Þú ert hér://Fjör á Hótel Volkswagen

Fjör á Hótel Volkswagen

Hótel VolkswagenGáta (eða brandari): Hvað komast margir fílar inn í Volkswagen bjöllu? Svar: Fimm. Þrír afturí og tveir frammí. Á Hótel Volkswagen í Borgarleikhúsinu eru líka fimm fílar – ég meina gestir – í skjóli hótelstjórans, Svenna (Hallgrímur Ólafsson). Einn gamall nasisti, Ludvig Rosencrantz (Þorsteinn Gunnarsson), hjónin Adrian Higgins (Halldór Gylfason) og Paul Jenkins (Jörundur Ragnarsson) og feðgarnir Pálmi (Bergur Þór Ingólfsson) og Siggi litli (Dóra Jóhannsdóttir). Eins og sjá má er hér leikið með heilmikinn kynusla og þegar þar að auki er reynt að brjóta öll tabú í skoðunum og umræðuefnum a la Office, Little Britain – ja, eða bara Ástir samlyndra hjóna og Tómas Jónsson metsölubók – þá er annaðhvort von á mikilli skemmtun EÐA einlægri hneykslun. Skýr merki sáust um hvort tveggja á frumsýningu.

Leikritið er eftir borgarstjórann, Jón Gnarr, og Benedikt Erlingsson leikstýrir því af mikilli hugkvæmni og list. Ég játa fúslega að mér brá allnokkrum sinnum við opinskáan dónaskap persónanna sem oftast var settur fram af kæruleysislegu hispursleysi sem vakti óþægilegan hlátur, en sýningin var svo þaulunnin í hugsun, leik og sviðsetningu að í lokin varð aðdáunin ofan á. Það er líka í samræmi við merkingu og boðskap verksins eins og eðlilegast er að skilja hann. Gestirnir fara stöðugt yfir mörk þess sem siðlegt er að segja eða hegða sér og mæta algeru umburðarlyndi hótelstjórans, það er hvorki hægt að ganga fram af honum né öðrum gestum. Í lokin eru sett upp réttarhöld sem lýkur heldur ósiðlega, og þá verður freistandi að sjá hótelið og gesti þess sem tákn fyrir landið okkar og ræningja þess. Umburðarlyndið er þá löstur okkar sem þjóðar: Við þolum of mikið, sýnum kæruleysi þegar við ættum að berjast og krefjast réttar okkar og sakfella þá sem sekir eru.

Leikmynd Höllu Gunnarsdóttur var einföld en flott og fyndin, búningar Evu Völu Guðjónsdóttur vel hugsaðir, ekki síst púkalegir kjólar Pauls Jenkins, lýsing Þórðar Orra Péturssonar markviss og tónlist Davíðs Þórs Jónssonar frek og andstyggileg eins og vera bar. En það sem einkum mun sitja eftir er leikurinn. Þorsteinn Gunnarsson var ógeðslega flottur sem gamli nasistinn með gyðinglega nafnið og stóru hundana. Bergur Þór var óþolandi sem skapvondi, þunglyndi pabbinn, Halldór og Jörundur eins og út úr kú í sínum hlutverkum, Hallgrímur alveg fáránlegur sem Svenni og Dóra best sem Siggi litli og mamma hans. Þvílíkur sannur senuþjófur.

Sem sagt: Ef þig langar til að dæsa, hneykslast, njóta, hlæja og skammast þín þá pantaðu pláss á Hótel Volkswagen.

Silja Aðalsteinsdóttir

2019-08-08T15:43:39+00:0025. mars 2012|