Hallgrímur Helgason. Konan við 1000°: Herbjörg María Björnsson segir frá.
JPV útgáfa, 2011.
Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2012
Í aðfararorðum að bókinni Konan við 1000° tekur höfundur verksins fram að um sé að ræða skáldsögu þótt hún „byggist að nokkru leyti á atburðum sem gerðust og fólki sem lifði og dó“. Hann áréttar enn frekar að persónurnar séu „skáldsagnapersónur“ og „biður lesanda að sýna kveikjum þeirra og fyrirmyndum nærgætni og blanda ekki raunverulegu hlutskipti þeirra saman við þau örlög sem hann hefur skáldað þeim“.
Ljóst er að Hallgrímur Helgason hefur átt von á misjöfnum viðtökum við bókinni enda hefur það komið á daginn að sú blanda af „veruleika“ og „skáldskap“ sem verkið býður upp á er það svið sem umræðan um bókina hefur að mestu einskorðast við. Það er miður vegna þess að sú umræða hefur að mestu leyti farið fram á forsendum særðra tilfinninga, misboðins stolts, háðs og útúrsnúninga og slík bókmenntaumræða er lítils virði. Hér verður fallist á þá skilgreiningu Hallgríms að verkið sé skáldsaga og það greint og metið sem slíkt.
Minna má á að aðferð Hallgríms er síður en svo nýstárleg og heldur ekki í fyrsta sinn sem hann byggir skáldsagnapersónur sínar á „fólki sem lifði og dó“. Það gerði hann til að mynda einnig í Höfundi Íslands þar sem Halldór Laxness er helsta fyrirmyndin. Hallgrímur notar líkt og ótal höfundar – gott ef ekki flestir – fyrirmyndir úr raunveruleikanum en spinnur sína skáldskaparþræði útfrá þeirri uppistöðu sem hugmynd hans byggir á. Fyrir rúmri hálfri öld fullyrti Þórbergur Þórðarson að „flestar „tilbúnar“ persónur [séu] uppsmíðun úr lífinu“ (Í kompaníi við allífið, 1959: 19).
Og hann hnykkti á þeirri skoðun með eftirfarandi orðum: „Íslendingar eru svo þunnir í skáldskaparmati, að þeir halda að ekkert sé skáldskapur nema maður „skapi persónur“ og sköpunin er venjulega ekki frumlegri en svo, að höfundarnir taka persónur, sem þeir hafa þekkt úr lífinu eða haft sagnir af og hnoða úr þeim bókmanneskjur“ (Í kompaníi við allífið, 1959: 99). Tilefni orða Þórbergs er umræðan um að skrif hans séu ekki „sannleikanum“ samkvæm. Slíka umræðu telur hann ómerkilega og vitnar í Oscar Wilde: „Bækur eru annaðhvort skemmtilega eða leiðinlega skrifaðar. Það er allt og sumt“ (Í kompaníi við allífið, 1959: 18).
Konan við 1000° er ekki leiðinlega skrifuð bók. Þvert á móti er hún skrifuð af svo miklu fjöri og hugarflugi að það hlýtur að vera nokkur vandi að hrífast ekki af stílnum og með þeim straumi sem frásögnin er. Það má telja merkilega þverstæðu að íslenskir lesendur efast gjarnan um sannleiksgildi ævisagna en lesa skáldskap hins vegar sem sannleika um lifandi (eða dáið) fólk. Í því sem á eftir fer verður ekki dvalið við mörk veruleika og skáldskapar í Konunni við 1000° en hins vegar verður hugað að textatengslum (íslenskum sem erlendum), persónusköpun og stíl, auk þess sem reynt verður að leggja mat á bókmenntalegt gildi verksins. [1]
Textatengsl
Eitt af höfundareinkennum Hallgríms Helgasonar er hvernig hann nýtir sér og „endurvinnur“ þekkta bókmenntatexta í skáldverkum sínum. Hallgrímur leitar fanga í þekktum verkum viðurkenndra stórskálda. Í 101 Reykjavík eru textatengsl við Hamlet, í Höfundi Íslands við Sjálfstætt fólk og í Roklandi við Don Kíkóta, svo dæmi séu tekin. [2] Aðalpersóna Konunnar við 1000°, Herbjörg María Björnsson, er meira en lítið skyld karlfauskinum Tómasi Jónssyni, sem í samnefndri Metsölubók Guðbergs Bergssonar liggur háaldraður og karlægur í kjallaraíbúð sinni og skrifar hugleiðingar sínar í sautján stílabækur. Tómas er kominn að fótum fram, er með súrefniskút við rúmið og leigendur hans, Anna/Katrín og Sveinn, aðstoða hann við hans daglegu þarfir. Skrif Tómasar bera þess merki að þar heldur gamall og jafnvel elliær karl á penna. Þar ægir öllu saman sem endurspeglar ringulreið hins ruglaða huga.
Aðalpersóna Hallgríms er hins vegar hvorki rugluð né elliær, þótt hún sé áttræð og karlæg líkt og Tómas, og hugleiðingar hennar um líf sitt eru aldrei óreiðukenndar þótt inn á milli komi yfir hana draumkennt hugflæði (sjá til að mynda kaflann „Þúsund faðmar“ (23). Herbjörg María hefur legið rúmföst í 8 ár þegar við kynnumst henni fyrst, hún býr ein í bílskúr og fær aðstoð frá heimahjúkrun við daglegar þarfir en afkomendurnir sinna henni lítt og gjalda henni þar rauðan belg fyrir gráan. Það er tímanna tákn að Herbjörg María styttir sér stundir við tölvuskjá; hún er með „farandtölvu“ í rúminu, er á Facebook og leikur sér þar að því að draga erlenda karlmenn á asnaeyrunum undir nafni Lindu P., fyrrverandi alheimsfegurðardrottningar. En hún hefur hafnað súrefniskútnum, var „gert að velja á milli þeirra herramanna, Rússans Nikótíns og hins breska Oxygen lávarðar“ og kaus að halda áfram að sjúga sínar sjö sígarettur á dag. Fyrir vikið dregur hún „andann líkt og lestarvagn og klósettferðir halda áfram að vera [hennar] dægrakvöl“ (8).
En margt eiga þau sameiginlegt Tómas Jónsson og Herbjörg María enda bæði öldruð og líkamlega að niðurlotum komin. Hinn hrörlegi líkami er báðum hugleikinn, sérstaklega þær nauðsynlegu og sársaukafullu þarfir sem snúast um að nærast og losa þvag og saur. Þetta síðasttalda atriði fór mjög fyrir brjóstið á lesendum Tómasar Jónssonar. Metsölubókar á sjötta áratug síðustu aldar og talað var um „sora“, „klám“ og „niðurrifsstarfssemi“. Svipaður kór var uppi rúmum fjörutíu árum fyrr þegar Þórbergur sendi frá sér Bréf til Láru og það sama dúkkar upp á teningnum núna, rúmum fjörutíu árum síðar. Berorðar lýsingar sem tengjast líkamanum og starfsemi hans hætta víst seint að hneyksla.
Hafa ber í huga að lýsingar Hallgríms á líkamsstarfsemi aðalpersónunnar eru öðrum þræði hluti af því ærslakennda skopi sem einkennir frásagnarhátt bókarinnar og í dag ganga slík bókmenntaleg ærsl undir heitinu „gróteska“ og „karnival“ og ættu ekki að koma nútímalesendum í opna skjöldu. En allt eins mætti tengja slíkar lýsingar raunsæissviði frásagnarinnar; það er ekkert grín fyrir aldraða langlegusjúklinga að þurfa að sinna líkamlegum þörfum sem valda ómældum þjáningum:
Það er undarlegt að þessi gamla ellivél skuli enn geta framleitt tár. Ég botna nú bara ekkert í því. Og þerra nú minni ellivang. Órans ergjur og íkvæmni. Og svo er hitt líka: Að þessu líkamshrói sé gert að stunda saurframleiðslu allt fram undir kistulok er auðvitað ekkert annað en hákátleg himnastríðni, einhver tegund af mekkisens mannkynsrefsingu. Það á að halda okkur í juðinu allt til æviloka. Starfa, starfa, starfa. Allt til hinstu þarfa. (182–183)
Herbjörg María kallar þá stuttu leið sem hún þarf að fara á klósettið „Via Dolorosa“ (veg þjáningarinnar) eins og fram kemur í upphafsmálsgrein bókarinnar. Kannski má líta á allan æviferill Herbjargar Maríu sem Via Dolorosa því þótt frásögnin logi af skopi kraumar ætíð undir af sársauka og þjáningu enda hefur sú gamla þurft að reyna margt misjafnt og sárt á sinni löngu ævi.
Í Tómasi Jónssyni. Metsölubók er Guðbergur Bergsson á meðvitaðan hátt að gera upp við aldamótakynslóðina svokölluðu; þá kynslóð sem komst til þroska upp úr aldamótunum 1900, háði sjálfstæðisbaráttu með tilheyrandi fortíðardýrkun og upphafningu á landi og þjóð. [3] Aldmótakynslóðin, sem áður hafði verið „frjótt hreyfiafl“ var upp úr miðri tuttugustu öld „orðin, í hinum þjóðfélagslega raunveruleika Íslands, voðalegur dragbítur á öllum framförum“, eins og Guðbergur orðar það sjálfur í formála að annarri útgáfu bókarinnar. Fyrst og fremst var bókin andóf hans við stöðnun: stöðnun í hugsunarhætti, stöðnun í frásagnarhætti. [4] Konan við 1000° er ekki byltingarverk í sama skilningi hvað formið varðar. Og bókin er ekki sams konar uppgjörsverk og skáldsaga Hallgríms Höfundur Íslands þar sem glímt var við skáldjöfur Íslands og gjörvalla tuttugustu öldina með öllum sínum feiknum. Konan við 1000° er hins vegar uppgjörsverk einnar konu við líf sitt og samtíð.
Að formi til sver bókin sig í ætt við fyrri verk höfundar. Frásagnarháttur Hallgríms er orðinn auðþekkjanlegur; stíllinn einkennist af orðgnótt og hugmyndaauðgi og frásögnin er yfirleitt sett fram í hugflæði, oft knúin áfram af hugrenningatengslum. Hvað þetta atriði varðar er þó frásagnarháttur Konunnar við 1000° agaðri en í fyrri verkum Hallgríms. Stuðlar, orðaleikir, rím og nýyrði setja alltaf svip sinn á texta Hallgríms og stíllinn er ætíð með afbrigðum myndrænn. Mörg nýyrði hans eru mjög skemmtileg og eiga ef til vill eftir að vinna sér sess í málinu, nefna má orð eins og dægrakvöl, vogblíður, dúnskeggjaður, rökkurbeinsrugl, lostaleysislömum, sængurdæmd og mörg fleiri. Nýyrðasmíði Hallgríms er alltaf í lifandi tengslum við söguefnið hverju sinni en ekki bara sniðugur leikur að orðum. Hallgrímur hefur náð sérlega góðum tökum á þessum persónulega stíl sínum og í Konunni við 1000° má finna kafla sem eru ljóðrænni en áður hefur sést í skáldsögum hans og eykur sá tónn við fjölbreytileika frásagnarinnar.
Þótt sögusvið bókarinnar sé tuttugasta öldin – og tengingin við Tómas Jónsson. Metsölubók sé sú sem fyrst kemur upp í hugann – er eitthvað við frásagnaraðferð Hallgríms og þá lífssögu sem vindur fram sem minnir lesanda líka á hinar stóru skáldsögur fyrra alda, jafnvel sögur frá árdögum skáldsagnagerðar á átjándu öld á borð við Moll Flanders eftir Daniel Defoe (1721) eða Tom Jones eftir Henry Fielding (1749). Þetta eru sögur sem segja frá litskrúðugu lífshlaupi persóna sem flækjast víða og lenda í ótrúlegustu ævintýrum. Slík er saga Herbjargar Maríu; frásögn af lífshlaupi sem spannar vítt svið í tíma og rúmi og líkt og þær erlendu sögur sem hér eru nefndar er það ekki síst hinn húmoríski frásagnarháttur sem heillar lesandann.
„Mín eigin Herra“
Konan við 1000° tekur mið af formi sjálfsævisögunnar og sjálfslýsing aðalpersónunnar er stór í sniðum og afar eftirminnileg. Í nafni hennar blandast saman „heiðnin og kristnin, líkt og olía og vatn, og slást þær systur í mér enn“ (11), eins og hún sjálf orðar það. En Herbjörg María á sér gælunafnið „Herra“ enda er hún yfirleitt sinn eigin herra og lætur kynið ekki hamla tilveru sinni að því leyti sem hún fær þar sjálf um ráðið. Herbjörg María fer með lesendur í útsýnisflug um líf sitt. Við fylgjumst með henni vaxa upp í Breiðarfjarðareyjum í öruggu skjóli móður sinnar og fleiri dugnaðarkvenna og síðar í Kaupmannahöfn þar sem hún á í útistöðum við danska skólafélaga sem líta niður á Íslendinga. Þau átök eru þó sannkallaður barnaleikur miðað við þá eldskírn sem hún hlýtur í Þýskalandi þar sem hún verður innlyksa á stríðsárunum.
Við kynnumst síðan fyrirhafnarlitlu en lítt gefandi lífi hennar meðal hinna „fínni“ stétta Íslendinga eftir stríð. Við fáum innsýn inn í „jónabönd“ hennar, sem hún kallar svo því hún giftist þremur Jónum. Og við fylgjum henni til Argentínu með föður hennar sem á ekki sjö dagana sæla á Íslandi eftir að hafa ánetjast nasismanum á stríðsárunum. Í stuttu máli sagt fáum við yfirsýn um líf íslenskrar konu sem lifði fjölbreytilegu og átakamiklu lífi á tuttugustu öld en veslast upp í elli og einsemd á þeirri tuttugustu og fyrstu, farin á líkama en óbuguð á sál. Og hægt er að taka undir með Herbjörgu Maríu þegar hún segir við sjálfa sig: „[…] mörg eru sjálf þín, kona“ (151).
Sjálf lýsir hún sér á þennan veg:
Sem kona var ég auðvitað ósköp einmana í kynslóðinni minni. Á meðan jafnaldrar mínir sátu í gagnfræðaskóla glímdi ég við heila heimsstyrjöld. Ég útskrifaðist úr henni fimmtán ára, með lífreynslu þrítugrar konu. Tvítug varð ég svo árið 1949 og átti þá samkvæmt stundatöflu tímans að halda til náms á grautarskóla í Baunaveldi ellegar sinna giftingarhugleiðingum uppá Fróni, prúðuppstillt stúlka af forsetaætt á dansleik í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll […] Ég var stríðsbarn í þeirri merkingu orðsins að ég ólst ekki upp í stríðinu heldur ól stríðið mig upp. Ég varð því heimskona áður en ég varð kona. Ég var partístjarna og drakk alla karlmenn undir borðið löngu áður en Ásta Sigurðar hneykslaði landann. Ég var orðin praktíserandi femínisti áður en orðið svo mikið sem sást í íslensku blöðunum. Ég hafði árum saman stundað „frjálsar ástir“ áður en það hugtak var fundið upp (38).
Í háttalagi og orðfari er Herbjörg María oft á tíðum „ókvenleg“ án þess að það þurfi þó að þýða að hún sé „karlmannleg“. Hún lætur fátt halda aftur af sér; „hvorki kreddur, karlmenn né kjaftasögur“ (38) og býr þar að ráðum móðurömmu sinnar sem kenndi henni „snemma að bera ekki of mikla virðingu fyrir karlabauli og sjá í gegnum hluti eins og síðskegg, brjóstmyndir og einkennisbúninga“ (47). Hvað þetta varðar – sjálfsákvörðunarréttinn og sjálfstæðið – má vel fallast á að Herbjörg María sé femínisti en hennar femínismi snýst kannski fremur um hana sem sjálfa sem einstakling en að hann sé hugsjón sem varði alla. Hinn sterki vilji hennar markar henni stöðu sem er gjarnan á skjön við þau hlutverk sem konum af hennar kynslóð var ætlað að falla inn í og búseta hennar í ólíkum löndum gerir hana einnig að utangarðsmanneskju eða „förukonu“ eins og hún kemst að orði:
Ég var alltaf á skjön. Þannig var það allt mitt líf. Í Argentínu eftir stríð hélt fólk að ég væri þýsk og leit mig hornauga. Í Þýskalandi komust þeir að því að ég hafði verið í Argentínu og litu mig hornauga. Og heima var ég nasisti, í Ameríku kommúnisti en í Sovétferð sökuð um „kapitalískt háttalag“. Á Íslandi var ég of sigld, í siglingum of íslensk. Og aldrei var ég nógu pen á Bessastöðum, á meðan Bolvíkingar útnefndu mig „prímadonnu“. Með konum drakk ég eins og karlmaður, með körlum eins og drusla. Í ástum var ég of svöng en í hjónaböndum lystarlaus. Ég fittaði andskotann hvergi inn og fann mér því alltaf nýtt party. Ég var ein endalaus förukona og þarna hófst minn flótti. Minn lífslangi látlausi flótti (121).
„Tækifæri kvenna“
Lýsingin á Herbjörgu Maríu, á 477 blaðsíðum, hlýtur að setja hana í hóp með athyglisverðustu kvenlýsingum íslenskra bókmennta og hugrenningartengsl við erlendar bókmenntir vakna líka, eins og áður er getið. Gaman væri að gera samanburð á Herbjörgu Maríu og Karítas í skáldsagnatvennu Kristínar Marju Baldursdóttur; ýmislegt eiga þær sameiginlegt og báðar minna þær stundum á kvenhetjur Íslendingasagna í tilsvörum og háttalagi. Annað skilur á milli þeirra, til að mynda stéttaleg staða sem hefur mikið að segja fyrir hvernig líf þeirra þróast. Kannski má líta á þær tvær sem táknmyndir íslenskra tuttugustu aldar kvenna; táknmyndir ólíkra stétta, ólíks uppeldis og ólíkra langana. Meðan Karítas brýst til sinnar köllunar af harðfylgi og færir miklar fórnir á þeirri leið sóar Herbjörg María sínum hæfileikum eða, eins og hún orðar það, svíkst um „að gera eitthvað úr [sér]“. Hún ber saman líf ömmu sinnar og mömmu við sitt eigið líf og tækifæri:
Um aldir hafði fólk hennar stritað í eyjunum, langt frá öllum skólum og skrifborðslífi, svo ekki sé nú minnst á tækifærin kvenna. Ég var sú fyrsta í þeirri þúsund ára ætt sem átti möguleika á menntun en álpaðist út í lífið án þess að þiggja drauminn sem mamma hafði mátt neita sér um en varðveitti í brjósti mér til handa (75).
Líkt og í bókunum um Karítas kemur fjöldi persóna við sögu í Konan við 1000° og eru margir litríkir karakterar þar á ferð, ekki síst konur. Það á til dæmis við mömmu Herbjargar Maríu og báðar ömmur hennar, hina breiðfirsku Verbjörgu og hina dönsku Georgíu. Lýsingin á endurfundum foreldra Herbjargar Maríu, þegar faðir hennar leitar þær mæðgur uppi eftir sjö ára afskiptaleysi, er dæmi um hvernig Hallgrímur dregur sterka persónulýsingu upp í fáum málgreinum. Móðirin minnir mest á Snæfríði Íslandssól í samskiptum sínum við hinn svikula barnsföður þar sem hún beitir kaldhæðni af list:
„Sæl,“ endurtók pabbi. „Ma … manstu eftir mér?“
Hún hélt áfram að raka af miklu kappi.
„Nei. Hver ert þú?“
„Hans. Hansi. Þú …“
„Hans Henrik Björnsson? Ég hélt að sá maður hefði dáið. Og það af barnsförum.“
„Massa … Ég … ég er kominn.“
Aftur stöðvaðist hrífan í höndum hennar og hún leit í augu hans.
„Á rigningu átti ég von en ekki þér.“
Hóf síðan aftur að raka.
„Massa … fy … fyrirgefðu.“
„Ertu kominn hingað til að væla?“ sagði hún kalt og jók fremur hamaganginn en hitt (77).
Annað áhrifaríkt samtal á milli foreldra, sem varpar ljósi á persónuleika þeirra beggja, á sér stað þegar þau búa í Lübeck og faðirinn hefur ákveðið að ganga í þýska herinn (sjá s. 96–103). Þar kristallast munurinn á þeim tveimr og sá veikleiki sem var ógæfa föðurins, leiddi hann „niður í eiturdjúp sögunnar“ (103) og gerði hann að flóttamanni eftir stríð og ævina út. Þótt Hans Henrik hafi ánetjast nasismanum er lýsing Hallgríms á honum aldrei fordæmandi heldur mætti þvert á móti segja að höfundur sýni þessum veikleika persónu sinnar skilning og hafi samúð með honum, enda líka óþarfi að fordæma mann sem dæmdi sig sjálfur til óhamingju og ævilangrar útlegðar.
Hallgrímur fer víða á kostum í lýsingum á aukapersónum sem gegna ekki endilega stóru hlutverki í framvindu sögunnar. Sem dæmi má nefna skemmtilega lýsingu á dönsku eldabuskunni Helle þar sem höfundur skemmtir sér og lesendum með myndmálinu:
Eldabuskan var með stór og mikil brjóst sem gott var að sökkva sér í, lágvaxin með upphandleggi sem ætíð voru berir og minntu í lögun sinni á ilmandi heit franskbrauð (sem ekki eru bökuð í formi heldur látin lyfta sér ein á plötu). Andlitið var líka hlaðið lyftidufti og ætíð fullbakað á svip; rjómahvítar tennur, ljúffengar varir og bakstursbrúnir vangar sem á voru nokkrar freknum svo minnti á birkifræ á rúnstykki (120).
Lýsingin á Bæringi, hinum „bærilegasta“ af eiginmönnum Herbjargar Maríu, er annað dæmi um hversu beinskeyttar persónulýsingar Hallgríms geta verið:
Hann var el hombre þótt ekki sé ég viss um að hafa elskað hann í raun. En hvernig stóð á því að manneskja eins og ég gat fallið fyrir sædurgi að vestan? Manni sem aldrei hafði siglt nema á sjó og aldrei leit í bók nema væru það íslenskar ævisögur, bókmenntagrein sem ég fyrirleit.[…] Í stjórnmálum var Bæring dæmigerður Íslendingur, rammvilltur en gargandi hávær. Hans maður var Karvel (356).
Margar slíkar glettnar svipmyndir af aukapersónum dregur Hallgrímur upp með hnitmiðuðu myndmáli.
Sprengja
Einn er sá hlutur sem Herbjörg María skilur aldrei við sig í sinni aumu kör en það er þýsk handsprengja sem faðir hennar gaf henni til að hafa sér til varnar á neyðarstundu. Tilvísanir til sprengjunnar eru sem gegnumgangandi stef frá upphafi frásagnarinnar og allt til lokasetningarinnar þegar hún er sprengd í loft upp af „Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar“ í greipum Herbjargar Maríu sem lét hana ekki lausa fram í rauðan dauðann: „og hvarf þar með tíu fingrum upp til Guðs“. Lokasetningin er athyglisverð. „Tíu fingur upp til Guðs“ er orðtak sem börn viðhafa gjarnan þegar þau sverja að þau séu ekki að ljúga. Er höfundur þarna að gefa umræðunni um mörk sannleika og lygi – eða veruleika og skáldskapar – langt nef? Það er kannski fullábyrgðarlaus ályktun en hitt er víst að Konan við 1000° hefur komið eins og sprengja inn í íslenska bókmenntaumræðu, sem er hressandi.
Þegar fjaðrafokinu í kringum umræðuna um mörk skáldskapar og veruleika í skáldsögunni linnir mun verkið án efa öðlast stöðu sem eitt af stórvirkjum íslenskra samtímabókmenna. Herbjörg María er ein sú magnaðasta persóna sem íslenskir lesendur hafa fengið að kynnast á undanförnum árum, stíll höfundar ein heljarslóðarorrusta af skopi um leið og undirtónninn er bæði djúpur og sár. Frásögnin er útsýnisflug yfir íslenskt samfélag á tuttugustu öld með viðkomu í stríðshrjáðri Evrópu og víðar um heim. Þótt ævi Herbjargar Maríu sé rauði þráður bókarinnar er frásögn hennar sífellt fleyguð með sögum af öðru fólki á ýmsum tíma og í ólíkum löndum. Þetta er skáldsaga sem hægt verður að endurlesa sér til ánægju aftur og aftur því textinn er marglaga og svo vel og skemmtilega skrifaður að hans má njóta vel og lengi.
Soffía Auður Birgisdóttir
Tilvísanir
- Benda má þeim sem hafa áhuga á umræðunni um mörk skáldskapar og veruleika á greinina: „Hann lagði okkur í ræsið á hverri síðu“ eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur í Skírni (vor) 2012. Skírnir var ekki komið út þegar þessi ritdómur er skrifaður en 10. maí var frétt um hana á dv.is þar sem fram kom að Alda Björk beini athyglinni að þessum mörkum, efnistökum Hallgríms, umræðu í fjölmiðlum og viðtökum ættingja Brynhildar Georgíu Björnsson. Þá ber hún einnig saman skáldsögu Hallgríms og bók Steingríms Th. Sigurðssonar Ellefu líf, ævisögu Brynhildar.
- Um þetta má lesa nánar í bók Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur. Rithöfundur Íslands. Skáldskaparfræði Hallgríms Helgasonar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, 2008.
- Upphafsorð bókarinnar eru: „Ævisaga: Ég er afkomandi hraustra, bláeygðra víkinga. Ég á ætt að telja til hirðskálda og sigursælla konunga. Ég er Íslendingur. Nafn mitt er Tómas Jónsson. Ég er gamall nei nei.“ Guðbergur Bergsson. 1987. Tómas Jónsson. Metsölubók. Reykjavík: Forlagið, s. 7 (2. útgáfa).
- Sjá nánar formála Guðbergs Bergssonar að 2. útg. bókarinnar 1987.