MedeaLeikfélag Reykjavíkur frumsýndi í gær um það bil tvö þúsund og fimmhundruð ára ára klassík, Medeu eftir Evripídes, á nýja sviði Borgarleikhússins undir stjórn Hörpu Arnardóttur. Leikritið segir harmsögu hinnar goðkynjuðu Medeu sem fórnar bróður, föður og föðurlandi fyrir ástina og hefnir sín á grimmúðugasta hátt þegar hún sjálf er svikin af ástinni.

Í nýrri þýðingu og leikgerð Hrafnhildar Hagalín á leikritinu er lítt hirt um forsöguna, enda er hún ekki tíunduð í smáatriðum hjá Evripídesi, hann hefur getað gert ráð fyrir því að allir áhorfendur hans þekktu söguna af Jasoni og gullna reyfinu. En Jason fór á skipinu Argó til Kolkis á vegum Pelíasar konungs í Jolkos því honum hafði verið heitið konungstign ef hann næði gullinni gæru undan drekum sem gættu hennar. Þetta tókst honum en aðeins vegna þess að Medea, dóttir konungsins í Kolkis, hjálpaði honum og bjargaði að lokum lífi hans. Hún verður svo heiftarlega ástfangin af Jason að hún drepur sinn eigin bróður sem veitir þeim eftirför á flóttanum úr landi og á því aldrei afturkvæmt til heimalands síns. Þegar Pelías konungur svo svíkur loforð sitt við Jason bruggar Medea honum banaráð. Líf þeirra Medeu og Jasonar er því ein blóðslóð þegar við hittum þau.

Þegar leikritið hefst hafa Jason (Hjörtur Jóhann Jónsson) og Medea (Kristín Þóra Haraldsdóttir) leitað skjóls í Korintu hjá Kreon konungi (Jóhann Sigurðarson) ásamt börnum sínum tveim. Jason kann illa við valdalaust og ótryggt líf innflytjanda og flóttamanns og hefur ákveðið að skilja við Medeu og kvænast dóttur konungs (Lovísa Ósk Gunnarsdóttir) til þess, altént í orði kveðnu, að tryggja líka viðunandi lífskjör Medeu og barnanna. Verkið gerist á brúðkaupsdaginn. Medea hefur grátið linnulaust síðan hún komst að áformum Jasonar og finnst hann launa sér illa lífgjöfina og þá gífurlegu fórn sem hún færði fyrir hann. Fóstra barnanna (Edda Björg Eyjólfsdóttir) og aðrir sem í kringum hana eru (kórinn: leikhópurinn) skilja vel að hún vilji hefna sín og segjast standa með henni, en þó lýkur svo að hún gengur fram af þeim í hefndaræði sínu. Þá hefur Medea fundið vað fyrir neðan sig með því að láta Egeif Aþenukonung (Arnar Dan Kristjánsson) lofa sér hæli í sínu ríki. Atriðið milli þeirra var eftirminnilega vel og frumlega útfært.

Leikritið er snilldarlega hugsuð og samin rökræða um réttlæti hefndarinnar. Evripídes gefur okkur allt upp í hendurnar til að við getum myndað okkur sjálfstæða skoðun á deiluefninu. Hann gefur Medeu meira að segja ástæðu til að drepa börnin sín – hún er sannfærð um að aðrir muni hefna sín á þeim þegar hún er flúin eða dáin. Mér varð hugsað til Mögdu Goebbels sem drap börnin sín sex í lok heimsstyrjaldarinnar seinni af sömu ástæðu. Mér varð líka hugsað til Ólafar frá Hlöðum sem yrkir um það sem tekur við þegar ást konunnar hefur breyst í óbærilega kvöl:

Hún vægðar aldrei böðla bað,
þeir brostu að sinni fremd.
En afturgengin ást er það
sem er nú kölluð hefnd.

Harpa Arnardóttir og hennar teymi, með hina snjöllu Filippíu I. Elísdóttur í leikmynd og búningum, Björn Bergstein Guðmundsson í lýsingu, Valgeir Sigurðsson í tónlistinni – sem á köflum var nánast yfirþyrmandi – og Lovísu Ósk í sviðshreyfingum, búa til glæsilega sýningu. Medea þeirra er smart! Leikið er á breiðum gangi í miðjum sal og sitja karlar öðrum megin við sviðið en konur hinum megin. Á öðrum enda gangsins eru híbýli Kreons konungs, ljósleit og björt að yfirbragði, með alls konar styttum og öðrum munum sem minna á gríska fornöld, á hinum endanum eru drungaleg híbýli flóttakonunnar Medeu með óskipulögðu dóti hennar beint úr flutningagámnum. Á ílöngu gólfinu milli þessara ólíku vistarvera gerast átök leiksins, og smám saman flæðir vatn um þetta gólf – kannski til að minna á blóðið sem flæðir? (Annað sem ég skildi ekki vel var vesenið með hárkollurnar, til hvers var það?) En þó að átökin séu eins harkaleg og verða má og tónlistin styðji við hádramatíkina þá er bragurinn á leiknum stilltur, eins og allar persónur hemji tilfinningar sínar. Það er einna helst í brúðkaupsveislunni sem við fengum svolítinn trylling enda var það eitt flottasta atriði sýningarinnar. Þessi bældi bragur kom textanum vel, þau fóru öll vel með hann, og þó að hann sé ekki eins máttugur og þýðing Helga Hálfdanarsonar var hann skýr og góður. Þó lækkaði Kristín Þóra sig aðeins um of í lokaræðu sinni þannig að ég missti af einstaka setningu.

Þessi stillti bragur dregur úr harminum og það er eflaust með vilja. Við eigum að njóta þessarar sýningar með vitinu, ekki tilfinningunum. En það er auðvitað engu líkt að við skulum geta horft á svona gamalt verk á okkar dögum og finnast það koma okkur við – jafnvel sérstaklega nú um stundir.

Silja Aðalsteinsdóttir