Eiríkur Örn Norðdahl: Gæska.

Mál og menning, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2010.

GæskaÍ nýjustu skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahl, Gæsku, blandast margháttaðar formtilraunir þematískum átökum við samtímann. Stílbrögðin reyna á þanþol bókmenntagreinarinnar og vekja um leið athygli á miðlunaraðferð verksins. Jafnvel mætti ganga svo langt að segja að skáldsagan hlutgeri tungumálið; hún skipar því a.m.k. í öndvegi og býður lesanda þannig að dást að möguleikunum sem búa í innblásinni mælskulist. Á köflum má reyndar velta fyrir sér hvort skáldsagan, einmitt vegna alltumlykjandi stílbragðanna, tjái á óbeinan hátt sjálfsögulegar vangaveltur um takmarkanir og endimörk. Hér má með öðrum orðum spyrja hvort sjálf ofgnóttin segi ekki sína sögu um aðþrengdan miðil tungu- og ritmáls, líkt og þegar maður sem er uppiskroppa með orð tekur að baða út höndunum eða tjá sig með ofsafengnu látbragði. Ekki að Eiríkur Örn sé uppiskroppa með orð, öðru nær, en súrrealískar myndir, „fáránlegar“ fléttur, öfgakenndar líkingar, orðabombur og sprengjukast, framandi taktur: allt þetta gefur í skyn þrot „beinnar“ skírskotunar tungumálsins, að eitthvað sé ósegjanlegt með hefðbundnum hætti. En látæði hinnar útblásnu skáldsagnavitundar nær heldur ekki að fanga það sem hopar undan raunsæisprósa, þess í stað er hingsólað í kringum eitthvað („viðfangsefnið“) og á það bent úr fjarlægð. En þannig er skáldskapurinn framandgerður, bent er á takmarkanir og veikleika um leið og höfundur undirritar í sífellu textann, merkir hann sem sinn, tengir hann höfundarnafninu í gegnum fagurfræði sjónarspilsins á vettvangi forms.

I

Sum þessara einkenna þekkja lesendur úr fyrri verkum höfundar og mætti þá einkum benda á Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum!, ljóðabók sem kom út árið 2007 og inniheldur sannkallaðan hafsjó tilraunakenndra viðbragða við hinni eilífu endurnýjunarkröfu skáldskaparvettvangsins. Fönixinn er til hálfs gjörningur sem framkallar fjarlægð milli lesanda og verks en hann er einnig viðbragð við tímanum í þeim sígilda og tímalausa skilningi að vera uppgjörs- og andófsverk. Þegar litið er um öxl er erfitt að verjast þeirri tilfinningu að ljóðasafn þetta, sem kannski virtist ekki jafn skýrlega pólitískt og sum önnur verk höfundar, hafi engu að síður verið andsnúið tíðarandanum á býsna róttækan hátt, – þessu straumharða, snoppufríða algleymi, innihaldslausri bjartsýninni og blindunni sem auðkenna má með sjálfu útgáfuári verksins, sem orðið er að hugtaki: 2007.

Í þessari ljóðabók er að finna markvissa og frumlega endurvinnslu og endurhljóðblöndun á stefjum fortíðar og samtímalegum vangaveltum; „umhverfisvænni“ endurskoðun á kanónuninni er teflt fram sem eins konar viðbragði við menningarástandi þar sem samtímanum hefur verið umbreytt í veðsettan framtíðarvafning, „leiðtogafræði“ hafa rutt sér til rúms í háskólum og heima hjá sér grilla menn bara í rólegheitunum og láta Hannes Hólmstein hugsa fyrir sig. Hið óhefðbundna, listsköpun sem hafnar hjarðhugsun og hinni beinu og breiðu leið til að skilja og beita tungumálinu, tekur alltaf ákveðna áhættu í því að hún kemur mönnum einatt undarlega fyrir sjónir, afraksturinn getur orðið á skjön við allt og alla, jafnvel pirrandi á máta sem ekki er alltaf auðvelt að festa hendur á. En var ekki einmitt þörf á slíku viðnámi, slíkum pirringi og vandræðagangi, á hinu áðurnefnda og nú sögufræga herrans ári 2007?

Í goðafræðinni rís fönixinn ávallt endurnýjaður úr rústum og hefur því sérstakt vægi í symbólskum veruleika eyþjóðarinnar og um hann hefur skapast ákveðið skírskotunarkerfi vona og (ó)veruleika. Mikilvægi þessar tilteknu myndar sést t.d. í „endurreisnarsjóðnum“ sem Björgólfur Thor Björgólfsson setti á laggirnar í miðju hruni og kenndi við fönixinn, [1] og öfgafullar hugmyndir um endurskipulagningu skattkerfisins, eða afnám þess öllu heldur, voru nýverið settar fram undir aðgerðarheitinu „Fönix-áætlunin“. [2] Að þessu leyti var Eiríkur á undan viðskiptalífinu en í meðförum hans verður fönixinn þátttakandi í hruns-samræðu stundina fyrir hrun (ekki síst í hinum ýmsu kaflainnskotum „meðhöfunda“ Eiríks, t.d. afar baráttuglöðum inngangi), meðan góðærið skein enn skært. Öskubakkinn í titlinum er geggjuð framtíðarsýn, vísir að þeim rjúkandi rústum íslensks efnahagslífs sem blöstu við ári síðar. Bókinni var stefnt gegn fúinni miðju menningar í afneitun, hinum „dauðu bókstöfum áróðursvélarinnar“. [3] Svipuðu mætti sjálfsagt halda fram um önnur ljóðaverkefni og listagjörninga höfundar, sem og Nýhil-hópsins, en gott dæmi væri ljóðabókin Sekúndu nær dauðanum eftir Ingólf Gíslason.

II

Nýjasta skáldsaga Eiríks er ekki síður tilraunakennt uppgjör við samtímann en áðurnefnt ljóðsafn, þó hér liggi annars konar forsendur sköpuninni til grundvallar. Tekið er á atburðum nýliðinna ára á Íslandi, hruninu mikla, aðdraganda og eftirköstum, og þannig staðsetur bókin sig í flokki sem nú þegar er mögulegt að kalla sérstaka undirgrein íslenskra samtímabókmennta: hrunskáldverk, en þann hóp fylla verk á borð við Ljóðveldið Ísland eftir Sindra Freysson, Bankster eftir Guðmund Óskarsson, Vormenn Íslands eftir Mikael Torfason, Rigningin gerir ykkur frjáls eftir Hauk Má Helgason, og jafnvel Svörtuloft eftir Arnald Indriðason. Fleiri bækur mætti vafalaust telja til og flokkurinn á eftir að stækka ört á næstu árum. En Gæska hefur sérstöðu. Í stað hefðbundinna sögupersóna og aristótelísks söguaga er hér sjónarspil hins flaumósa ímyndunarafls, eins og það birtist í meðförum afar spræks söguhöfundar sem ryðst hér að miðju frásagnarinnar og gengur þar í fóstbræðralag við félagslega vitund sem heldur á lofti öflugri gagnrýni á Ísland samtímans. Útkoman er ein áhugaverðasta skáldsaga síðasta árs, verk sem slær nýjan og ferskan tón í uppgjörsbókmenntaflórunni, með þeim tilþrifum sem þarf til að verkið sligist ekki undan þunga hins aðkallandi sögulega veruleika sem liggur til grundvallar; með þessari skáldsögu eygjum við útlínur þess uppgjörs sem skáldskapurinn er fær um að veita í stríðinu við samtímann.

III

Í Gæsku er góðærið lagt undir, sem og „kreppan“ og eftirköst hennar, en tilraun er líka gerð til að skyggnast undir yfirborðið, líta handan talnaspekinnar sem rennur upp úr hagfræðingum í stríðum og stundum ruglandi straumum, og gaumgæfa menninguna sem einhvers konar samhangandi fyrirbæri sem skýrist ekki nema að hluta með tilvísun til hinna spilltu banka sem í nýliðinni fortíð svifu á himnum uppi í hugum landsmanna, en var í raun haldið á lofti af flóknum vef krosseignatengsla og kúlulána, markaðsmisnotkunar og maníukasta mafíósanna sem stjórnuðu þeim, trúgirni almennings og aumingjaskapar stjórnvalda, og mótaði með afgerandi hætti efnislegan og ekki síður andlegan veruleika þjóðarinnar.

Slíkar stofnanir eru nefnilega ekki sjálfsprottnar, þær tilheyra ákveðnum stað og stund, tilteknum sögulegum veruleika eða samhengi sem hlúir að þeim og býr þeim farveg. Þar gegna embættismenn og kjörnir fulltrúar að sjálfsögðu lykilhlutverki, en um þá er að sumu leyti það sama að segja: hversu hörmulega sem það nú hljómar þá eru þeir afsprengi og endurspeglun okkar eigin óska, birtingarmynd sjálfsmyndar þjóðar. Þar sem lobbíismi er almennt álitinn prívatmál stjórnmálastéttarinnar og hagsmunaárekstrar vandamál sem aðeins er til í útlöndum, er kannski ekki við öðru að búast en að eins og einn forsætisráðherra álíti sjálfsagt að gera sjálfan sig að seðlabankastjóra og umbreytist svo, með sviðna jörð í baksýnisspeglinum, í ritstjóra sögufrægasta dagblaðs þjóðarinnar.

Það er í þessu samhengi sem hægt er að skoða ummæli Þorvaldar Gylfasonar þegar hann benti á að framvindu ýmissa mála er varða grundvallarstoðir lýðræðis á Íslandi megi líkja við eins konar absúrdleikrit. [4] Þarna snertir Þorvaldur á súrrealismanum sem er innbyggður í íslenskan veruleika og það er einmitt sá þjóðlegi strengur sem reynist aflvaki skáldsögu Eiríks, vélin sem knýr áfram spunann og hliðarveruleikann sem þar birtist, ljær honum útlínur sínar og innri „rökvísi“, og fyndnina, hina jökulhörðu kaldhæðni sem umlykur einlægnina sem vissulega er einnig til staðar.

Gæska er súrrealísk skáldsaga í upprunalegri merkingu hugtaksins. Það er líkt og verkið sé í beinu símasambandi við undirvitund íslensks samtíma og á löngum köflum verður það einna líkast draumaskjánum sem Freud stakk óbeint upp á að hlyti að vera til, og átti við hinn huglæga flöt, andlega tjaldið þangað sem kraumandi öflin í djúpinu varpa myndum sínum, brengluðum, þjöppuðum eða sundurrifnum, umbreyttum og umsköpuðum en þó alltaf í tengslum við fyrirmyndir. [5] Þannig birtir skáldsaga Eiríks „kreppuna“ frekar í eins konar draumskjá en spéspegli; kreppan birtist hér sem sjúkdómseinkenni sárkvalinnar þjóðar.

Það er í samræmi við þennan súrrealíska streng þegar maður af erlendum uppruna spyr í miðri bók: „Eru allir á þessu landi hálfvitar?“ (157). Nokkru fyrr hafði ein af aðalpersónum bókarinnar lýst landinu sem „fangelsi“ fullu „af vanvitum“ (62). Þessi er reyndar ekki niðurstaða verksins en tónninn í tilvitnunum gefur ágætlega til kynna þann hispurslausa þunga sem liggur að baki stungum verksins á þjóðleg graftarkýli, þann „óþjóðlega“ og anarkíska anda sem ríkir í verkinu, en efnistök sögunnar og hugmyndaleg sviðsetning fleyta ákveðinni félagslegri vanþóknun áfram í stöðugum straumi. Ísland er leiksvið fáránleikans.

IV

Atburðarás síðustu sextán mánaða eða svo tengist ekki aðeins ársuppgjörum og bókhaldsbrellum heldur siðferðilegu hruni. Og það á sér langa sögu. Í skáldsögu Eiríks birtist þessi þjóðarbrestur í gróteskum lýsingum á neyslu og lúxuslífi, og almennu áhugaleysi um mál líðandi stundar. Við sjáum hvernig vefur sinnuleysis og sjálfhverfu er spunninn utan um persónur sem er sama um allt sem ekki kemst fyrir í skottinu á jeppanum. Þannig verður eitt meginviðfangsefni skáldsögunnar sá daunilli svefngengilsháttur þjóðarinnar og dáðleysi hins ofdekraða, hvínandi ríka Íslendings í aðdraganda hrunsins, og sú blákalda staðreynd að það voru þessi einkenni – ekki einhver veðrabrigði á útlenskum mörkuðum – sem gerðu hrunið fyrst mögulegt og svo óumflýjanlegt.

V

Í Gæsku er aðferðum ævintýrsins, allegóríunnar, táknsögunnar og fantasíunnar beitt í frásagnarlegum suðupotti svo að útkoman verður fjölradda verk sem í sífellu virðist vera að segja eitthvað annað en það sem kemur fram á blaðsíðunni. Þó er textinn sjálfur, mældur í myndlíkingum, stuðlum, textatengslum og gróteskri líkamningu, frekar en þematískum afstæðum eða persónum af holdi og blóði, afskaplega nálægur og jafnvel uppáþrengjandi, áhrifaríkur á beinan hátt. Kannski mætti segja að skáldsagan vegi einmitt salt á mörkunum milli „mælsku“ sem fagurfræðilegrar einingar innan verksins annars vegar og boðskapar, pólitísks ásetnings, hins vegar, að því gefnu að áðurnefndar bókmenntagreinar móti fagurfræði textans og ljái honum súrrealískan blæ sem aftur grefur undan hefðbundnum hugmyndum um „boðskap“ í skáldskap. Það hversu vel tekst til tengist hæfileika höfundar til að halda þessum þáttum á lofti á sama tíma, og tengja saman ólík svið.

Ólík svið sögunnar birtast í þeim fjölda tóntegunda, sjónarhorna og vitundarmiðja sem söguhöfundur beitir fyrir sig. Segja má að átakamiðjurnar í söguheiminum séu upphaflega þrjár og birtast framan af í formi fjölskyldueininga. Eftir því sem líða tekur á söguna og veruleiki frásagnarinnar ókyrrist – ekki að frásögnin sé nokkru sinni í hefðbundnum raunsæisfarvegi – sundrast fjölskyldurnar samhliða því sem krosstengsl myndast milli tiltekinna meðlima, og sjónarhornið flækist nokkuð. En í upphafi kynnist lesandi „týpískum“ Íslendingum í formi kjarnafjölskyldu í úthverfisturni, Freyleifi og Óla Dóra, en með börnin sín tvö og ástríðufulla þátttöku í neyslukapphlaupinu er óhætt að segja að þau birti ákveðið „norm“ góðærisins. Hún er aðstoðarkona þingmanns, Millýjar, verðandi forsætisráðherra í kjölfar hrunsins, en fyrst og fremst lífsnautnadrottning og sjónvarpssjúklingur af guðs náð; hann byggingariðnaðarjötunn sem höndlar stór vinnutæki, „140 kíló af hreinum verkalýðsmassa“ (22), sem skilur eiginlega ekkert í konunni sinni en gefur þó iljanudd á heimsmælikvarða.

Þau búa eins og áður segir í háhýsi í ónefndu úthverfi, turni sem rís svo hátt að augað eygir ekki efstu hæðirnar, sjálf Reykjavík séð ofan frá verður lítil og óraunveruleg, enda eru heimili sem þessi tákn fyrir óendanlega velsæld þjóðarinnar, sigurgöngu hins smáa sem verður ofsastórt, Íslands með öðrum orðum og bólunnar miklu. Ein af fyrstu rússibanareiðum sögunnar tengist einmitt Freyleifu, en í stórfallegum og útsjónarsömum kafla, sem rís gegn hefðbundinni persónusköpun um leið sem komið er til móts við hana að vissu marki, kynnumst við baksögu hennar, hugsunum og reynsluheimi í eins konar huglægri tímavél. Söguhöfundur, líkt og hann taki sér minnislistamennina í kvikmynd Michels Gondry, Eternal Sunshine of the Spotless Mind, til fyrirmyndar, skapar heilan heim úr stuttum glefsum:

Þú telur sekúndur og mínútur. Telur klukkustundir og daga. Mánuði, ár, áratugi, aldir og árþúsund. Tíminn gengur fram og aftur – sekúndur og mínútur fram á við en nær óendanlega langt aftur. Eins langt og augað eygir, hið minnsta, og líkast til ennþá lengra en þú getur látið þig dreyma um. Og hratt líka, svo ógurlega hratt. Deplar augunum og tíu ár eru horfin: Þú ert nýgift og rétt að verða ólétt í fyrsta sinn … Þú deplar aftur og verður barn. Deplar og verður unglingur. Deplar þig inn í sögubækur. Þú manst ekki Lýðveldishátíðina og manst hana samt. Eða veist hana. Grunar hana. Deplar þig úr borg og út í sveit. (30–31)

Það hvernig hinu alþekkta félagslega og bókmenntalega minni („úr sveit í borg“) er hér snúið við í eins konar íslenskri yfirvitund í bakkgír, hvernig reynsla einstaklingsins og þjóðleg vitund (sameiginleg geymd) renna saman, sýnir hvernig tíma- og rýmisskynjun textans er á flökti; algengt er að hlutum aðskildum í tíma sé stefnt saman í sameiginlegu rými, og sömuleiðis er algengt að fjarskyldum hlutum í rými sé stefnt saman í tíma.

Eftirtektarverð er einnig notkun söguhöfundar á annarri persónu í köflunum sem tengjast Freyleifu framan af; það er aðferð sem Jay McInernay gerði fræga á sínum tíma en er sjaldan beitt. [6] Öðrum hlutum skáldsögunnar er miðlað í gegnum fyrstu persónu frásögn (sem undir lokin hefur skemmtilega tilhneigingu, mitt í sjálfsfróunaröldu, til að breytast í fyrstu persónu fleirtölu: við sjáum, við vildum, við fróum); enn öðrum hlutum bókarinnar er miðlað í gegnum „hefðbundinn“ þriðju persónu sögumann (fyrstu persónu sögumaðurinn og þriðju persónu sögumaðurinn renna reyndar stundum saman), og jafnvel kemur fyrir að hinn almáttugi þriðju persónu sögumaður yrðir á lesanda.

Allt er þetta til þess fallið að raska samsömun lesanda með textanum. Frásagnarlegt skjól bókarinnar fyrir þá lestrarlegu nautn sem tengd er við innlifun er þannig af skornum skammti. Í þessu samhengi má reyndar velta fyrir sér hvort ákveðið ójafnvægi geri vart við sig hvað varðar „þreifingar“ til persónusköpunar og þess að hafa einhvers konar manneskjulíki í miðju atburðarásarinnar, en sú áhersla fjarar að nokkru leyti út í seinni helmingnum. En þá mætti kannski líka benda á að „þjóðarbrotin“ sem undir lokin taka yfir söguheiminn, eftir að þjóðin sjálf brotnar og hrynur, réttlæti umskiptin á forsendum sögunnar sjálfrar. En „þjóðarbrot“ þessi – þeir svakalegustu þjóðflutningar í íslenskum nútímabókmenntun sem um getur – marka umbrotum bókarinnar ákveðna lógík, ásamt því að taka gráglettna afstöðu til umræðna liðinna ára um innflytjendur, hælisleitendur og fjölmenningarsamfélagið Ísland.

VI

Þingmannahjónin Halldór og (áðurnefnd) Millý eru einnig kynnt snemma til sögunnar. Hann er harðjaxl á hægri vængnum, stefnir að einkavæðingu skólalóða og berst fyrir „frelsi“, en hún baráttukona fyrir jafnaðarhugsjónum, á sitt sæti „vinstra“ megin í þinginu og þekkist á rauðu hárinu. Halldór er sá sem segir frá í fyrstu persónu og er að sumu leyti skondnasta persóna bókarinnar. Nýfrjálshyggjan sem blés honum í brjóst sjálfstrausti, óbilandi bjartsýni og tryggri heimsmynd glatast nefnilega á einni nóttu. Hann vaknar bókstaflega annar og mýkri maður, uppfullur af skopstældum hugðarefnum vinstrimanna. Hann verður „bleeding heart liberal“ sem bókstaflega verkjar í réttlætiskenndina. Það mætti kannski segja að almennar hugmyndir um „kvenleg gildi“ og gæsku nái yfirhöndinni í vitund hans, í bland við kennisetningar forngrísks paródísks heimspekiskóla. Þess ber að geta í þessu samhengi að konur og hið kvenlega mynda lykilsvið skáldverksins, allt frá konunum sem í bjarmanum frá skíðlogandi Esjunni fremja unnvörpum sjálfsmorð með því að fleygja sér fram af byggingum (en áhersluna á deyjandi konur á Gæska sameiginlega með annarri nýlegri skáldsögu sem einnig „fjallar“ um konur, þ.e.a.s. Konur eftir Steinar Braga), til þeirrar sannfæringar (sem var áberandi í búsáhaldabyltingunni) að tími karla við stjórnvölinn í þjóðfélaginu sé nú liðinn, röðin komin að konum.

Að lokum stendur í miðju innflytjendafjölskylda frá Marokkó, þau Fatíma, Kadír og Amelía (sú fyrstnefnda er reyndar nafna og samlanda svipaðrar persónu úr nýlegri skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Vetrarsól) en fjölskyldan gengur í gegnum miklar hremmingar í sögunni, þ.á m. gráglettinn útúrsnúning á innrætingarkaflanum í A Clockwork Orange þar sem Hemmi Gunn er notaður í heilaþvott í stað stríðsmynda, og þjóðdansar svipta brott sjálfsvígshugleiðingum. Þegar hrunið skellur á raskast „veruleiki“ þessa fólks og það kastast saman, neyðist til að vinna úr sínum vandamálum (að hluta til) saman.

Líkt og skáldlegt orkuver virkjar Eiríkur þætti úr veruleikanum – vinnur úr þeim rafmagn, lætur þá enduróma í gegnum ofvaxnar og jafnvel afskræmdar en beintengdar birtingarmyndir sem ögra lesanda um leið og þær minna hann á það sem allt of fljótt fellur í gleymskunnar dá. Formið sem hann notar liggur einhvers staðar mitt á milli Swifts og Ionescos, hárbeitt gagnrýni rís hátt í verkinu en henni er mótaður almennur farvegur, allegórían verður samt sjaldan of almenn og verkið týnir sér aldrei í reiðilestri yfir tilteknum heimsósómadæmum eða dónum. Andinn í bókinni á einnig dálítið sammerkt með nýlegri skáldsögu Nicks Cave, The Death of Bunny Monro, einkum í því hvernig alternatíf gróteskan tengist við hvunndaginn. Þá varð mér við lesturinn einnig margoft hugsað til 1982, Janine, magnaðrar samfélagsúttektar Alasdairs Gray, en nærtækast þykir mér þó að bera bókina saman við kvikmynd á borð við Idiocracy, eftir Mike Judge, þjóðfélagsgagnrýni þar sem öfgafullu ímyndunarafli halda bókstaflega engin bönd í þeim ásetningi að draga meingallaða samfélagsgerð sundur og saman í háði. Gæska er fjallræða um samtímann flutt í létt-dulkóðuðum myndum, beitt og innihaldsrík.

 

Björn Þór Vilhjálmsson

Tilvísanir

  1. Minna varð nú um umsvif Fönix-sjóðsins en upphaflega stóð til en Björgólfi Thor Björgólfssyni gafst þó tækifæri til að fræða erlenda blaðamenn um áætlanir sínar um að koma undir sig verðmætum eignum á brunaútsölu. Sjá http://ordid.eyjan.is/2008/12/03/fonix-bjorgolfsfedga/ og http://www.dv.is/frettir/2008/9/29/bjorgolfur-thor-bidur-eftir-brunautsolum/ (vefsíður heimsóttar janúar 2010).
  2. http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/fonix-aaetlun-fyrir-island-skattar-afnumdir-neysluskattur-a-vorur-og-thjonustu-i-stadinn (vefsíða sótt heim 23. janúar 2010).
  3. Ingólfur Gíslason. „Það er ekki að fara að hefjast neitt vopnahlé“ í Eiríkur Örn Norðdal. Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum! Reykjavík: Nýhil, 2007, bls. 4.
  4. Sjá umfjöllun í Fréttablaðinu um framlag Þorvaldar til samnorræns fræðirits um yfirstandandi fjármálahremmingar. „Ný bók um kreppu“. Fréttablaðið 21. janúar 2010, bls. 20.
  5. Hér mætti einkum benda á langan kafla úr Draumabók Freuds sem fjallar um hvernig hjólin snúast í draumavélinni miðri: Sigmund Freud. The Interpretation of Dreams. The Basic Writings of Sigmund Freud. Þýtt og ritstýrt af A.A. Brill. New York: The Modern Library, 1996, bls. 436–521.
  6. Í Bright Lights, Big City sem kom út árið 1984. Marguerite Duras, Italo Calvino og William Faulkner, svo nokkrir séu nefndir, hafa einnig beitt þessari frásagnaraðferð.