Inga Lára Baldvinsdóttir. Sigfus Eymundsson: Myndasmidur.
Þjóðminjasafn Íslands, 2012, 196 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2014
Ljósmyndin er einn helsti listmiðill samtímans og ákaflega þýðingarmikil í listasögunni, bæði sem slík, ekki síst um áttunda áratug síðustu aldar þegar mikið fór fyrir konseptljósmyndun, og eins notuðu málsmetandi listmálarar ljósmyndir alveg frá lokum fyrri heimsstyrjaldar og fram á fimmta áratuginn; meðal áhugasamra notenda hennar voru Jóhannes Kjarval, Gunnlaugur Scheving (hvers stærstu málverk voru, merkilegt nokk, byggð á grámuskulegum ljósmyndum úr Morgunblaðinu ), Nína Tryggvadóttir og Louisa Matthíasdóttir. Og er þá ótalin ómæld þýðing ljósmyndarinnar fyrir íslenska listasögu á 19. öld.
Það er bjargföst sannfæring mín að myndlist spretti fyrst og síðast af myndum, ekki skáldskap, þjóðrækni eða óskhyggju. Og sú hugmynd að Ísland hafi verið myndlaust land á 19. öld eins og mætti skilja á nýlegri Íslenskri listasögu er alls ekki rétt.
Í héraði skörtuðu margar kirkjur altaristöflum af einhverju tagi, skreytingum og formfögrum kirkjugripum sem sóknarbörn fengu augum litið við hverja guðsþjónustu. Listilega útskornir munir og glæsilegir textílar fyrirfundust meðal helstu höfðingja upp til sveita, þangað sem margir almúgamenn áttu erindi. Í Reykjavík fór ekki framhjá sæmilega upplýstu fólki prentlist Jóns Helgasonar, verðandi biskups; einkum og sérílagi dægilegar skrásetningar hans á húsakosti bæjarbúa og náttúrunni í kring, né heldur fugla- og dýramyndir Benedikts Gröndal. Norður í landi kom sjálflærður málari, Arngrímur Gíslason, til móts við þarfir þeirra sem vildu eftirláta afkomendum andlitsmyndir sínar í varanlegu formi, og umflakkandi atvinnuteiknari, Sölvi Helgason, gerði bændum einnig frumstæð portrett sem greiðslu fyrir húsaskjól og beina. Og þá er ógetið teikninganna og málverkanna sem Sigurður Guðmundsson lét eftir sig og norrænu málverkanna sem Björn Björnsson gaf þjóðinni og héngu uppi í Alþingishúsinu frá 1885.
Hálf milljón ljósmynda
Óhætt er að segja að fyrir síðustu aldamót hafi ljósmyndin ekki verið hluti af umræðunni um myndlistarvettvanginn á Íslandi á 19. öld. Í fyrra bindi myndlistarsögu sinnar (1964) tínir Björn Th. Björnsson til allt sem skýra mætti nývakinn áhuga á myndlist á seinni hluta aldarinnar, kirkjulist, alþýðulist, myndskreytingar, þ.e.a.s. allt nema ljósmyndir. Árið 2001 gaf Inga Lára Baldvinsdóttir, ljósmyndasérfræðingur við Þjóðminjasafnið, síðan út tímamótaverk sitt Ljosmyndarar a Islandi, 1845–1945. Yfirlýst markmið hennar er að sönnu ekki endurskoðun á vægi ljósmynda í hinu stóra samhengi íslenskra sjónlista. Í formála bókarinnar kemur fram að Inga Lára flokkar ljósmyndir fyrst og síðast meðal „sögulegra gagna“. Í framhaldinu víkur hún hvergi út frá þeirri skilgreiningu.
Engu að síður eru upplýsingarnar sem þessi bók hefur að geyma til þess fallnar að varpa nýju ljósi á áðurnefnt „stóra samhengi“ sjónlista í landinu. Inga Lára upplýsir nefnilega að á því tímabili sem um ræðir hafi hvorki fleiri né færri en 135 Íslendingar og aðfluttir Danir fengist við ljósmyndatökur í lengri eða skemmri tíma, 110 karlar og 25 konur og hafi þeir dreifst um allt landið. Og ef einvörðungu er miðað við árdaga myndlistarinnar á Íslandi, segjum 1845–1905, þá eru 95 ljósmyndarar að störfum, 80 karlmenn og 15 konur. En afföllin voru skelfileg. Ævistarf u.þ.b. helmings þessara ljósmyndara hefur glatast, vegna óviðráðanlegra aðstæðna, í eldsvoðum, fyrir andvaraleysi ættingja eða áhugaleysi opinberra aðila. Í bók Ingu Láru er til þess tekið að gjörvöllum glerplötum látins ljósmyndara í Vestmannaeyjum hafi verið sturtað ofan í hafnarstæði bæjarins.
Það er mikilvægt að reyna að gera sér grein fyrir umfangi ljósmyndunar á fyrrgreindum árdögum. Í samantekt Ingu Láru kemur fram að um 200.000 glerplötur og pappírskópíur hafi varðveist eftir 30 ljósmyndara sem störfuðu á landinu á árunum 1845–1905. Sérhver þeirra lætur eftir sig allt frá 1000 og upp í 40.000 ljósmyndaplötur og pappírsmyndir, auk þess má reikna með því að einhver hluti mynda þeirra hafi lent í glatkistunni. Ætli sé fráleitt að áætla, með hliðsjón af arfleifð þeirra, að sérhver þeirra 60 ljósmyndarar, hverra ævistarf hefur týnst, hafi tekið á bilinu 1000–5000 myndir um dagana? Og að 200–300.000 ljósmyndir þeirra hafi farið í súginn?
Ef við göngumst inn á þessar tölur – og ég held að þær séu varlega áætlaðar – þá blasir við að á títtnefndum mótunarárum myndlistarinnar á Íslandi hafi 500.000 ljósmyndir mögulega verið í umferð um land allt. (Til samanburðar má geta þess að í grein um bandaríska ljósmyndun í New York Times Review of Books frá 15. ágúst 2013 telja sérfræðingar að þar í landi hafi menn tekið um 25 milljónir ljósmynda fyrir 1860 …). Þetta magn ljósmynda, ásamt með öðru myndefni sem nefnt er hér að framan, hefur í það minnsta skapað það sem kalla mætti „myndvitund“, ekki einasta meðal upplýstra Íslendinga í Reykjavík, heldur einnig meðal bændafólksins sem flykktist á ljósmyndastofur á Húsavík, Akureyri, Ísafirði og í Vopnafirði.
Myndvitund verður myndlistarvitund
Í framhaldinu má velta því fyrir sér hvort ljósmyndin hafi að auki lagt drög að næsta stigi slíkrar vitundar, nefnilega „myndlistarvitund“. Þegar íslenskir ljósmyndarar stilltu upp íslensku alþýðufólki til myndatöku í „settinu“ á ljósmyndastofunni, þá tóku þeir sér oftlega til fyrirmyndar mannamyndir helstu portrettmálara 19. aldar í Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku. Er það ekki undursamlegur vitnisburður um samhengi sjónlistasögunnar þegar ljósmynd af norðlenskri bóndakonu endurspeglar frægt portrettmálverk eftir Ingres af prinsessunni af Broglie (1853)? Sömuleiðis bendir ýmislegt til þess að landslagsljósmyndarar á borð við Sigfús Eymundsson hafi haft áhrif á vinnubrögð frumherja okkar í myndlist.
Og er þá komið að eiginlegu tilefni þessarar greinar, nýrri bók Ingu Láru, Sigfús Eymundsson, Myndasmiður, sem Þjóðminjasafnið gaf út á síðasta ári. Hér er á ferðinni annað tímamótaverk höfundar, því þótt Almenna bókafélagið hafi áður gefið út bók um Sigfús árið 1976, með texta eftir Þór Magnússon, þá nýtist áratuga rannsóknarvinna Ingu Láru til ítarlegri umfjöllunar um ljósmyndir Sigfúsar en áður hefur sést. Meðal helstu nýmæla bókarinnar er að gerð er tilraun til að skilja á milli ljósmynda Sigfúsar annars vegar og Daníels Daníelssonar, sem annaðist rekstur ljósmyndastofu þess fyrrnefnda að mestu leyti frá því um 1890 og fram yfir aldamótin 1900. Hins vegar er ofsagt að það sé hér gert fyrir fullt og fast, eins og Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður gefur í skyn í formála bókarinnar. Inga Lára tekur einmitt fram (bls. 27) að slíkur aðskilnaður sé nánast ógerlegur, t.a.m. séu 219 ljósmyndaplötur af stofu Sigfúsar þess eðlis að ekki verði séð hvor þeirra félaga hafi tekið þær.
Allt um það er hér að finna fleiri hliðar á ljósmyndaranum en menn hafa áður þekkt. Fjallað er ítarlega um uppruna Sigfúsar í Vopnafirði, „útrás“ hans til Noregs og Danmerkur á yngri árum og margvíslega athafnasemi hans í tímans rás, (ferðaþjónustu, umboðsmennsku, bókaverslun, prentsmiðju, framkvæmdastjórn Alþingshátíðar 1874, setu í bankaráði o.fl.). Alls staðar er Sigfús „að reina að bjarga [sér] uppá allan máta“, eins og hann segir í bréfi til Jóns Sigurðssonar árið 1872. Vitaskuld er ljósmyndun hans þó fyrirferðarmest í bókinni. Hér fær hún þá meðhöndlun og umgjörð sem hún verðskuldar og er í því sambandi sérlega lofsverður tæknilegur þáttur Ívars Brynjólfssonar ljósmyndara. Inga Lára rekur stuttlega þróunarsögu ljósmyndunarinnar í landinu, tilurð mannamyndahefðar, tilkomu visitmynda og myndaalbúmsins, sem varð fljótt stofustáss á betri heimilum; lýsir hún yfirburðastöðu Sigfúsar á þessum vettvangi, þökk sé elju hans, framtakssemi og viðskiptaviti. Fyrir utan flokkun og greiningu á mannamyndum Sigfúsar gerir Inga Lára að umtalsefni eftirtökur hans á gömlum ljósmyndum, málverkum og teikningum af merkum Íslendingum, að viðbættum eigin myndum af alþingsmönnum og embættismönnum. Hér, eins og oft áður, stjórnaðist Sigfús bæði af viðskiptahagsmunum og þjóðrækni. Myndirnar fjöldaframleiddi hann og seldi á stofu sinni, en gerði sér um leið grein fyrir sögulegu gildi þeirra, sá raunar fyrir sér sérstakt mannamyndasafn þjóðarinnar. Í dag eru margar teikningar Sigurðar Guðmundssonar einungis til í eftirtökum Sigfúsar.
Draumurinn um Ísland
Merkur kafli í bókinni nefnist Draumurinn um Ísland í myndum, sem kemur rakleitt inn á þátt íslenskra ljósmyndara í mótun nýrrar landslagssýnar. Þar er Sigfús einnig leiðandi, því eins og Þór Magnússon segir í bók sinni, varð hann „fyrstur ljósmyndara til að taka hér útimyndir að ráði og hélt því áfram alla tíð“. Markverðasta framlag Sigfúsar til nýrrar fagurfræðilegrar og þjóðræknislegrar skilgreiningar á íslensku landslagi var heftið Ísland í myndum, sem út kom 1906. Hugmyndina reifaði Sigfús hins vegar miklu fyrr, eða 1872, í texta sem hann sendi Jóni Sigurðssyni. Textinn var hluti af boðsbréfi til söfnunar áskrifenda að 100 prentuðum ljósmyndum sem gefnar yrðu út í 25 mynda syrpum. Sigfús lýsir því yfir að hann hyggist taka myndir „af þeim stöðum á Íslandi, sem annaðhvort hafa einhverja sérstaklega og einkennilega náttúrufegurð til að bera, eða sem í sögulegu tilliti eru merkastir.“ Eins og Inga Lára segir kölluðust þarna á „tvö ólík sjónarhorn, annars vegar náttúran en hins vegar sögustaðir Íslendingasagna“.
Þar nefnir hún til sögunnar kenningar þýska heimspekingsins Johans Herder (1744–1803), sem nutu mikillar hylli, bæði á Norðurlöndum og í þýskumælandi löndum. Herder taldi að náttúrulegt umhverfi mótaði gerð íbúa, því voru landslagsmyndir oft notaðar sem tákn fyrir „þjóðareðlið“. Hvorttveggja ljósmyndir og olíumálverk mátti nota til að árétta þetta „þjóðareðli“, en jafnframt voru þessar myndir taldar vitnisburður um menningarlega og efnahagslega stöðu þjóðarinnar (bls. 36).
Þótt ekki megi vanmeta áhrif fjölprentaðra myndasafna útlendinga á borð við Gaimard, Kloss og Emanuel Larsen, þá er Sigfús er framar öðru „höfundur“ þessar er fagurfræðilegu og þjóðlegu sýnar á íslenskt landslag. Þótt „hundrað mynda útgáfa“ hans yrði ekki að veruleika í upprunalegri mynd, birtust landslagsmyndir hans í vinsælum heftum Ferðamannafélagsins, í erlendum myndablöðum, á myndasýningum þeirra Þorláks Ó . Johnson og Sigfúsar í húsinu Glasgow 1883–84 og í áðurnefndu hefti frá 1906, að ógleymdum myndum sem seldar voru stakar á ljósmyndastofu þeirra Daníels.
Óhætt er að segja að á árunum 1860– 90 hafi ljósmyndir Sigfúsar af Gullfossi, Árhver, Geysi, Heklu, Goðafossi, Snæfellsjökli, Skógarfossi og Þingvöllum greypst inn í vitund þjóðfrelsissinnaðra Íslendinga til frambúðar. Sérstaklega varð áhrifamikil og lífseig sú mynd sem hann dró upp af Þingvöllum, sameiningartákni sjálfstæðisbaráttunnar og „stórkostlegasta, fjölbreyttasta … og fegursta stað á Íslandi“ (Sigurður Guðmundsson málari). „Þannig birtast okkur mosavaxnar hraunbreiður sundurskornar af gjám með útsýn yfir spegilslétt vatnið og yfir til fjalla og speglun í vatni innan hamraklettanna í Almannagjá eða útsýn ofan af hamraveggnum á Hakinu yfir á sléttur Vallanna“ … (bls. 37).
Niðurstaða Ingu Láru er að það hafi orðið „hlutverk ljósmyndarinnar að skapa hefð fyrir myndum og koma upp myndmáli um Ísland og Íslendinga“ (bls. 40). Og að ljósmyndin hafi verið hinn eiginlegi „fyrirrennari málverksins á Íslandi.“ Tengslin blasa víða við, ekki einasta í beinum tilvísunum þeirra Þórarins B. Þorlákssonar, Jóhannesar Kjarval og Jóns Helgasonar í landslagsljósmyndir Sigfúsar, heldur einnig í því hvernig „sérkennileg og einkennileg náttúrufegurð“ og sögulegt ( og Íslendingasögulegt) mikilvægi eru samtvinnuð í verkum íslenskra landslagsmálara langt fram á fjórða áratug 20stu aldar. Til að mynda telur íslensk myndlistarsaga nú hundruð Þingvallamynda með keimlíku svipmóti og lýst er hér að ofan.
Framþróun mannamynda
En hafi Sigfús átt stóran þátt í að skapa hefð fyrir „sérkennilega fögrum“ og sögulega mikilvægum landslagsmálverkum á Íslandi, þá er líka eins víst að hann og hinir fjölmörgu kollegar hans á landinu hafi með portrettljósmyndum sínum einnig tafið framþróun málaðra mannamynda allt fram á þriðja áratug nýrrar aldar. Fyrir það fyrsta yfirskyggði náttúran, helsta tákn íslenskrar þjóðmenningar, allt annað myndefni. Í öðru lagi gátu þeir fáu listmálarar, sem náttúraðir voru til mannamynda, ekki keppt við listfenga ljósmyndara um hylli almennings. Það var ekki fyrr en á þriðja áratugnum, með uppgangi efnaðrar borgarastéttar og tilkomu öflugs portrettmálara, Gunnlaugs Blöndal, að mannamyndahefð skýtur rótum í íslenskri myndlist.
Ljósmyndir Sigfúsar, bæði landslagsmyndir og mannamyndir, voru hins vegar sá spegill sem ung þjóð á gömlum merg þurfti á að halda í aðdraganda sjálfstæðis. Án þeirra hefði íslensk myndlist tæplega þróast eins hratt og örugglega og hún gerði á fyrstu áratugum 20. aldar.