Önnur gamalkunn saga var frumsýnd í óperuformi í Eldborg Hörpu í gærkvöldi, Carmen eftir Georges Bizet sem frumflutt var í París 1875 – við lítinn fögnuð almennra áheyrenda, skilst mér. Fólki fannst ástæðulaust að setja svona pakk á svið – verkalýð, portkonur og hermenn. Síðan hefur þetta orðið ein allra vinsælasta ópera í heimi og portkonur og pakk urðu jafnvel vinsæl í fleiri óperuverkum!

Óperan gerist í Sevilla á Spáni og Jamie Hayes leikstjóri flytur sögusvið hennar til ársins 1936, upphafsárs spænsku borgarastyrjaldarinnar. Hermennirnir í fyrsta þætti eru hermenn Francos og ekki velkomnir til borgarinnar sem gefið er í skyn að sé hlynnt lýðveldissinnum.  Carmen (Hanna Dóra Sturludóttir) er verksmiðjustúlka, fræg um alla borgina fyrir fegurð og þokka, en utan vinnu stundar hún ólöglega starfsemi með vinum sínum, þeim Dancaïre (Ágúst Ólafsson), Mercédes (Valgerður Guðnadóttir), Frasquitu (Lilja Guðmundsdóttir) og Remendado (Snorri Wium). Í þessari uppsetningu eru þau ekki venjulegir smyglarar heldur skæruliðar sem hjálpa flóttafólki að komast úr landi undan fasistum. Þetta gekk satt að segja furðuvel upp. Talið um smyglara og smyglvarning í texta varð skemmtilegt dulmál yfir raunverulegt athæfi hópsins.

Carmen

Sagan er að öðru leyti sjálfri sér lík. Hermaðurinn Don José (Kolbeinn Jón Ketilsson) verður heiftarlega ástfanginn af Carmen þó að hann sé lofaður stúlkunni Micaëlu (Hallveig Rúnarsdóttir) úr heimabæ sínum. Hann bjargar Carmen úr klóm herlögreglunnar eftir átök í verksmiðjunni en lendir í fangelsi sjálfur fyrir vikið. Hann leitar hana uppi þegar hann losnar en ætlar sér alls ekki að ganga úr hernum hennar vegna. Atvikin haga því þó þannig að hann neyðist til að verða liðhlaupi og ganga til liðs við lýðveldissinna.

En Carmen er ekki ein þeirra sem heldur sig við sama karlmanninn endalaust. Hún verður hugfangin af nautabananum Escamillo (Hrólfur Sæmundsson) og uppgjör verður óhjákvæmilegt milli þeirra Carmen og Don José.

Tónlistin í Carmen er engu lík, fjölbreytt og litrík. Ýmist eldfjörug eða hæg og dreymandi. Sumar aríurnar gætu næstum verið dægurlög frá 20. öld, aðrar eru voldugar og hrífa mann með sér inn í annan heim. Guðmundur Óli Gunnarsson stýrði Hljómsveit Íslensku óperunnar af styrk og fjöri allt frá fyrsta tóni.

Söngurinn var nokkuð misjafn en yfirleitt góður. Hanna Dóra er glæsileg söngkona en ekki kannski sú Carmen sem maður á von á. Það er erfitt að tengja persónuna við trylling og geðveiki þegar Hanna Dóra syngur hana, hún er svo kúl. Það mun ekkert hagga þessari stúlku. Þó að hún sé vís til að stinga mann og annan með hnífi væri það ævinlega að yfirlögðu ráði, hún gerir ekkert í fljótræði. Þetta er vissulega alveg lögmæt túlkun á persónunni þó hitt sé algengara.

Kolbeinn var mun ástríðufyllri Don José og tjáði óviðráðanlegar tilfinningar sínar vel í söng – sem og sárari tilfinningar í samskiptunum við Micaëlu. Micaëla sjálf var dásamlega sungin af Hallveigu sem náði beinu og heitu sambandi við salinn frá fyrsta atriði. Vinir Carmen í skæruliðahópnum voru hver öðrum betri; þær Valgerður og Lilja sungu yndislega og dönsuðu af eðlislægum yndisþokka – Valgerður átti jafnvel til að verða dálítill senuþjófur – og Ágúst og Snorri voru fyndnir í túlkun og vitanlega frábærir söngvarar. Nokkuð fannst mér vanta upp á myndugleika Hrólfs í sínu hlutverki en hann lagði í staðinn svolitla áherslu á kómík sem fór hlutverkinu vel. Bjarni Thor Kristinsson fékk ekki að syngja mikið í hlutverki Zuniga liðsforingja sem einnig girnist Carmen en hann hefur einstaka nærveru á sviði og leikur alla inn í skuggann meðan hann er þar.

Leikmynd Wills Bowen er fjandi góð, stækkar sviðið og tekur vel utan um hópsenurnar – sem eru samt ekkert smá því þarna eru tveir kórar á sviðinu auk söngvaranna í hlutverkum. Búningar Helgu I. Stefánsdóttur voru hárréttir í anda fjórða áratugarins og lýsingin hans Björns Bergsteins Guðmundssonar brást ekki frekar en venjulega. Dansa sömdu James E. Martin og Lára Stefánsdóttir, þeir voru vel hugsaðir og smekklega notaðir.

Óperan er sungin á íslensku í þýðingu Þorsteins Valdimarssonar og Hjörleifs Hjartarsonar en sönglesið þýddi Kristján Þórður Hrafnsson. Stundum er erfitt að heyra orðaskil hjá óperusöngvurum en þá er gott að hafa textann fyrir ofan sviðið. Þeir mættu þó vera heldur neðar eða með stærra letri því mörgum óperugestum er farin að förlast sýn. Allt í allt var þetta skemmtileg og gefandi sýning og Íslensku óperunni til sóma.

Silja Aðalsteinsdóttir

Carmen