Kristín Guðnadóttir. Svavar Guðnason.
Veröld, 2009, 355 bls.
Gunnar J. Árnason. Kristinn E. Hrafnsson.
Crymogea, 2009.
Guðbjörg Kristjánsdóttir ritstj. Gerður: meistari glers og málma.
Listasafn Kópavogs, 2010.
Þorsteinn Jónsson, ritstj. Páll á Húsafelli.
Reykjavík Art Gallery. 2009.
Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2010.
Svo lengi sem ég man eftir mér hefur útgáfa á bókum um myndlist og myndlistarmenn verið einn helsti Akkilesarhæll íslenskrar bókaútgáfu. Ekki vegna þess að íslenskir forleggjarar hafi verið áhugalausir um slíkar bækur; þvert á móti hafa þeir haft frumkvæði að útgáfu þeirra meðan stjórnvöld, sem í reynd bera ábyrgð á sjónmennt landsmanna, hafa dregið lappirnar. Ég minni á bók um íslenska myndlist sem Kristján Friðriksson gaf út í síðara stríði, brautryðjendaverk þeirra Ragnars í Smára og Björns Th. Björnssonar, íslensku myndlistarsöguna, myndlistarbækurnar sem Iceland Review útgáfan sendi frá sér á níunda áratugnum og svo útgáfu Sverris Kristinssonar og Listasafns ASÍ á listaverkabókum sem stóð yfir á árunum 1982–87. Hins vegar vita allir sem komið hafa nálægt bókaútgáfu að á Íslandi er nánast ógjörningur að græða á bókum um myndlist sem gerðar eru af sæmilegum metnaði. Framleiðslukostnaður þeirra, og þá aðallega ljósmyndun, myndvinnsla, útlitshönnun og prentun, er umtalsvert hærri en annarra bóka, og eru laun textahöfunda einungis um 10% af þeim kostnaði. Eins og í öðrum löndum er markaður fyrir vandaðar myndlistarbækur sömuleiðis takmarkaður, íslenskt upplag er í mesta lagi 1000 eintök, sem þýðir auðvitað að forleggjarinn getur þurft að selja eintakið á allt að því 20.000 krónur til að koma út á sléttu. Nema hægt sé að véla fyrirtæki eða opinbera sjóði til samstarfs.
Því eru bækur eins og stóra Kjarvalsbókin, sem örforlagið Nesútgáfan gaf út fyrir fimm árum, meiri háttar afrek út frá fjáröflunarsjónarmiðum, burtséð frá öllum öðrum kostum hennar, þar sem tókst að fá hátt á þriðja tug svokallaðra „fjársterkra aðila“, allt frá ríkisstjórn Íslands til umsvifamikilla heildsala, til að leggja henni til styrki. Aðilar á borð við banka, verðbréfasjóði, tryggingasjóði og kreditkortafyrirtæki, komu raunar að útgáfu flestra þeirra myndlistarbóka sem gefnar voru út í góðærinu, til dæmis var Kaupþing bakhjarl stórrar bókar um Kristján Davíðsson, sem kom út árið 2007. Í katastrófunni miðri varð fleirum en mér eflaust hugsað til þess hvaða áhrif hún mundi hafa á þessa og viðlíka útgáfustarfsemi.
Skemmst er frá því að segja að í bráð virðist hún ekki hafa haft nein áhrif á útgáfu myndlistarbóka, hvað sem síðar verður. Þvert á móti: árið 2009–10 hafa komið út fleiri og fjölbreyttari bækur um íslenska myndlist og hönnun en á nokkru öðru tímabili sem ég man eftir, yfirlitsbækur um staka listamenn, sýnisbækur um einstök tímabil í íslenskri myndlist og hönnun og upplýsingarit „utan flokka“ eins og afmælisbókin um Nýlistasafnið. Þegar grennslast er fyrir um fjárhagslega bakhjarla þessara bóka kemur í ljós að áðurnefndir „fjársterkir aðilar“ eru víðs fjarri, en í staðinn eru komnir til sögunnar sjóðir í vörslu einkaaðila, félaga eða bæjarfélaga, nýstofnaðir sjóðir í forsjá þriggja ráðuneyta, og það sem er nýtt í stöðunni, verulegt fjárframlag frá þeim myndlistarmönnum sem fjallað er um eða ættingjum þeirra. Nýlegar bækur um Elías B. Halldórsson, Ásgerði Búadóttur og Svavar Guðnason hefðu trauðlega komið fyrir almenningssjónir nema fyrir slík framlög, og fyrirhuguð bók um Hafstein Austmann er sömuleiðis kostuð að mestu leyti af listamanninum sjálfum. Ég veit að ýmsum myndlistarmönnum geðjast ekki allskostar að þessari nýjung; telja að þeim beri ekki að standa undir umfjöllunum um sjálfa sig, sem má til sanns vegar færa. En þetta er raunar alsiða úti í heimi; þegar ég kom fyrst að útgáfu bókar um Erró man ég gjörla að listamaðurinn varð yfir sig undrandi þegar hann komst að því að ekki var ætlast til þess að hann legði fé til útgáfunnar. Ekki síst vegna þess að hann taldi sjálfan sig hafa mestan hag af henni í bráð og lengd.
Af Hafnarljóninu
Veglegust myndlistarbóka á síðasta ári, bókin um Svavar Guðnason, er þannig til komin fyrir forsjálni ekkju Svavars, Ástu Eiríksdóttur, og ráðgjafa hennar, sem settu hluta af erfðafé listamannsins í sjóð sem ætlað var að standa undir útgáfu á veglegri úttekt á myndlist hans. Og þá var enginn betur til þess fallinn að semja þá úttekt en Kristín G. Guðnadóttir, sem þá hafði nýlega lokið við tímamótaverk sitt um Kjarval, sem áður er nefnt. Sennilega hefur ekki verið nógsamlega fjallað um sérstöðu Svavars í íslenskri myndlist. Hann er sá eini hinna stóru frumherja íslenskrar nútímalistar sem hófst upp af sjálfum sér, án teljandi viðkomu í listaskólum. Dvöl Svavars í Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn varð einungis nokkrir mánuðir og hjá Léger í París var hann nánast í mýflugumynd. Og talaði raunar fremur háðslega um allar tilraunir listaskóla til að kenna mönnum að búa til myndlist; það yrðu þeir að kenna sér upp á eigin spýtur. Síðan þróast myndlist Svavars á allt aðra lund en íslenskra samtímamanna hans, jafnvel þótt hann bergði af sama brunni og þeir, af landslagi Ásgríms, evrópskum expressjónisma og síðan af súrrealismanum, eins og hann birtist í verkum Klees, Mirós og Picassos. Að ógleymdum Léger, sem er eitt fyrsta stopp hans á hinni módernísku vegferð, sjá verkin frá 1938–39. Að hluta til má skýra sérstöðu Svavars með langdvölum hans í Danmörku og samneyti hans við Helhesten-gengið. En þá rekur maður sig á skoðanir danskra félaga hans, sem töldu Íslendinginn líka sér á parti í þeirra selskap.
Einhvern tímann reyndi ég að koma orðum að þessari sérstöðu Svavars, bæði í íslensku og dönsku samhengi, og þóttist þá geta merkt að hún fælist aðallega í afstöðu hans til litanna. Það er að segja, að Svavar, ólíkt nánast öllum samherjum sínum, taldi að með litum, einum og sér, mætti segja allt sem segja þyrfti í myndlist. Af því leiðir ekki að listsýn hans hafi verið algjörlega huglæg – abstrakt. Í rauninni eru fáir íslenskir listmálarar eins hlutbundnir og Svavar, því í langflestum málverkum hans djarfar fyrir einhvers konar landslagi, himinhnöttum, dýralífi, húsum, bátum eða dulkóðuðu mannlífi; áhorfandinn þarf einungis að gefa sér góðan tíma til gaumgæfa það sem hann sér. Ég á fyrst og fremst við það að viðhorf Svavars til myndefnisins og áhrifamáttur myndanna í heild sinni birtast ekki í mótífinu eða strúktúrnum, heldur í litunum: hvellum andstæðulitum, samspili margra heitra lita, mótun þessara lita með penslum eða spöðum og mismunandi áferð þeirra. Kannski er það vegna þess hve liturinn skiptir Svavar miklu máli sem honum reynist svo létt að breyta um byggingastíl, ef svo má segja, sjá til dæmis svokallað strangflatatímabil hans á sjötta áratugnum sem margir hafa velt vöngum yfir. Fram til þess síðasta var litasýn Svavars svo þróuð, að hann þurfti ekki annað en slengja saman tveimur alls óskyldum litum á hvíta örk til að skapa myndir sem hreyfa við okkur. Síðan má endalaust velta fyrir sér – og ómaksins vert að gera það – hvaðan Svavari kemur þessi litasýn. Kannski ofan úr jöklum?
Hinn andstyggilegi snákur
Ég hefði gjarnan viljað sjá Kristínu brjóta til mergjar þessi og önnur álitamál sem tengjast Svavari, að brjóta upp krónólógískan frásagnarmáta bókar sinnar með sneiðmyndum af eðli línudans listamannsins á mörkum hins hlutlæga og huglæga, svo eitt dæmi sé nefnt. Og hvað með áhrif Légers, eru þau ekki öllu meiri á Svavar, a.m.k. í upphafi ferils hans, en menn hafa talið? Meint „trúskipti“ Svavars, það er skyndileg stefnubreyting í geómetríska átt árið 1952, kalla líka á ítarlega umfjöllun, svo mjög sem geómetrían var á skjön við allt sem Svavar hafði gert fram að því. Svo mætti draga saman samskipti Svavars við COBRA-hópinn („þann andstyggilega snák“, eins og hann kallaði hann í grein); var hann nokkurn tímann þátttakandi í honum af fúsum vilja, eins sífellt er hamrað á í öllum skrifum um listamanninn, eða taldi hann fyrirbærið sér óviðkomandi? Við því hefur Kristín ekki afdráttarlaust svar. Á móti kemur að hún heldur býsna vel á spöðunum þegar kemur að því að koma orðum að framvindunni á margbrotnum ferli Svavars og heldur þá flestum samskiptum og atburðum til haga sem máli skipta; við þekkjum þessa elju hennar af Kjarvalsbókinni. Og dregur þá margt nýtt og skemmtilegt fram, til dæmis úr bréfum Svavars, en eins og margir vita var tungutak hans kjarnmikið upp á skaftfellskan máta – jafnvel á dönsku.
Sitthvað er samt í hlutlausri frásögn Kristínar sem kallar á frekari útlistun. Á bls. 51 nefnir hún að í myndum frá fyrstu mánuðum Svavars í Kaupmnnahöfn (1935) sé að finna áhrif frá þýskum expressjónisma. Hvar getur hann hafa komist í tæri við þann isma? Er ekki líklegra að hann hafi séð enduróman þýska expressjónismans í verkum norrænu módernistanna, Jais Nielsen, Axels Revold, Williams Scharff eða Edwards Weie? Kristín nefnir einnig yfirlýstan áhuga Svavars á Picasso (bls. 66) og setur á langa tölu um Guernicu þess síðarnefnda, en klykkir samt út með að segja að engra áhrifa frá Guernicu gæti í verkum Svavars. Þetta kallar á frekari skýringar. Loks hefði mátt segja ívið meira frá viðbrögðum við verkum Svavars utan Norðurlanda, þar sem þau eru fremur einsleit, en sem kunnugt er voru verkin sýnd út um alla Evrópu og jafnvel í Suður-Ameríku. Örfáar staðreyndavillur hafa læðst inn í texta. Blað Jónasar frá Hriflu, Landvörn, var fyrst gefið út árið 1946 (bls. 163). Alþjóðlegar samsýningar abstraktlistamanna í París hétu Salon des Réalités Nouvelles (bls. 185) og franski listmálarinn nefndist Deyrolle (bls. 204 og 209).
Ekkert skortir á myndskreytingu þessarar glæsilegu bókar, og vantar þar tæplega nokkurt verk sem máli skiptir. Eitt verð ég þó að nefna í lokin. Í bók um litafansara á borð við Svavar leyfist lesanda að gera meira en venjulegar kröfur til litprentunar. Og það verður að segjast eins og er að hér er hún undarlega gloppótt. Sums staðar (bls. 40) eru verkin ekki svipur hjá sjón, annars staðar eru verulegir ágallar á henni, sjá lykilverkið Veðrið frá 1963 (bls. 256–7). Þótt þetta eigi ekki við bókinna í heild sinni, stingur misgengi litanna helst til oft í augu. Allt um það er hér komið ritverk sem kemur til með að hafa veruleg áhrif á rannsóknir í íslenskri myndlistarsögu.
Hvar eru ræturnar?
Bókin um Kristin E. Hrafnsson er myndlistarrit af allt öðru sauðahúsi. Hér er á ferðinni bók númer tvö í ritröð sem Listasjóður Dungals kostar, en forlagið Crymogea gefur út; sú fyrri fjallaði um Guðrúnu Einarsdóttur og sú næsta mun taka fyrir verk Guðjóns B. Ketilssonar. Listfrömuðurinn Gunnar Dungal velur listamennina, en umfjöllunin er fyrst og fremst í formi ljósmynda sem umlykja greinarstúf eða esseyju eftir sérvalinn höfund. Greining Gunnars J. Árnasonar er vissulega bæði læsileg og skynsamleg, en hún segir hinum almenna lesanda nánast ekki neitt um listrænar rætur Kristins E. Hrafnssonar, hvernig hann ánetjaðist myndlistinni, hvað hann hafði upp úr námi sínu í Þýskalandi (nema kynni af heimspeki Heideggers), hvernig SÚM-listamenn á borð við Jón Gunnar, Kristján og Sigurð Guðmundssyni plús Hrein Friðfinnsson höfðu áhrif á hann, og hvernig háttað er listrænu sambandi hans og textagerðarmannsins Lawrence Wieners. Það er svo í stíl við þessa upplýsingatregðu að allt sem maður vill vita um myndverkin er að finna aftast í bókinni, svo lesandinn þarf sífellt að vera að rekja sig fram og til baka. Því verður tæplega á móti mælt að þessar annars ásjálegu kiljur eiga meira skylt við sýningarskrár fyrir innvígða en klassísk fræðirit um listamenn, svokallaðar mónógrafíur.
Greinasafn um Gerði
Eins og alþjóð er kunnugt heldur Listasafn Kópavogs utan um listræna arfleifð Gerðar Helgadóttur og hefur sinnt henni af myndarskap á undanförnum árum með reglulegum sýningum af þematískum toga, útgáfu rita um verk listakonunnar og alþjóðlegu málþingi, svo fátt eitt sé nefnt. Nú hefur safnið sent frá sér ritgerðasafn í stóru og veglegu broti, þar sem fræðimenn og listamenn fjalla um afmarkaða þætti í listsköpun Gerðar. Þar er sérstakur fengur að aðkomu erlendra fræðimanna á borð við Françoise Perrot og Caroline Swash, sem hafa upp á aðra sýn og þekkingu að bjóða en íslenskir kollegar þeirra. Hér fjallar Ásdís Ólafsdóttir einnig um rýmishugsun Gerðar, áðurnefnd Perrot um dvöl listakonunnar á þekktu glerverkstæði í París, Swash um steint gler hennar og þær Guðbjörg Kristjánsdóttir og Elísa Björg Þorsteinsdóttir um merkingu Skálholtsglugganna frægu. Síðan er í bókinni dáldið öðruvísi umfjöllun gagnrýnandans og myndlistarmannsins JBK Ransú um guðspekinginn Gurdijeff og Gerði. Elín Pálmadóttir rekur lestina með samantekt um vinskap þeirra Gerðar. Þessum ritgerðum á tveimur og þremur tungumálum fylgja stórar og frábærlega vel prentaðar myndir af verkum Gerðar frá öllum tímaskeiðum í list hennar.
Því miður eru ritgerðasöfn um staka myndlistarmenn fáséð á Íslandi; í svipinn man ég einungis eftir litlu greinasafni sem gefið var út af Listasafni Reykjavíkur í tilefni af aldarminningu Kjarvals 1985 og bókinni Hugarorka og sólstafir sem Listasafn Íslands gaf út vegna yfirlitssýningar á verkum Jóns Gunnars Árnasonar 1994. Greinarnar um Gerði innihalda misjafnlega mikið nýnæmi; umræðan um rýmisskynjun listakonunnar er að sönnu kunnugleg, en Ásdís bætir heilmiklu við hana af heimildum. Mest af óþekktu efni er að finna í greinunum um steint gler Gerðar, bæði tæknilega hlið þess sem stílþróun í verkunum. Og Ransú fer býsna langt með að sannfæra lesandann um að kenningar Gurdijeffs hafi skipt listakonuna máli. Alltént vitum við að Gerður hafði brennandi áhuga á andlegum málefnum. Ef finna má að einhverju, þá er það helst sú tilhneiging höfunda að fjalla um Gerði í eins konar listrænu tómarúmi, þ.e. án vísunar til skyldra verka eftir íslenska samtímamenn hennar. Mér sýnist engum vafa undirorpið að Gerður hafi verið fyrst íslenskra myndlistarmanna til að sjóða saman abstrakt járnmyndir, en í hverju voru myndir hennar frábrugðnar járnmyndunum sem Ásmundar og Sigurjón Ólafsson gerðu síðar? Og hver var eðlismunur á steindum glermyndum keppinautanna Gerðar og Nínu Tryggvadóttur? Kannski verður þessum spurningum velt upp í næsta ritgerðasafni Gerðarsafns.
Lífsfjörið á bók
Vart er hægt að hugsa sér ólíkari bækur um starfandi myndlistarmenn (og um leið ólíkari listamenn) en bókina um Kristin E. Hrafnsson hér á undan, og bókina um Pál frá Húsafelli sem góðvinur hans Þorsteinn Jónsson tók saman fyrir skömmu í tilefni af fimmtugsafmæli hins frjóa og elskulega náttúrubarns. Sú fyrri er smart, stílhrein og knöpp, sú síðarnefnda er óreiðan uppmáluð, svo uppfull með myndefni, textabrot og útlitslega skavanka að það hálfa væri nóg. Að fletta henni er eins og að blaða í óskipulegri úrklippumöppu listamannsins, þar sem ægir saman gömlum heimildaljósmyndum, ljósmyndum af verkum hans frá fyrstu tíð, höggmyndum, olíumálverkum, vatnslitamyndum, þrykkimyndum og svo auðvitað steinhörpunum, – ekki endilega í tímaröð – ljósritum úr þjóðsögum Jóns Árnasonar, heimildum um Húsafell og nágrenni, umsögnum um sýningar Páls, innskotum um mannlíf og jarðfræði í Borgarfirði og svo auðvitað alls konar textum eftir hinn síunga fóstbróður listamannsins, Thor Vilhjálmsson og rissi sem tengist samvinnu þeirra. Og er þá ekki allt upp talið í því gnægtahorni sem bókin er.
Vissulega hefði ég viljað sjá annars konar bók um verk Páls, bók í stærra broti, með öðruvísi ljósmyndum og fallegra útliti. Samt er eitthvað heimilislegt og einlægt, já beinlínis aðlaðandi, við bók Þorsteins, því með einhverjum undarlegum hætti endurspeglar hún bæði nánasta umhverfi og ríkulegt hugarflug listamannsins, svo ekki sé minnst á óstýrilæti hans og lífsfjör. Ekkert af þessu verður með góðu móti fest á „venjulega“ myndlistarbók.