Í Sýningu um ást og karókí sem þrír nemendur í sviðslistadeild Listaháskóla Íslands frumsýndu í húsnæði skólans í gær undirbýr Adolf Smári Unnarsson, Dolli, trúlofun sína og Dísu, skólasystur sinnar. Adolf Smára hef ég séð nokkrum sinnum áður í Stúdentaleikhúsinu og er alveg himinlifandi yfir því að hann skuli ætla að leggja þetta starf fyrir sig.

Dolli hefur planað trúlofunarveisluna út í smæstu smáatriði. Hann hefur meira að segja fengið vin sinn Birni Jón Sigurðsson, þann sem komst á Cannes með frumraun sína, til að kvikmynda öll herlegheitin (annars hafa þau auðvitað aldrei gerst í raunog veru). Dolli er tilbúinn með veitingar, gestirnir eru mættir, leiknir af áhorfendahópnum, hann lýsir fyrir félögum sínum, Birni Jóni og Stefáni Ingvari Vigfússyni, aðstoðarmanni og ljósameistara, hvernig hann hyggst syngja „lagið þeirra“ með karókígræjunum, krjúpa síðan á kné og biðja stúlkunnar. Þeir Stefán takast illilega á um ljósabeitinguna – Stefáni gengur svo illa að ná nákvæmlega birtunni á Látrabjargi við sólsetur. Birnir Jón vill líka endilega lýsa fyrir gestum hvað hann sé ó-trú-lega flinkur og kominn langt í lífinu. Smám saman verður þó allt eins tilbúið og hægt er fyrir þennan mikla saungleik – nema hvað Dísa lætur bíða eftir sér.

Sýning um ást og karókí

Þetta er spunaverk eftir strákana þrjá og einn að auki, Matthías Tryggva Haraldsson, og það er virkilega andskoti fyndið og beitt. Við sjáum dæmigerð viðbrögð ungra karlmanna við vonbrigðum eins þeirra, hvernig bæði er haldið áfram að brjóta viðkomandi niður en gera síðan atlögu að því að byggja hann upp á ný. Og við sjáum líka dæmigerð viðbrögð ungs fólks á okkar stafrænu tímum, hvernig því verður fyrst fyrir að skrifa – og senda – eitraðan tölvupóst í stað þess að bíða þess að reiðin sjatni. Ekki það, Stefán veit þetta vel og reynir að koma viti fyrir vin sinn en hann lætur ekki segjast og þetta er svo gríðarlega fljótlegt. Þetta verður hressileg innsýn inn í unga Ísland og við þökkum kærlega fyrir skemmtunina.

Athugasemd

Greinarhöfundi var bent á að þó að Sýning um ást og karókí væri haldin í LHÍ séu einungis tveir fjórmenninganna nemendur þar, þeir Stefán Ingvar og Matthías Tryggvi. Hvorki Adolf Smári né Birnir Jón stunda nám við skólann. Ég biðst forláts á þessum misskilningi en segi mér til réttlætingar að skólinn færi þessum piltum vel og þeir honum.

Silja Aðalsteinsdóttir