HrekkjusvínÞær eru orðnar nokkrar kynslóðirnar sem hafa hlustað á Lög unga fólksins með Hrekkjusvínunum og sungið sig hásar með. Og ekki verður maður leiður á plötunni hvað sem hún er spiluð oft. Nú hefur hópur einlægra aðdáenda hennar spunnið sögu sem lögin eru fléttuð inn í og sett hana á svið. Stundum falla lögin eðlilega að sögunni, stundum þarf að þröngva þeim inn, en lög og textar standa alltaf fyrir sínu.

Það er leikhópurinn Háaloftið sem flytur söngleikinn Hrekkjusvín í Gamla bíó undir stjórn Maríu Reyndal. Verkið er byggt á söngtextum Péturs Gunnarssonar sem Spilverk þjóðanna og Þokkabót flytja á plötunni sígildu við lög Valgeirs Guðjónssonar og Leifs Haukssonar en handritið að öðru leyti skrifa Guðmundur S. Brynjólfsson, leikararnir Sveinn Geirsson og Tinna Hrafnsdóttir og María leikstjóri.

Ég hélt að þetta væri sýning fyrir krakka og hafði með mér eina tólf ára, þess vegna var ekki laust við að mér brygði þegar ég labbaði inn í jarðarför. Það kom svo í ljós að þó að stálpaðir krakkar geti haft verulega gaman af sýningunni, að minnsta kosti ef þau þekkja tónlistina, þá er hún fyrst og fremst hugsuð fyrir fullorðna – kannski einkum gamla aðdáendur plötunnar.

Við komum inn í jarðarför Jóhanns Kristinssonar (Sveinn Geirsson) en dauða hans hafði borið skyndilega að. Það kemur líka í ljós að hann liggur ekki kyrr í kistu sinni enda er hann afar ósáttur við að vera dauður. Hann var í þann veginn að „meika ‘ða“ þegar hann hrökk upp af og er hundfúll yfir að njóta ekki væntanlegra auðæva. Ekki verður hann glaðari þegar sendiboði nokkur (Atli Þór Albertsson) kemur á hans fund og segir honum að það hafi enn ekki verið ákveðið af æðsta ráði hvort hann hljóti himnavist eða verði sendur í ystu myrkur. Nú vill hann sýna Jóhanni atriði úr lífi hans og gá hvort hann iðrist synda sinna, en á iðruninni veltur hvort hann kemst „upp“. Lögin eru fléttuð inn í þessa hraðsoðnu ævisögu, skólasöngvarnir inn í atriði úr æsku Jóhanns, „Hvað ætlar þú að verða, væni“ er sungið í fermingu hans, „Afasönginn“ syngur hann fyrir dótturdætur sínar (María Heba Þorkelsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir), lagið um Sæma rokk er sungið og dansað þegar Jóhann og Böddi vinur hans (Hannes Óli Ágústsson) reyna að fá Sæma löggu (Orri Huginn Ágústsson) í sveit lífvarða í kringum skákeinvígið 1972 en þá er Sæmi þegar búinn að ráða sig.

Fljótlega kemur í ljós að Jóhann var skýjaglópur, ævinlega með ráðagerðir á prjónunum sem áttu að gera hann ríkan í hvelli en brugðust í hvert sinn. Hann er alltaf „of seinn“ eins og í dæminu með Sæma rokk. Þó er hann sannarlega alltaf eitthvað að strita, alla vega er hann ekki heima hjá eiginkonunni (María Pálsdóttir) og dótturinni Góu (Tinna Hrafnsdóttir). Lélegur eiginmaður og faðir, afleitur skaffari, hvað getur Jóhann veslingurinn haft sér til málsbóta? Það er ekki margt, helst erfið æskuár.

Sagan er ansi bláþráðótt en það skiptir ekki miklu. Áhorfendur eru komnir til að hlusta á þessi gamalkunnu lög og hópurinn flytur tónlistina reglulega skemmtilega; stundum svo vel að maður fékk gæsahúð. Ég nefni bara lagið góða „Gestir út um allt“. Þátttakendur sýndu allir góð tilþrif í dansi og söng. Ekki reyndi mikið á leik í þessum stuttu atriðum en Sveinn fór vel með sitt hlutverk og skipti skýrt úr gömlum manni (eða líki) í ungan, María og Tinna voru sannfærandi sviknir ástvinir og Atli Þór var fjári fínn (og glæsilegur) sem sérlegur fulltrúi Guðs almáttugs.

Uppi á svölum situr fimm manna hljómsveit sem leikur undir og syngur með undir stjórn Valgeirs Guðjónssonar. Lára Stefánsdóttir samdi danshreyfingar en útlit sýningarinnar er eftir Lindu Stefánsdóttur, Margréti Einarsdóttur og Hlín Reykdal.

Aðstandendur hafa pælt talsvert í því hvernig þeir geti virkjað áhorfendur og fundið þokkalega sniðugar lausnir á því. Ein lausn í viðbót blasir þó við þegar maður er búinn að sjá stykkið: Er þetta ekki upplögð singalong sýning? Það dauðlangar allan salinn til að syngja með. Við kunnum öll þessa texta afturábak og áfram!

Silja Aðalsteinsdóttir