Björn Þór Sigbjörnsson. Steingrimur J: Frá Hruni og heim.

Veröld, 2013, 288 bls.

Össur Skarphéðinsson. Ár drekans: Dagbók utanríkisráðherra á umbrotatimum.

Sögur, 2013, 378 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2014

Það voru umtalsverð tíðindi þegar tveir af sjóuðustu stjórnmálamönnum síðustu áratuga birtu endurminningabækur fyrir síðustu jól. Steingrímur J. Sigfússon (f. 1955) hefur setið á Alþingi síðan 1983; Össur Skarphéðinsson (f. 1953) síðan 1991. Steingrímur var ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988– 91, Össur í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar (1993–95) og ríkisstjórn Geirs H. Haarde (2007–9). Saman sátu þeir svo í „fyrstu hreinu vinstristjórn Íslandssögunnar“ frá 2009–13. Báðir urðu formenn flokka sinna, Steingrímur formaður Vinstri grænna (1999–2013), Össur formaður Samfylkingarinnar (2000–5) – og unnu báðir glæsta kosningasigra í formannstíð sinni. Flokkar beggja guldu afhroð í kosningunum 2013. Báðir hófu stjórnmálastarf sitt í Alþýðubandalaginu, en Össur gekk í Alþýðuflokk og svo Samfylkingu; Steingrímur stofnaði Vinstri græn þegar meginhluti Alþýðubandalags rann inn í Samfylkingu. Báðir sitja enn á þingi, nú í stjórnarandstöðu.

Steingrimur J: Frá Hruni og heimBækurnar tvær eru mjög ólíkar að gerð. Bók Steingríms, Frá Hruni og heim, er viðtalsbók, skrifuð af Birni Þór Sigbjörnssyni. Bókin fjallar um störf vinstri stjórnarinnar 2009–13 frá sjónarhóli Steingríms og greinir rækilega frá hans þætti í þeim erfiðu verkefnum sem við var að glíma eftir Hrunið. Sumir hafa sagt að bókin sé ekki skemmtileg; hún sé svolítið eins og að lesa Fjármálatíðindi. Rétt er, að í bókinni fer ekki mikið fyrir kjafta- eða skemmtisögum. Hún er hins vegar mjög vel skrifuð og afar greinargóð; mikill akkur er í að fá á einum stað málsvörn Steingríms fyrir ríkisstjórn, sem sumir andstæðingar uppnefndu „verstu ríkisstjórn Íslandssögunnar“. Hann fer m.a. yfir aðdraganda Hrunsins, Icesave-málið, glímuna við ríkisfjármálin eða blóðugan niðurskurð, aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, átökin innan Vinstri grænna, Rannsóknarnefnd Alþingis og Landsdómsmálið og skipulagsbreytingar á Stjórnarráðinu. Hann er stoltur af árangrinum.

Bókarhöfundur nefnir nokkra mælikvarða til að rökstyðja góðan árangur. Atvinnuleysi 2009 var 8,2%, en 3,9% í júní 2013. Þrátt fyrir umtalaðan landflótta fjölgaði Íslendingum úr 319 þúsund árið 2009 í 322 þúsund 2013. Stýrivextir Seðlabanka lækkuðu mikið í valdatíð Steingríms og verðbólgan fór úr 18,6 prósentum í 3,8 prósent. Skuldatryggingaálag skánaði. Hagvöxtur skánaði líka, rétt eins og einkaneysla, fjárfesting og kaupmáttur. Rekstrarhalli ríkisins minnkaði mikið (bls. 252–54). Sjálfsagt má rífast um þessar tölur og um hvort betur hefði mátt gera. En tölur af þessu tagi skýra þá jákvæðu umfjöllun sem árangur ríkisstjórnarinnar 2009–13 fékk hjá mörgum sérfræðingum alþjóðastofnana á borð við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og OECD – og mörgum blaðamönnum erlendra fjármálablaða. Segja má með hæfilegum ýkjum, að einn helsti vandi vinstri stjórnarinnar – og þar með vinstri sósíalistans Steingríms – í kosningunum 2013 hafi verið sá, að aðdáendur ríkisstjórnarinnar var aðallega að finna meðal frekar hægri sinnaðra hagfræðinga í útlöndum!

Bók Össurar, Ár drekans, er á dagbókarformi og nær einungis yfir árið 2012, þó ýmislegt frá fyrri árum sé rifjað upp. Ekki er ljóst hvort „dagbókin“ geymir færslurnar eins og þær voru upprunalega skrifaðar, eða hvort veruleg ritstýring hefur verið gerð eftir á. Viðfangsefni Össurar í utanríkisráðuneytinu eru rakin frá degi til dags, í bland við hugleiðingar um menn og málefni stjórnmálanna; bæði um hin stóru mál efnislega og um það hvernig pólitíkin þróaðist í dagsins önn; um pólitísk plott og pólitíska taktík. Össur skrifar óvenjulega leiftrandi og skemmtilegan stíl; mikið er af glaðlegum frásögnum og gamansögum; tilvísanir í menn og málefni sýna yfirgripsmikla þekkingu á íslenskum og erlendum stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum; stundum er orðfarið dálítið sérviskulegt – sumir mundu nota orðið tilgerð um þau stílbrögð – aðrir að hér sé töluð kjarngóð íslenska, stundum næsta forn. Í báðum bókunum er mestu rúmi varið í að fjalla um verkefni ráðherranna, hvors í sínu ráðuneyti. Báðir fjalla þeir þó um margt utan sinna sérstöku málaflokka og um stjórnmálin almennt. Um suma hluti fjalla þeir báðir. Báðir fjalla um aðdragandann að myndun minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, sem tók við völdum 1. febrúar 2009 – nákvæmlega 105 árum eftir valdatöku Hannesar Hafstein, fyrsta íslenska ráðherrans. Um nokkra hríð hafði ríkisstjórn Geirs H. Haarde verið í andarslitrunum og sprakk 26. janúar. Steingrímur segir að Össur Skarphéðinsson hafi sett sig í samband við Ögmund Jónasson um 15. janúar til þess að ræða möguleika á stjórnarmyndun. Sjálfur hafi hann ekki komið að málum fyrr en eftir 21. janúar, en þann dag lýsti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson því yfir að Framsóknarflokkur væri reiðubúinn að veita minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hlutleysi með nokkrum skilyrðum; um aðgerðir fyrir skuldsett heimili, stjórnlagaþing og nýjar kosningar. Umræður hafi farið fram um meiri aðkomu Framsóknar að stjórnarsamstarfinu en raunin varð, en afstaða Sigmundar hafi sveiflast til og frá – og hann leikið einleik af hálfu Framsóknar, nýorðinn formaður. Steingrímur telur að tilboð Sigmundar hafi átt sinn þátt í að gamla stjórnin leystist upp (bls. 18–23).

Össur rifjar líka upp þessa stjórnarmyndun og segir rangt að frægur Þjóðleikhússkjallarafundur Samfylkingar í Reykjavík 21. janúar hafi verið vendipunktur um fall Þingvallastjórnarinnar – og bætir við að sama kvöld hafi menn „verið að leggja lokahönd á myndun nýrrar ríkisstjórnar annars staðar í borginni. Þess vegna var ég ekki í Þjóðleikhúskjallaranum“ (bls. 66).

Áður en Jóhanna Sigurðardóttir fékk umboð til stjórnarmyndunar hélt forseti Íslands blaðamannafund. Í bókinni um Steingrím segir Björn Þór: „Í millitíðinni – eftir fundinn með Geir og fyrir fundina með öðrum flokksformönnum – ræddi Ólafur við fréttamenn og upplýsti að hann teldi brýnt að fjögur atriði yrðu höfð í huga við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Var talið einstakt að forseti legði slíkar línur við stjórnarmyndun, í öllu falli að hann greindi frá þeim opinberlega. Atriðin fjögur sem Ólafur Ragnar vildi að ný ríkisstjórn legði áherslu á voru að sköpuð yrði sátt í samfélaginu, að unnið yrði að lausn á vanda fjölskyldna og fyrirtækja, að kosið yrði sem fyrst og að fundinn yrði farvegur fyrir umræður um nýja stjórnarskrá. Daginn eftir fól Ólafur Samfylkingunni og Vinstri grænum að ræða myndun ríkisstjórnar sem nyti stuðnings Framsóknarflokksins“ (bls. 25).

Steingrímur gefur ekki mikið fyrir hlut forsetans: „Hann var áhugasamur um að landið fengi starfhæfa ríkisstjórn, eins og forseti á að vera, og hafði sjálfsagt einhverjar skoðanir á málunum. En allt gerðist þetta nú án hans atbeina. Það gætir almennt mikils misskilnings á hlutverki forsetans. Hann er ekki og á ekki að vera með puttana í því sem ríkisstjórnin er að gera. Í stjórnarskránni stendur að forsetinn lætur ráðherra framkvæma allar stjórnarathafnir og er ábyrðarlaus af þeim. Það þýðir á mannamáli að hann hefur ekki framkvæmdarvald og ber ekki ábyrgð. Þessi misskilningur virðist ekki síst vera í útlöndum og Ólafur Ragnar er ekki alsaklaus af því að hann hafi orðið til. Hann talar stundum á erlendri grundu líkt og hann sé kosið framkvæmdarvald eins og forseti Bandaríkjanna eða Frakklands en þannig er það alls ekki. Það er þingræði á Íslandi. Hér situr þingbundin ríkisstjórn og sækir umboð sitt til Alþingis en ekki forsetans, punktur“ (bls. 26).

Hvers vegna lagði Ólafur Ragnar efnislegar línur við stjórnarmyndunina opinberlega? Kannski var hann bara að undirstrika vægi forsetaembættisins, en hann hefur stöðugt reynt að auka áhrif þess síðan hann var fyrst kosinn 1996 – og með býsna miklum árangri, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Ekki er ástæða til að rengja þau orð Steingríms að ummæli forsetans hafi engin áhrif haft á samskipti Samfylkingar og Vinstri grænna, enda augljóst að þau pirruðu fleiri forystumenn þessara flokka en Steingrím. En athygli vekur að áherslur Ólafs eru á sömu nótum og áherslur Framsóknarflokksins. Átti forsetinn kannski drjúgan þátt í afstöðu Sigmundar Davíðs? Ólafur Ragnar hefur gefið í skyn að aðkoma forseta hafi skipt miklu um stjórnarmyndunina, en hvorki hann né Sigmundur Davíð munu hafa greint opinberlega frá einkasamtölum sínum þessa afdrifaríku daga. Þessi stjórnarmyndun verðskuldar meiri rannsókn.

Steingrímur er bæði andvígur ýmsum stjórnarathöfnum forsetans – og ósammála skilningi hans á hlutverki forsetaembættisins. Hann er mjög ósáttur við synjun forseta á Icesave-lögunum í ársbyrjun 2010, segist hafa orðið furðu lostinn þegar í ljós kom að lögin voru ekki staðfest á ríkisráðsfundi á gamlársdag 2009 – og bætir við: „Um kvöldið var Ólafur Ragnar skotspónn áramótaskaups Sjónvarpsins ásamt útrásarvíkingunum en í nýársávarpi sínu daginn eftir gaf hann því undir fótinn að hann kynni að synja lögunum staðfestingar“ (bls. 177). Steingrímur segist hafa íhugað afsögn, en það hefði þýtt fall ríkisstjórnarinnar (bls. 178). Hann kveður enn fastar að orði um synjun forsetans á nýjum Icesave-lögum 2011, en þau höfðu verið samþykkt á Alþingi með 44 atkvæðum gegn 16 – flestir Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði með stjórninni í málinu. „Ég tel þessa ákvörðun hafa jaðrað við afnám þingræðis. Ég taldi líka fyrri synjunina afar óskynsamlega en hann réttlætti hana meðal annars með því að þingmeirihlutinn hefði verið tæpur. Nú var mikill meirihluti fyrir málinu og þau rök hans, að þar sem hann hefði áður sett málið í dóm þjóðarinnar þyrfti hann að gera það aftur, voru þvæla“ (bls. 190).

Ár drekansÖssur fjallar mikið um forseta lýðveldisins og samskipti sín við hann, en þeir eru gamlir baráttufélagar og vinir, þó þá greini á um margt. Hann lýsir sívaxandi tilraunum Ólafs Ragnars við að styrkja stöðu forsetans gagnvart ríkisstjórninni. Hér skal rakið nokkuð ítarlega dæmi um þetta, sem einnig sýnir vel teprulausan ritstíl Össurar, staðfestir þau miklu átök sem áttu sér stað milli forseta og vinstri stjórnarinnar, segir margt um stíl og vinnubrögð Ólafs Ragnars – og snýst á endanum um afar mikilvægt mál: sjálfa stjórnskipan lýðveldisins.

Dæmið er frá ríksráðsfundi 30. ágúst 2012 (bls. 266–70), tveimur mánuðum eftir að Ólafur Ragnar var kjörinn forseti í fjórða sinn og fékk nú langmest fylgi frá kjósendum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Dramatísk – og stundum stráksleg – frásögnin er óborganleg, en þar „birtist nýendurkjörinn forseti í fullum herklæðum og heldur byltingunni frá Bessastöðum áfram af endurnýjuðum þrótti“. Leikrænir tilburðir forseta skipa meginsess í frásögninni – og augljóst að Össur dáist að kunnáttu vinar síns í að skapa magnþrungið andrúmsloft. Allir höfðu átt von á léttum fundi, en fyrir fundinn kallar forseti forsætisráðherra á eintal – hinir ráðherrarnir bíða. „Eftir drykklanga stund kemur hún aftur, myrk á svip. Hún hefur varla haft tóm til að segja að „kallinn“ ætli að hjóla í ríkisstjórnina út af stjórnarráðinu þegar hurðum aðalsalarins þar sem ríkisráðið fundar er svipt upp. Forseti er þurr á manninn þegar hann býður ríkisráði að ganga til fundar.“ Í stað þess að skrifa strax undir ný lög um stjórnarráðið viðrar Ólafur Ragnar efnislegar athugasemdir við frumvarpið. (Hann hafði líka gert það á ríkisráðsfundi á gamlársdag 2011 þegar fjallað var um frumvarp til þessara laga. Um þann fund segir Össur: „Ég hafði þá setið í ríkisráði samtals sex ár í tíð fjögurra ríkisstjórna og aldrei áður heyrt slíkar ræður.“)

Eftir ræðu forseta um stjórnarráðslögin verður löng þögn. „Kúnstpásan sem nú lykur um Bessastaði og Álftaneshrepp hinn forna í lok ræðu forsetans virðist standa heila eilífð.“ Össuri dettur að vísu ekki í hug að forseti ætli að synja lögunum staðfestingar, enda gleðjist þjóðin bara yfir fækkun ráðuneyta – en kannski ætli hann að vekja athygli á stöðu sinni með því að taka sér umhugsunarfrest í nokkra daga. „Hvað gera bændur þá? Ríkisstjórnin ætti varla annan kost en að segja af sér eða verða ella eins og drusla undir Bessastaðavaldinu. Ygglibrúnin á Steingrími J. Sigfússyni vefst saman í þungan hnykil. Loks hefur forsetinn aftur upp raust sína. Hann lýsir yfir að þrátt fyrir efasemdir sínar ætli hann eigi að síður að staðfesta lögin. Þögult feginsandvarp stígur upp við hlið mér til vinstri handar. Þar situr forsætisráðherra.“

Næst gerir forseti alvarlegar athugasemdir við að sér hafi ekki borist fyrr en á fundinum úrskurður um nýja verkaskiptingu í stjórnarráðinu, sem hann á líka að skrifa undir. „Fyrir mér er þetta absúrdteater af hæstu gráðu … Forsetinn sveiflar bókstaflega tæknilegum mistökum forsætisráðuneytisins eins og gaddakylfu yfir ríkisstjórninni sem húkir sneypt við gamalt og lúið borð í stóra salnum.“ En forseti segist loks munu staðfesta úrskurðinn. Andrúm léttist, ráðherrar sem taka við nýjum málaflokkum undirrita eiðstaf.

En ekki er allt búið enn. „Á þessum fundi er forsetinn búinn að taka forsætisráðherra á teppið, skamma ríkisstjórnina fyrir vitlaus lög og gera alvarlegar athugasemdir við að slugs í forsætisráðuneytinu komi í veg fyrir að forseti lýðveldisins geti fylgt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnarskrá. Hann er sem sagt búinn að tyggja forystu ríkisstjórnarinnar eins og gamalt skinn og byggja upp með meistaralegum hætti fullkomna móralska yfirburði. Þegar allir halda að dramanu sé lokið dregur forsetinn loksins fram fallstykkin.“

Undir liðnum „önnur mál“ vill Ólafur Ragnar ræða um hvort nýlega fallinn Landsdómur, þar sem forsætisráðherra var sakfelldur fyrir að brjóta stjórnarskrána með því að halda ekki ráðherrafundi, eigi ekki líka við um ríkisráðið. „Ég sé á andlitum ráðherranna að fyrir utan okkur Grím hefur líklega ekki nokkur maður skilið þessa ræðu.“ Össur biður um frekari skýringar. Forseti bendir á að í upphafi lýðveldisins hafi mál verið borin upp við forseta jafnharðan í ríkisráði, sem þá fundaði jafnvel vikulega. Þegar þingmálum fjölgaði hafi sú venja myndast að mál hafi verið staðfest utan ríkisráðs og síðan endurstaðfest á ríkisráðsfundum, sem nú eru fáeinir á ári.

Forsetinn er hér að reifa þá hugmynd hvort stjórnarskráin krefjist þess að öll mál séu strax borin upp fyrir forseta í ríkisráði. Hann gæti þá efnislega fjallað um þessi mál með ríkisstjórninni á ríkisráðsfundum, sem yrðu að vera tíðir – t.d. vikulega. Þetta yrði bylting á skipan framkvæmdarvaldsins á Íslandi, þar sem forseti yrði beinn gerandi í stefnumótun ríkisstjórnar frá degi til dags. En þessar vangaveltur forseta eru vafðar inn í silki – hann er að prófa þanþolið eins og svo oft áður. Össur segir: „Af viðbrögðunum er líka ljóst að langfæstir ráðherranna gera sér grein fyrir að forsetinn er að íhuga miklu stærra og veigameira hlutverk fyrir embættið en það hefur nú. Ætti að bera öll meiriháttar stjórnarmálefni upp við hann í ríkisráði með þeim hætti sem strangasta túlkun stjórnarskrárinnar felur í sér gæti það þýtt að öflugur og fjölmiðlaglaður forseti, eins og Ólafur Ragnar, öðlist samfélagsleg ítök langt umfram hefðbundið hlutverk. Í spennuástandi milli forsetans og ríkisstjórnar eins og hefur ríkt undanfarin misseri gæti það orðið hverri ríkisstjórn erfitt, sérstaklega í stöðu þar sem forseti hefur beinlínis verið kosinn sem eins konar fulltrúi andstöðu við sitjandi ríkisstjórn.“

Í lok umræðu segist forsætisráðherra ekki gera athugasemdir við þá ósk Ólafs Ragnars að málið verði skoðað. Steingrímur (sem Össur kallar oftast Grím) segist hins vegar allsendis ósammála túlkun forseta og að fráleitt sé að bera saman ríkisráð og ríkisstjórn á þann hátt sem forseti hafi gert. „Það bjargar deginum,“ skrifar Össur. Forseti ítrekar að hann hafi ekki myndað sér skoðun á málinu! „Svo heldur súrrealismi þessa dags áfram. Salvador Dali hefði ekki teiknað hann betur upp. Í kjölfar þögulla eldglæringa og vopnabraks býður forsetinn ríksráðinu upp á pönnukökur með sultutaui úr víðfrægum rabarbaragarðinum á Bessastöðum. Hann leikur á als oddi og flestir ráðherrar líka og það er ekki á neinum að sjá að þeir séu að koma úr stríði.“

Össur segir líka frá ríkisráðsfundi á gamlársdag 2012. Þar lýsir forseti yfir andstöðu sinni við fjölmörg atriði í stjórnarskrárdrögum sem lágu fyrir Alþingi, m.a. um persónukjör, veikingu stjórnmálaflokka, styrkt hlutverk forsætisráðherra, stjórnarmyndanir og ríkisráð. „Forsetinn kryddar þetta með því að rifja upp þátttöku margra okkar, þar á meðal hans sjálfs, í Samtökum herstöðvaandstæðinga … Þetta er niðursallandi hirting. Ríkisstjórnin er bókstaflega flengd … Þetta er langlengsta talan sem forseti hefur haldið á þeim ríkisráðsfundum sem ég hef setið … Forsætisráðherra svarar þessu án þess að nota stór orð … Engum mín megin borðs getur dulist af svipbrigðum formanns VG hversu ósáttur hann er við ræðu forsetans. Hann tekur líka til máls og kveðst líkt og forsætisráðherra ekki ætla í efnislega umræðu um stjórnarskrána. Hann finnur að því að mál af þessu tagi séu á dagskrá ríkisráðs án þess að gert sé uppskátt um það fyrirfram. Stuttri ræðu lýkur hann með því að áskilja sér rétt til að leggja síðar efnislega bókun inn í fundargerð ríkisráðs um tölu forsetans og önnur samskipti sín við hann“ (bls. 377). Ólafur Ragnar hafði reyndar fyrr útskýrt fyrir Össuri í einkasamtali andstöðu sína við ýmsar hugmyndir stjórnlagaráðs; þær „feli í sér stjórnkerfi sem aldrei hafi nokkurs staðar á byggðu bóli, alla vega ekki á Vesturlöndum, verið mátuð við veruleikann.“ Hann telji „stjórnarskrármálið komið í ógöngur og óðs manns æði að ljúka nýrri stjórnarskrá í algjöru ósætti“ (bls. 361).

Greining Össurar á kosningabaráttu Ólafs Ragnars fyrir forsetakosningarnar 2012 er afar athyglisverð, en skoðanakannanir bentu í fyrstu til þess að Þóra Arnórsdóttir hefði mun meira fylgi en forsetinn. Ólafur hóf kosningabaráttu sína með viðtali á Sprengisandi. Össur hlustar á viðtalið í ráðherrabílnum á leið suður á Keflavíkurflugvöll: „Forsetinn bombarderar í allar áttir. Hann gerir lítið úr Þóru Arnórsdóttur, segir forsætisráðherra í leiðöngrum á móti sér, ásakar Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmann hennar, um að hafa leitað logandi ljósi að frambjóðanda gegn sér – og klínir því öllu á Jóhönnu Sigurðardóttur. Sakar Svavar Halldórsson, eiginmann Þóru, um að hafa misnotað stöðu sína hjá RÚV til að skapa af sér neikvæða ímynd … Þetta er úthugsuð pólitísk klasasprengja. Íslendingar hafa aldrei heyrt slíka ræðu áður – allra síst af vörum forseta. Ólafur Ragnar er augljóslega að brjóta sig úr stöðu sem hann telur læsta og erfiða. Hann stillir sér upp sem manni fólksins á móti óvinsælli ríkisstjórn. Hjólar sérstaklega í forsætisráðherra og Þóru sem liggur á sænginni. Útspilið er djarft en gæti líka falið í sér mikinn háska. Hann gæti fengið allar konur Íslands á móti sér“ (bls. 153). Össur rifjar þessa greiningu upp við Ólaf Ragnar í símtali rétt eftir forsetakosningarnar, þar sem þeir ræða líka stjórnarskrármálið – og forsetinn segir „að þetta sé ekki óvitlaus analýsa“ [svo!] (bls. 215–16, sjá einnig bls. 158–59 og 221–23). Reyndar eru í bókinni margar frásagnir af einkasamtölum Össurar og Ólafs Ragnars, þar sem þessir gömlu stjórnmálarefir kryfja á kaldrifjaðan og skarpan hátt stjórnmálaveruleika samtímans.

Steingrímur og Össur ræða báðir um innanflokksátök í Vinstri grænum og Samfylkingu. Steingrímur lýsir vel þekktum átökum innan VG í heilum kafla (bls. 197–209), m.a. stormasömum samskiptum við Ögmund Jónasson. Hann er fremur umtalsfrómur um flesta andstæðinga sína innan flokksins – en hefur bersýnilega gaman af að segja um Jón Bjarnason, Atla Gíslason og Bjarna Harðarson að helsta uppskera framboðs þeirra 2013, Regnbogans, hafi verið að fella eindreginn ESB-andstæðing úr röðum Vinstri grænna: „Reyndar má segja að framboð Regnbogans hafi hreinsað mjög andrúmsloftið. Það fékkst þá loksins óvilhöll mæling á stuðningi við þeirra málflutning og menn þekkja niðurstöðuna“ (bls. 208). Reyndar segir Össur í sinni bók, að það hafi verið skólabókardæmi um pólitískan fingurbrjót þegar Atli og Lilja Mósesdóttir yfirgáfu Vinstri græn (með Ásmundi Einari Daðasyni): „Hefði Lilja beðið, og þremenningarnir haldið áfram sem skipulögð andstaða innan VG með Ögmundi Jónassyni, Jóni Bjarnasyni og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, hefði það endað með því að þessir sex þingmenn hefðu að lokum klofið sig frá Steingrími J. Sigfússyni – og þar með VG“ (bls. 260).

Frásagnir Össurar af innanflokksátökum í Samfylkingu koma meira á óvart, enda minna um þau fjallað í fjölmiðlum á sínum tíma. Samband Össurar við Jóhönnu virðist hafa verið ástar-haturssamband; hann er oft pirraður á henni; telur hana hafa lítið samráð við sig, en kalli á sig til að slökkva elda þegar þess þurfi (sjá t.d. bls. 65). En hann skrifar líka lofsamlega um hana: „Enginn stjórnmálamaður sem nú er á dögum hefur jafnglæsilegan feril að baki og Jóhanna“ (bls. 295). Átök í prófkjöri Samfylkingar í Reykjavík í nóvember 2012 voru býsna hörð (bls. 331–39). En Össur telur að Landsdómsmálið hafi valdið hvað dýpstum sárum innan Samfylkingar – en hann var á móti málssókninni og rökstyður þá afstöðu sína. Sérstaklega hafi verið hart sótt að Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, en hún hafi sýnt mikinn styrk við stjórn þingsins – og reynt að vera forseti allra þingmanna (sjá einkum bls. 24–42 og 69–74). Steingrímur vildi samþykkja álit þingmannanefndar sem lagði til að Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrðu öll ákærð. Hann rökstyður þá afstöðu í sinni bók (bls. 212–15).

Örlögin er stundum kaldhæðin í stjórnmálum. Þegar Steingrímur settist í stjórn 2009 hafði hann setið 26 ár á þingi – alltaf í stjórnarandstöðu nema 1988–91 þegar hann var ráðherra. Hann þótti herskár vígamaður og mikill ræðumaður í gömlum stíl; gagnrýndi kapítalisma og frjálshyggju; varaði mjög við hvoru tveggja á bólutímanum – og var stundum sagður vera á móti öllu. Hlutverk hans í ríkisstjórn varð hins vegar að endurreisa kapítalisma og hrunið bankakerfi á Íslandi í náinni samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn – sem margir vinstrimenn (þar á meðal Steingrímur) töldu löngum útsendara hins alþjóðlega auðvalds; síðustu árin kalla sumir hægrimenn sjóðinn reyndar handrukkara alþjóðlega fjármálaauðvaldsins! Steingrímur gekk í verkin, eins og glögglega kemur fram í bók hans. Þetta nýja hlutverk olli hins vegar miklum deilum innan flokksins, rétt eins og ríkisstjórnarþátttaka vinstri sósíalista í Danmörku og Noregi hefur gert síðustu árin. Á vinstri sósíalískur flokkur einungis að sinna hlutverki gagnrýnandans, eða á hann að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með óhjákvæmilegum málamiðlunum og „svikum“? Verður Steingríms minnst sem hentistefnumanns – eða verður hann talinn „ábyrgur“ stjórnmálamaður sem reis yfir flokkshagsmuni á ögurstund í sögu þjóðar sinnar? Kannski felst engin mótsögn í þessu. Starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa þegar mært Steingrím, rétt eins og hann hrósar þeim og íslenskum embættismönnum – það síðastnefnda gerir Össur líka óspart.

Það er sömuleiðis kaldhæðið, að þeir forystumenn íslenskra stjórnmála sem hér hefur verið mest um fjallað, Össur, Steingrímur og Ólafur Ragnar, voru allir frammámenn í Alþýðubandalaginu sáluga á níunda áratug 20. aldar. Össur var þá náinn bandamaður Ólafs í innanflokksátökum gegn Svavari Gestssyni og Steingrími. Skyldi þá hafa dreymt um það á þessum árum, að þeir ættu eftir að sitja saman og deila um stjórnskipunarmál í ríkisráðinu – í hlutverkum forseta lýðveldisins og ráðherra fyrir krataflokk og vinstri sósíalista? Vinátta – og óvinátta – einstaklinga í stjórnmálum er líka umhugsunarefni eftir lestur þessara bóka. Alþekkt er, að vinátta myndast oft milli pólitískra andstæðinga og að hatrið verður oft mest á milli samflokksmanna.

Fyrir þessu eru reyndar gild rök: pólitískir andstæðingar eru nauðsynlegur partur af hinum pólitíska leik – stundum ertu undir og stundum ofan á. Pólitískir samherjar eru hins vegar oftast þeir einu sem geta drepið þig í pólitík – rekið þig úr leiknum. Skýrustu dæmin um vináttu þvert á flokksbönd eru vinátta Össurar við annars vegar Ólaf Ragnar – sem hann kallar „eins manns stjórnmálahreyfingu sem enginn geti gengið í og hafi sagt öllu establísmentinu stríð á hendur“ (bls. 216) – og hins vegar Ögmund Jónasson; náinni vináttu þeirra og samráði er oft lýst í bók Össurar (t.d. bls. 146–47); stóryrði og deilur þeirra á milli við ríkisstjórnarborðið og á opinberum vettvangi hafa þar engin áhrif. Raunar virðist líklegt að þeir tveir hafi átt drjúgan þátt í að smíða þá lausn um ESB-málið sem varð ofan á við myndum meirihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna eftir kosningar 2009 og fól í sér aðildarumsókn; Steingrímur segir frá því að þeir félagar sátu báðir í viðræðuteymi flokka sinna um það mál í stjórnarmyndunarviðræðunum (bls. 95).

En hvað með hugsjónir? Báðar bækurnar fjalla fyrst og fremst um kaldan veruleika valdsins; list hins mögulega eins og það er stundum kallað. Báðir – en þó einkum Össur – fjalla mest um bardagann og leikflétturnar sem honum fylgja. En þeir fjalla líka um hugsjónir sínar. Steingrímur gerir það m.a. í sérstökum eftirmála (bls. 279–82). Evrópusambandið er Össuri greinilega hugsjón. Þróunaraðstoð líka. Hann greinir frá harðvítugum átökum sínum við Jóhönnu um fjárframlög til þróunarmála á tveimur fundum þeirra 3. júlí, þar sem Össur hafnar málamiðlun og hótar að ganga opinberlega gegn ríkisstjórninni, jafnvel þó það kosti líf hennar. Að kvöldi þess dags hringir Steingrímur með áhyggjur af stjórninni „og ég segi honum mína hlið. Hann er eins og ég, með skráp og skel, en í okkur báðum slær hjarta jafnaðarmanns. Hann skilur vel að ég er að verja prinsíp sem er okkur báðum mikils virði“ (bls. 216–20). Össur hefur sitt fram. Steingrímur og Össur haga vissulega báðir seglum eftir vindi í pólitík – en það er oft notað sem skammaryrði um stjórnmálamenn, þó sjómenn séu víst flestir á öðru máli um þetta. Og ósanngjarnt væri að segja að þeir Steingrímur og Össur sigldu alltaf lens – báðir kunna vel beita upp í vindinn.

Að lokum má velta fyrir sér heimildagildi verka á borð við bækur Össurar og Steingríms. Báðar eru auðvitað sagðar frá þeirra sjónarhóli og í bókunum eru þeir einir til frásagnar. Hafa ber í huga að þeir eru báðir enn þátttakendur í stjórnmálum og það kann að hafa áhrif á frásögn þeirra – m.a. mildilegar frásagnir af flestum andstæðingum innan flokks og utan. Ýmsir hafa rengt frásagnir þeirra af einstökum atburðum – og sumt af því má vel vera rétt. Frásagnir Össurar af einkasamtölum eru gullnáma fyrir áhugamenn um stjórnmál, en vekja siðferðilegar spurningar um trúnað. Hins vegar er heildarmyndin af náköldum veruleika stjórnmálanna trúverðug og afar gagnleg fyrir þá sem vilja skilja hvernig kaupin gerast í reynd á hinni pólitísku eyri – „warts and all“ eins og stundum er sagt á engilsaxnesku. Bækur af þessu tagi hafa verið fátíðar á Íslandi – en algengar í útlöndum.

Í bók Steingríms er nafnaskrá, en atriðisorðaskrá vantar. Hvorugt er hins vegar að finna í bók Össurar. Það er til mikils baga fyrir lesendur. Með nútímatækni á að vera auðvelt og kostnaðarlítið að þjóna lesendum betur í þessu efni.

 

Ólafur Þ. Harðarson