Kristín Svava Tómasdóttir. Stund klámsins – Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar.

Sögufélag, 2018. 342 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2019

Lengst af var klám ekki vandamál á Íslandi, það var á sínum stað í þjóðlífinu og urðu fáir til að amast við því. Menn klæmdust af og til þegar félagsskapurinn bauð upp á það, og þegar þeir voru eilítið við skál höfðu þeir kannski yfir klámvísur sem voru óaðskiljanlegur hluti af bókmenntaarfinum:

Vísi – trauðla fikast – fingur
ég flatur ligg í sárri pín.
En titt – mér rís í loft upp – lingur,
um leið og hugsa ég til þín.

Ef svo ólíklega skyldi vilja til að einhver færi að fetta fingur út í þetta, gátu hinir skriftlærðu vísað til þess að Jómsvíkingar hlógu og kváðu klámvísur þegar þeir voru höggnir. Þar var fengin óvefengjanleg réttlæting. Og súptu á aftur séra minn.

Stund klámsins – Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnarEn svo gerðist það skömmu eftir miðja síðustu öld að klám komst skyndilega á dagskrá með brauki og bramli, það varð tilefni mikilla deilna í þjóðlífinu, og yfirvöld létu það til sín taka. Um þetta merka en þó stutta augnablik Íslandssögunnar fjallar nú Kristín Svava Tómasdóttir í bók sinni Stund klámsins, klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar. Tekur hún málið fyrir af fagmennsku og frá margvíslegum hliðum í senn, aðalpersónurnar eru kynntar til leiks og dramanu lýst. Þetta er reyndar gott dæmi um það hvernig sagnfræðin er sífellt að víkka sitt sjónarsvið, fróðleiksfúsum lesendum til uppfræðslu. Bókin er ítarleg og vel gerð, í rauninni hef ég aðeins eitt út á hana að setja, og það er að höfundi skuli lást að segja frá því skoplega atviki þegar málarinn alkunni, Stefán frá Möðrudal, hélt sýningu á Lækjartorgi og sýndi þá málverkið „Vorleik“ af graðfola og meri að verki úti í guðs grænni náttúrunni, en lögreglan mætti snarlega á vettvang og handtók uppmáluð hrossin fyrir klám. Óþarfi að taka fram að þessi röggsemi laganna varða vakti ískrandi hlátur um allan bæ, og stuðlaði kannski að því að Stefán var tekinn í meistara tölu, í flokki með avantgardistum. „Vorleikur“ er eftirleiðis þekkt í myndlistarsögunni undir nafninu „Málverkið sem lögreglustjóri vildi skoða í einrúmi“.

Þetta gefur nú tilefni til margvíslegra hugleiðinga, og fyrst þeirra er: hvað er í rauninni „klám“? Er hægt að bendla blessaðar skepnurnar við slíkt? Besta skilgreiningin sem nokkurn tíma hefur verið sett fram á nokkru tungumáli, og bókarhöfundur tekur skilvíslega upp, er úrskurður Lagadeildar Háskóla Íslands: „Klám er bæði loðið og teygjanlegt“, og við hann er engu að bæta, en það þyrfti Mörð gígju endurborinn til að útleggja þessa júridísku formúlu. En í framhaldi af henni kviknar önnur spurning sem er auðveldari og ætti að geta varpað nokkru ljósi á málið: hvaða hlutverki gegnir klám í hinum ýmsu þjóðfélögum? Til hvers semja menn og lesa – eða skoða – klám? Ekki nægir að líta eingöngu á kitlandann einan og sér, sitthvað fleira kemur við sögu.

Ein hliðin er sú að ýmis bersöglimál, meira eða minna gróf, geta verið þáttur í píkareskum bókmenntum sem segja frá því að einhver grallari flakkar um, kannski í einhverju sérstöku erindi, einhverri leit, og lendir þá í hinum fjölbreyttustu ævintýrum, sumum þeirra blautlegum. Elsta dæmi um slíkt er sennilega latneska skáldsagan Gullni asninn eftir Apúlejus, þar sem aðalpersónan breytist í asna fyrir handvömm ungrar og klaufskrar galdrakonu (sem hann hefur áður legið), leitar að því að losna úr þessum hamskiptum og lendir á leiðinni í sínu asnagervi á konu með sérsmekk. Glæsilegt framlag Íslendinga til slíkra bókmennta er tvímælalaust Bósa saga ok Herrauðs. Þetta eru oftast hreinar skemmtisögur, en þó stundum með einhverjum boðskap í og með – söguhetja Apúlejusar losnar t.d. úr asnagervinu fyrir miskunn gyðjunnar Ísisar og verður eftir það tryggur þjónn hennar.

Svo má ekki gleyma því að skrifaðir hafa verið á ýmsum stöðum og tímum margvíslegir leiðarvísar eða handbækur um hvílubrögð, svo sem Orðræður Gula keisarans og Einlægu stúlkunnar (með mörgum myndum), Kama sútra, Garðurinn ilmandi, og Sonnetti lussuriosi eftir ítalska endurreisnarskáldið Pietro Aretino sem ortar voru út frá tréristum af hinum ýmsu stellingum. Óvíst er hvort flokka megi þessar ritsmíðar beinlínis undir klám, enda lásu menn þær af vísindalegri nákvæmni, og orðið klám er síst af öllu hægt að viðhafa um verk meistara Óvíðs Listin að elska, en inn í þær er þó stundum skotið dæmisögum sem myndu sóma sér vel í píkareskum bókmenntum. Í Garðinum ilmandi endar hver slík saga á orðunum: „Þetta sýnir þér hverju konur geta tekið upp á.“

En stundum gegnir klám einhverju sérstöku hlutverki í ákveðnu þjóðfélagi. Það gerðist á Vesturlöndum og á sér langar rætur sem verður að rekja allt aftur til biskupsins af Hippo í núverandi Alsír. Fram á hans daga vissu kristnir guðfræðingar ekki vel hvað þeir ættu að gera við söguna af Adam og Evu og höggorminum í Paradís, margir vildu helst afgreiða hana með því að hún væri táknræn og sópa henni svo undir teppið. En Árelíus Ágústínus var á öndverðum meið, hann leit svo á að hún væri bókstaflega sönn, frásögn af hinum skelfilegasta atburði og lagði í hana kynferðislega merkingu; í þeirri mynd varð hún eitt meginatriðið í guðfræði hans. Því til skýringar benti hann mönnum á að þeim væri t.d. í sjálfsvald sett hvort þeir lyftu upp öðrum handleggnum eða kannski báðum, þessir útlimir væru í einu og öllu háðir viljanum. En allt öðru máli gegndi hins vegar um besefann, lyfting hans væri alveg í blóra við frjálsan vilja, og hlýddi engum skipunum né heldur mótmælum Hún var nefnilega, sagði biskup, afleiðing syndafallsins í aldingarðinum Eden, og því var príapismi – semsé standpína – táknið um uppreisn mannsins gegn sjálfum guði. Af því leiddi að kynhvötin var Erfðasyndin sjálf, sú sem hvíldi á mannkyni öllu æ síðan og dæmdi hvern og einn í bálið nema hann tæki sinnaskiptum og iðraðist. Ekki voru allir sammála biskupi, einkum hafði munkurinn Pelagius mun bjartari sýn á mannlífið, en Ágústínus sigraði í einu og öllu, það var hans guðfræði sem varð rétttrúnaðurinn í kaþólskri kirkju, hann varð sjálfur kirkjufaðir og dýrlingur kaþólskrar kirkju, en Pelagius varð að hrökklast í útlegð. Eftirleiðis var syndarhugtakið því tengt kynlífi órjúfandi böndum. Þetta hafa sumir litið á sem reginmistök, nær hefði verið að tengja það við valdafíkn, græðgi og sjálfsupphafningu, en það er önnur saga. Þessi kynferðismeinloka kirkjunnar hefur sett sinn svip á kaþólskt þjóðfélag æ síðan. Þegar ég kom fyrst til Frakklands tók ég eftir því að á kirkjudyr voru hengdar ráðleggingar um það hvaða kvikmyndir menn mættu horfa á án þess að stofna sálinni í voða, og þær snerust eingöngu um kynferðismál, mestu ofbeldismyndir voru “fyrir alla fjölskylduna”, en ef einhvers staðar sást í nakið kvenmannshold var sú mynd dæmd eyðileggjandi fyrir trúna og stranglega bönnuð. Vinir mínir sem voru við nám í Þýskalandi höfðu sömu sögu að segja þaðan, og kannast menn vafalaust við samskonar fyrirbæri úr hinni frægu kvikmynd Cinema Paradiso. Í þessum skrifuðum orðum er kaþólsk kirkja að fá aftur í hausinn með nokkrum hvelli afleiðingarnar af þessum sextán alda gömlu kennisetningum, eins og ástralskt bjúgskeyti.

Í kaþólsku þjóðfélagi er því engin furða að klám skuli fá alveg sérstakt hlutverk, það verður að uppreisn gegn þessu siðferði, gegn þessari sífelldu bælingu á eðlilegustu hvötum mannlífsins. Þetta kemur fram á skoplegan hátt í sögu Boccacios um manninn sem læst vera mállaus og fær á þeim forsendum starf við garðyrkju í nunnuklaustri, því systurnar eru vissar um að hann geti ekki „sagt frá“. Ekki þarf að tíunda það að hann liggur þær allar með tölu, og ræða nunnurnar sín á milli um þessa nýju reynslu. En sagan sjálf er í rauninni miklu eldri, hún kemur fram, ekki laus við karlagrobb, í kvæði fyrsta trúbadúrsins, Vilhjálms af Peituborg, í lok elleftu aldar.

Þetta er vitanlega skopsaga með broddi, en dæmi um beina gagnrýni er hin víðfræga franska skáldsaga frá 18. öld, Thérèse philosophe, sem réttast er að þýða „Teresa gerist heimspekingur“. Þar er lýst ástafari í beinni andstöðu við siðferði kirkjunnar, en um það bil helmingur sögunnar er hins vegar samræður um trúarbrögð, heimspeki og siðfræði – klám og heimspeki skiptast á nokkurn veginn jöfnum höndum – þar sem kenningar kirkjunnar eru fordæmdar án miskunnar. Eitt hámark sögunnar er þegar lostafullur prestur liggur fáfróða nunnu og telur henni trú um að afmorsbrögðin séu þáttur af meinlætunum sem henni sé skylt að gangast undir og fyðillinn sé „reipi heilags Frans“ (sérann viðhefur bolabítsaðferðina, nunnan sér hann ekki). En lesandinn hefur litla samúð með nunnunni fávísu, hún er nefnilega óð og uppvæg í að leggja á sig meinlætalifnað af hvaða tagi sem er til að verða sem fyrst heilög mær og geta framið kraftaverk, kannski til að gera stöllurnar gapandi hlessa. Hún á því þessi bellibrögð skilið. Í sögulok er að finna þessi orð Teresu: „Allt er sköpunarverk guðs. Það er frá honum sem við höfum þörfina fyrir að borða, drekka og njóta ásta. Hvers vegna eigum við að roðna fyrir að framkvæma ætlan hans?“

En á svipuðum tíma og þessi saga var rituð urðu undarleg umskipti í því sem venjulega er kallað „klám“, og það voru ritsmíðar Sade markgreifa, með nákvæmum lýsingum á pyndingum og morðum, svo og yfirgengilegri scatologíu (sem útleggst „þrekkmælgi“ á vora tungu). Þetta var nýjung, þótt markgreifinn hafi átt vissar fyrirmyndir á nokkuð óvæntu sviði, sem sé í dýrlingasögum miðalda, þar sem þeim hremmingum sem heilagar meyjar urðu að þola er lýst af nokkurri nákvæmni, mönnum til andlegrar uppbyggingar. Að því hafa verið leidd rök að þessi skrif markgreifans eigi í rauninni alls ekkert skylt við „klám“, hinar eiginlegu klámbókmenntir séu lofsöngur til lífs og lífsgleði – ekki síst þegar í þeim sé að finna gagnrýni á ríkjandi siðferði – en verk Sade séu hins vegar, eins og liggur í augum uppi, vígð Dauðanum, því sem enginn getur komist hjá að kalla „hið Illa“. Við það má bæta að sögur markgreifans er naumast hægt að skilgreina sem ádeilu á eitt eða neitt, þær þurfa beinlínis siðferðisreglur trúarinnar og mannlífsins yfirleitt, svo og sakramenti kirkjunnar, til að geta betur traðkað á þessu öllu saman.

Frá því er nú skemmst að segja að ekkert af þessu snertir á nokkurn hátt íslenskt þjóðlíf og hugarfar, fylgjendur siðskiptamannsins sem orti „sá sem ekki elskar vín, óð né fagran svanna…“, þeir sem voru ekki þvingaðir til að ganga reglulega til skrifta, höfðu litla þörf fyrir heimspekilegar vangaveltur með blautlegu ívafi um bælandi siðferði, þeim nægðu klámvísurnar. Því er ekki að furða að tilefnin til deilnanna á „stund klámsins“ hafi komið utan frá, það voru tvær kvikmyndir, annars vegar afskaplega gagnleg sænsk fræðslumynd, hins vegar listræn japönsk mynd sem kannski var ekki fyrir allra smekk og sumum fannst vafalaust alveg á mörkunum, og svo einnig norsk skáldsaga Söngurinn um roðasteininn, sem var reyndar aldrei þýdd á íslensku. Við þetta mætti kannski bæta ýmsum „sorpritum“ sem svo voru kölluð á þessum tíma, en þau eru aukaatriði, um þau urðu aldrei neinar deilur, enginn reis þeim til varnar. Þeir sem burðuðust við að klæmast á þeim vettvangi voru svo andlega blankir að þeir vissu ekki einu sinni að sögnin „að runka“ stýrir þágufalli (sbr. bls. 288 í bók Kristínar Svövu).

Frá sjónarhóli okkar samtíma er fáránlegt, og kannski á köflum skoplegt, að einhver skuli hafa nennt að leggja af stað í krossferð gegn þessum kvikmyndum eða norsku skáldsögunni, og skýrist það kannski ekki síst af persónu krossfararriddaranna, einkum Kristjáns Albertssonar og Freymóðs Jóhannessonar, sem fengu þannig nafn sitt letrað á blöð sögunnar. Þetta notfærði sér reyndar nokkuð lævíslega íslenskur stúdent í Ósló, sem gaf út Bósa sögu með norskum teikningum. Hann sendi Freymóði eitt fyrsta eintakið blautt úr prentsmiðjunni í þeirri vissu að hann myndi strax kæra útgáfuna, sem hann og gerði – án þess að átta sig hið minnsta á því að þarna var verið að draga hann á asnaeyrunum. Þetta var draumaauglýsing, alveg ókeypis, bókin vakti meira en lítið umtal en hún var ekki bönnuð, hún seldist upp á skömmum tíma (sbr. bls. 130-131).

Allt þetta heyrir nú fortíðinni til, og er það þó þess virði að rifja það upp sér til skemmtunar og fróðleiks. En öll raunveruleg saga er samtímasaga var einu sinni sagt, og það gildir í hæsta máta um bók Kristínar Svövu, hún getur nefnilega líka verið sjónarhóll til að skoða skuggaleg fyrirbæri á líðandi stund. Síðan Freymóður kærði norskar myndskreytingar Bósa sögu hefur þróunin nefnilega farið inn á brautir sem enginn hefði getað ímyndað sér á þeim tíma, og ekkert fordæmi er að í mannkynssögunni samanlagðri. Upp hefur risið fyrirbæri sem ekki er hægt að kalla annað en „klámiðnað“, þótt það orð sé í rauninni allt of sakleysislegt, því hér er um að ræða stóriðnað sem yfirgengur flest annað.[1]

Giskað hefur verið að þessi nýi atvinnuvegur velti þúsund milljörðum Bandaríkjadala á hverju ári, jafnmikið og vopnaiðnaðurinn og lyfjaiðnaðurinn í sameiningu. Framleiðslan er í ýmsu formi, það eru kvikmyndir, og ekki má heldur gleyma alls kyns „leikföngum“ (sex-toy, olisbos, godemiché, dildo og dillidó eða hvað þetta allt heitir), en þetta tengist þó fyrst og fremst netinu sem er aðalvettvangurinn. Þar hafa menn talið 4,2 milljónir klámstöðva, sem bjóða upp á rammalaust klám eingöngu, og hver þeirra halar inn tólf til fimmtán þúsund Bandaríkjadölum á dag, upp í hundrað þúsund ef vel árar. Fjórðungur allra leita á netinu beinist að klámi. Þeir sem standa á bak við iðnaðinn eru skuggasveinar sem koma aldrei nálægt ljósinu og fela sig í skattaskjólum og öðrum skúmaskotum af slíku tagi, en þeir búa svo um hnútana að enginn geti skakkað leikinn; þannig geta unglingar og jafnvel börn komist í klám af hvaða tagi sem er (þau kunna betur á netið en foreldrarnir), og stundum er þetta fyrsta sýnin sem þau hafa af ástalífi mannkindarinnar. Og þetta setur sín myrku spor.

Sumir ánetjast klámi eins og eiturlyfjum, enda segja rannsóknir að áhrif hvors tveggja á heilann séu af nokkuð svipuðu tagi. Þegar hafa birst frásagnir manna – m. a. í Morgunblaðinu – sem urðu fyrir því að festast í klámi á þennan hátt og áttu í mestu erfileikum við að losna úr vítahringnum, ekki minni en sleppa úr klóm heróíns. Sérstaklega er það þó eitt sem er einkum sameiginlegt með eiturlyfjum og klámi: þeir sem í þessu lenda þurfa sífellt meiri og meiri skammt, stærra magn af lyfinu, stöðugt grófara klám – og þurfa líka meiri tíma til neyslunnar. Þannig er hætta á að þeir detti út úr samfélaginu. Þeir sem hafa hætt sér út í þann sálarháska að skoða þetta fordæmalausa flóð segja að sumt af því sé ógeðslegra en nokkur geti ímyndað sér, þar sé einnig komin í blönduna arfleifðin frá markgreifanum, ofbeldi gagnvart konum af öllu hugsanlegu tagi, pyndingar og kvalalosti, misnotkun á börnum, skyndibrullaup mennskra manna til ferfætlinga, semsé allt það sem afbrigðilegt – og lífsfjandsamlegast – má kallast.

Hvaða afleiðingar þetta hefur vítt og breitt veit ekki nokkur lifandi maður, og guðirnir eru þöglir. Að þessu eru menn vitni, en þeir standa ráðalausir uppi. Á þessum nýja vettvangi mætti jafnvel segja að hjákátlegt brambolt Freymóðs og Kristjáns Albertssonar sé víti til varnaðar.

Einar Már Jónsson

 

Tilvísanir

[1] Í því sem hér er sagt um klámiðnaðinn er stuðst við Le délire occidental eftir Dany-Robert Dufour, París 2014, þar sem vísað er í ýmsar rannsöknir.