Ég kom algerlega bláeygð á Fyrirheitna landið í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Af einhverjum ástæðum hafði ég ekkert heyrt og ekkert lesið um verkið, ekki einu sinni um öll verðlaunin og viðurkenningarnar sem það hefur fengið, bara séð auglýsingarmyndina af Hilmi Snæ á netbol, með lúmskt glott á fallegu andlitinu og sígarettu milli fingranna. Augljóst er af þeirri mynd að persónan er enginn fyrirmyndarborgari, þó kom sviðið mér á óvart þegar tjaldið var dregið frá …

Fyrirheitna landiðVið erum í skógarjaðri. Undir miklu og laufþungu eikartré stendur gömul, lasburða rúta og fyrir utan hana er mikið samsafn af drasli – kössum undan bjór, stólum og borðum, þar er líka ísskápur og búr með lifandi hænum. Finnur Arnar Arnarson skapaði þetta svið og það var verulega áhrifaríkt – auk þess sem það býr verkinu umgjörð við hæfi. Fyrsta fólk á svið er frá bænum, embættismennirnir Fawcett (Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir) og Parsons (Friðrik Friðriksson), sem reyna að kalla íbúa rútunnar út til að lesa honum útburðartilkynningu, en þegar hann hlýðir ekki kalli festa þau tilkynninguna utan á rútuna og fara. Okkur skilst að hann hafi sólarhring til að hypja sig, næsta morgun verði heimili hans rutt á haugana. Á þessum sólarhring gerist Fyrirheitna landið. Og þetta er ekki bara hvaða sólarhringur sem er, þetta er afmælisdagur drottningarinnar með tilheyrandi hátíðahöldum í bænum.

Þegar Johnny Rooster Byron (Hilmir Snær Guðnason) staulast út um afturdyr rútunnar vitum við að hann er útlagi úr samfélaginu, sennilega sekur skógarmaður, og þegar verkinu vindur fram fáum við það staðfest. Hann lifir á því að selja dóp og söluvaran hænir að honum lið unglinga og vandræðafólks. Hann orkar líka heillandi á fólk enda spennandi manneskja, hefur lifað ævintýralegu lífi og segir af því stórkarlalegar ýkjusögur um tröll og dreka og rosaleg afrek sín; svo er hann kynþokkafullur og það eru ekki síst ungar stúlkur sem laðast að honum. Kvöldið áður hafði greinilega verið rosalegt partý því smám saman drífur að fólk sem hefur náttað sig undir rútunni eða í grennd við hana, Lee sem ætlar til Ástralíu (Snorri Engilbertsson), Davey (Ævar Þór Benediktsson), Pea (Saga Garðarsdóttir) og Tanya (Arnbjörg Hlíf Valsdóttir). Ginger (Jóhann G. Jóhannsson) kemur líka og verður miður sín yfir að hafa misst af þessu góða gildi kvöldið áður því fleiri sem sögurnar verða, og prófessorinn (Eggert Þorleifsson) í leit að Mary sem við vitum ekki frekari deili á. Kráareigandinn Wesley (Baldur Trausti Hreinsson) kemur í leit að dópi og fautinn Troy (Pálmi Gestsson) í leit að Phaedru (Melkorka Davíðsdóttir Pitt) stjúpdóttur sinni sem hann heldur fram að Johnny hafi í felum hjá sér. Hún er bara fimmtán ára. Þegar líður að hátíðahöldunum kemur líka barnsmóðir Johnnys, Dawn (Margrét Vilhjálmsdóttir) með son þeirra Marky (Ásgeir Sigurðsson/Stefán Árni Gylfason) og á von á því að pabbinn vilji fara með drenginn á hátíðina. Það vill hann ekki og þau eiga nokkur orðaskipti um sín mál. Allt þetta fólk fær að sýna sig og segja mismargar setningar en miðjan er eðlilega sterkust. Bæði á Johnny Rooster lengsta textann og svo fær Hilmir Snær að beita öllum sínum sjarma sem er ekki lítill, þó svo að hann leiki hér mann sem hefur eyðilagt sjálfan sig og framtíð sína með áhættusömu líferni, drykkjuskap og dópneyslu.

Það er sem sagt utangarðsfólk sem Jes Butterworth er að fjalla um, fólkið á botni samfélagsins, og samúð hans með því er greinileg þótt hann fegri það ekki. Ein af fyrirmyndum hans gæti vel verið Jim Cartwright sem gerði lágstéttar- og utangarðsfólk að sínu sérsviði og öðlaðist við það vinsældir um víða veröld í verkum eins og Stræti. Mikael Torfason þýðir verkið lipurlega en auðvitað glatast mikið af vísunum frumtextans í eldri enska bókmenntatexta sem erlendir gagnrýnendur gera mikið úr í umfjöllun um verkið. Elín Edda Árnadóttir hannar skrautlegt safn af búningum, Ólafur Ágúst Stefánsson stýrir flókinni lýsingu og sterk og áhrifamikil hljóðmyndin var hönnuð af þeim Sigurvaldi Ívari Helgasyni og Kristni Gauta Einarssyni. Utan um allt saman heldur Guðjón Pedersen leikstjóri og hefur ástríðu fyrir verkinu. Ég velti þó fyrir mér hvort tempóið hefði verið of hægt en hef ekki samanburð við uppsetningar erlendis þar sem leikritið hefur náð gífurlegum vinsældum áhorfenda og gagnrýnenda.

Á ensku heitir leikritið Jerusalem og í því er notað stutt kvæði eftir William Blake sem fjallar um forna sögn um heimsókn Jesú til Englands. Í kvæðinu hugsar Blake sér að þann stutta tíma sem Jesús stóð við hafi England verið sælustaður, eins konar himnaríki, og hann þráir að það verði landið einhvern tíma aftur. Ég geri ráð fyrir því að Butterworth gefi með þessu í skyn að rútan hans Johnnys sé griðastaður þeirra sem þangað leita, heilög höfn hrjáðu nútímafólki. En Johnny er sannarlega enginn friðflytjandi og sælan sem hann býður með línum í nös er hvorki varanleg né holl.

Það var nokkuð áberandi í gær að efni verksins féll frumsýningargestum ekki sérstaklega vel í geð og stemningin var þung í salnum. Sýningin er löng, á henni eru tvö hlé og einhver brögð voru að því að fólk kæmi ekki aftur eftir seinna hlé. Textinn er fyndinn en fyndnin náði aldrei í gegn til alls salarins. Ég hef trú á því að sýningin muni ná vopnum sínum (eins og tíska er að segja núna) þegar yngra fólk fyllir salinn.

Silja Aðalsteinsdóttir