Þó að nýja leikritið sem frumsýnt var á litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi heiti Made in children get ég glatt ykkur með því að það er leikið á íslensku. Raunar vafðist mikið fyrir mér hvað þessi titill þýddi en eftir að hafa séð sýninguna reikna ég með að hann þýði að allt sem við hugsum og gerum eigi upphaf sitt í bernsku okkar. Kannski voru aðstandendur bara óvissir um hvernig best væri að orða titilinn á íslensku …?

Made in Children

Leikritið er samvinnuverkefni þriggja fullorðinna, Alexanders Roberts, Aude Busson og Ásrúnar Magnúsdóttur, og tíu barna á aldrinum átta til tólf ára. Hinir fullorðnu ritstýra texta og leikstýra en börnin semja texta, leika, syngja og dansa sýninguna. Björn Kristjánsson er tónlistarstjóri en Guðný Hrund Sigurðardóttir gerir leikmynd og búninga.

Áhorfendur eiga að fá þá hugmynd að í heiminum sem við sjáum séu einungis börn – sú hugmynd minnir á Bláa hnöttinn hans Andra Snæs sem verður einmitt settur upp í Borgarleikhúsinu á næsta leikári – og að þau séu að velta fyrir sér framtíð sinni og möguleikum, væntanlega út frá því sem þau vita um heim hinna fullorðnu í fortíðinni. Leiðarstef textans er „Hvað sérðu?“ Og svarað er í dálítið formfastri þáframtíð: „Ég mun hafa …“ Börnin ávarpa hvert annað með þessari spurningu og fá að svari ýmist ímyndaðar framtíðarsögur sínar eða þess sem talar. Þessir textar voru stuttir en yfirleitt skemmtilegir, hnyttnir, írónískir, dapurlegir, jafnvel hörmulegir, Nokkuð vantaði á að þeir skiluðu sér nægilega vel en það þarf ekki að koma á óvart, oft vefst fyrir útlærðum leikurum að koma texta sínum almennilega til skila, hvað þá börnum eftir nokkurra vikna þjálfun. Þau hreyfðu sig eðlilega og ekki var annað að sjá en þeim liði ákaflega vel þarna á sviðinu.

Ég átti bágt með að átta mig á leikmyndinni, skildi ekki hvers vegna börnin voru látin rogast með stóra fleka fram og aftur. Ekki skildi ég heldur búrkurnar sem þau brugðu yfir sig inn á milli. Áttu þær að tákna fjölmenningu? Að múslimir myndu halda áfram að klæða konur í búrkur í ófyrirsjáanlegri framtíð? Að öðru leyti voru börnin í fötum sem vel gátu verið þeirra eigin, falleg og þægileg. Og ekki þarf að fjölyrða um hvað börnin sjálf voru falleg og hæfileikarík hvert sem annað. Jörundur Orrason og Óðinn Sastre Freysson voru áberandi eðlilegir og slakir, líka þegar þeir voru ekki að tala við áheyrendur, auk þess sem Jörundur var einstaklega skýrmæltur; það voru Margrét Vilhelmína Nikulásardóttir og Freyja Sól Francisco Heldersdóttir líka; Kolbeinn Orfeus Eiríksson fór eftirminnilega vel með „svarið“ sitt og nafni hans Kolbeinn Einarsson söng vel sinn átakanlega söng; Herdís Sigurðardóttir naut sín í dansinum og Ylfa Aino Eldon Aradóttir, Flóki Dagsson og Matthildur Björnsdóttir gerðu allt vel sem þau áttu að gera.

Ég segi fyrir mig að mér finnst þetta góð upphitun fyrir Bláa hnöttinn og hlakka ennþá meira en áður til þess að sjá hann.

Silja Aðalsteinsdóttir