla tilviljun að við stöndum í þessu akkúrat á sama tíma og við erum að skilja við menn sem við höfum verið giftar öll fullorðinsárin. (90)

Hér stígur skáldskapurinn rækilega inn í sannsöguna og vefur saman þræðina í fléttu – landið sem um er deilt er bæði sjálfið og æskan, hið ómengaða. Og það þarf að hverfa aftur til að skilja, bæði sjálfið og landið.

Sköpunarsagan

Þrátt fyrir að Tilfinningabyltingin sé vissulega skilnaðarsaga og sambandssaga er hún enn fremur sköpunarsaga. Hún er saga af konu sem er að verða til, konu sem er að búa sjálfa sig til. Og tjáningarfrelsið, tjáningin og skrifin gegna lykilhlutverki í því ferli. Auður stillir málsókninni, þessari atlögu gegn tjáningarfrelsinu og rétti höfundarins til þess að tjá sitt innra, upp sem líkingu fyrir líðan hennar í hjónabandinu og stöðu hennar í samfélaginu. Söguhetjan er kona sem berst fyrir því að fá að tjá hljóminn sem hún finnur innra með sér, þann sama og rekur hana út í vatn að synda strax á upphafssíðum bókarinnar, hljóminn sem eiginmaður hennar fyrrverandi afgreiðir svo kæruleysislega sem „þetta venjulega íslenska tilfinningaklám“ (25) í upphafi bókar.

Auður grefur djúpt í leit að þessum hljómi, í viðleitni til að skilja af hverju konan hagaði sér eins og hún gerði, og hún finnur skýringarnar – sumar langt aftur í æsku hjónanna beggja. Síðustu árin, skrifar hún, höfðu þau „líkast til bæði þjáðst af einhverju sem mætti kalla nándarkulnun.“ (147) Í framhaldi af því leitast hún við að skilja stúlkuna sig, þá sem ólst upp á heimili þar sem hversdagurinn gat sprungið í loft upp fyrirvaralaust, og áttar sig á því að það er þar sem óttinn á upptök sín. „Eitthvað gerist. Eitthvað sem sprengir hjartað og dælir sprengjuflísum inn í blóðrásina. […] Þannig hafði það alltaf verið. Hluti af hversdeginum að deyja innra með sér í ofsahræðslu.“ (119) Þennan ótta, þessa hvössu barnæsku, áttu hjónin sameiginlegan og það er kannski hann sem stýrir viðbrögðum þeirra og hegðun síðustu mánuði eða ár sambandsins, þegar ástin þeirra á milli er orðin jafn erfið og sár og sú sem þau þekktu í æsku. Í lokahluta bókarinnar, Upprisu, leiðir Auður saman unglingsstúlkuna sem var hún við drenginn sem eiginmaður hennar fyrrverandi var, í áhrifamiklum kafla þar sem sáttin, þakklætið, skilningurinn og auðmýktin gagnvart lífinu lýsir í gegn.

Rannsóknir Auðar á samböndum ná hámarki í skoðun hennar á sjálfri sér, konunni sem var, konunni sem spratt upp úr unglingsstúlkunni með úfna hárið sem stígur inn í frásögnina í seinni hluta hennar. Þar er hún komin, óöryggið holdi klætt, og krefst þess að á hana sé hlustað, að hún fái að tjá sig. Hún þarf að fá að skapa til þess að losa sig við skömmina, á kunnuglegan hátt eftir tjáningarbyltingar síðustu ára. Og það er unglingsstúlkan úfna sem fær að setjast við tölvuna í því sambandi bókarinnar sem kemur hvað merkilegast fyrir sjónir lesanda – þegar söguhetjan hefur bréfaskriftir til manns sem hún hefur nýstofnað til kunningsskapar við, fjármálastjörnu úr næturlífi Reykjavíkur, manns sem gæti ekki verið fjær reynsluheimi hennar. Það er þar sem hún finnur fróun og útrás fyrir skrifin sem þurfa að eiga sér stað til að hún megi umskapast. „… í skrifum til pennavinarins hugsaði hún ekki um neitt nema tjáningu sjálfsins í augnablikinu. Henni lá á að skrifa til að skilja.“ (206) Það er í bréfunum til hans sem sjálfið er flysjað og krufið og þegar kvíðakastið hellist yfir, eftir langan vetur af örmaníu, er það hann sem sefar og róar, með orðsendingu beint af landsfundi kapítalista. Úfna unglingsstúlkan sér til þess að orðin sem rata til pennavinarins séu beint innan úr kjarnanum, ólgandi og logandi af skömm. „Og ég verð að fá að senda þetta því þú skilur ekki hvað þú vilt segja sjálfri þér nema feykja því út í veruleikann. Þú verður sjálf lifandi dáin ef ég skrifa þetta ekki,“ (237) segir unglingurinn úfni við framtíðarsjálf sitt.

Tilfinningabyltingin er sköpunarsaga og það eru skrifin sem skapa. Skrifin sem vísa leið út úr myrkrinu og óvissunni, tjáningin sem á rétt á sér og sem felur í sér svarið.

Hinn fagri sársauki

Tilfinningabyltingin er allt í senn grípandi, sár og bráðfyndinn lestur. Auður hefur einstakan hæfileika til þess að raða saman sögu sem þrátt fyrir að söguhetja segi sjálf að hafi verið tilviljanakennd atburðarás flýtur fallega og lífrænt áfram. Hún sáldrar léttleika og fyndni yfir bókina í kostulegum samræðum vinkvennanna, vandræðaganginum á miðaldra fólki sem skyndilega er hent út í heim stefnumótaforrita á netinu og kvíðafullu samtali við kvensjúkdómalækni eftir miður ábyrga kynhegðun. Bókin er rannsókn á samböndum, á áföllum og afleiðingum þeirra, á tengslum og nánd. Hún er laus við ásakanir en í staðinn gyllt djúpum mannskilningi og virðingu.

Tilfinningabyltingin er ekki bara bók fyrir alla sem hafa gengið í gegnum skilnað, hún er bók fyrir alla sem hafa verið í sambandi, þá sem hafa þurft að kafa á dýpið til að skilja sjálfa sig, sem hafa unnið úr áföllum, þá sem hafa átt börn eða verið börn. Bók sem lesin er fyrst í einum rykk og svo aftur. Hún er afar persónuleg og rétt eins og bestu bækurnar sem það eru á hún erindi við alla. Tilfinningabyltingin stendur fyllilega fyrir sínu í flokki sambands- eða skilnaðarbókmennta; bersögul, rýnin en alltaf hlý.

 

Sunna Dís Másdóttir

 

Tilvísanir

[1] Tilfinningabyltingin, s. 34, hér eftir er vísað til blaðsíðutals innan sviga.