Kristín Eiríksdóttir. Elín, ýmislegt.

JPV útgáfa, 2017. 182 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2018

Elin, ýmislegtElín, ýmislegt er önnur skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur og við fyrstu sýn nokkuð frábrugðin fyrri verkum hennar. Þó má finna kunnuglega þræði sem tengja verkin og raða þeim upp í heillega mynd sem sýnir kannski fyrst og fremst sársaukafullt brot innra með manneskjunni. Brot sem felst í fyrirfram tapaðri baráttu fyrir því að skilja okkur sjálf og rætur okkar – því ræturnar eru gegnsýrðar af eitri fyrri kynslóða, áföllum sem þær urðu fyrir og hafa ekki unnið úr. Persónur í verkum Kristínar eru af þessum sökum (og öðrum) jaðraðar og eiga í erfiðleikum með að fóta sig í samfélaginu. Hversu sýnilegir þessir erfiðleikar eru öðrum er misjafnt en flestir koma fyrr eða síðar upp um sig þegar þeim mistekst að leika venjulega manneskju. Þær eru eins og púsl sem ekki passa inn í heildarmyndina, þjást af rótleysi sem er m.a. undirstrikað í Elín, ýmislegt með rótlausu plöntunni Tillandsiu sem birtist af og til.

Í skrifum sínum hefur Kristín löngum rannsakað hvernig áföll berast milli kynslóða og hvernig áfallastreituröskun prentast í raun inn í DNA okkar og ferðast þannig áfram nema vítahringurinn sé rofinn – en slíkt er auðvitað hægara sagt en gert. Ef manneskja verður fyrir áfalli og vinnur ekki almennilega úr því situr það áfram í líkama og sál og næst þegar eitthvað kemur uppá, jafnvel eitthvað smávægilegt, fara líkaminn og heilinn beint í fyrra áfallið – á þann hátt upplifir manneskjan í sífellu sama áfallið aftur og aftur ef ekki tekst að vinna úr því. Þannig sýnir Kristín okkur oft manneskjur sem virðast vera skrímsli og afhjúpar svo áfallið eða áföllin sem sköpuðu ómennskuna.

Í leikriti hennar og Karíar Grétudóttur frá 2013, Karma fyrir fugla, er unnið með áföll sem ganga milli kynslóða eins og skelfilegur arfgengur sjúkdómur og í skáldsögunni Hvítfeld (2012) er það nánast stef. Þar vinnur höfundur gagngert með brotna fjölskyldu sem á yfirborðinu lítur út fyrir að vera tiltölulega venjuleg en flettir svo ysta laginu af, og með því að grafa sig til baka í gegnum kynslóðirnar fást svör við knýjandi spurningum um persónurnar eins og þær eru í dag. Hlutirnir eru sjaldnast eins og þeir sýnast hjá Kristínu og oft er manneskjan sem sýnist heilbrigð í raun helsjúk og svarti sauðurinn heilli þegar nánar er að gáð.

Elín, ýmislegt er í aðra röndina minningabók eða frásögn fullorðinnar konu, Elínar, sem er leikgervahönnuður, en um leið er þetta saga kornunga leikskáldsins Ellenar. Leiðir þeirra liggja saman þegar sú fyrrnefnda tekur að sér að sjá um leikgervi í sýningu á leikriti eftir þá síðarnefndu. Áhugi Elínar á Ellen virðist sérkennilega mikill enda kemur í ljós að Elín þekkti föður hennar, hinn fræga rithöfund Álf Finnsson, og hafði þar að auki hitt stúlkuna undir erfiðum kringumstæðum mörgum árum áður. Þessar tvær konur virðast í upphafi gjörólíkar en eftir því sem frásögn Elínar vindur fram verða speglanir milli þeirra sífellt fleiri og skýrari.

Eins og í Hvítfeld vinnur Kristín með óáreiðanlega sögumenn. Í upphafi virðist raunar leitun að ábyggilegri manneskju en hinni vanaföstu, alvarlegu Elínu en þegar líður á bókina fara að renna á lesandann tvær grímur. Hún virðist traust í fyrstu en ef til vill dálítið einræn á meðan Ellen er fullkomlega óútreiknanleg og varla í tengslum við raunveruleikann. Undarlegir atburðir verða á vegi Elínar sem lesandinn afgreiðir til að byrja með eingöngu sem absúrdpælingar höfundar en eftir því sem líður á söguna verður smám saman ljóst að Elín þjáist af heilabilun eins og amma hennar á undan henni og tengslaleysið stafar mögulega ekki eingöngu af því að hún kjósi einveruna. Þannig verður undarlega konan á efri hæðinni, Helena leigjandi Elínar, kannski ekki svo undarleg þegar upp er staðið og jafnvel eru til rökrænar skýringar á föla manninum sem Elín rekst á inni í stofu hjá sér. Öll frásögnin verður þannig örvæntingarfull tilraun Elínar til að skrásetja og njörva niður hugsanir sem fljúga út um allt.

Minningabók byggir á minninu og sögumaður sem ekki man og sem ekki er lengur fær um að gera tengingar getur ekki sagt söguna. Á sama tíma og ljóst verður að Elín er að missa tengsl við raunveruleikann verður persóna Ellenar smám saman skiljanlegri og gjörðir hennar sömuleiðis. Jöðrun beggja kvenna í samfélaginu má svo m.a. rekja til mæðra þeirra og formæðra. Lilja móðir Ellenar er frústreruð myndlistarkona og á við geðræn vandamál að stríða og móðir Elínar virðist hafa fyrirfarið sér eða í öllu falli þjáðist hún af þunglyndi og varð bráðkvödd eftir neyslu vodka og lyfja. Óttinn við að missa alveg sambandið við raunveruleikann vofir yfir Elínu og raunar öllum persónunum: „Einhvern veginn hafði ég alltaf ímyndað mér að ég færi einsog amma. Að hugurinn yrði tæmdur þar til skipanir hættu að berast líkamanum. Tilhugsunin hafði skelft mig síðan ég kvaddi hana. Hugsunin skelfdi mig svo mikið að ég kláraði hana aldrei. Hún ferðaðist með mér óhugsuð, mótaði mig, fann sér farvegi í gegnum mig. Óttinn við að missa vitið.“ (Bls. 127) Undir lokin leysist frásögnin nánast upp í rótlausum hugsunum Elínar, allt rennur saman og verður merkingarlaust – líka orð og nöfn. Elín, Ellen og Helena bera þar að auki allar nánast sama nafnið og þegar veruleikar fara að renna saman gera nöfn þeirra og persónur það sömuleiðis.

Kristín er myndlistarmenntuð og lýsingar hennar á efni og áferð eru iðulega nákvæmar, sláandi og heillandi en jafnframt óþægilega raunverulegar og nærgöngular. Skemmst er að minnast Koks (2014) sem var hvort tveggja í senn myndlistarverk og ljóðabók. Sjálf segir hún í viðtali að hún sé gríðarlega næm fyrir efnum og áferð og oft sé þetta hennar leið inn í skáldskap. Hún segist þola illa þegar fólk blandar undarlegum efnum saman ómeðvitað og sjálf vinni hún gagngert með slíkar andstæður til að kalla fram áhrif – jafnvel óþægindi. [1]

Í Elín, ýmislegt býr Elín til leikgervi og leikmuni og eðli málsins samkvæmt eru þetta gjarnan hlutir sem einir sér eru fáránlegir, óhugnanlegir og hljóta að birtast okkur eins og undarleg tákn. Meðal þess sem hún vinnur að er eiturslanga, ör á vanga og stakir eða afsagaðir líkamspartar. Í hrífandi en óþægilegum lýsingum fær lesandinn að fylgjast með vinnslu hlutanna sem og vangaveltum listakonunnar um hvernig sé best að ná fram ákveðnum áhrifum. Stundum treystir Elín fingrum sínum betur en augunum í að ná fram sannleikanum. Hún strýkur og þreifar frekar en að horfa bara. Nákvæmnin og vandvirknin í hinu efnislega myndar fullkomna andstæðu við óreiðuna í huga Elínar þegar á líður.

Elín er ógift og barnlaus og fyrir utan ömmu hennar sem ól hana upp er lesandinn ekki upplýstur um nein sambönd í lífi hennar. Þar er þó undanskilin lýsing á samskiptum hennar við eldri mann sem hún kynntist í ferðalagi til Asíu mörgum árum áður. Í magnaðri lýsingu á heimi þar sem hinn vestræni ferðamaður getur keypt sér hvað sem er – og gerir það – lýsir Elín því hvernig hún og maðurinn eyða tíma saman án þess þó að ástarsamband verði til, Elínu til vonbrigða. Um síðir áttar hún sig á því að maðurinn er fjöldamorðingi sem sker höfuðleðrið af fórnarlömbum sínum. Lítil húðpjatla með hári sem hún finnur á hótelherbergi mannsins er skelfileg og grótesk en kallast um leið á við aflimuðu fingurna sem Elín vinnur sjálf við að búa til og sömuleiðis hárkollurnar sem amma hennar gerði fyrir leikhúsið á árum áður: „Hún gerði hárkollur sem héngu um allt og voru svo raunverulegar að þær gátu allt eins verið höfuðleður sem hún safnaði.“ (Bls. 106) Eitt árið gaf amman svo Elínu hárbolta úr eigin hári í jólagjöf – barnabarninu til hryllings. Öll vinna þau með einangraða hluta líkamans, taka þá úr samhengi og gefa þeim nýtt hlutverk, skapa jafnvel nýja heima þótt ekki fái lesendur að vita hvernig fjöldamorðinginn vann með sitt höfuðleður. Tengslarofið í þessum stöku líkamshlutum kallast svo aftur á við tengslarofið í lífi þeirra.

Þessi gríðarlega persónulega, í sumum tilvikum leynilega vinna með efni og form er ákveðið stef í verkum Kristínar – í Hvítfeld lokar Dýrleif, amma Jennu, sig niðri í kjallara þar sem hún býr til óhugnanlegar litlar postulínsfígúrur í mannsmynd, og í smásagnasafninu Doris deyr má finna smásöguna Staðsetja, útvega, flokka, raða og varðveita þar sem drengurinn Sindri býr í kjallaranum hjá móður sinni og á þar gríðarstórt safn ýmissa muna – þar á meðal beina, skeggstubba, naglaafklippa og augnhára. [2] Elín og amma hennar, Sindri úr Doris deyr og Dýrleif í Hvítfeld vinna öll í kjallaranum þar sem undirmeðvitundin býr og þótt vinna þeirra þyki í sumum tilfellum óhugnanleg og ósamþykkt af samfélaginu en í öðrum tilvikum fullkomlega gjaldgeng er einhver sterkur þráður sameiginlegur hjá þeim öllum, kannski fellur fjöldamorðinginn í sama flokk, í öllu falli virðast þau öll finna sig knúin til að halda áfram vinnu sinni hvort sem þau eru fordæmd af samfélaginu eða ekki. Þau eru rekin áfram af innri þörf til sanka að sér efni og skapa eigin heim og eiga í erfiðleikum með að fóta sig í hinum heiminum.

Áferð og eðli munanna sem Elín vinnur að hafa sterk áhrif á lesandann en segja má að áhrifin séu af tvennum toga. Annars vegar kalla óþægileg efni og líkamshlutar jafnvel fram líkamleg viðbrögð en einnig eru þetta tákn og hafa sem slík vitsmunaleg áhrif og vísa út fyrir sig. Myndlistarkonan í Kristínu birtist þannig ekki bara í áferðum heldur líka í myndum og táknum sem eru stundum svo sérstök og dulmögnuð að þau fá á sig yfirbragð draumsins, hætta að vera fullkomlega raunsæisleg. Hér má t.d. nefna rótlausu plöntuna Tillandsiu sem Elín finnur fyrst á bak við sjónvarpið og birtist aftur í leikriti Ellenar sem og glerhesturinn óbærilegi sem kemur upp úr einum af kössunum sem skáldsagan hefst eiginlega á.

Titillinn, Elín, ýmislegt kemur frá þessum kössum sem fundust í húsi ömmu hennar og tilheyra Elínu. Þetta eru þrír kassar sem geyma minjar úr fortíð hennar, einn merktur „Elín, pappírar“, annar „Elín, bækur“ og sá þriðji „Elín, ýmislegt“. Við flutninga raðar maður lífi sínu niður í kassa og góðar merkingar verða afskaplega mikilvægar – eldhús, snyrtivörur, bækur, föt, glös og bollar geta alltaf farið í sérmerkta kassa. En af einhverri ástæðu eru alltaf kassar eftir sem ómögulegt er að merkja öðruvísi en „ýmislegt“. Í þeim felst allt það aukadót sem fylgir því að vera manneskja en er ekki hægt að flokka, þetta er ekki neitt sérstakt, þetta er alls konar. Kannski er efnislega samantekt á lífi okkar að finna í kössunum sem merktir eru „ýmislegt“.

Það segir því meira en mörg orð að Elín vill ekki opna þessa kassa, ekki skoða í þá. Hún ætlar fyrst að farga þeim strax en á erfitt með það. Síðar kemur fölleitur maður og sækir þá en eftir verður lítill hlutur – væntanlega úr „ýmislegt“ kassanum. Lítill glerhestur sem fyllir Elínu slíkum hryllingi að hún nánast lamast. Þá vaknar hin erfiða spurning – hvernig getur maður tortímt hlut sem er svona hræðilegur? Hann er í raun of skelfilegur til að hægt sé að eyða honum á nokkurn rökrænan máta. Elín getur ekki hugsað sér að sturta honum niður klósettið, hann gæti fest og væri þá alltaf í húsinu, ekki setja hann í endurvinnslu, þá myndi hún sífellt tortryggja allt úr gleri, það gæti verið efnislega frá hestinum komið, ekki henda honum í sjóinn, þá gæti hann marað einhvers staðar í kafi í seilingarfjarlægð osfrv. Að lokum finnur hún þó lausn á þessum vanda sem kallar fram hugmyndir síðustu ára og metoo byltingarinnar um að skila skömminni.

Glerhesturinn er kannski skýrasta en ekki eina dæmið um yfirfærslu tilfinninga yfir á hluti og stundum renna jafnvel hlutir og tilfinningar eða hlutir og manneskjur saman. Húsið sjálft sem Elín býr í endurbyggði hún spýtu fyrir spýtu, flís fyrir flís og það er órjúfanlegur hluti af henni. Það er því táknrænt þegar hún man ekki lengur hver býr á efstu hæðinni og er búin að bera alla vinnuna úr kjallaranum upp í stofu. Sjálf talar Elín í upphafi um að bókin sé „[b]ara tilraun til að tengja tákn sem bárust í vöku og draumi.“ (Bls. 7) Frá upphafi er þetta gert til að festa hönd á martraðarkenndum veruleika sem skreppur í sífellu undan.

Í verkum Kristínar er iðulega að finna þennan sérkennilega tón, tilfinningu um yfirvofandi eða undirliggjandi óhugnað. Hryllingur martraðarinnar er rétt utan seilingar, stundum róar hún lesandann með því að gangast draumnum á hönd en næstu andrá fylgir hinn skelfilegi sannleikur um að þetta sé raunveruleikinn. Heimur hennar rúmar þó alltaf kímni, gjarnan sprottna úr hversdagsleikanum: „Á heimleiðinni skall myrkrið á borginni. Ég hlustaði á útvarpsfréttir. Lögreglan lýsti eftir fölleitum manni í úlpu með hanska. Þetta var í byrjun febrúar og ég velti fyrir mér hver væri ekki fölleitur í úlpu með hanska.“ (Bls. 11) Persónur hennar eru sömuleiðis óþægilegar og óhugnanlegar, stundum jafnvel illgjarnar. En áður en hægt er að afgreiða þær sem hentugt fjarlæga illvirkja er lesandanum sýnt inn í kviku þeirra þar sem mennskan er svo mikil að óhjákvæmilegt er að lesandinn skynji skyldleika sinn með þeim.

Persónur Kristínar berjast gjarnan við að sýnast „venjulegar“, reyna að halda uppi samræðum, klæða sig, vinna, kaupa í matinn – hversdagurinn er þeim þolraun því sá stóri hluti mennskunnar sem snýr að mannlegum samskiptum er skaddaður, jafnvel skemmdur. Í aðra röndina stillir höfundur upp afskaplega ýktum aðstæðum en á hinn bóginn er þetta blákaldur raunveruleiki og eitthvað sem flestir geta samsamað sig við að einhverju leyti, gróteska og absúrdismi sem reynast við nánari athugun vera ekta raunsæi. Mögulega er þetta hluti af því sem gerir verk Kristínar svo heillandi, þessi hæfileiki til að draga upp torkennilegar myndir af einhverju ókennilegu sem verður svo kunnuglegt – ítrekað stillir hún lesandanum upp svo nálægt hlutum að augu og heili ná ekkert að nema annað en efni og áferð og draga fáránlegar ályktanir. En þá lætur hún okkur stíga skref til baka og skyndilega verður allt skiljanlegt. Hún skrifar um jaðraðar persónur í undarlegum aðstæðum en um leið skrifar hún um okkur öll.

Maríanna Clara Lúthersdóttir

Tilvísanir

  1. Kristín Eiríksdóttir, viðtal í DV: http://www. dv.is/menning/2017/11/19/kristin-eiriksdottir- elin-ymislegt/ Sótt af netinu 12.02.2018.
  2. Kristín Eiríksdóttir. Doris deyr. JPV útgáfa: Reykjavík, 2010, bls. 28–29.