Friðgeir Einarsson. Formaður húsfélagsins.
Benedikt, 2017. 208 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2018
Formaður húsfélagsins er ekki beinlínis réttnefni á þessari fyrstu skáldsögu Friðgeirs Einarssonar. Sagan fjallar ekki um formann húsfélags, þessarar mikilvægu en oft svo óþolandi stofnunar í fjölbýlishúsum. Og eftir því sem best verður séð þá bærast heldur engar þrár til slíkra metorða í brjósti unga mannsins sem sagan greinir frá né kannski nokkrar aðrar þrár. Að því leyti er hér á ferð erkitýpa nútímamannsins, samtímamannsins, þessarar mannveru sem á 21. öldinni tekst á við heim á fallanda fæti sem um leið er heimur allsnægta og óteljandi tækifæra að sagt er – en líka óðabreytinga þannig að ómögulegt er að velja eitthvað eitt að leggja fyrir sig í lífinu, einn draum og/eða markmið og heimskulegt jafnvel að elta ólar við slíkt. Miklu fremur gildir að vera stöðugt reiðubúinn að taka nýjum áskorunum og helst gerbreyta lífi sínu reglulega. Um þetta vitna fjölmiðlar dag hvern. Að sama skapi er titill þessarar fyrstu skáldsögu Friðgeirs Einarssonar afar viðeigandi vísun til þess hlutverks hvers og eins að vera formaður í sínu eigin lífs húsfélagi, leggja fram tillögur og fylgja eftir samþykktum. En hvað er „eigið líf“, hver er raunveruleikinn, hin eiginlega tilvera, úr hverju verður hún til og hvernig birtist hún?
Í upphafi fáum við fátt að vita um unga manninn, í raun ekki einu sinni hvort hann er ungur. Tilvera hans virðist standa á einhvers konar núllpunkti og hann þarfnast næðis til að koma aftur undir sig fótunum. Hann er að ná sér eftir sambandsslit, „ … það eru níu dagar og fjórir mánuðir síðan ég hef talað við K“ (5). Nú er hann fluttur inn í íbúð systur sinnar með húsbúnaði og smámunum sem eru hluti af tilveru einhvers annars. Systirin er flutt til Noregs. Smám saman setur hann þó sitt mark á umhverfið, raðar sínum eigin bókum í hillur, setur hluti í skápa og byrjar að reykja aftur til að svalir íbúðarinnar fái tilgang. Í fjölbýlishúsum fylgir allt rökréttum og hagnýtum ferlum, að því er virðist sjálfvirkt. Fljótlega eftir að ungi maðurinn flytur inn hverfur þannig nafn systurinnar af lista íbúa hússins og nafn hans sjálfs kemur í staðinn. Lesandinn fær þó aldrei að vita hvað ungi maðurinn heitir.
Hrynjandi hússins og hljóðin í daglegu lífi íbúa þess verða unga manninum smám saman kunnugleg og lesandinn kynnist honum líka. Hann þarf að finna sér vinnu, móðir hans minnir hann á mikilvægi þess að skrifa ferilskrá og hvað það sé gott að vera með tengslanet. Ungi maðurinn er ekki með slíkt net, hann er staddur í „viðsjárverðu einskismannslandi“ með fólki sem „engan veginn er skýrt hvort þekkist eða þekkist ekki“ (30). Hann er með öðrum orðum staddur í eins konar stigagangi í lífi sínu sem fær samsömun með stigagangi fjölbýlishússins í frásögninni.
Í fjölbýlishúsi þurfa íbúarnir að falla undir einn nefnara, sérviska er óæskileg, einsleitni af hinu góða sem endurspeglast í húsunum sjálfum. Sjaldan er ein blokk stök. Þetta reynir söguhetjan strax fyrsta kvöld sitt í húsinu þegar hún bregður sér í nærliggjandi verslun og gerir á heimleiðinni tilraun til að opna með lykli tvennar útidyr áður en lykillinn lýkur loks upp þeim réttu. Dyrnar eru allar eins, anddyrin öll eins í rökkrinu, húsin sjálf líka sem og íbúarnir sem verða hluti af húsinu: „Á köflum líður mér eins og himnan milli mín og byggingarinnar hafi rofnað í atganginum, hugsanir mínar runnið saman við veggina, húsgögnin, rykið í loftinu og kaffið í bollanum, eins og þegar egg eru pískuð saman í skál. Allt rennur saman í einn graut“ (40).
Höfundur hefur greinilega reynslu af lífi í fjölbýlishúsi þar sem sumt breytist aldrei eins og t.d. að íbúarnir komi hlutum og húsgögnum tímabundið fyrir í sameigninni en gleymi síðan. Þetta dót verður hluti af húsinu en vitnar líka um einhverja sögu sem truflar þá sem eru ekki hluti af sögunni. Svo eru alltaf einhverjir sem ekki skipta um ruslatunnur undir sorprennunni, að ekki sé talað um að skipta um ljósaperu af sjálfsdáðum. Friðgeir notar gjarnan upptalningar, runur til að skapa umhverfi og aðstæður, ýmist út frá hljóðum eða myndum, sbr. dagskrá útvarpsins, einkum fréttaflutning (26–28) eða lýsinguna á svokallaðri „bláu sjoppu“ með upptalningu þess sem þar er á boðstólum og á útliti viðskiptavina sem halda þar til (32–35). Þessar runur draga oftar en ekki upp sterkar myndir sem gefa frásögninni sögulegan ramma fyrir utan að ljá textanum ljóðrænt yfirbragð á stundum.
Ungi maðurinn þarf að rífa sig upp, finna lífi sínu takt og tilgang. Hann gengur til geðlæknis til að auðvelda sér verkefnið, reynir að segja honum satt og rétt frá lífi sínu og tilfinningum og fara að ráðum hans um að huga til dæmis að rútínu til að skapa stöðugleika. Læknirinn hefur sína rútínu, segir alltaf það sama og teiknar sömu myndina í hverjum tímanum á fætur öðrum. Ekki gott að segja hvort hér er verið að gagnrýna slíka meðferð sem einskis nýta. Ungi maðurinn fylgir svo sem ekki ráðgjöf læknisins né gengur hann yfirvegað gegn henni. Hann gerir þó varfærnislegar tilraunir til að prófa eitthvað nýtt, færir smátt og smátt athafnasvæði sitt út fyrir íbúðina, fyrst fram í stigaganginn, síðan einnig yfir í næstu verslunarmiðstöð að ógleymdri bláu sjoppunni. Hann fer í bíó, eignast sambýliskonu og á endanum er hann kominn í fasta vinnu. Lífið eins og það á að vera?
Sagan skiptist í sjö kafla og rauði þráðurinn er vegferð unga mannsins í átt til aukinna samskipta og ábyrgðar á eigin lífi, að sjá fyrir sér og stofna fjölskyldu. Fyrsta verkefni þessarar vegferðar hans er að vera bakgrunnsleikari í kvikmynd. Hlutverkið felst í að gaumgæfa framsetningu þurrvöru í verslunarrekkum kjörbúðar, eins og hann sé „að leita að einhverju“ (55). Erum við ekki stöðugt að leita að einhverju? Svo birtist eitthvað fyrir framan okkur eins og af tilviljun, sem er kannski alls engin tilviljun, og við grípum. Þannig kemur ástin inn í líf unga mannsins, ekki að undangenginni þrá og bálandi ástríðu heldur verður hún einfaldlega á vegi hans í fjölbýlishúsinu og beinir athygli hans að daglegum ferlum ákveðinnar ungrar konu í miðíbúðinni á fjórðu hæð. Hvers vegna unga konan laðast að unga manninum og hann að henni er lesandinn látinn um að útleggja enda gömul saga og ný sem lesendur þekkja vel.
Frásögnin af tilhugalífi parsins og síðar samlífi er ágætt dæmi um það sem einkennir frásagnarmáta Friðgeirs þar sem dregnar eru upp afar kunnuglegar og hversdagslegar aðstæður í fáum, völdum dráttum og lesandanum þannig gefið mikið rými til að gera sjálfan sig og sína eigin reynslu að þætti í frásögninni. Einn gagnrýnenda fyrstu bókar Friðgeirs, smásagnasafnsins Takk fyrir að láta mig vita (2016), talaði um að „upplýsingum væri haldið eftir,“ sem gerði allar aðstæður enn kunnuglegri en ella. „Maður fyllir sjálfur í eyðurnar.“ Þannig sér væntanlega hver lesandi fyrir sér eitthvert ákveðið hverfi sinnar eigin reynslu út frá lýsingum unga mannsins á umhverfinu í sögunni. Samskipti sögupersónanna lúta einnig þessu frásagnarlögmáli ofurnákvæmra lýsinga annars vegar og úrfellinga hins vegar sem gerir frásögnina tvöfalda í roðinu og eiturfyndna.
Þegar nokkuð er liðið á söguna fær ungi maðurinn vinnu á auglýsingastofu. Hann fær úthlutað skrifborði og tölvu og svarar spurningum yfirmanna og samstarfsfólks varðandi hvernig gangi á jákvæðum nótum. Hvað hann gerir eða hugsar er þó látið liggja á milli hluta. Lesendur sem þekkja til vinnu á auglýsingastofum vita hvað í þeirri vinnu felst. Þeir sem ekki gera það ímynda sér eitthvað eða hlæja að starfi sem er sýndin ein. Stundum fær ungi maðurinn reyndar það hlutverk að vera „fundarkjöt“, það gerir sig gagnvart viðskiptavinum stofunnar að hafa fleiri með á kynningarfundum, þá gengur betur að selja auglýsingarnar.
Það kemur fyrir að ungi maðurinn dregur ályktanir af því sem fyrir eyru hans og augu ber og sem beina hugsun lesandans í ákveðna átt. Tiltölulega snemma í sögunni lýsir hann til dæmis útsýninu af svölum íbúðar sinnar: „[F]yrir utan fjöllin er ekkert að sjá nema ferkantaðar byggingar, hver um sig fylgsni fyrir hundruð manna. Fyrir framan mig eru mörg þúsund manneskjur sem sjást ekki“ (26). Og það er einmitt það sem bókin Formaður húsfélagsins fjallar um, þessar þúsund manneskjur sem sjást ekki, eru einfaldlega heima hjá sér. Eitt fyrsta samtal hins verðandi kærustupars snýst um kvikmyndahandrit sem hún hafði fyrir margt löngu byrjað að skrifa og fjallaði „um fólk sem er mest heima hjá sér,“ og hún er ekki viss um að fólk hafi áhuga á slíku. Og ungi maðurinn svarar fyrir hönd þeirra lesenda sem þessi látlausa saga fangar: „Stundum er fólk forvitið um hvað annað fólk er að gera heima hjá sér“ (69). Stundum nægir það þó ekki lesendum og þeir henda þessari bók frá sér af því að í henni gerist ekki neitt. Í sögunni er ekki að finna áhugaverðar persónur að gera áhugaverða hluti og þar verða hvorki skil né hvörf sem breyta framvindunni eða með orðum söguhetjunnar: „Á stað eins og þessum gerast breytingar svo hægt að maður tekur ekki eftir þeim“ (59).
En hvernig sjást manneskjur, ein eða þúsund, sem allar líkt og ungi maðurinn, stíga skrefin hvern dag fram úr rúminu og sameinast straumi allra hinna, sveigja hjá hindrunum, staldra við endrum og sinnum, sýna kurteisi og bregðast við. Halda áfram að vinna, lesa, iðja, eins og skáldið ráðlagði forðum.
Skáldsagan Formaður húsfélagsins setur ekki fram stórar spurningar um tilgang eða uppreisn gegn hinu viðtekna. Hér er ekki teiknað upp sögulegt samhengi söguhetju sem á sér stóra drauma eða markmið sem hún fylgir eftir og ganga upp eða ekki. Fyrir kemur að minnst er á að eitthvað hafi verið öðruvísi áður og gefur lesandanum tilfinningu fyrir fortíð án þess að hún skipti máli. Þegar eldur kemur upp í bláu sjoppunni og hún brennur til grunna hefur það engar afleiðingar: „Það eina sem minnir á að hér hafi verið hús er dökk möl sem myndar útlínur undirstaðnanna í jörðinni, eins og nýtekin gröf“ (97). Ekkert í þessari sögu leiðir beinlínis af öðru heldur er einmitt undirstrikað hversu endasleppar flestar athafnir okkar eru, hversu ótengdar og oftar en ekki áhrifalausar.
Má í því samhengi benda á dásamlega hliðarsögu af lesbíuparinu á hæðinni fyrir ofan. Parinu fylgir ungur sonur og hefur faðir hans verið til vandræða þar sem hann á við geðræna erfiðleika að stríða. Um jólin ákveður lesbíuparið að fara út á land en vill ekki að faðir drengsins viti af því og elti litlu fjölskylduna uppi. Það þurfi því að líta út fyrir að konurnar séu heima í íbúðinni að halda jól. Ungi maðurinn tekur að sér verkefnið, hann fer reglulega upp, kveikir og slekkur ljósin í samræmi við venjur íbúanna sem hann auðvitað þekkir af hljóðunum sem borist hafa frá íbúðinni. Hann kaupir meira að segja seríur og síðar jólatré sem hann skreytir svo að gervi hamingjuríkra jóla í íbúðinni sé fullkomnað (145–150). Sambýliskonan vænir hann um framhjáhald vegna tíðra fjarvista úr þeirra sameiginlegu tilveru þegar hann hverfur til þess að skapa tilveru annarra trúverðuga ásýnd. Ekkert af þessu skiptir þó máli fyrir framvindu sögunnar eða þróun sambands persónanna. Þessi skondna hliðarsaga verður hins vegar nokkurs konar speglun þeirrar rannsóknar sem skáldsaga Friðgeirs felur í sér, þar sem ekki minni spurninga er spurt en hvað sé raunverulega raunveruleiki og hvað einfaldlega tilbúningur, einber ásýnd. Vinna unga mannsins á auglýsingastofunni er augljóslega ásýnd, bakgrunnsleikurinn líka og það að ungi maðurinn geti að tökum loknum farið heim til sín í búningnum sem hlutverkið krafðist undirstrikar óræð mörk ásýndar og veruleika.
Konur og karlar gegna ólíkum hlutverkum í þessari sögu. Konur eru áhrifavaldar í lífi unga mannsins, þær eru það afl sem drífur hlutina áfram, markar jafnvel einhvers konar hvörf, að minnsta kosti þarf hann að bregðast við. Karlarnir í lífi hans skipa fyrir, spyrja spurninga sem ekki er nauðsynlegt að svara og þeir framkvæma, skipta um perur, moka tröppur. Þeir vilja fá að vinna verk sín í friði um leið og þeir kvarta stöðugt yfir því að enginn geri neitt nema einmitt þeir sjálfir og síðan detta þeir niður dauðir.
Ég minnist aðeins eins einasta skiptis að ungi maðurinn taki af skarið, setji fram kröfu: sambýliskonan skal hætta að segja honum frá draumförum sínum nema „eitthvert aðalatriði“, eitthvað sem hafi sérstaka þýðingu fyrir hann (151). Lesandinn hrekkur í kút við svo afgerandi framkomu enda biðst ungi maðurinn strax afsökunar og síðan ekki söguna meir.
Formaður húsfélagsins eftir Friðgeir Einarsson er þroskasaga þar sem enginn þroskast, allra síst ungi maðurinn, sem í upphafi er staddur á byrjunarreit nýs kafla í lífinu, kaflans eftir K. Í lokin skiptir K. og það sem hún er að gera og hvar ekki lengur máli. Hann spyr sig þó hvað hefði orðið ef þau hefðu haldið áfram að vera saman, ef þau hefðu farið inn í framtíðina um sömu dyrnar af þeim fjölmörgu sem þangað liggja (204– 205). Þannig séð er Formaður húsfélagsins kannski líka ástarsaga þótt ást sé eftir því sem ég best man aldrei nefnd né gerð tilraun til að lýsa þessari djúpstæðu tilfinningu samdráttar og sameiningar. Aðeins merkingarbærar birtingarmyndir afleiðinganna komast að. Það fæðist barn, dóttir, það þarf að vinna fyrir fjölskyldunni, kaupa inn, stækka við sig og ferðast um landið. Frásögnin af tjaldferðalagi fjölskyldunnar opnar litla glufu inn í önnur og sambærileg samfélög fyrirframgefinna mynstra samfélagsins við fjölbýlishúsið og spurt er: Getur einhvern tíma eitthvað breyst? Eru hlutverk kynjanna til að mynda óumbreytanleg eða er munurinn á karli og konu í raun léttvægur og tilviljun háð hvorum megin hryggjar einstaklingur lendir? (163)
Undir lok bókarinnar er ungi maðurinn líkt og í upphafi hennar aleinn í íbúð sinni í fjölbýlishúsinu, þessu íláti einsleitni og endurtekningar lífsins, og líkt og í upphafinu gengur hann út í trjálund við húsið. Skyndilega birtast tveir óttaslegnir unglingar, stelpa og strákur, nýtt upphaf vegferðarinnar til hins venjubundna tvíeina lífs sem síðar á eftir að verða hluti af nýjum samtíma. Þessir unglingar í skóginum halda að þeir hafi séð draug.
Formaður húsfélagsins er önnur bók Friðgeirs en hann starfar einnig sem sviðslistamaður í leikhópnum Kriðpleir. Báðar bækurnar segja frá fólki við hversdagslegar aðstæður, einkum ungum mönnum þótt konur séu í forgrunni nokkurra sagna í smásagnasafninu. Nákvæmar lýsingar á umhverfi og aðstæðum persónanna í báðum þessum bókum, með gloppunum sem áður var minnst á, skekkja viðtekið vægi milli annars vegar þess stóra og mikilsverða sem markar skilin, skýringarnar og sögulegar forsendur í lífinu og í skáldsögum og hins vegar tilviljunarkenndra og kunnuglegra smáatriða sem tíunduð eru og skapa hið raunverulega líf, alvöru sögu hvers og eins. Þessi frásagnarháttur skapar fjarlægð á söguefnið, háðskan tón, skrýtlukenndan á stundum, þar sem ævinlega er stungið undan væntingum lesandans með viðsnúningi á hinum dramatíska lokahnykk hverrar stakrar frásagnar sem ungi maðurinn gefur lesendum hlutdeild í. Drepfyndin saga um allt venjulega fólkið í blokkinni sem er lífið sjálft og samfélagið.